28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

181. mál, stjórn fiskveiða

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Oft og mörgum sinnum höfum við hv. þm. gagnrýnt vinnubrögð hér á þessum sérstæða vinnustað, harmað tímaskort og lélegar aðstæður til þess að kanna alla málavöxtu. Sú gagnrýni á ekki að öllu leyti við um þetta mál sem hér er til umræðu. Það er orðið okkur gamalkunnugt og nokkuð svo umrætt og hæstv. sjútvrh. verður ekki sakaður um það að hafa ekki gert fulltrúum allra þingflokka kleift að fylgjast með undirbúningi þess þótt sá undirbúningur hefði vissulega mátt standa lengur eins og hefur komið fram áður í umræðunni. Hæstv. ráðherra hefur sannarlega gert sér far um það að tryggja að allir hefðu aðgang að upplýsingum og hvers konar gögnum og boðið alla þá aðstoð við þingflokka sem ráðuneyti hans gæti hugsanlega veitt. Þetta hefur þingflokkur Kvennalistans notfært sér eftir föngum í þetta sinn eins og jafnan áður og vil ég nota tækifærið til þess að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi vinnubrögð svo langt sem þau ná. Því miður eru þau þó ekki einvörðungu lofsverð. Það verður að segjast eins og er að áhugi og umhyggja hæstv. ráðherra og ráðuneytis hans virtist nokkuð einhliða og beinast að því nánast eingöngu að skýra sjónarmið hans og vilja hans í þessu máli, en þau sjónarmið og vilji falla nokkuð ljúflega að sjónarmiðum og vilja meginþorra allra útvegsmanna í landinu og kom það mjög glöggt fram á fundum í ráðgjafarnefndinni svokölluðu. Miklu minna og raunar nær ekkert fór fyrir áhuga á sjónarmiðum og tillögum annarra.

Ég naut þess heiðurs að sitja fundi í ráðgjafarnefndinni af hálfu Kvennalistans og var það vissulega lærdómsríkt á margan hátt. Þar voru fluttir margir fróðlegir fyrirlestrar og skýrðar skýrslur um ástand nytjastofna og aflahorfur, skýrslur um útgerðarstaði, um þróun og horfur í þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar Íslendinga. Menn hlýddu á þetta allt saman af misjafnlega miklum áhuga, en mér fannst þetta afar fróðlegt og ég held að þessum tíma hafi verið vel varið og menn urðu reyndar nokkuð sammála um það þótt vissulega gætti töluverðrar óþolinmæði því að mönnum fannst tíminn vera að renna úr greipum sér á meðan hlýtt var á fyrirlestra þar inn frá.

Hins vegar hvessti heldur betur í nefndinni þegar menn að öllum þessum fyrirlestrum loknum tóku að leggja á ráðin um mótun fiskveiðistefnu næstu ára. Þá kom í ljós að menn skiptust í þessari stóru nefnd í allmörg horn eftir afstöðu sinni til þess hvernig haga bæri stjórnun fiskveiða. Þar voru þeir sem vildu núgildandi kerfi áfram, e.t.v. ofurlítið slípað eða eftir að verstu agnúarnir höfðu verið sniðnir af og það var fljótlega ljóst að þeir höfðu þéttan stuðning ráðuneytismanna. Síðan voru þeir sem vildu tryggja fiskvinnslunni eignarrétt á hluta af fengnum, helst upp á helmingaskipti, og urðu nú töluverðar umræður og háværar um þær tillögur. Þá voru þeir sem vildu veiðistjórnun af almennara tagi, takmörkun á veiðitíma, skyndilokanir og almennar friðunaraðgerðir og loks var svo hreyft hugmyndum um byggðakvóta. Það kom mér mjög á óvart hversu lítinn hljómgrunn slíkar hugmyndir fengu.

