22.12.1987
Sameinað þing: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

1. mál, fjárlög 1988

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Í umsögn Þjóðhagsstofnunar frá 12. des. sl. kemur ótvírætt fram staðfesting á þeirri óstjórn sem ríkt hefur síðustu missiri. Þrátt fyrir fádæma góðæri hefur ekkert verið lagt til hliðar ef verr skyldi ára. Þessari ríkisstjórn virðist fyrirmunað að reyna að stjórna landinu enda eru allar aðgerðir hennar í anda hrossakaupa. Jafnvel Morgunblaðið gagnrýndi hér fyrr á árum slíkt og taldi það ekki eftir sér. Jafnvel Vísir flutti slíkan boðskap.

Því er þetta nú rifjað upp að á stóli forsrh. situr fyrrum dálkahöfundur og ritstjóri nefndra fjölmiðla sem stendur að slíkum hrossakaupum. Stjórnarmyndunarviðræður og stjórnarsáttmálinn sl. sumar gefa sterklega til kynna hversu hrossakaupin hafa verið dýr og það sjáum við nú í fjárlögum og þeim skuldbindingum sem ætlunin er að leggja á þjóðina. Viðskiptakjör versnuðu undir haustið í kjölfar stjórnlauss innflutnings og rangrar gengisskráningar. Víst er það svo sem snjall þjóðhagsfræðingur sagði á síðum Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum að besta kjarabótin er fastgengisstefnan, en hún verður þá að eiga sér forsendur í þjóðhag og slíkar aðstæður eru ekki nú.

Hvaða afleiðingar mun samdráttur í þorskafla á næsta ári hafa? Minni gjaldeyristekjur, hlutfallslega minni þjóðartekjur í kjölfar minnkandi atvinnutekna. Hvar ætlar ríkisstjórnin að innheimta skatta þegar hinar vinnandi hendur geta ekki borgað? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að selja skuldabréf á fjármagnsmörkuðum? Hafa menn áttað sig á að þá mun jafnframt dragast saman sú upphæð sem almenningur getur eytt í verðbréf? Hvað með iðgjöld hjá lífeyrissjóðum þegar fyrirtæki safna þar skuldum? Það er verið að semja við lífeyrissjóði um kaup á skuldabréfum Byggingarsjóðs ríkisins, en hefur það verið kannað hversu mikil vanskil eru við lífeyrissjóðina? Þar á ég við iðgjöldin. Ég hef grunsemdir um að þau vanskil séu gífurleg.

Ný stefna í efnahagsmálum var fyrst mörkuð í október, en þó kröpp og erfið sigling sé fram undan í átt að nýju jafnvægi í þjóðarbúskapnum má alls ekki gefast upp. En með óhæfilegri skattheimtu er ríkisstjórnin einmitt að gera það. Stjórn peningamála hér á landi hefur farið úrskeiðis. Stjórn þeirra skiptir meira máli hérlendis en sums staðar annars staðar. Í fyrsta lagi á aukning landsframleiðslu rætur að rekja til sjávarútvegs, en tækninýjungar og menntun hafa minni áhrif hér enda þjóðfélagið vel þróað. Vöxtur þjóðarframleiðslunnar er því að mestu háður utanaðkomandi aðstæðum vegna þess og hins að þjóðfélagið er mun einhæfara. Meginmáli skiptir að peningastjórn sé á þann veg að sveiflur í sjávarútvegi virki með fullum krafti í auknum eða minnkandi kaupmætti í þjóðarbúinu með tilheyrandi þenslu eða samdráttaráhrifum. Það sem hefur gerst er að peningamagn í umferð og kaupmáttur þjóðarinnar hefur vaxið hraðar en æskilegt er miðað við mögulega aukningu í framleiðslugetu þjóðarbúsins.

Ástandið í efnahagsmálum er á þann veg nú að sprengihætta er gífurleg, en fargið eru skattarnir sem ríkisstjórnin ætlar sér að leggja á. Um leið viðurkennir hún mistök sín sl. missiri, sbr. fullyrðingar hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Mikilvægt er að auka og skerpa möguleika Seðlabankans til að hafa áhrif á stjórn peningamála, en hann er í dag algjörlega máttlaus og aðeins risavaxið bákn á brauðfótum. Annaðhvort er bankanum illa stjórnað eða hann skortir lagaheimildir til að gera það sem þarf, og það sem meira er að víxlhagsmunir koma e.t.v. í veg fyrir bætta stjórn í peningamálum. Það er hins vegar alveg skýrt að ríkisvaldið á og má ekki fyrir nokkurn mun misnota tengsl sín við Seðlabankann.

