28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3245 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sá garðyrkjumaður mundi ekki fá mikla uppskeru sem ekki hefði vitið fyrir sér með því að grisja garðinn sinn. Ekki verða öll kímblöð sem upp koma garðyrkjumanninum að fullum notum ef hann hefur ekki vit á því að búa þannig að ræktuninni að mestur afrakstur náist en ekki endilega mestur fjöldi einstaklinga.

Herra forseti. Það er vitað að það er mjög mikill ágreiningur hér á hinu háa Alþingi um grundvallaratriði þess máls sem hér er um að ræða. Svo mikill er sá ágreiningur að ég tel að það skipti höfuðmáli fyrir sérhverja ríkisstjórn sem ætlar að móta sér fiskveiðistefnu að hún leggi sig fram um það að reyna að ná a.m.k. í stuðningsliði sínu sem mestum einhug um þá stefnu sem á að móta.

Fyrir lá þegar núverandi hæstv. ríkisstjórn var mynduð yfirlýsing frá samtökum alþýðuflokksmanna á Vestfjörðum þess efnis að vestfirskir jafnaðarmenn mundu ekki styðja neina þá ríkisstjórn sem ætlaði sér að framlengja óbreytt það kvótakerfi sem við höfum búið við. Þetta er aðeins dæmi um hversu mikill ágreiningur er uppi um grundvallaratriði þessa máls. Og við erum ekkert einir um það, vestfirskir jafnaðarmenn, að hafa þessa afstöðu. Þessi afstaða er víðar í stjórnarliðinu. Þess vegna skipti það auðvitað sköpum fyrir þessa ríkisstjórn og hverja þá ríkisstjórn aðra, sem ætlaði sér að takast á við þessi mál, að halda þannig á öllum undirbúningi að reynt yrði eins og kostur væri að ná samstöðu innan stjórnarflokkanna og stjórnarliðsins um þær tillögur sem ætti að gera á Alþingi. M.a. vegna þessa var lögð á það áhersla af okkur alþýðuflokksmönnum við myndun þessarar ríkisstjórnar að menn gengju þá þegar í það verk að reyna að ná pólitískri samstöðu innan stjórnarflokkanna um þær tillögur sem ætti að gera. Að sjálfsögðu gengum við eins og allir aðrir út frá því að yrði að hafa samráð og náið samráð við hagsmunaaðila. En það eru ekki hagsmunaaðilarnir sem fara með löggjafarvaldið heldur Alþingi Íslendinga. Þess vegna skiptir það sköpum að hér á Alþingi Íslendinga náist samstaða um þá lagasetningu sem á að verða og að sú samstaða sé ekki síst innan þeirrar ríkisstjórnar sem á að standa ábyrg fyrir verkum. Þess vegna, herra forseti, var sagt í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar orðrétt svo, með leyfi forseta:

„Fiskveiðistefnan verði tekin til endurskoðunar og stefna mörkuð sem tekur gildi þegar í upphafi næsta árs.

Endurskoðunin verður falin sérstakri nefnd sem hafi samráð við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði, svo sem fulltrúa útgerðar, fiskvinnslu, sjómanna og fiskvinnslufólks og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar.

Nefndin mun m.a. taka afstöðu til eftirfarandi atriða:

Hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar. M.a. verði athugað hvort veiðiheimildir verði einvörðungu bundnar við skip.

Hvernig taka megi meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi.

Hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda milli aðila.

Hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda.“

Það er auðvitað alveg ljóst að hér er hæstv. ríkisstjórn í málefnasáttmála sínum að setja fram pólitískt stefnumarkandi atriði sem hún og stuðningsflokkar hennar ætlast til að lögð sé vinna í að reyna að ná um samstöðu milli stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Að sjálfsögðu í fullu samráði við hagsmunaaðila. En því miður hefur það af ýmsum ástæðum orðið svo að þessi vinna, sem átti að vinna á grundvelli þessarar pólitísku stefnumótunar í stjórnarsáttmálanum, hefur ekki farið fram eins og til stóð. Það hefur verið mikill tími tekinn til þess að ræða við hagsmunaaðila og fulltrúa þeirra þó svo að orðið hagsmunaaðili í þessum efnum sé aldrei tæmandi. Auðvitað eru miklu fleiri hagsmunaaðilar sem að þessu máli koma heldur en aðeins þeir sem voru í þeirri samráðsnefnd sem hæstv. sjútvrh. skipaði. En þó svo að allmikill tími hafi verið tekinn í það samráð þá skortir mjög á að nægilega mikill tími hafi verið tekinn til þess að stjórnarflokkarnir og stuðningsmenn þeirra gætu fengið tækifæri til þess að reyna að leita að lausn sem allir eða allflestir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar gætu staðið að.

