28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3255 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

181. mál, stjórn fiskveiða

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er ekki hálfur annar áratugur liðinn frá því að útlendingar tóku helming af fiskaflanum á Íslandsmiðum og þá var lengst af landhelgin, fiskveiðilögsagan, 4 mílur, síðan 12 mílur, eftir það 50 mílur og loks 200 mílur. Það var ekki fyrr en ári síðar að tókst að ná samningum þannig að útlendingar fóru af miðunum. Það má segja að hurð hafi skollið nærri hælum því að hin svarta skýrsla, sem einhver minntist á fyrr í kvöld, kom síðla árs 1974 og varaði þjóðina við ofveiði.

Það má segja að það hafi tekist að mörgu leyti vel að vernda fiskistofnana með fjölmörgum verndaraðgerðum sem gerðar voru bæði til að takmarka sókn í smáfisk en einnig að friða ákveðin veiðisvæði, en ég held að í þessum friðunarmálum hafi stærsta átakið og merkilegasta sem gert var verið samþykkt Alþingis á lögunum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands en þau lög voru samþykkt 31. maí 1976. Það er mjög viðamikill lagabálkur sem hefur æ síðan verið í gildi og við höfum byggt á friðunaraðgerðir þangað til gripið var til þeirra ráða að bera fram frv. til l. um stjórn fiskveiða sem náði að takmörkuðu leyti inn á svið þessara merku laga.

Nú segja menn að það sé knappur tími til stefnu. Hæstv. sjútvrh., svo skildist mér á honum, telur nauðsynlegt að Alþingi, eða þessi hv. deild, afgreiði þetta mál fyrir áramót. Það er nú senn að byrja 29. des. þannig að það eru þá tveir dagar eftir sem Alþingi hefur til umráða á þessu ári. Ég vil leyfa mér að segja það sem nefndarmaður í sjútvn., sem kemur væntanlega til með að fá frv. til meðferðar, að ég tel útilokað að hægt sé að afgreiða þetta frv. frá nefndinni á jafnskömmum tíma.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar hvað sem líður afstöðu, bæði minni og annarra, til hinna ýmsu greina frv. að það sé nauðsynlegt að hraða afgreiðslu þess eins og kostur er. En frv. eins og þetta verður ekki afgreitt á færibandi, einn, tveir og þrír, eftir pöntun ríkisstjórnar á hverjum tíma.

Ég vil líka benda á til upprifjunar að í þeim lögum sem renna út á áramótum eru ákvæði til bráðabirgða sem segja að sjútvrn. skuli fyrir 1. nóv. 1986 láta endurskoða lög þessi og hafa samráð við sjútvn. Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun. Löggjafinn reiknaði með því að það væru hvorki meira eða minna en 14 mánuðir til stefnu að fjalla um málið á Alþingi, en þessi endurskoðun lá ekki fyrir og er ekki gripið til hennar, að endurskoða þessi lög, fyrr en fjallað er um það við stjórnarmyndun og í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, en þar segir:

„Fiskveiðistefnan verður tekin til endurskoðunar og stefna mörkuð sem taki gildi þegar í upphafi næsta árs. Endurskoðun verður falin sérstakri nefnd, sem hafi samráð við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði, svo sem fulltrúar útgerðar, fiskvinnslu, sjómanna og fiskvinnslufólks, og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar. Nefndin mun m.a. taka afstöðu til eftirfarandi atriða:

1. Hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar. M.a. verði athugað hvort veiðiheimildir verði einvörðungu bundnar við skip.

2. Hvernig taka megi meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi.

3. Hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda milli aðila.

4. Hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda.“

Síðan er komið inn á aðra mikilvæga þætti í sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Það er svo ekki fyrr en 28. sept. að við sem tilnefndir vorum frá hendi þingflokkanna erum formlega skipaðir í nefnd þar sem þessa starfsáætlun ríkisstjórnarinnar á að taka til endurskoðunar. Í staðinn fyrir að skipa eðlilega nefnd er skipuð þarna stór og mikil ráðgjafarnefnd sem hóf störf 16. sept., en bréfið er dags. 28. sept.

