22.12.1987
Sameinað þing: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3187 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

1. mál, fjárlög 1988

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég kynni því betur að hæstv. fjmrh. væri í salnum þegar verið er að ræða um fyrsta fjárlagafrv. frá hans hendi og kannski eina. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er kominn í salinn.)

Herra forseti. Við 1. umr. um fjárlagafrv. lýsti ég nokkuð útliti í þjóðarbúskapnum eins og það var þá samkvæmt forsendum frv. Við 2. umr. höfðu ýmsar þær forsendur breyst og flestar til þess verra. Má þar nefna að viðskiptakjör höfðu þegar versnað og spáð var að þau yrðu enn lakari. Óvissa ríkti um verð á útflutningsafurðum okkar og eftirspurn virðist minnkandi auk þess sem allt bendir til að samdráttur í sjávarútvegi verði meiri en búist var við, viðskiptahalli yrði meiri en reiknað var með vegna vaxandi innflutnings og minni tekna í útflutningi.

Í þjóðhagsáætlun var gert ráð fyrir að viðskiptahalli á árinu 1988 yrði 41/2 milljarður eða um 2% af landsframleiðslu. Staðan í dag segir okkur að hann verði mun meiri. Ljóst er að staða útflutningsfyrirtækja hefur versnað að mun og fiskvinnslan, sérstaklega frystingin, er rekin með tapi.

Nú við 3. umr. eru hinir vísu spámenn Þjóðhagsstofnunar ekki bjartsýnni en þeir voru fyrr í mánuðinum og því ríkir enn sama óvissan um efnahagsforsendur fjárlagafrv. og áður, í orði kveðnu, þó að ýmsir hafi uppi þær skoðanir að þær séu í raun flestar brostnar.

Þó gengisfall dollars yrði ekki meira en orðið er, sem enginn getur sagt fyrir um, er viðskiptastaða okkar þegar mjög slæm. Vextir innan lands eru háir, of háir, og eru því enn einn bagginn á útflytjendum og öðrum fyrirtækjum sem og almenningi. Háir vextir eru húsbyggjendum þungir í skauti sem og öðrum þeim sem skulda og áhrif þeirra eru söm hér og annars staðar í heiminum. Háir vextir draga úr vilja fjármagnseigenda til að ávaxta fé sitt í áhætturekstri og þeir draga einnig úr getu fyrirtækja til að leggja í arðbærar framkvæmdir. Háir vextir hindra þannig margs konar nýjungar í atvinnurekstri og draga úr möguleikum á hagvexti. Þetta er það sem blasir við atvinnulífinu nú.

Þessir háu vextir sem við búum við hafa ekki orðið til þess að draga úr ásókn í lánsfé. Fólk er enn með góðærisglýjuna í augunum og það sama virðist gilda um ríkisstjórnina. Hún virðist ekki sjá að nú eru að fara í hönd gjörbreyttir tímar, tímar samdráttar og versnandi viðskiptakjara. Ríkisstjórnin hlýtur að þurfa að grípa til efnahagsaðgerða á næsta ári, aðgerða sem við óttumst að komi illa við launafólk. Á næsta ári verða allir skattar að fullu verðtryggðir en persónuafsláttur ekki reiknaður út nema tvisvar. Þetta hlýtur enn að þyngja skattbyrðina. Staða launafólks hlýtur því að fara versnandi og ljóst er að láglaunafólk á sér ekki bandamenn innan ríkisstjórnarinnar. Því er ekki líklegt að hún leggi launafólki lið í þeirri varnarbaráttu sem fram undan er hjá því.

Þrátt fyrir allt tal um þenslu í viðskiptum og kaupgetu almennings er það staðreynd að kaupmáttur launa nú í desember er 5% lægri en a sama tíma í fyrra. Framfærsluvísitalan mun hækka strax um áramót og því er ljóst að kauphækkanir verða að vera meiri en reiknað er með í fjárlagafrv. ef laun eiga að halda kaupmætti. Slíkt væri þó hógvær krafa og ekki líklegt að launafólk sætti sig aðeins við það.