Það var viðbára við þessum orðum sem ég er að segja hér nú að það hafi legið svo mikið við að fá samstöðu við hagsmunaaðilana að sá takmarkaði tími sem til ráðstöfunar var hefði verið betur nýttur með viðræðum við þá en með því að stuðningsmenn og stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar reyndu að ná heildarsamkomulagi sín á milli.

En staðreynd er það engu að síður að það tókst eigi að heldur samkomulag við svokallaða hagsmunaaðila. Ýmsir þeir sem til þess samráðs voru kallaðir, svo sem eins og fulltrúi Verkamannasambands Íslands, eru ekki sáttir við þá niðurstöðu sem birtist í þessu frv. Og ýmsir aðrir, sem mikilla hagsmuna eiga að gæta, t.d. fulltrúar smábátaeigenda, eru það ekki heldur. Niðurstaðan varð því sú þegar þetta frv. var lagt fram að þá hafði það vissulega stuðning en það hafði ekki heils hugar stuðning hagsmunaaðila og það hafði ekki heldur heils hugar stuðning stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar.

Á frv. frá fyrstu gerð þess hafa vissulega verið gerðar breytingar og þær ber að meta og þær met ég, en engu að síður held ég að það sé ljóst af þeim orðum sem þegar hafa fallið hér í þessari hv. deild að það er ekki samstaða í stjórnarliðinu um óbreytt ákvæðin í frv. eins og þau eru nú. Ég held að það dyljist engum. Og ég held að það liggi líka fyrir að það er ekki þingmeirihluti, við skulum orða það þannig, það er ekki viljugur þingmeirihluti til þess að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Hvort sá meiri hluti verður til, hvort menn láta sig hafa það að samþykkja frv. eins og það er, þeirri spurningu er ósvarað enn, en það er engu að síður staðreynd eins og mál standa nú að það er ekki viljugur meiri hluti hér á þinginu til þess að samþykkja frv. í þeirri mynd sem það er nú. Þess vegna kemur til með að mæða mjög mikið á þeirri þingnefnd sem fær málið til meðferðar og auðvitað eru stjórnarsinnar ekki síður en stjórnarandstæðingar reiðubúnir til þess að leita samkomulagslausnar í þessu máli sem gæti tryggt að það verði viljugur þingmeirihluti sem gengur til þess verks að samþykkja það frv. sem samkomulag kann að nást um.

Þegar umræður hófust fyrst um stjórn fiskveiða fóru þær umræður af stað út frá verndunarsjónarmiðum, út af nauðsyn þess að vernda fiskistofnana. Þm. og aðrir muna sjálfsagt eftir „svörtu skýrslunni“ sem hæstv. þáv. sjútvrh. barst. Þar var byggt á úttekt fiskifræðinga og vísindamanna Hafrannsóknastofnunar sem töldu að nauðsynlegt væri að grípa í taumana til þess að koma í veg fyrir ofveiði og rányrkju á Íslandsmiðum og höfð um mörg og stór orð.

Ég ætla ekki að ræða í löngu máli um þessi efnisatriði en langar aðeins til að beina athygli að mjög glöggri yfirlitsgrein um þetta efni sem birtist í DV þriðjudaginn 1. des. 1987 og rituð er af fréttamanninum Sigurdóri Sigurdórssyni. Þar gaf fréttamaðurinn í stuttu máli yfirlit yfir þær forsendur sem Hafrannsóknastofnun hafði notað í málflutningi sínum, þær niðurstöður sem orðið höfðu, og bað menn að draga ályktanir af þeim upplýsingum sem lágu fyrir. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í þessa samantekt sem er mjög glögg. Út af fyrir sig er hægt að hafa um það miklu lengra mál, en ég tel ekki ástæðu til að gera það nú. Sigurdór Sigurdórsson segir m.a. í þessari yfirlitsgrein sinni, með leyfi forseta:

„Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að þorskaflinn á næsta ári verði takmarkaður við 300 þús. tonn en áætlaður þorskafli þessa árs er 380 þús. lestir. Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra hefur boðað að undanförnu að stefnt sé að því að minnka þorskaflann á næsta ári og halda sig sem næst tillögum fiskifræðinga. Það hefur aftur á móti ekki verið gert sl. sjö ár. Ýmist hefur verið veitt miklu meira en þeir hafa lagt til ellegar að ekki hefur náðst að veiða það magn sem þeir töldu óhætt að veiða. Þegar farið er í gegnum þessar skýrslur Hafrannsóknastofnunar frá 1980 er ljóst að einhvers staðar hefur eitthvað farið úrskeiðis varðandi þorskrannsóknir stofnunarinnar. Spár hennar, tillögur hennar um hámarksafla og raunafli hvers árs standast aldrei.“

Síðar í þessari yfirlitsgrein segir Sigurdór Sigurdórsson, með leyfi forseta:

„Það er fróðlegt fyrir þá sem hafa áhuga á þessum málum að fá sér ritið Hafrannsóknir frá því það byrjaði að koma út og gera samanburð á milli ára. Árið 1979 veiddust 360 þús. lestir af þorski. Í ritinu Hafrannsóknir, 20. hefti, um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum og aflahorfur 1980, segir að enda þótt þorskárgangurinn 1976, sem var sagður mjög sterkur, sé að koma inn í veiðina og stofninn því aftur í vexti leggi Hafrannsóknastofnun til að þorskafli ársins 1980 verði takmarkaður við 300 þús. lestir. Segir og að nauðsynlegt sé að byggja hrygningarstofninn upp og því sé við þessa tölu miðað. Árið 1980 varð þorskaflinn hins vegar 428 þús. lestir, en hrygningarstofninn var talinn vera 300 þús. lestir.

Í ritinu Hafrannsóknir, 22. hefti, þar sem skrifað er um ástand þorskstofnsins og aflahorfur fyrir árið 1981, segir að forsendur fyrir stærð stofnsins á næstu árum séu komnar undir stærð árgangsins frá 1976, en gert sé ráð fyrir því að hann sé afar sterkur eins og ungþorskarannsóknir gefi til kynna.

Þar segir enn fremur að verði þorskafli takmarkaður við 400 þús. tonn fari þorskstofninn vaxandi. Því leggi Hafrannsóknastofnun til að þorskstofninn 1981 verði takmarkaður við 400 þús. tonn. Þarna bætir stofnunin við 100 þús. tonnum frá árinu áður jafnvel þótt á því ári hafi verið veitt 120 þús. tonnum meira en stofnunin taldi framast óhætt að veiða. Árið 1981 voru veiddar 460 þús. lestir af þorski, 60 þús. tonnum meira en stofnunin taldi óhætt að veiða.

Þegar 24. hefti Hafrannsókna kom út með aflahorfum fyrir árið 1982 var enn rætt um árganginn frá 1976 og sagt að allur framreikningur á þróun þorskstofnsins sé undir stærð hans kominn. Þar er tekið fram að minna hafi verið landað af þorski úr þessum árgangi en reiknað hafi verið með. Talað er um að hámarksafrakstur stofnsins sé talinn vera 450 þús. lestir og lagt til að þorskafli ársins 1982 verði takmarkaður við 450 þús. lestir. Það ár veiddust hins vegar ekki nema 382 þús. lestir af þorski.

Í 26. hefti Hafrannsókna, með horfum fyrir árið 1983, er komið annað hljóð í strokkinn. Þar segir að samkvæmt nýju mati á stærð þorskstofnsins sé gert ráð fyrir því að hann sé minni en ætlað var við síðustu úttekt. — M.ö.o.: Sterki árgangurinn frá 1976 kom aldrei fram. — Þar segir líka að niðurstöður sýni að hvort sem árgangurinn 1976 sé 280 eða 360 milljónir nýliða muni þorskstofninn minnka talsvert ef veiddar verði 400 þús. lestir. Sú tala er þó 50 þús. lestum minni en lagt var til að veiddar yrðu árið áður og 20 þús. lestum minni en náðist að veiða árið áður.“

