22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við það þó að spurningar vakni um þessa hluti og á ég þá ekki við þann fyrirvara sem ræddur hefur verið hér, sem lá fyrir frá hæstv. landbrh. áður en frv. til fjárlaga var lagt fram, heldur miklu frekar þær yfirlýsingar sem síðar hafa komið frá einstökum ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra, eins og í Tímanum í fyrradag og í DV í gær.

Frv. til fjárlaga er ekki frv. eins ráðherra heldur ríkisstjórnarinnar allrar. Allir ráðherrar standa sameiginlega að þeim tillögugerðum sem þar koma fram nema hvað varðar þann fyrirvara sem áður lá fyrir frá hæstv. landbrh. Aðrir ráðherrar hafa ekki haft neinn fyrirvara í sinni afstöðu. Það er rangt að kynna þetta mál eins og gert hefur verið af einstökum aðilum sem tillögur fjmrh. en ekki tillögur ríkisstjórnarinnar allrar. Þess vegna vil ég þakka hæstv. forsrh. fyrir það að hann hefur tekið afgerandi af öll tvímæli um það að þau mál sem ríkisstjórnin flytur eru stjórnarfrumvörp.