Í hönd fer nú sannkallað skattaár. Almenningur mun vissulega finna fyrir aukinni skattheimtu í viðbót við þann samdrátt sem ytri aðstæður valda. Því munu ráðstöfunartekjur heimilanna rýrna verulega. Við þessar aðstæður og með gengisfellingu vofandi yfir sér er unnið að nýjum kjarasamningum og það blasir við að taxta verður að færa nær greiddum launum ef ekki á að koma til stórkostleg kjaraskerðing. Nú hrópa útflutningsatvinnuvegirnir á gengisfellingu og þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar um að gengið verði ekki fellt er ekki úr vegi að minnast þess að á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í nóvember sl. var sú spurning lögð fyrir hæstv. fjmrh. hvort gengið yrði fellt. Orðrétt svaraði hann: „Það ræðst af kjarasamningum.“ Það á sem sagt að hafa verkalýðshreyfinguna sem blóraböggul þegar til þess kemur að fella gengið.

Með gengisfellingu væri enn ein forsenda fjárlagafrv. brostin. Það er þessi óvissa um forsendur frv. sem gerir það tortryggilegt og þær ytri aðstæður sem við búum við, svo sem versnandi viðskiptakjör, orsaka ótrygga efnahagsstöðu og ótryggt útlit í efnahagsmálum.

Það má að sjálfsögðu segja margt um tekjuöflunarleiðir þær sem hæstv. ríkisstjórn fer til að forðast fjárlagahallann. En þær eru allar sama markinu brenndar, einföldun þeirra og skilvirkni er ekki réttlát og í stórum dráttum byggja þær á harðari og nærgöngulli skattheimtu en fyrr hefur þekkst. Frá því að hæstv. ríkisstjórn settist að völdum hefur hver tilskipunin rekið aðra í þeim efnum.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð var ákveðið að leggja á nýja skatta sem nema um 3,7 milljörðum kr.

Þegar fjárlagafrv. var lagt fram var bætt við tveim milljörðum. Við 2. umr. var enn bætt á 2 milljörðum og 50 millj. kr. og þar að auki er talið að veltubreytingar færi í ríkissjóð um 600 millj. og betri innheimta söluskatts skili um 400 millj. Þannig er hér um að ræða 8 milljarða 750 millj. kr. í tekjuaukningu ríkissjóðs á næsta ári. En þar af er matarskatturinn einn 5 milljarðar 750 millj. kr. Það eru gjöld sem leggjast á almenning umfram það sem áður hefur verið og þar er valin greiðasta leiðin, skattlagt það sem helst enginn getur án verið hvort sem hann er ríkur eða fátækur og engum hlíft.

Þegar ákveðið var að söluskatturinn skyldi verða 25% á flestallar neysluvörur held ég að flestum hafi ofboðið. Mánuðum saman hafði ákvörðunin um breikkaðan söluskattsstofn verið réttlætt með því að þá yrði söluskattsprósentan jafnframt lækkuð. Þessi ákvörðun er eins og köld vatnsgusa framan í landsmenn og gengur þvert á það sem hæstv. ríkisstjórn hafði áður boðað.

Ýmsir hv. þm. hafa sýnt fram á það hér í ræðustól hvernig tollalögin leggja ýmsar nauðsynjavörur heimilanna í einelti. Nauðsynleg heimilistæki sem fæstir telja sig geta verið án hækka í verði en önnur ónauðsynlegri lækka — svo maður tali nú ekki um afruglarana. Tollastefna hæstv. ríkisstjórnar veldur einnig neyslustýringu sem gengur þvert á hollustu- og manneldissjónarmið og það er hörmung að heyra ráðherra verja þá stefnu með því að þar á móti lækki íþrótta- og útivistarvörur svo að fólk eigi nú auðveldara með að stunda heilbrigða lifnaðarhætti. Hvernig gagnast sú lækkun fötluðum og lömuðum, öldruðum og sjúkum, ungum börnum og barnshafandi konum? Mundi þessu fólki ekki koma öllu betur að hollur matur væri ódýr heldur en íþróttavörurnar? Forvarnarstarfið er greinilega ekki haft í fyrirrúmi, enda stendur líka til að leggja manneldisráð niður svo að það sé ekki að skipta sér af svona hlutum. Og það er ekki gert endasleppt við heimilin, heimili þar sem eru börn og unglingar á skólaaldri. Pennar, blýantar og litir eru í 30% tollflokki og allar pappírsvörur, svo sem stílabækur og þess háttar, bera 10% toll. Þá fer ýmsum að detta í hug fjölskyldunefndin góða sem hæstv. forsrh. skipaði fyrir allnokkru síðan. Var ekki hennar hlutverk að láta til sín taka það sem varðaði hag fjölskyldnanna í landinu? Finnst þessari ágætu nefnd ekkert að því að manneldisráð og áfengisvarnaráð séu lögð niður? Hefur þessi nefnd ekkert til málanna að leggja um það hve aðgerðir ríkisstjórnarinnar þrengja að högum barnmargra fjölskyldna og hvernig hollusta í mataræði er sveigð af leið undir tolla- og skattastefnunni sem verið er að koma á? Hefur þessi nefnd ekkert að segja um slíkar aðgerðir? Til hvers er hún þá?