Þegar kemur að því að spá síðan fyrir 1984 þá fer Hafrannsóknastofnunin að efast um þær aðferðir sem hún hefur notað til að meta stofnstærð og veiðiþol þorsksins öll þessi ár. M.ö.o.: Þá fer stofnunin að efast um að mælingar hennar og mat öll þessi ár sé byggt á réttum upplýsingum. Og hvað þýðir það fyrir þjóðarbúið og efnahagsafkomu Íslendinga? Það er nýlega búið að skýra frá því hvað það þýði ef t.d. dregið er úr afla á næsta ári um 50 þús. tonn frá því sem nú á sér stað. Ætli það sé ekki það sem nokkurn veginn samsvari þeim samdrætti í þjóðartekjum og skerðingu kaupmáttar af þeim sökum sem verið er að spá, á næsta ári? Þetta er ekkert smámál sem menn eru að tala um hér þegar stofnun eins og Hafrannsóknastofnun uppgötvar það árið 1984 að stofnstærðarmælingar hafi sennilega alltaf byggst á ónákvæmum mælingaraðferðum.

En árið 1984 er stofnunin sem sé farin að efast um sínar eigin greiningar.

Í 28. hefti ritsins Hafrannsóknir er greint frá því að reynslan hafi sýnt að sú greining, sem stofnunin hafi notað fram að því sem byggist á sýnum úr lönduðum afla og notuð var til þess að meta stærð þorskstofnsins í hell 10 ár — þar á meðal þau ár sem hæstv. þáv. sjútvrh. Matthías Bjarnason fékk sína „svörtu skýrslu“ —, sé ekki nógu nákvæm, eins og komist er að orði í riti Hafrannsóknastofnunar sjálfrar. Þar er sagt að yngstu árgangarnir sem ekki séu farnir að veiðast komi ekki fram við greininguna og ekki heldur göngur þorsks frá Grænlandi. Því hafi verið ákveðið að taka nú upp öðruvísi aðferðir við stofnmælingar og er sú aðferð kölluð „togararall“ og þá breytist nú aldeilis tónninn í þeim hafrannsóknarmönnum, þegar nýju aðferðirnar við mælinguna koma upp. Og síðan hefur það verið meginmarkmiðið hjá stofnuninni að stuðla að vexti þorskstofnsins í þeim tilgangi að auka afrakstursgetu hans.

Það virðist vera, herra forseti, að þeir vísu menn haldi að það sé hægt að leggja þorskinn inn á bankareikning. M.ö.o.: Þann smáfisk sem ekki er veiddur sé hægt að leggja inn á einhvers konar bankareikning þar sem hann liggi inni með vöxtum og síðan sé hægt að taka hann út aftur með vöxtum og vaxtavöxtum nokkrum árum síðar. Þetta er kenning sem haldið var mjög á lofti fyrir örfáum árum, m.a. af Kristjáni Ragnarssyni og var þá talað um að Kanadamenn, sem væru allra manna mest vísindalega sinnaðir í þessum verndunarmálum, væru nú að slá okkur Íslendinga alveg út af laginu því að þetta væri einmitt aðferðin sem þeir væru búnir að taka upp til að byggja upp fiskiðnaðinn hjá sér og fiskveiðarnar. Þeir ætluðu að spara smáfiskinn í nokkur ár, leggja hann inn á sinn bankareikning, sína fiskibanka við strendur Kanada og taka hann síðan út nokkrum árum síðar og slá þá okkur Íslendinga gersamlega út af laginu með framboði á fiski á Bandaríkjamarkaði. Ég held að ég muni það rétt að á þessu ári, árinu 1987, hafi menn þannig verið búnir að slá því föstu og gera ráð fyrir því að Kanadamenn mundu veiða u..þ.b. 1 milljón tonna af þorski með þessum aðferðum. Með bankareikningsaðferðunum.

