29.12.1987
Efri deild: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3331 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. heilbr.- og trn., sem er á þskj. 440, um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 14/1986, um breytingu á lögum nr. 59 1983, um heilbrigðisþjónustu.

Frv. þetta fjallar um frest fyrir Reykjavíkurlæknishérað og heilsugæsluumdæmi Garðabæjar til að koma á heilsugæslukerfi svo sem lög nr. 59 frá 1983, um heilbrigðisþjónustu, kveða á um. Frestur þessi skal veittur í eitt ár í mesta lagi.

Í umræðum um þetta frv. í hv. deild kom fram að þegar eru hafnar viðræður um ofangreinda kerfisbreytingu við bæjarstjórn Garðabæjar og því líkur taldar á að hún komi til framkvæmda fljótlega upp úr áramótum. Jafnframt lýsti hæstv. heilbrmrh. þeirri ætlan sinni að hefja viðræður við Reykjavíkurborg svo fljótt sem verða má um að koma þar á um eða upp úr miðju næsta ári samræmdu heilsugæslukerfi sem beri sömu skyldur gagnvart öllum íbúum svæðisins skv. lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.

Nefndin hefur rætt frv. og með tilliti til þess sem hér var frá greint leggur hún til að það verði samþykkt óbreytt. Undir nál. rita Karl Steinar Guðnason, Salome Þorkelsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Stefán Guðmundsson og Guðmundur H. Garðarsson.