Ekki má svo gleyma launaskattinum sem nú á bæði að breikka og hækka og á að skila 400 millj. í ríkiskassann. Er þetta viturleg ráðstöfun nú þegar staða sjávarútvegsins er slæm og horfur ekki góðar í þeim efnum og fiskvinnsla rekin með tapi?

Í öllu þessu tolla- og skattafrumvarpaflóði er svo enn eitt skattfrv., lítið og feimnislegt, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem áætlað er að skili 210 millj. Þarna er nú ekki verið að hafa hátt. Þarna er nefnilega verslunin, hin heilaga kýr. Henni þarf að strjúka með silkihönskum meðan stöðugt er þrengt að almenningi. Hefði ekki verið óhætt að tvöfalda þessa upphæð og draga fremur úr álögum annars staðar?

Ég hef nú rakið í stuttu máli þær álögur sem tekjuöflun hæstv. ríkisstjórnar veldur. Það getur hver séð sem vill sjá að þrátt fyrir gífurlegar skattahækkanir er ekki hreyft þeim sem stórgræddu á góðærinu á hagvaxtartímanum. Þeim er hlíft. Það er fólkið með miðlungstekjurnar sem verður harðast úti.

Og þá minnast menn manns sem stóð hér í ræðustól fyrir ári síðan og talaði um stefnu Alþfl. í skattamálum. Einn þáttur þeirrar stefnu var þá að sögn ræðumanns að dreifa skattbyrðinni með réttlátum hætti eftir greiðslugetu. Ja, það var og. Það er einstaklega furðulegt hvaða breytingar verða á skoðunum og áhugamálum manna við að setjast í ráðherrastól. Í fyrra var það eitt heitasta áhugamál þessa sama manns að skattleggja stóreignir og ná inn milljörðum sem skotið væri undan skatti. Hvar eru nú aðgerðir boðbera jafnaðarstefnunnar í þessum efnum?

Ég vil líka minna á að fyrir rúmi ári stóð þessi maður, núv. hæstv. fjmrh., hér í ræðustól og sagði þá að Alþfl. hefði uppi tillögur um nýja atvinnustefnu í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskvinnslu með nýja sókn í atvinnumálum landsbyggðarinnar að leiðarljósi. Hvar örlar á þessari stefnu Alþfl.? Ég held að landsbyggðarfólk hafi ekki orðið vart við hana enn þá þrátt fyrir fögur fyrirheit í starfsáætlun hæstv. ríkisstjórnar, en þar er líka yfirlýsing um að ríkisstjórnin líti á það sem eitt meginverkefni sitt að stuðla að betra jafnvægi í þróun byggðar með uppbyggingu atvinnulífs og þjónustu á landsbyggðinni. Áframhaldandi verslun með kvóta rennir sennilega styrkum stoðum undir þetta fagra fyrirheit.

Þar sem umræðum um frv. um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga hefur verið frestað ræði ég það mál ekki hér en mælist til þess að sveitarstjórnir um land allt verði hvattar til að kynna sér frv. svo að menn viti fyrir víst hvað þeir eru að takast á hendur og geti látið í ljós skoðanir sínar á því ef vera kynni að tillit yrði tekið til þess.

Við kvennalistakonur erum ekki talsmenn þess að ekki eigi að innheimta skatta. Við erum bara ekki sáttar við hvernig það er gert og bendum þar á að tekjujöfnunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar með hækkuðum persónuafslætti og auknum barnabótum gagnast ekki öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Við höfum lagt fram tillögur um tvö tekjuskattsþrep svo að hátekjur yrðu skattlagðar. Væri það ekki öllu réttlátara? Við höfum bent á að hægt væri, ef vilji væri fyrir hendi, að ná inn stórmiklu fé sem skotið hefur verið fram hjá skatti. Við teljum að ráðstafa eigi tekjum ríkisins með hag almennings að leiðarljósi.