Nú hef ég, herra forseti, ekki í höndunum tölur um veiðar Kanadamanna en mig grunar að hér séu menn inni sem hafi slíkar upplýsingar með höndum. Það skyldi nú ekki vera að það skeikaði svo sem eins og 40% á úttektinni? Að það vanti nú hvorki meira né minna en 40% upp á það að þessi fiskveiðibúskapur Kanadamanna gangi upp á árinu 1987. Þeir eru aldeilis ekki að slá okkur Íslendinga út á Bandaríkjamarkaði eins og menn héldu. Auðvitað finna menn skýringar á því. Að sjálfsögðu. Það hefur eitthvað komið fyrir. Það hefur eitthvað sem menn hafa gleymt að taka tillit til komið fyrir, segja menn, því að menn viðurkenna ekki fyrr en í lengstu lög, og sjálfsagt aldrei, að þeir hafi gert mistök í slíkum málum. Engu að síður býst ég við að þetta sé staðreynd sem ég er að nefna þó ég sé ekki reiðubúinn til þess að nefna beinar tölur í þessu sambandi. Og hræddur er ég um að þeir Kanadamenn séu nú ekkert yfirtak ánægðir með bankainnleggsaðferðirnar sínar í fiskveiðipólitík. Og ætli það sé nú ekki það sama sem við Íslendingar erum að upplifa og höfum upplifað öll þessi ár sem okkar annars ágætu vísindamenn hafa verið að búa til „teoríur“ á grundvelli grunnupplýsinga sem síðan ganga ekki upp?

Vel má vera að það sé rétt og ég efa það ekki að meðalþyngd þorsks hafi farið lækkandi. En það getur átt sér stað af tveimur orsökum. Annaðhvort er það vegna þess að stóra fiskinum fækkar eða vegna þess að smáa fiskinum fjölgar. Það gefur hvort tveggja sömu niðurstöðu. Ég reikna ekki með því að íslenskir sjómenn séu að gera það að gamni sínu að elta smáfiskinn um allar þorpagrundir, ef svo má segja. En staðreyndin er bara sú að smáfiskurinn er nú á svo til hverri einustu veiðislóð. Og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá er ástæðan einfaldlega sú að einstaklingarnir í þeim árgangi sem stendur undir smáa fiskinum í dag eru svona margir. Þess vegna hlýtur auðvitað meðaltalsþunginn að lækka. Það er ekki bara vegna þess að stóra fiskinum sé að fækka að tiltölu heldur einfaldlega vegna þess, eins og Hafrannsóknastofnunin segir sjálf, að það sé ágætt ástand á fiskimiðum Íslands. Hún kvartar ekkert undan því í sínu nýjasta riti, hún segir aðeins: Við eigum að nýta fiskinn þannig að við eigum að leyfa honum að vaxa. Við eigum að leggja hann inn á bankabókina og taka hann síðan út eftir nokkur ár þegar hann er orðinn stærri og þyngri. En ég er ansi hræddur um að við Íslendingar eigum eftir að upplifa það sama og Kanadamenn að þegar við ætlum að ganga í bankann og taka út af bankabókinni þá vanti innstæðuna. Þá vantar 40% af þeirri innstæðu sem hinir vitru menn voru búnir að reikna sig til að þeir mundu eiga tveimur eða þremur árum eftir að þeir töldu sig hafa lagt inn. Þá finnst mér líka kasta alveg tólfunum þegar menn eru farnir að tala um það í alvöru að veiðar smábáta hringinn í kringum landið séu einhver ógnun við þorskstofninn. Þó menn séu að draga nokkra titti sér til skemmtunar á smábátum takmarkaðan tíma úr árinu, að það stefni bara öllu í stórkostlegan voða! Það eru furðuleg vísindi að minni hyggju.

Herra forseti. Þessi umræða, sem áður var kjarnaumræðan í fiskveiðipólitíkinni, verndunarsjónarmiðið, hún hefur smátt og smátt dottið niður, m.a. af þeim orsökum sem ég var að lýsa hér áðan, þannig að hún er horfin að mestu út úr myndinni. Þegar menn ræða kvótakerfið í dag þá ræða menn ekki nema rétt af og til verndunarsjónarmiðið í því sambandi.

