29.12.1987
Efri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3326 í B-deild Alþingistíðinda. (2333)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að það er ýmislegt til bóta í þessu frv. til l. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt lögaðila. Við höfum þó nokkrar athugasemdir fram að færa og skýrir það m.a. þann fyrirvara sem ég setti með undirskrift minni á nái. meiri hl. fjh.- og viðskn.

Við höfum sérstaklega áhyggjur af því að það virðist stefnt að því að afnema alveg heimildir lögaðila til að leggja í fjárfestingarsjóði og í varasjóði. Ég tel að með heimild til að leggja framlag í fjárfestingarsjóði sé séð fyrir nauðsynlegum möguleikum fyrirtækja að mæta ýmsum skakkaföllum og eins felst í því hvatning til fjárfestingar. Ég leyfi mér því mjög að efast um réttmæti þess, eins og sagt er í grg. með frv., að það er stefnt að því að þessi réttur fyrirtækja verði algerlega afnuminn. Hins vegar tek ég undir með hv. 7. þm. Reykv. að ég er ekki eins viss um að það hafi verið sýnt nægilega vel fram á að það sé réttmætt að lækka skattprósentu af tekjum lögaðila úr 51% niður í 45%. Í grg. með frv. er sagt að þetta muni lækka skattgreiðslur um 187 millj. Er forsenda fyrir þessu og reyndar ástæða fyrir þessari skattalækkun sú að það er talið hæfilegt að lækka þetta niður í 45% með hliðsjón af verðbólgu og eins að þetta skuli vera til samræmis við skatthlutfall þeirra sem borga staðgreiðsluskatta, þ.e. í staðgreiðslukerfinu er gert ráð fyrir 35,2% skatti. Hluti atvinnurekstrartekna hjá einstaklingum með rekstur verður skattlagður samkvæmt því hlutfalli. En hvað snertir skatta fyrirtækja sem verða þá greiddir eftir á þykir hæfilegt að þau greiði 45%.

Mér finnst að það hafi ekki komið nægilega fram, hvorki í grg. né í meðförum nefndarinnar, hver áhrifin séu af þessu og ég mundi sjálfur kjósa að þetta skatthlutfall væri áfram eins og það var, 51% , en frekar haldið inni möguleikum á því að leggja 40% í fjárfestingarsjóð.

Að öðru leyti höfum við ekki mikið við frv. að athuga. Ég endurtek að það er margt þarna til bóta og ýmislegt sem er verið að breyta í gömlu lögunum til að gera þau skýrari og ákveðnari, en ég leyfi mér að ítreka að við vörum við þeirri þróun að taka af fjárfestingarsjóðsframlagið.