Það hefur verið minnst á störf þessarar nefndar í þessum umræðum og ég ætla ekki að fjölyrða mikið um það, en ég verð þó að segja að fyrsti þátturinn í starfi þessarar fjölmennu ráðgjafarnefndar var víðtækur erindaflutningur hinna ýmsu sérfræðinga sem átti að verða til að heilaþvo okkur sem vorum margir hverjir ekki opnir fyrir kvótakerfinu og þeirri löggjöf sem verið hefur í gildi á undanförnum árum. Ég verð að segja það, hvort sem það er vegna gáfnaskorts hjá mér eða ekki, að þessum ágætu sérfræðingum hefur illa tekist að koma skoðunum sínum inn hjá mér og ég hef margt við þær skoðanir að athuga sem þessir ágætu menn höfðu fram að færa. Þeir bjuggu sér til forsendur, sem er afskaplega auðvelt að gera, með því að segja: Ef þetta væri svona mundi þetta verða svona o.s.frv. En þetta passar ekki við lífið á sjónum og við að afla fiskjar eða við vinnslu á fiski.

Það er ekki fyrr en 2. nóvember að hæstv. sjútvrh. skipar nefnd þm. til að vinna að þessu máli og sú nefnd kom nokkrum sinnum saman með hæstv. sjútvrh. eða ráðuneytisstjóra og var lítið gert annað en ræða óformlega um þessi mál þangað til á næstsíðasta fundi. Þá var rætt mjög ákveðið og efnislega um þessa hluti.

Ég hef orðið var til það í ræðum í kvöld hjá stjórnarþingmönnum að þeir telja mjög mikilvægt í ákvæði til bráðabirgða að sjútvrh. skuli skipa nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokka og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að loknum gildistíma laga þessara. Jafnframt á nefndin að móta tillögur um breytingar á lögum þessum á gildistíma þeirra eftir því sem tilefni verður til. Nefndin skal m.a. kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskistofna. Einnig skal hún athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki séu bundnar við skip, og nefndinni er ætlað að hefja störf hið allra fyrsta, starfa á gildistíma væntanlegra laga og skila fyrsta áliti eigi síðar en haustið 1989.

Mér finnst þetta ákvæði til bráðabirgða vera afskaplega ófullkomið. Það er í hendi ráðherra hvort hann ætlar að skipa álíka ráðgjafarnefnd og hann skipaði á sl. hausti eða hvort hann ætlar að fjölga í slíkri ráðgjafarnefnd, hafa þar kannski 60, 70 eða 80 manns. Það má finna nóg af hagsmunaaðilum í sjávarútvegi því að sjávarútvegurinn er svo mikilvæg atvinnugrein að í raun og veru gætu allir Íslendingar farið í nefndina hjá ráðherranum. Og þá getum við séð hvernig gengi að endurskoða þessa stefnu.

Nú tel ég að skynsamlegasta aðferðin sé sú að Alþingi kjósi hlutfallskosningu þá nefnd sem hafi með þetta að gera og sú nefnd leiti álits samtaka í sjávarútvegi og annarra þeirra sem nefndarmenn telja eða þeir aðilar óska eftir að komi fram með sínar tillögur. Það væri miklu fyllra og ákveðnara að hafa þann hátt á.

Við deilum ekki um að það er nauðsyn á því að hafa stjórn á veiðum og skipulag í sjávarútvegi. Það sem fyrir okkur vakir er að vernda fiskistofnana en ekki að búa til eitthvert óskaplegt miðstýringarvald þar sem einhver einn maður eða eitt ráðuneyti eigi að segja öllum fyrir verkum og hafa allt í sinni hendi.

Við höfum flestir kosið að draga úr miðstýringarvaldi frá því sem verið hefur og það hefur verið tregða við að láta lög um stjórnun fiskveiða gilda nema mjög takmarkaðan tíma. Helst hafa menn viljað eitt ár. Sumir hafa viljað tvö ár.