Ég hafði satt að segja vonast til þess einmitt vegna þess hve mikil umræða hafði verið ekki síst fyrir kosningarnar um byggðamál og nauðsyn þess að treysta byggðina utan höfuðborgarsvæðisins og um allt land. Öll þessi umræða leiddi til þess að maður hlaut að álykta sem svo að menn vildu gjarnan í raun og veru leifa leiða, m.a. í gegnum stjórnun fiskveiða til þess að styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni og skapa öryggi um atvinnu í sjávarplássum víða um landið. Í þessari ágætu nefnd, ráðgjafarnefndinni, reyndist sá áhugi nánast í núlli. Hins vegar fann ég það í viðtölum við ýmsa, svona einn og einn, að þeir voru ekki svo frábitnir hugmyndum af þessu tagi. Almenna afstaðan virtist hins vegar sú að ekki þýddi neitt að ræða grundvallarbreytingar í fiskveiðistjórnun þar eð núgildandi fyrirkomulag ætti svo breiðan stuðning í röðum útvegsmanna og sjómanna og síðast en ekki síst væri stefna sjútvrh. óhagganleg með öllu. Engu að síður minntu menn á það í tíma og ótíma að það væri Alþingi sem hafa mundi síðasta orðið og var það nú stundum í mínum eyrum svolítið falskur tónn sem þar hljómaði því í raun og veru datt, held ég, viðstöddum ekki í hug að þm. færu að leggjast gegn vilja hagsmunaaðila, eins og það er sífellt orðað.

Ég gerðist svo djörf að lýsa því yfir á fundi í ráðgjafarnefndinni að ég efaðist um það að frv. byggt á þeim drögum sem við þá höfðum í höndunum nyti stuðnings meiri hluta alþm. Ég lýsti þar einnig vonbrigðum mínum með það að ekki hefðu fengist ræddar neinar hugmyndir um nýjar leiðir, enda þótt fyrir lægju upplýsingar til staðfestingar því að núgildandi fyrirkomulag hefði ekki náð tilætluðum árangri.

Ég lýsti afstöðu Kvennalistans og kynnti tillögur okkar á fundi í ráðgjafarnefndinni 11. nóvember og þeim var dreift skriflega meðal nefndarmanna skömmu síðar. Þá voru tillögur Kvennalistans kynntar í grein í Morgunblaðinu 17. nóvember sl. undir fyrirsögninni „Ný uppskrift af fiskveiðikvóta“. Afstaða okkar þurfti því engum að koma á óvart þegar þetta mál kom loks til umfjöllunar í Ed. Alþingis né heldur þær brtt. sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir fluttu í þeirri hv. deild. Þessar tillögur hafa verið alllengi í mótun hjá okkur, enda er hér ekki um neitt einfalt mál að ræða. Vafalaust eru þessar tillögur ekki gallalausar og við erum mjög fúsar til að ræða þær fram og aftur til þess að gera þær sem best úr garði því að við erum allar af vilja gerðar til að finna bestu mögulegu leiðirnar að því marki sem við hljótum að setja okkur með stjórnun fiskveiða. En það er hér um bil það eina sem flestir a.m.k. eru sammála um, þ.e. að stjórnun af einhverju tagi sé nauðsynleg.

Sá tími er vissulega liðinn að náttúran var látin einráð um stjórnun fiskveiða. Mannleg stjórnun hefur gilt árum saman, friðunaraðgerðir, skyndilokanir uppeldissvæða, afmörkun sóknartíma, aflamark á fisktegundir og takmarkanir af ýmsu tagi. Allar þessar aðgerðir hafa verið vægast sagt umdeildar og hagsmunaárekstrar tíðir.

Undanfarin fjögur ár hefur verið í gildi svokölluð kvótaskipting í sjávarútvegi sem byggist á skiptingu heildaraflans á milli skipa. Kerfið hefur verið nokkuð sveigjanlegt með möguleikum á vali milli aflamarks og sóknarmarks með hámarki á þorskafla. Veiðar báta undir 10 brúttólestum hafa svo fyrst og fremst lotið reglum um sóknardaga.

Það er rétt og skylt að geta þess að Kvennalistinn studdi núverandi lög um stjórnun fiskveiða þegar þau voru sett fyrir tveimur árum, enda sáum við ekki þá skárri leið til þess að hamla gegn þeirri ofveiði sem flestir virtust sammála um að allt stefndi í. Nú er komin enn meiri reynsla á þetta fyrirkomulag og ágallarnir eru orðnir bersýnilegri en áður. Við mótun á fiskveiðistefnu næstu ára er eðlilegt og sjálfsagt að líta til þess hvernig núgildandi fiskveiðistjórnun hefur reynst, hversu vel hefur tekist að ná þeim markmiðum sem höfð eru að leiðarljósi við mótun stefnunnar og hvernig bæta megi það sem miður hefur farið. Það skiptir miklu að gera sér grein fyrir markmiðum með stjórnun fiskveiða og vitanlega ná sem bestri og víðtækastri samstöðu um leiðir að þeim markmiðum. Að mati Kvennalistans ber að skilgreina markmiðin á eftirfarandi hátt.

