28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3235 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

181. mál, stjórn fiskveiða

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Nokkrum dögum eftir að drög að frv. til laga um stjórnun fiskveiða 1988–1991 bárust inn á borð hjá þm. Alþfl. gerði ég þingflokksformanni mínum skriflega grein fyrir því að ég hefði alla fyrirvara um samþykki við 9. gr. frv. eins og hún hét þá en hún er nú orðin 10. gr. eins og frv. liggur fyrir Alþingi. Ég vil taka þetta skýrt fram þannig að það komi engum á óvart að andstaða mín við frv. byggist að verulegu leyti á andstöðu minni við 10. gr. þess sem ég verð að játa að ég hélt upphaflega þegar ég las að væru mistök eða byggð á einhverjum misskilningi sem yrði þá væntanlega leiðréttur áður en frv. yrði lagt fram hér á hinu háa Alþingi. Svo reyndist þó ekki vera. Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að ég mun ekki stuðla að því að tefja það að frv. komist til nefndar hér í hv. Nd. enda hygg ég að það geti orðið sá grundvöllur til sátta og samningagerðar í þessu máli sem nauðsynlegur er til þess að frv., a.m.k. með 10. gr., fari í gegnum þessa deild.

Ég verð að játa að það hefur verið mér nokkur ami þegar ég hef heyrt hina hörðu stuðningsmenn kvótafrumvarpsins eða frv. til laga um stjórn fiskveiða láta að því liggja í tíma og ótíma að þeir menn sem ekki eru sáttir við frv. hafi lítið vit á því og kvótakerfinu í heild og þess vegna beri þeim helst ekki að ræða það. Þetta má orða dulítið öðruvísi. Þetta má orða þannig að kvótalögin, frv. sem hér er til umræðu, sé orðið svo flókið að það sé ekki á valdi annarra að skilja það en æfðustu embættismanna. Ef svo er verð ég að greina frá þeirri skoðun minni að flókin lög séu vond lög. Lög sem fólkið í landinu skilur ekki eru vond lög. Slík lög eigum við að forðast í lengstu lög.

Það væri hægt að fara mörgum orðum um kvótamálið og þær tilraunir sem hér hafa verið gerðar til fiskveiðistjórnunar. Kvóti er fyrst og fremst eignarréttur á óséðum afla sem mönnum er afhentur. Í okkar tilviki eru það útgerðarmenn sem fá þennan eignarrétt á einhverjum mestu auðæfum sem þjóðin í heild á. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er mikið vandaverk, þegar fiskiskipaflotinn, einkum og þó sér í lagi hin stærri skip eru orðin allt of mörg, að gera þennan kvóta þannig úr garði að hann verði réttlátur.

Ég verð hins vegar að segja það að 10. gr. frv., eins og hún liggur fyrir, er mér svo á móti skapi að ég get aldrei samþykkt hana. Ástæðurnar fyrir því eru fjölmargar. Ég get rakið nokkrar:

Áhrifin af þessari grein á afkomu landsbyggðar, ýmissa byggðarlaga á landsbyggðinni, eru ófyrirséð og geta orðið mjög alvarleg. Áhrifin á einstakar fjölskyldur á landsbyggðinni geta orðið mjög alvarleg. Hér er verið að þrengja mjög hlut þeirra manna sem stunda trilluútgerð sem að mínu mati er eitthvert geðslegasta form einkarekstrar sem ég þekki. Það er verið að þrengja svo hlut þessara manna að ég hygg að ekkert í líkingu við það hafi verið gert á undanförnum árum í meðferð kvótamála. Ég hygg að þetta geti orðið til þess að smærri byggðarlög verði fyrir svo miklu efnahagslegu áfalli að þau bíði þess ekki bætur. Í þessari grein er að mínu mati fólgið mikið misrétti og henni verður að breyta.

Menn gefa spurt hvers vegna ég telji þetta svona mikið misrétti. Jú, það er misrétti fólgið í því ef mönnum er ætlaður afli sem þeir geta ekki lifað á, mönnum sem hafa dregið meiri afla úr sjó á undanförnum árum en þeim er ætlaður með frv.

Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt við umræðu þessa máls að menn gangi nú þá sáttaleið sem fær er eða ég hygg að sé fær. Í fyrsta lagi er til sú leið að framlengja óbreytta grein úr gildandi lögum a.m.k. á meðan sjútvrn. fær tölur frá þessu ári sem það getur stuðst við. Á hinn bóginn má hugsa sér aðra leið, þá að 10. gr. frv. orðaðist eitthvað í þessa veru:

1. Botnfiskveiðar báta minni en 10 brl. eru háðar eftirgreindum takmörkunum. Bannaðar eru allar botnfiskveiðar í 76 daga á ári sem skiptast þannig: Í tíu daga um páskahelgi og tíu daga um verslunarmannahelgi, sjö daga í júní og sjö daga í október samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Fari mánaðarlegt aflamagn báta undir 10 brl. í einhverjum landsfjórðungi niður fyrir 2/3 af meðalafla þess mánaðar síðustu þrjú árin vegna ógæfta er ráðherra heimilt að aflétta næstu veiðistöðvun á eftir samkvæmt þessari málsgrein frá og með 1. til og með 11. janúar og frá og með 1. til og með 31. desember.

2. Netaveiðar báta undir 10 brl. skulu á tímabilinu frá og með 10. febrúar til og með 15. maí ár hvert vera háðar botnfiskveiðileyfum með sóknarmarki þannig að heimilt sé að stunda veiðar í ákveðinn dagafjölda á ofangreindu tímabili með 70 tonna þorskaflamarki miðað við slægðan fisk með haus.

3. Aflamark skv. lið 2 hér að ofan er óframseljanlegt.

4. Heimilt er að setja sérstakar reglur um botnfiskveiðar báta undir 10 brl. sem leyfi fá til skel- eða rækjuveiða.

5. Einungis er heimilt að úthluta bátum veiðileyfi, sbr. lið 2, sem skráðir eru á skipaskrá hjá Siglingamálastofnun ríkisins 31. des. 1987. Þó er heimilt að úthluta nýjum og nýkeyptum bátum veiðileyfi með aflamarki komi þeir í stað sambærilegra báta sem slík veiðileyfi hafa fengið og horfnir eru varanlega úr rekstri.

Bátar sem smíði er sannanlega hafin á fyrir gildistöku laga þessara eiga kost á veiðileyfum með aflamarki samkvæmt reglum hér að ofan enda hafi verið gerður bindandi samningur um sölu þeirra fyrir sömu tímamörk.

Herra forseti. Ég vildi gera grein fyrir þessum hugmyndum hér við 1. umr. Ég sagðist ekki mundu lengja hana en áskil mér allan rétt til þess að ræða málið nánar við 2. umr.