Hæstv. sjútvrh. sagði áðan í sinni framsögu að það væri nauðsynlegt að láta slík ákvæði gilda sem lengst þannig að menn gætu haft mið af því í sínum atvinnurekstri. Síðan kemur það aftur að þó að þetta sé ekki búið að vera í lögum nema takmarkaðan tíma telur ráðherrann að nauðsyn sé að gera margvíslegar breytingar. Ein breytingin er sú að hefta verulega það frjálsræði sem t.d. smábátar eða bátar innan við 10 tonn hafa haft. Það er tekið inn að hefta rækjuveiði o.fl. Það er í þessu frv. eins og það kemur frá Nd. meiri miðstýring en er í lögunum sem eru að renna sitt skeið á enda á gamlárskvöld. Það er meiri miðstýring. Við höfum heyrt þm., og það úr stjórnarliðinu, tala um að það eigi að hverfa frá miðstýringu. Auðvitað ráða þeir því og þingmeirihluti alþm. ef þeir meina eitthvað með orðum sínum. Ég var að vonast til þess að það hefði verið hægt að ná samkomulagi um að breyta nokkrum ákvæðum í frv., en reynt er að keyra það áfram með þeim hætti sem raun ber vitni. Árið 1976 var aftur á móti gengið inn á fjölmargar breytingar sem komu frá alþm., ekki eingöngu þm. stjórnarliðsins heldur einnig þm. stjórnarandstöðu, og það náðist um þau mikilvægu lög mjög víðtæk samstaða sem skipti afar miklu máli og skipti svo miklu máli að meginkjarni þeirra laga er í gildi enn þá og lítt umdeildur.

Það var minnst áðan á ástand fiskstofnanna og vitaskuld er það stórt og mikið atriði sem a.m.k. tveir ræðumenn hafa minnst á. Aðrir telja að það sé drepið of mikið af smáfiski. Ég minnist þess að við setningu 45. aðalfundar Landssambands ísl. útvegsmanna sagði formaður samtakanna:

„Ég átti þess kost sl. vetur að kynnast fiskveiðum í Kanada. Fannst mér athyglisverðast að kynnast því hvernig þeir hafa byggt upp fiskstofna með góðum árangri. Í því efni hafa þeir sett sér miklu lægri mörk um hvað er veitt úr hverjum stofni en við höfum gert. Stefna þeirra felst raunverulega í því að geyma fisk í sjónum. Á árinu 1977 veiddu þeir um 450 lestir af botnlægum fiski og af því voru um 200 þús. lestir þorskur. Á árinu 1981 veiddu þeir 750 þús. lestir af botnlægum fiski og þar af um 370 þús. lestir af þorski. Á árinu 1987, þessu ári, ætla þeir að veiða um 1 millj. lesta af botnlægum fiski, þar af 650 þús. lestir af þorski. Af þessu má sjá hvílík ógn okkur Íslendingum stafar af þessum möguleikum þeirra. Einnig var athygli vert að þar ríkti ekki þessi tortryggni í garð fiskifræðinga eins og hér á sér stað.“

Ég fékk upplýsingar um það nýlega að í lok nóvember var veiðin hjá Kanadamönnum í Atlantshafi um 687 þús. tonn af botnlægum fiski og þar voru 439 þús. tonn þorskur. Þrátt fyrir þessa geymslu hefur ekki tekist betur tii. Ég vek athygli á því að einn mánuður er þá eftir, en miðað við þetta gæti það varla orðið yfir 40 þús. tonn af þorski þannig að þorskurinn getur í hámark farið í 480 þús. tonn á móti 650 þús. lestum sem þeir Kanadamenn töldu að mætti geyma í sjónum. Þannig geta aðferðir vísindamanna verið misjafnar og árangurinn að sama skapi, hvort sem við lítum á okkar vísindamenn eða þeirra vísindamenn sem hafa þessar skoðanir. Ekkert af þessu er öruggt eins og menn sjá af þessu.

Hér hefur verið rætt nokkuð um sóknarmarksskipin og það að álagið hafi verið lækkað úr 20 í 10. Ég tel að með þessum breytingum sé verið að leggja sóknarmarkið niður. Ég held að það hljóti að fara á þann veg að þau skip sem hafa notað sér sóknarmarkið fari í aflamarkið og kaupi þá kvóta. Því ekki þá að gera þá breytingu á frv. að leyfa þessum sóknarmarksskipum að færa á milli skipa? Það heldur þá við þessu sóknarmarki þó að við sættum okkur þá við þá breytingu sem er í frv.