Meginmarkmið Seðlabankans er að varðveita gildi krónunnar. Sl. tvö ár hefur ríkt þensluástand sem hefur ásamt miklum halla á ríkisbúskapnum leitt til þess að veruleg þörf var fyrir aukið aðhald í fjármálum og peningamálum. Erlend lántaka ríkissjóðs hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Ein af afleiðingum þessa ástands er að raunvextir eru almennt hærri hér á landi en annars staðar eða jafnvel 9,5% sem er hrollvekjandi siðleysi. Auðvitað er sjálfsagt að menn fái sanngjarna leigu af fjármagni, en þar er skólabókardæmið um 5% raunvexti æskilegt.

Arðsemi atvinnulífsins hérlendis gefur ekki tilefni til 9,5% vaxta og þetta eykur verðbólgu sem leiðir til stjórnleysis. Þess vegna mun ástand efnahagsmála verða hrollvekja á næsta ári. Það hefði átt að reka ríkissjóð með tekjuafgangi á líðandi ári í ljósi góðærisins.

Nú horfir illa við því raungengi krónunnar er mjög óhagstætt útflutnings- og samkeppnisgreinunum. Það er mjög alvarlegt að þjarma að þessum greinum og svo gæti farið að framleiðslugeta útflutnings- og samkeppnisgreinanna skertist varanlega með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Og hvað gerir hún þá?

Aðalmarkmið á næsta ári er að sparnaður haldist í hendur við lánsfjárnotkun og breytingu hennar þannig að nýtt erlent lánsfé haldist í hendur við afborganir eldri lána og í reynd þarf auðvitað að draga saman erlendar lántökur meira en sem þessu nemur. Alvarlegar horfur eru á að markmið þetta náist ekki því áætlanir ríkisstjórnarinnar miðast við söfnun erlendra skulda og aukinn viðskiptahalla.

Í bréfi sem barst fjvn. og er dags. 19. þessa mánaðar er komið inn á þessi mál frekar og það rakið að forsendur fyrir fjárlögum séu rangar. Það kemur mjög greinilega fram í þessu bréfi að þau fjárlög sem hér liggja fyrir séu ekki rétt og forsendur þeirra rangar. Sú tekjuspá sem þar er er röng og þær forsendur sem gefnar eru upp. Það er því skýrt að forsendur fjárlaga eru falskar og gefa ekki rétta mynd af efnahagshorfunum á næsta ári.

Sú kerfisbreyting sem nú á sér stað undir kjörorðunum „skilvirkni, réttlæti og einföldun“ er um margt ágæt en kjörorðin eru röng og gefa falska glansmynd af þessum breytingum. Niðurstaða mín er þessi: Það verður ekki meiri skilvirkni heldur minni skilvísi og tilhneiging til að draga undan skatti. Réttlætið verður ekki meira með þessum breytingum heldur öfugt. Fólk með lægri tekjur og miðlungslaun mun koma verr út úr þessum breytingum heldur en oftast áður. Einföldun verður ekki nema að hluta og helst eru það einfaldir stjórnmálamenn sem munu trúa því.

Þá er það hvað þessi breyting þýðir í raun. Hún þýðir mestu skattaálögur í sögu þjóðarinnar. Sú gífurlega skattlagning vekur undrun og sú spurning hlýtur að vakna: Hvað ætla menn að gera í slæmu árferði? Ráðleysi og fálm núverandi ríkisstjórnar mun lengi lifa í sögunni. Reyksprengjur stjórnarliða munu taka enda og fólkið í landinu sjá í gegnum vafurlogann. Hin þríhöfða stjórn kvóta og skömmtunar er áhyggjuefni fyrir hin borgaralegu öfl í landinu. Borgarafl. er eina skjól þeirra sem hafa trú á frjálsu þjóðfélagi.