Einn af gleggstu meðlimum „kvótavinafélagsins“, Þorkell Helgason prófessor, skrifaði mjög athyglisverða grein í Morgunblaðið miðvikudaginn 4. nóv. sl. þar sem þetta sjónarmið kemur m.a. fram. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Frjáls og óheftur aðgangur að fiskimiðum og öðrum álíka auðlindum leiðir ávallt til ofnýtingar fyrr eða síðar. Ofveiði getur stefnt tilvist fiskistofna í voða, þ.e. að svo mikið sé tekið úr þeim að hætta verði á útrýmingu ellegar að viðkomubrestur er yfirvofandi. Hugsanlega varð norsk-íslenski síldarstofninn fyrir barðinu á slíkri ofveiði.“ — Taki menn svo eftir, herra forseti. Hann segir: — „Sem betur fer virðast botnfiskstofnar geta verið í jafnvægi við nánast hvaða veiðiálag sem er.“

Það er ekki hv. alþm. Skúli Alexandersson sem er að segja þetta. Nei, nei. Það er einn úr stjórn „kvótavinafélagsins“, prófessor Þorkell Helgason. „Sem betur fer virðast botnfiskstofnar geta verið í jafnvægi við nánast hvaða veiðiálag sem er.“ M.ö.o.: Helsti sérfræðingur þeirra kvótavina í útreikningunum lýsir því yfir þann 4. nóv. að reynslan hafi leitt það í ljós að sóknin raski ekki svo umtalsvert sé jafnvægi botnfiskstofna því þeir geti verið í jafnvægi við nánast hvaða veiðiálag sem er. M.ö.o.: Þetta er yfirlýsing um að það sé ekki verndunarsjónarmiðið sem sé meginkjarninn í kvótakerfinu, a.m.k. ekki hvað botnfiskstofnana varðar. Hvað er það þá? Jú, prófessor Þorkell heldur áfram og segir: „En löngu áður en kemur til lífrænnar ofveiði eru fiskistofnar ofveiddir í hagrænum skilningi.“

Síðan heldur prófessor Þorkell áfram í grein sinni og rökstyður það mjög skynsamlega að meginmarkmiðið með stjórn fiskveiða eigi að vera að taka þann afla sem á annað borð á að taka að landi með sem minnstum tilkostnaði og sem mestum árangri. Og það er sko allt önnur Ella. Það er sjónarmið sem ég get fúslega samþykkt, að þann afla sem menn ætla sér að taka að landi eigi að taka með sem minnstum tilkostnaði og með sem mestum árangri. Þá vaknar spurningin sem er kjarni málsins: Hverjir eiga þá að sækja þennan fisk? Það eru annars vegar þeir sem ná mestum árangri við veiðarnar og hins vegar þeir sem veiða með minnstum tilkostnaði fyrir þjóðarbúið. Hverjir skyldu þetta nú vera? Ekki eru þetta alltaf sömu mennirnir því ekki er togaraveiðin, þó árangursrík sé, alltaf rekin með minnstum tilkostnaði, en enginn held ég að efist um hvað snertir trillukarla, sem eru að damla einn og tveir saman á sínum bátum, að það sé varla hægt að komast mikið neðar í tilkostnaði en hjá þeim. En eins og kvótakerfið er úr garði gert núna er verið að stefna gegn þessum sjónarmiðum. Það er verið að stefna gegn þeim sem veiða með minnstum tilkostnaði og það er verið að stefna gegn þeim sem veiða með mestum árangri. Það er verið að vinna gegn hagkvæmnissjónarmiðunum sem leiða af því að menn geta komist af með ekki allt of dýr tæki og það er verið að vinna gegn því, sem við Íslendingar höfum metið allt frá alda öðli, að einn fiskimaður er betri fiskimaður en annar af ástæðum sem fiskifræðingarnir og hagfræðingarnir geta aldrei reiknað sig til skilnings á því það er ekki hægt.