Það er mikils virði að byrja eitt lagafrv. eða lög á því, eins og hefur verið gert mikið úr hér, að fiskistofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Svo koma allar aðrar greinar og samkvæmt þeim eru fiskistofnarnir fyrst og fremst í eigu fárra útvaldra. Mér finnst þetta ekki skipta mjög miklu máli. Ég er þeirrar skoðunar að fiskistofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Ég er algjör andstæðingur þess að einstaklingar geti selt fiskinn í sjónum og það í vaxandi mæli og haft af því miklar tekjur. Ég væri miklu frekar á því, þó að ég sé enginn kvótavinur, að ganga inn á það að þeir sem ekki geta veitt sinn skammt skilji hann þá eftir í hafinu og stjórnvöld hafi þá að einhverju leyti möguleika á að ráðstafa þeim afla þar sem nauðsynlegt er að bæta afla við eftir byggðarlögum, og ef ekki þarf á því að halda nema að einhverju litlu leyti má fiskurinn vera í sjónum. Þá geymum við eins og Kanadamenn hafa gert til næsta árs þennan hluta af aflanum.

Ég bendi líka á að það er erfitt verk og vanþakklátt að taka jafnmikilvægar ákvarðanir og sjútvrh. verður að gera hverju sinni. Hann verður að taka mið af svo mörgu í þjóðfélaginu. Hann fer í meginatriðum eftir tillögum fiskifræðinga eða að svo miklu leyti sem hann treystir sér til, hver sem hann er. Ég sé það og finn í þessu að fiskifræðingar hafa lagt til að heimiluð verði veiði á um 30 000 tonnum af úthafsrækju, en ráðuneytið eða ráðherra reikna með að heimila 36 000 tonna veiði. Þetta er verulega fram yfir það sem fiskifræðingar leggja til. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það hér og nú hvort hér sé gengið of langt eða ekki, en það kemur mjög illa við þá sem byggja á þessari veiði. Ég tel líka að það sem vanti inn í þetta frv. sé að taka tillit til þeirra sem byggt hafa upp fyrst og fremst þessa veiði og þessa vinnslu. Fyrst var þetta, og lengi vel, innfjarðaveiði sem hefur verið tröppugangur á. Hún hefur stundum verulega dregist saman, náð sér aftur eftir þeim fáu svæðum sem hún hefur verið stunduð á. Verksmiðjurnar fóru út í að kaupa úthafsrækju af Sovétmönnum og unnu hana í nokkur ár á meðan var verið að þróa úthafsveiðina hjá okkur Íslendingum. Þar hafa þessir aðilar farið í fjárfestingu upp á hundruð milljóna og sumir staðir byggja að verulegu leyti lífsafkomu fólksins á því. Því held ég að þegar tekin er upp slíkt skömmtunarfyrirkomulag beri að taka tillit til þess sem þar hefur gerst alveg eins og gert hefur verið frá upphafi varðandi innfjarðarækjuna.

Ég bendi á að 1975 voru samþykkt á Alþingi lög um samræmingu vinnslu og veiða. Tilgangur þeirra laga var fyrst og fremst og í raun og veru eingöngu sá að koma í veg fyrir að rækjuverksmiðjum fjölgaði þannig að þær hefðu eitthvað til að vinna úr. Þá var um að ræða afla sem var ákvörðun stjórnvalda hverju sinni, hversu mikill mætti vera. En síðan hefur það gerst að rækjuvinnslustöðvum hefur verulega fjölgað, einkum á síðustu fjórum árum, sem ég tel vera mjög miður að hafi gerst því að við þurfum að miða við og starfa eftir gildandi lögum. Með þessu er ég auðvitað að gagnrýna hæstv. sjútvrh. hvað þetta snertir.

Við getum alltaf deilt um á hvern hátt við eigum að skipta þessum afla á milli togara og milli báta, á milli landshluta. Ég vil benda hv. 5. þm. Reykn. á að það er afar mismunandi hvernig afli er og hvað menn hafa veitt á undanförnum árum. Í þeim lögum sem gilt hafa um stjórn fiskveiða hafa verið ákveðin viðmiðunarár. Úti fyrir Vestfjörðum eru fengsæl þorskveiðimið og þeir togarar sem þar eiga heima hafa verið með jafnvel 75–85% af afla sínum í þorski, en hér syðra hefur þetta verið miklu minna, meira sótt í karfa og ufsa. Þegar svokölluð norðursuður lína var sett minnkaði veiði, sérstaklega vestfirsku togaranna, því að þorskafli bæði Austfirðinga og Norðlendinga var mun minni fyrir og þess vegna kom lækkunin fyrst og fremst við Vestfirðinga.

