22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Páll Pétursson:

Herra forseti. Út af ummælum síðasta ræðumanns vil ég taka fram að það er ekki hlutverk hv. varaþm. Ólafs Ragnars Grímssonar að halda saman stjórnarliðinu. Það getur skeð að hann fái það hlutverk að halda saman Alþb. Ég held að hann ætti að búa sig undir það. Við skulum sjá um stjórnarliðið.

Fram hefur komið að það hefur aldrei komið fram það fjárlagafrv. sem þm. hafa ekki vitað að þyrfti breytinga við í þinginu.. Það eru sjálfsögð vinnubrögð að breyta fjárlagafrumvörpum. Það var ákveðinn fyrirvari frá einum fagráðherra um hans málaflokk við framlagningu þessa frv. Hann gerði það að tillögu sinni að sett yrði niður nefnd skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna til þess að leysa það mál og hnýta þá enda sem lausir voru og við erum farnir að vinna að því. Fjárveitinganefnd vinnur nótt og nýtan dag að fjárlögunum og ég er ekki í minnsta vafa um það að þetta fjárlagafrv. er auðvitað stjfrv. eins og önnur fjárlagafrv. hafa verið.

Hvað varðar húsnæðismálafrv. þá er það auðvitað stjfrv. líka. Þingflokkur framsóknarmanna heimilaði framlagningu þess, að vísu með fyrirvörum um breytingar. Ég ræddi það við ráðherrann og óskaði eftir því að við reyndum að koma saman plaggi sem við værum fullkomlega ásátt um sem hlyti þá stuðning stjórnarliðsins og þyrfti engra breytinga við í þinginu. Hæstv. ráðherra óskaði eftir að leggja frv. fram og reiknaði þá með breytingum á því í nefndum þingsins. Hún kaus þau vinnubrögð. Við höfðum ekkert við það að athuga, framsóknarmenn. Það er auðvitað stjfrv., en það kemur til með að þurfa að taka nokkrum breytingum í nefndum. Það er altítt að stjfrv. hafi verið breytt. Mikið lifandi ósköp höfum við breytt mörgum stjórnarfrumvörpum t.d. í fjh.- og viðskn. þingsins á undanförnum árum. Ég skil ekkert í mönnum að láta svona. Þetta er bara stormur í vatnsglasi.