22.12.1987
Sameinað þing: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3198 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

1. mál, fjárlög 1988

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru nú rúmlega 311/2 klukkustund síðan fundur var settur í Ed. Alþingis og hafa fundir staðið sleitulaust síðan. Það mun ekki vera til dæmi um slíkt áður frá upphafi þinghalds á Íslandi. Ég mun því stytta mál mitt mjög, ekki síst af tillitssemi við starfsfólk Alþingis.

Ég vil þó segja að það sem verið er að ræða nú, þ.e. um fjárlög, það er verið að ljúka 3. umr. fjárlaga, og það sem við erum að gera er í raun og veru marklaust vegna þess að það veit enginn hverjar tekjur ríkisins verða á næsta ári. Má þar fyrst og fremst vitna í Þjóðhagsstofnun sem treysti sér ekki til þess að segja neitt um það fyrr en eftir áramót. Ef vinnubrögð væru hér af einhverju viti ætti að fresta afgreiðslu fjárlaga þangað til þetta liggur fyrir vegna þess að hér er verið að fjalla um mál þar sem enginn veit hvaða tölur munu koma upp. Það er ekki fyrr en búið er að skoða t.d. þessa kerfisbreytingu, hvað hún gefur ríkissjóði. Við getum auðvitað litið á útgjöldin miðað við þá forsendu sem menn gefa sér í sambandi við verðlagsþróun en hver veit um það? Það er athyglisvert að niðurstöður fjárlaga nú hafa hækkað á milli ára um 46,2% eða 18% fram yfir lánskjaravísitölu og 19% fram yfir framfærsluvísitölu eftir því sem hún er upp gefin.

Þannig standa mál hér á Alþingi 22. desember. Ég ætla ekki að ræða þetta öllu frekar en endurtek þó það að ég sé ekki annað en fjárlög verði tekin upp á fyrstu tveimur mánuðum næsta árs vegna þess, eins , og ég sagði áðan, að forsendur fyrir þessari fjárlagagerð liggja ekki fyrir.

Það er líka dálítið athyglisvert í brtt. meiri hl. hv. nefndar sem fjallar um fjárlög hvernig einstaka menn hafa otað sínum tota og þarf ekki annað en líta yfir þessi þingskjöl. Ég mun geyma mér að ræða um það frekar á milli hátíða.

Ég flutti nokkrar brtt. við 2. umr. og tók þær til 3. umr. í von um það að a.m.k. ein þeirra eða tvær yrðu teknar til athugunar á milli 2. og 3. umr. af fjvn. en svo varð ekki. Það eru auðvitað ástæður til að flytja miklu fleiri brtt., kannski bæði til hækkunar og lækkunar, en það var út af hafnaraðstöðu á vissum stöðum sem ég flutti þessar brtt. og sérstaklega í sambandi við Grímsey og Kópasker þar sem dýpkunarskip er að fara þar fram hjá og óvíst að það komi þar nærri á næstu árum. En það er eins og fram kom þegar ég ræddi um þessar tillögur að í mörgum tilvikum verða strandferðaskipin að fara þar fram hjá og það skip sem íbúar þessara staða byggja afkomu sína á í sambandi við rækjuveiðar á í mjög miklum örðugleikum og er oft tvísýnt um það hvort það geti lagst þar að landi, þannig að þarna er mjög brýnt að laga.

Ein tillagan var í sambandi við Orkustofnun og varðar sérverkefni tengt fiskeldi. Þar kom ég með tillögu um nokkra hækkun vegna þess að vonir ýmissa, ekki síst við Öxarfjörð eru um það að það sem geti bjargað þeim sé fiskeldi. Það vantar hins vegar fjármagn til þess að ljúka rannsóknum þar á háhitasvæðinu og í raun og veru einnig til öflunar kaldavatns á þessum stað.

Ég sé það að þessi tillaga hefur ekki notið náðar fyrir augum ríkisstjórnar eða fjvn. en ég endurflyt hana samt og veit auðvitað hver afdrif hennar verða eins og annarra brtt. stjórnarandstöðunnar.

Ég endurtek bara það sem ég sagði í upphafi. Það sem við erum að gera nú er í sjálfu sér marklaust.