Ég get ekki skilið að þeir sem aldrei hafa náð vissu aflamarki á meðan engin takmörkun var á veiðum eigi að fara yfir það sem þeir höfðu á kostnað hinna sem sótt hafa þennan afla. Á að taka upp nýtt fyrirkomulag þannig að Vestfirðingar og Norðlendingar komi suður til að fiska karfa og flytji hann svo aftur til Vestfjarða og Norðurlands og austur, en Sunnlendingarnir fari í ríkara mæli vestur og flytji aflann aftur suður en fiski ekki hér út af? Ég hélt að þetta væri ekki hagræðing sem menn hafa verið mikið að tala um og nauðsynlegt er að gera.

Eitt af því sem gerir að verkum að ég er mjög andvígur frv. eins og það er núna er gildistími frv. Í mínum flokki var samhljóða álit að það mætti alls ekki fara yfir tvö ár gildistími frv. og við vorum þó nokkrir sem vildum ekki hafa hann nema eitt ár. En við töldum að það væri rétt að gagna til samkomulags um tvö ár. Það er þannig að við erum að tala um að reyna að hverfa frá miðstýringunni, hverfa frá þessum höftum á hvern einstakling, en það verður með þeim hætti að það er alltaf verið að auka þau og í staðinn fyrir að samþykkja tvö ár er núna gengið inn á það af flokkssystkinum mínum í Ed. að lögin gildi í þrjú ár. Sjútvrh. er alltaf að vinna sigur, sigur eftir sigur, og fá meiru framfylgt af sínu. Hann setur markið hátt. Hann er einlægur kvótamaður og mikill skömmtunarstjóri eins og allir vita. Þó að margt hafi verið gott í samskiptum okkar á milli og ég meti hann á margan hátt mikils ber þar mjög mikið á milli í skoðunum okkar.

Ég tel að frv. þurfi að vera manneskjulegra en það er. Það verður að taka tillit til manna sem stunda þessa atvinnugrein. Við verðum að taka tillit til þess að smábátaeigendum var gefið allvíðtækt frelsi með þessari löggjöf. Þegar ótal bönn og takmarkanir hafa verið á öðrum hefur verið gripið til þess ráðs að fjölga skipum undir 10 tonnum og það mjög mikið og alvarlega mikið að mínum dómi. Mér finnst ekki vera hægt að koma í bakið á þeim mönnum með því að setja svo harðar og ákveðnar takmarkanir, eins og gert er, og sömuleiðis á þeim mönnum sem þessar veiðar hafa stundað að undanförnu. Ég tel að það sé fullkomin ástæða til að taka miklu meira tillit til þeirra en gert er í frv. eins og það kemur frá Ed.

Ég ætla ekki að halda uppi langri ræðu eða málþófi. Það kemur í ljós þegar málið kemur til nefndar hvernig til tekst og ég mun reyna eins og ég get að hraða afgreiðslu þessa máls, en ég er sannfærður um að það tekst ekki að afgreiða á þeim tveimur dögum sem eftir eru þannig að þetta frv. verði að lögum þó að það spari töluverða vinnu sem unnið var sameiginlega í nefndum beggja þingdeilda, en það var ekki nema að takmörkuðu leyti.

Ég skal ekki á þessu stigi fara frekar út í efni frv., en mun ræða þau við nefndarmenn í Nd. Ég vænti þess allra hluta vegna að einhver lausn fáist á því að breyta frv. til meira frjálsræðis en nú er og ná þannig frekar saman á Alþingi. Ég legg ekki höfuðáherslu á að stjórnarlið setji löggjöf eitt út af fyrir sig í jafnmikilvægu máli og nýting fiskimiðanna umhverfis Ísland er. Við þurfum líka að halda á skilningi þeirra sem stjórnarandstöðu skipa. Og ég treysti því að bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar láti ekki pólitískt karp ráða skoðunum sínum í þessum efnum því að þetta mál er svo stórt og mikið að það er hafið yfir allt pólitískt karp og flokka.