22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hefði ekki séð neina ástæðu til þess að bera fram þessa fsp. hér ef forsetar þingsins eða aðrir sem ákvörðun hafa tekið um eðli þessarar upplýsingatöflu hefðu ákveðið að flokka þm. eftir þingflokkum. Það hefði verið fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt. Það er hins vegar ekki gert í þessari töflu. Það eru engar upplýsingar gefnar í töflunni um fjölda þingmanna einstakra flokka sem hér eru staddir í húsinu. Menn eru ekki flokkaðir samkvæmt því. En það er búin til ný flokkun, opinber flokkun sem hver Íslendingur getur lesið hér í húsakynnum Alþingis, yfir stjórnarliða og stjórnarandstæðinga. Hv. þm. Karvel Pálmason hefur lýst því yfir opinberlega að hann sé ekki stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar. Auðvitað er hann í þingflokki Alþfl. áfram, það vita allir menn. En ég tek mark á orðum hv. þm. Karvels Pálmasonar og þar til hann hefur dregið þessa yfirlýsingu sína til baka, annaðhvort hér á Alþingi eða opinberlega, er ekki hægt að flokka hann sem stjórnarsinna. Ég tel þess vegna að svar hv. þm. Eiðs Guðnasonar sé ekki svar við minni spurningu því mér er fullkunnugt um að hv. þm. Karvel Pálmason er í þingflokki Alþfl. En hvort hann hefur gefið heimild til þess að hann sé flokkaður hér á hverjum degi opinberlega sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar finnst mér vera nauðsynlegt að fá svar við vegna þess að það á að sýna hverjum og einstökum þm. þá virðingu og menn eru kjörnir hér líka sem einstakir þm. og bera ábyrgð gagnvart samvisku sinni en ekki bara gagnvart flokkunum. Ég veit að hæstv. forseta er betur ljós en nokkrum öðrum manni sá einstaklingsbundni réttur sem einstakir þm. hafa lögverndaðan í stjórnarskránni og í þingsköpum. Og vegna þess að Alþingi hefur með þessum hætti tekið upp þann hátt að flokka Karvel Pálmason sem stjórnarþingmann, þá tel ég nauðsynlegt að það liggi ljóst fyrir gagnvart okkur öðrum hér hvort hann hefur gefið heimild til þess eða ekki.

Ég vil þess vegna beina þeim tilmælum bæði til formanns þingflokks Alþfl. og ekki síður til forsefa þingsins að hv, þm. Karvel Pálmasyni verði sýnd sú virðing að hann verði spurður að því sérstaklega hvort hann hafi veitt formlega heimild til þess að vera flokkaður hér daglega sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Og ef hann kveður nei við því þá verði þessari flokkun annaðhvort hætt á töflu þingsins eða hann verði færður yfir til stjórnarandstæðinga.