28.12.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

1. mál, fjárlög 1988

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég átti síst von á því, eftir að hafa eytt allri þeirri starfsævi sem ég á frá sjö ára aldri í íþróttahreyfingunni og lagt þar af mörkum sjálfboðaliðsstarf sem hefur verið metið af hreyfingunni með æðstu viðurkenningum, að vera mín á Alþingi gæti orðið til þess að lítið yrði gert úr mínum þætti í uppbyggingu íþróttahreyfingarinnar af hv. þingmanni eða þingmönnum. Ég stend á virðulegu Alþingi og get horft framan í hvern einasta mann sem hér er inni án þess að blikna og borið saman mitt ævihlaup í íþróttahreyfingunni og annars staðar og þar hefur aldrei komið króna fyrir. Eitt af því sem ég átti mikinn þátt í að sett yrði af stað voru getraunirnar þar sem íþróttahreyfingin í heild vinnur sjálfboðaliðsstarf og fær ákveðinn prósentuhluta af seldum miðum fyrir hvert félag. Það var fyrrv. menntmrh. Gylfi Þ. Gíslason sem kom því af stað.