Kvótakerfið eins og það er úr garði gert núna vinnur ekki að verndun. Það liggur fyrir ef maður ber saman annars vegar tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar og hins vegar reynsluna af veiðunum. Það vinnur heldur ekki með hagkvæmni heldur er verið að beita kerfinu gegn hagkvæmninni. Hvað er það þá sem málið snýst um? Jú, málið snýst um að það er verið að skipta stórkostlegum verðmætum, sem þjóðarheildin á, upp á milli tiltölulega fárra einstaklinga sem ekki aðeins ætla að kasta eign sinni á þessi verðmæti á meðan þeir lifa sjálfir heldur ætla að láta börn sín, barnabörn og komandi kynslóðir taka þessi verðmæti í arf eftir sig þannig að engir aðrir fái nálægt þeim að koma. Þetta hefur aldrei áður gerst í Íslandssögunni vegna þess að það er eitt sem góður íslenskur fiskimaður getur aldrei arfleitt börn sín að, a.m.k. ekki nema í undantekningartilvikum, og það er sá hæfileiki sem gerir greinarmuninn á milli góðs fiskimanns og slæms fiskimanns. Þess vegna höfum við Íslendingar búið við þær aðstæður að það er ekki endilega víst þó að einni kynslóð gangi vel að stýra skipi og útgerðarfyrirtæki að erfingjarnir séu jafnvel af guði gerðir. Þetta hefur gert það að verkum að það hefur getað átt sér stað í atvinnugreininni mikil endurnýjun. Ungir og duglegir menn, sem hafa búið yfir þessum hæfileikum, hafa getað komið fram á völlinn, náð undir sig fótunum og byggt utan um sig öflug atvinnufyrirtæki sem hafa verið mikil lyftistöng í þeirra byggðarlögum. Það er svo undir aðstæðum, hæfileikum og getu manna komið hvort börn þeirra eða barnabörn geta staðið undir því að halda rekstrinum áfram með slíkum myndarbrag eða hvort aðrir koma í staðinn og fá ný tækifæri. Kvótakerfið eins og verið er að búa það upp núna er sérréttinda- og forréttindakerfi. Það er verið að koma í veg fyrir að sjómenn af ungu kynslóðinni geti nokkurn tíma unnið þau verk sem feður þeirra, afar og forfeður í gegnum aldirnar gátu gert. Það er verið að koma því kerfi á að auðlindir sem eru sameiginleg eign þjóðarinnar allrar séu framseljanlegar í braski, framseljanlegar til erfða, en útilokaðar fyrir alla aðra en þá sem njóta þeirrar náðar stjórnvalda að hafa aðgang að þessum auðlindum hér og nú. Menn skulu gera sér í hugarlund að þetta eru engin lítil verðmæti.

Það kemur fram í grg. með frv. hæstv. ráðherra að það sé áætlað að u.þ.b. 25% af kvótanum muni á þessu ári ganga kaupum og sölum. Hafa menn gert sér ljóst að hér er um að ræða verðmæti á milli fjögur og fimm hundruð millj. kr., á því verði sem kvótinn er almennt seldur á milli manna, sem þjóðarheildin á en verið er að afhenda einstaklingum fyrir ekkert sem þeir síðan braska með sín á milli. Og menn skulu huga að því: Það er oft sagt: Ja, sjómennirnir njóta þessa. Hvað skyldu margar af þessum krónum, herra forseti, hafa komið í hlut sjómannanna sem hlut eiga að máli? Skyldu þeir hafa fengið aflahlut af þessari kvótasölu, af þessum 400–500 millj. sem í því liggja af sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar sem verður afhent nokkrum einstaklingum? Nei, auðvitað ekki. Íslenskir sjómenn hafa ekki fengið eyris virði af þessu braski. En fiskverkafólkið? Skyldi það njóta þess? Nei. Ekki fær fiskverkafólkið svo mikið sem einn eyri af þessu fé til sín. En byggðarlögin sem hlut eiga að máli? Nú í kvöld, herra forseti, var verið að loka nýlegu hraðfrystihúsi vestur á Patreksfirði vegna raforkuskulda. Þar hefur ekki farið skip á sjó síðan um miðjan desember sl. Þar á sér ekki stað lengur nein fiskverkun, engin útgerð. Það er búið að selja burtu úr þessu plássi alla möguleika fólksins til að bjarga sér. Þó hefur sjaldan eða aldrei verið jafnmikil fiskgengd í Patreksfjarðarflóanum og nú. En fólkið fær ekki að bjarga sér. Skyldi þetta fólk, sjómennirnir sem hlut eiga að máli, bæjarbúarnir þarna, verkafólkið, hafa fengið einhverja hlutdeild í þeim fjármunum sem komið hafa inn fyrir það brask sem hefur verið ástundað á lífsbjörg þessa byggðarlags? Nei. Ekki eyris virði. Fólkinu þarna eru allar bjargir bannaðar. Ungir sjómenn geta ekki farið á sjó því þeir hafa ekki leyfi til að fiska. Fólkið getur ekki stundað sína vinnu vegna þess að það er búið að loka húsunum. Bátarnir hafa verið seldir í burtu. Það er búið að selja sjálfan frumburðarréttinn sem þetta fólk og forfeður þess hafa haft síðan þetta land var numið. Það var fyrir tilstilli þessa kvótakerfis sem það var gert.