Í fyrsta lagi viljum við hindra ofveiði, og við viljum vernda og byggja upp fiskistofna. Í öðru lagi hljótum við að stefna að aukinni hagkvæmni og minni tilkostnaði, bæði við veiðar og vinnslu. Í þriðja lagi viljum við bæta meðferð sjávaraflans og í fjórða lagi viljum við stefna að hámarksnýtingu sjávaraflans. Í fimmta lagi ber að stefna að bættum kjörum þeirra sem vinna í sjávarútvegi, bættum aðbúnaði, meira öryggi og hærri launum. Í sjötta lagi viljum við stefna að sanngjarnri dreifingu atvinnu og arðs eftir aðstæðum. Rétt er að taka fram að hér er ekki um forgangsröð að ræða. Þessi atriði eru að flestu leyti jafnrétthá.

En hver er þá reynslan af fiskveiðistjórnun síðustu ára með hliðsjón af framangreindum markmiðum? Fyrst er það þá markmiðið um hindrun ofveiði, verndun og uppbyggingu fiskistofna. Staðreyndirnar sýna og sanna að heildarþorskaflinn hefur á hverju ári farið langt fram úr því sem fiskifræðingar hafa talið ráðlegt. Samanlagður umframafli í þorski sl. fjögur ár nemur um 366 þús. tonnum eða sem svarar afla heils árs. Aukin sókn í aðrar fisktegundir gerir það svo að verkum að sífellt fleiri tegundir eru felldar undir kvóta. Það liggur því beint við að álykta sem svo að þetta markmið hafi ekki náðst.

Margir telja að annað markmiðið sem ég nefndi, þ.e. um aukna hagkvæmni og minni tilkostnað, hafi náðst að hluta til og megi að einhverju leyti rekja til kvótakerfisins. Vafalaust hefur hins vegar lægra olíuverð og aðrar ytri aðstæður haft sitt að segja. Eitthvað hefur dregið úr hagkvæmninni síðustu ár við meiri ásókn í sóknarmarkið sem hefur orðið hvati til aukinnar fjárfestingar. Flestir telja að stefna beri að fækkun fiskiskipa og minnkun flotans í heild, en þróunin hefur orðið algjörlega á hinn veginn. Fiskiskipum hefur fjölgað, mest í minnstu skipunum, og þau hafa einnig stækkað, þ.e. ný skip eru í mörgum tilvikum stærri en þau sem hefur verið lagt.

Þá er það þriðja markmiðið, um bætta meðferð sjávaraflans. Það er reyndar okkar mat að á síðustu árum hafi meðferð sjávarafla batnað mikið og er það vafalaust fyrst og fremst árangur aukinnar þekkingar og skilnings þeirra sem vinna með aflann. Þar hefur sjútvrn. m.a. átt hlut að máli og ber að virða það sem vel er gert. Hugsanlega getur kvótakerfið átt þarna hlut að máli þar sem magnið er gefinn hlutur en gæðin ráða tekjum. Hins vegar er ekki nokkur efi á því að hér mætti bæta um enn þá betur og er það afar mikilvægt í framtíðarþróun í þessari atvinnugrein.

Fjórða markmiðið varðar svo hámarksnýtingu þess afla sem dreginn er úr sjó. Þar skortir mikið á að því markmiði sé náð. Og þar er við mjög erfiðan þátt að fást. Miklu er kastað á glæ í orðsins fyllstu merkingu, bæði fisktegundum og fiskhlutum, svo sem lifur og hrognum jafnvel og slógi. Sem dæmi má nefna að árlega er kastað í hafið 2000–3000 tonnum af tindabikkju sem er ágætur matfiskur. Annað dæmi er lifrin sem er hent í stórum stíl þótt íslenskt fyrirtæki vilji kaupa hana til lýsisframleiðslu og gæti framleitt helmingi meira af meðalalýsi án þess að þurfa að hreyfa legg né lið til markaðsöflunar því að markaðurinn beinlínis bíður eftir þessari vöru. Mörg fleiri dæmi mætti tína til því til sönnunar hversu langt við erum frá þessu markmiði að nýta sjávaraflann vel. Við heyrum nánast daglega slíkar sögur sagðar og þar eru ekki síst sjómenn að verki sem viðurkenna það blygðunarlaust að þeir hendi þúsundum og jafnvel tugþúsundum tonna af sjávarafla í sjóinn.