Við erum ekki sáttar við útþenslu yfirstjórnar ráðuneyta og bifreiðakaup ríkisstofnana fyrir forstjóra sína. Við erum ekki sáttar við að fleygja milljörðum í steinsteypuhrúgald á Miðnesheiði meðan heft er uppbygging sjúkrahúsa.

Herra forseti. Við 2. umr. komu fram nokkrar brtt. frá kvennalistakonum og eru þær flestar endurfluttar á þskj. 427 og 428. Þar er um að ræða aukin framlög til nokkurra liða sem varða menntun, menningu og listir, umhverfismál og bættan hag kvenna og barna, en áhersla á þessa málaflokka einkennir stefnu Kvennalistans. Þingkonur Kvennalistans mæltu fyrir þessum tillögum við 2. umr. og skýrðu þau rök sem að baki þeim liggja. Ef brtt. okkar næðu fram að ganga gerðist eftirfarandi:

Námsgagnastofnun yrði gert kleift að sinna hlutverki sínu.

Jafnrétti til náms yrði aukið með jöfnun námskostnaðar til framhaldsskólanema úr dreifbýli og auknu framlagi til Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Auknu fé yrði veitt til rannsókna.

Stuðlað yrði að uppbyggingu ferðaþjónustu með auknu fé til Ferðamálaráðs og ferðamálasamtaka landshlutanna.

Rekstrargrundvöllur Kvennaathvarfs yrði tryggður.

Kvikmyndaeftirlið gæti sinnt verkefnum sínum og skyldum.

Krabbameinsfélagið fengi aukið fé til krabbameinsleitar og forvarnarstarfsemi.

Unnt yrði að framfylgja lögum um fræðslu varðandi kynlíf og barneignir.

Aðstaða fatlaðra yrði bætt.

Aukin áhersla yrði á umhverfisvernd og umhverfisfræðslu.

Aukin framlög til menningarmála mundu gera hvort tveggja að styðja innlenda sköpun og létta kjör listamanna.

Því miður felldi meiri hl. þm. tillögur okkar kvennalistakvenna í atkvæðagreiðslu við 2. umr. um framlag til byggingar dagvistarheimila sem stjórnvöld hyggjast nú varpa algjörlega yfir á sveitarfélögin. Framkvæmd þeirra verkaskipta er hins vegar algjörlega ófrágengin og öll í lausu lofti.

Auk þess fluttum við tillögur um aukið framlag til Geislavarna ríkisins og til umhverfisverndar í Dimmuborgum í Mývatnssveit. Fjvn. tók myndarlega á málefnum Geislavarna og samþykkti að veita 400 þús. kr. til Dimmuborga. Við lögðum að vísu til að sú fjárveiting næmi 1 millj. en ákváðum að sætta okkur við framlag fjvn. í trausti þess að betur yrði gert við þessa náttúruperlu í framtíðinni.

Herra forseti. Í starfsáætlun ríkisstjórnar stendur eftirfarandi málsgrein, með leyfi hæstv. forseta: „Átak verður gert til að koma á jafnrétti kvenna og karla með sérstakri áherslu á launajafnrétti.“ Þetta frv. ber engin merki um að þessi stefna hafi verið höfð að leiðarljósi við gerð þess. Kvennalistakonur hafa lagt til að sérstakri fjárhæð yrði varið til að bæta kjör kvenna í þjónustu ríkisins. Hefði nú ekki verið við hæfi að einhverju af þeim 51/2 milljarði, sem heimilin eiga að útvega ríkissjóði í gegnum matarskattinn, yrði varið til þessa málefnis? Það eru oftast konur sem sjá um matarinnkaup og matargerð og hefðu þær því verið best að því komnar að fá til baka svona 200 millj. Það hefði verið þeim góð búbót og gert fyrrgreinda setningu að sannmæli.

Herra forseti. Í ljósi þess sem ég hef dregið fram í máli mínu um ótryggar forsendur fjárlagafrv. og óvissu um afleiðingar þeirra efnahagsráðstafana sem því fylgja vísa ég allri ábyrgð á gerð þess og afleiðingum til ríkisstjórnarinnar.