Herra forseti. Það er þetta sem er að gerast. Kvótakerfið er ekki lengur tæki til að vernda íslenska fiskistofna. Það er ekki heldur tæki til að tryggja að þjóðin hafi sem mesta hagkvæmni og mestan afrakstur af sinni mikilvægustu auðlind. Nei, kvótakerfið er kerfi til að tryggja að tilteknar stéttir og hópar manna á þessu landi fái eignarhald yfir sameiginlegri auðlind Íslendinga allra, sem hefur verið sameign okkar síðan þetta land byggðist, og geti ráðstafað því að vild til erfingja sinna eða annarra sægreifa fyrir gjald sem menn hirða sjálfir gjörsamlega án tillits til þess hvaða áhrif það hefur á afkomu heilla byggðarlaga. Um þetta snýst málið og ekkert annað.

Ég hef átt aðild að því svo lengi sem ég hef verið á Alþingi að flytja á þingi till., sem ekki hafa fengist samþykktar, um að sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar eins og auðlindir til landsins, sem engir einstaklingar geta gert eignartilkall til að lögum, verði lýstar þjóðareign og hef ekki náð neinum umtalsverðum árangri í því. Vissulega fagna ég því eins og í þessu frv. er gert að 1. gr. frv. skuli slá því föstu að fiskistofnar á Íslandsmiðum séu sameiginleg eign íslensku þjóðarinnar. Þetta er í mínum huga merkilegt mál og gott. En því miður stefna flestar hinar greinar frv. gegn ákvæðum þessarar.

Ég ætla ekki að segja mikið meira, herra forseti, á þessari stundu en bið þm. að hafa bæði augun opin fyrir því hvað við erum að gera. Við erum að skipta sameign Íslendinga allra upp á milli örfárra einstaklinga þeim til frjálsrar ráðstöfunar út yfir gröf og dauða.

Um frv. sjálft skal ég vera stuttorður að öðru leyti. Ég hef sagt að ég telji 1. gr. þess vera mikinn ávinning. Ég segi eins og ýmsir aðrir sem hér hafa talað að það er nauðsynlegt að taka 8. gr. til endurskoðunar. Ég er ósáttur við ákvæði 8. gr. B-liðar þar sem álag sóknarmarksskipanna er lækkað úr 20% í 10% og undrar mig að það skuli ekki aðrir hafa vakið máls á því fyrr en í þessum umræðum, annaðhvort í þessari hv. deild eða í Ed. Ég vil einnig benda á þær sérstöku aðstæður sem skapast þegar búið er að taka rækjuna undir kvótakerfið. En það er staðreynd að þá aðila, sem höfðu allt frumkvæði að uppbyggingu úthafsveiða á rækju og völdu þann kost fremur en að kaupa sér skip til að stunda veiðarnar að leigja slík skip af öðrum, hafa rekið þau sjálfir alfarið á eigin ábyrgð, byggt upp úthafsrækjuveiðarnar og reynsluna og þekkinguna sem fyrir er, á að svipta möguleika á að halda áfram þessu uppbyggingar- og vinnslustarfi með kvótakerfinu eins og það er hugsað. Ég tel að þetta sé ósanngjarnt. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að skoða allar samkomulagslausnir í því efni sem geta tryggt það í fyrsta lagi að óunnin vinnslurækja verði ekki seld brott af landinu til vinnslu annars staðar og í öðru lagi að þeim rækjuvinnslustöðvum sem nú eru starfræktar verði tryggt hráefni nokkurn veginn jöfnum höndum allt árið í kring. Ég er reiðubúinn að skoða hvaða samkomulagsleið sem kynni að tryggja þetta.

Ég læt svo bíða, herra forseti, að ræða frekar um aðrar efnisgreinar frv., enda vona ég að lagt sé kapp á það í hv. sjútvn. að reyna að ná því víðtæka pólitíska samkomulagi um framgang þessa máls sem ég tel að hefði átt að reyna að ná áður en hæstv. ríkisstjórn lagði frv. fram á Alþingi en ekki eftir að það kom fram eins og því miður raun er orðin á.