Fimmta markmiðið var bætt kjör þeirra sem vinna í sjávarútvegi. Um þann lið þarf varla að fara mörgum orðum svo augljóslega sem á skortir að kjör þessa fólks séu viðunandi. Með því er vitanlega ekki eingöngu átt við launakjör, heldur einnig vinnuskilyrði. Öryggisleysi er hlutskipti þessa fólks. Það vinnur hættuleg störf og slítandi, slys og vinnusjúkdómar eru hlutfallslega meiri en í flestum atvinnugreinum ef ekki öllum og launakjörin smánarleg, einkum í fiskvinnslunni, og þar er mikið umbótastarf óunnið.

Sjötta markmiðið er um sanngjarna dreifingu arðs og atvinnu eftir aðstæðum. Vafalaust er umdeilanlegt hvernig hér hefur tekist til, en mörg dæmi eru um það nú síðustu árin að illa stæðar útgerðir hafa getað selt skip sín á margföldu verði milli byggðarlaga og hagnast þar með um hundruð milljóna á meðan íbúar viðkomandi byggðarlaga hafa mátt horfa á eftir atvinnu sinni og ekki fengið rönd við reist. Í þessum tilvikum er það oftast kvótinn sem hleypir verði skipanna upp, kvótinn sem viðkomandi útgerðaraðili hefur fengið ókeypis á silfurfati frá stjórnvöldum.

Niðurstaðan af þessu öllu saman er því að sú leið sem farin hefur verið í stjórnun fiskveiða á undanförnum árum skilar alls ekki tilætluðum árangri og því ber að leita nýrra leiða sem samrýmast betur fyrrgreindum markmiðum. Það höfum við kvennalistakonur gert og lagt alúð í þá vinnu. Við höfum kynnt okkar leið, eins og ég sagði áðan, og það gleður okkur vissulega að hafa fundið samhljóm við aðra í þessum efnum, sérstaklega í röðum alþýðubandalagsmanna og, sem ekki er minna um vert, meðal alþýðuflokksmanna og reyndar víðar. Þess vegna erum við vongóðar um að sú leið verði farin á endanum, jafnvel þótt menn hiki við að feta hana nú.

Á þskj. 218 eru brtt. sem þingkonur Kvennalistans í Ed., Danfríður Skarphéðinsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir, báru þar fram og við munum leggja fram hér í hv. Nd. einnig. Í þessum brtt. koma fram meginatriði þeirrar fiskveiðistefnu sem Kvennalistinn hefur mótað. Það er okkar tillaga að árlegur heildarafli verði eftir sem áður ákveðinn af sjútvrh. að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar en svigrúm verði til þess að hækka eða lækka þetta aflamark innan ársins ef aðstæður leyfa eða krefjast. Það eru svo okkar tillögur að heimildir til botnfiskveiða verði í tvennu lagi.

Í fyrsta lagi verði 80% heildaraflans skipt milli byggðarlaga eða útgerðarstaða með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára.

Í öðru lagi renni 20% heildaraflans í sameiginlegan sjóð og verði til sölu, leigu eða sérstakrar ráðstöfunar eftir ákveðnum reglum. Gjald byggðarlaga fyrir kvóta miðist við ákveðið meðalverð á afla upp úr sjó og tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda verði varið til eftirtalinna verkefna:

Í fyrsta lagi fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fiskvinnsluskóla, símenntunar fiskvinnslufólks, sjómannaskóla og öryggisfræðslu sjómanna. Í öðru lagi til rannsókna í tengslum við sjávarútveg, grunnrannsókna á lífríki sjávar, rannsókna á ónýttum og vannýttum tegundum, vöruþróunar í sjávarútvegi, markaðsöflunar og markaðshönnunar fyrir sjávarafurðir. Og í þriðja lagi til verðlauna til handhafa veiðiheimilda fyrir sérstaka frammistöðu í nýtingu og meðferð aflans eða fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks.

Það er svo okkar tillaga að byggðarlög fái að vera nokkuð sjálfráð með það hvernig þau skipta þeim afla sem þau ráða yfir. En reikna má með að byggðarlög framleigi réttinn með þeim skilyrðum að aflanum yrði landað að stærstum hluta í viðkomandi byggðarlagi eða eftir aðstæðum á hverjum stað.

Það væri vissulega freistandi að setja reglur um nokkurs konar gæðabónus sem fæli það í sér að handhafar kvótans gætu áunnið sér ákveðinn rétt til aflamarks næsta árs með mikilli nýtingu og góðri meðferð aflans og með því að búa vel að sínu starfsfólki. Slíkar reglur ber þó ekki að okkar mati að festa í lögum, heldur verður að treysta heimamönnum á hverjum stað til þess að móta þær reglur sem stuðlað geta að sem bestum árangri. Ríkinu bæri þó að veita ráðgjöf í þessum efnum ef þess væri óskað.

Rétt er að taka það fram að það er ekki okkar meining að þetta fyrirkomulag yrði sveitarfélögunum til byrði. Þau hlytu að framleigja eða selja þann kvóta sem þau verða að kaupa á sama verði eða ekki lægra verði en þau verða að láta af hendi sjálf. Það væri hins vegar eðlilegt að ætlast til þess, ef þau hefðu aukatekjur af framleigu kvótans, að þær yrðu notaðar til þess að bæta aðstöðu í höfnum og auka þjónustu við þessa atvinnugrein.

Árangur af þessari fiskveiðistefnu og ávinningur yrði að okkar dómi margþættur, en í sem allra stystu máli yrði þetta kerfi einfaldara, skilvirkara og réttlátara, svo að notuð séu nú þau einkunnarorð sem stjórnmálamenn gjarnan beita fyrir sig þegar kerfisbreytingar eru á dagskrá.

Með þessu kerfi yrði verulega dregið úr miðstýringu og ofstjórn og byggðasjónarmiðum gert hærra undir höfði. Það yrði auðveldara að halda heildarafla nálægt þeim mörkum sem yrðu sett og verslun með kvóta, sem svo sannarlega er fyrir hendi, þjónaði heildarhagsmunum en ekki einstaklingum. Stuðlað yrði að eflingu rannsókna og bættri þjónustu við sjávarútveginn, unnt yrði að byggja inn hvata til meiri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans og til þess að betur yrði búið að starfsfólki í sjávarútvegi. Það er því vissulega til nokkurs að vinna.

Herra forseti. Það væri auðvitað mikil kokhreysti ef ég fullyrti það hér og nú að þessi stefna fengist samþykkt í þessari umferð. Það dettur mér reyndar ekki í hug. Mér dettur hins vegar sannarlega í hug að þessar hugmyndir geti orðið uppistaðan í fiskveiðistefnu okkar innan fárra ára.

Í hv. sjútvn. Nd. verður hins vegar fyrirliggjandi frv. hæstv. ráðherra fyrst og fremst til umræðu og vafalaust, því miður, tekst kvótavinum og stuðningsmönnum „sægreifanna“ að troða þessum ófögnuði í gegnum þingið þrátt fyrir víðtæka og mikla andstöðu. Ég verð að segja að aumt er hlutskipti þeirra stjórnarsinna sem þvert gegn sannfæringu sinni láta tilleiðast að hjálpa trúarsetningum hæstv. sjútvrh. í gegnum þingkvörnina. Þeir eiga vafalaust eftir að njóta þess svo sem þeir hafa unnið til.

Það var hins vegar ánægjulegt að hlýða á ræður sumra þeirra sem talað hafa á undan mér og það vakti vonir um það að unnið verði að breytingum á frv. sem geri það viðsættanlegra en það nú er. Ég held að við ættum öll að sameinast í því að stefna að því að fá fram þær breytingar sem geta orðið til þess að það njóti víðtækari stuðnings en nú er.

Svo sem ljóst má vera, herra forseti, og er reyndar löngu komið fram styðja kvennalistakonur ekki frv. óbreytt og allra síst aðförina að þeirri útgerð sem einn stjórnarsinna sagði að væri sér geðfelldust, ef ég man orð hans rétt, og þar á ég við smábátaútgerðina. Eftir þær ræður sem fluttar hafa verið hér við 1. umr. um þetta mál tel ég öldungis ljóst að frv. verður að breyta hvað þetta varðar og við kvennalistakonur viljum gjarnan eiga þar hlut að máli, svo og við umfjöllun um aðra þætti þessa máls. Við erum reyndar þannig settar að við eigum ekki fullgilda aðild að sjútvn. þessarar deildar og ég vildi gjarnan, herra forseti, mælast til þess við hv. nefnd að við fengjum heimild til áheyrnar þar við umfjöllun um þetta mál.