29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3333 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

196. mál, söluskattur

Hjörleifur Guttormsson (frh.):

Herra forseti. Það er vissulega ánægjulegt að fá tækifæri til að halda hér áfram ræðu sem ég byrjaði á tólfta tímanum þann 22. des. þegar þetta mál, frv. til l. um söluskatt, með síðari breytingum, var síðast til umræðu í hv. þingdeild. Ég hafði ekki nema rétt byrjað mitt mál þegar virðulegur forseti sá ástæðu til að fresta fundi og það er fyrst nú sem mér gefst færi á að halda áfram ræðu minni sem ég hafði þá rétt hafið.

Ég hlýt við upphaf þessa fundar að vekja athygli á því sérkennilega vinnulagi sem ríkir hér á Alþingi og aðstæðum sem eru hér í þingdeildinni þar sem 10 mínútur af boðuðum fundartíma líða án þess að unnt sé að setja þingfund vegna þess að ekki er mættur helmingur þm. Það er ekki aðeins yfirgnæfandi þungi stjórnarliða, 28 talsins hér í þingdeildinni, sem vísar á það að það eru þeirra fjarvistir sem þessu valda. Hér er vel mætt af stjórnarandstöðu. Þetta með öðru sýnir það furðulega verklag eða kannski ætti að segja verklagsleysi, þann skort á verkstjórn sem ríkir í stjórnarliðinu núna síðustu vikur og alveg sérstaklega síðustu daga þegar Alþingi er kvatt til þingfunda milli jóla og nýárs.

Hér var haldinn fundur, virðulegur forseti, eins og við báðir munum vel eftir sl. nótt, settur kl. hálfsex í gær og lauk um sexleytið í morgun þar sem á dagskrá var frv. til l. um stjórn fiskveiða og fleiri mál. Þá voru aðstæður í þingdeildinni þær að lengst af nóttu var ekki helmingur þm. viðstaddur og var þó upplýst af virðulegum forseta að menn hefðu ekki fjarvistarleyfi, ættu að vera á þingfundi skv. 34. gr. þingskapalaga. Í þessum hópi voru a.m.k. 2/3 hlutar stjórnarþm. sem vermdu ból sín að líkindum á sama tíma og þó 20 þm. úr stjórn og stjórnarandstöðu voru hér að ræða hið stóra og þýðingarmikla mál, stjórn fiskveiða, sem vísað var til nefndar með samkomulagi og samstilltu átaki stjórnar og stjórnarandstöðu um sexleytið í morgun. Hafði þá tekist að draga nokkra stjórnarliða úr bólum til þess að koma málinu til nefndar. Eftir rösklega tveggja tíma svefn var ég kvaddur á nefndarfund í sjútvn. og hún hefur verið að störfum í morgun, starfaði í tvo tíma undir ötulli forustu formanns sjútvn. þannig að menn eru ekkert að spara sig hér á þingi til þess að þoka málum áfram eins og af þessu má sjá.

En það er ekki almenn þátttaka í þessari viðleitni og þar hljótum við sérstaklega að sakna stjórnarliðsins og ég tala nú ekki um forustunnar í ríkisstjórninni sem ég varð nú bara alls ekkert var við á þingfundi í gær og hlýt að nefna hér og óska eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. sjái ástæðu til að vera hér á þingfundinum af því að þetta er að degi til og hæstv. forsrh. væntanlega vel hvíldur, en ég ætla ekki að mæla fleiri orð fyrr en hann er genginn í þingsal. — Hæstv. forsrh. birtist hér vel á sig kominn. Það er gott að einhverjir hafa séð ástæðu til að halda sig við eðlilega lífsháttu og söknuðum við hans þó hér á fundi alla síðustu nótt ásamt fjölmörgum öðrum þm. sem ekki voru hér viðstaddir þingfund, að meiri hluta stjórnarliðar sem ekki voru hér viðstaddir og án þess að hafa boðað forföll frá þingfundi.

Ég vil nefna það, virðulegur forseti, vegna ræðu minnar hér á eftir að ég vænti þess að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., verði hér viðstaddur á þingfundi sem allra fyrst því að við söknuðum hans einnig á þingfundi sl. nótt. Ég varð ekki var við að hann væri hér í þinghúsi, formaður Framsfl., sem er þó kominn til þings. Það urðu þau tíðindi og þáttaskil í þingstörfunum nú bak jólum að tilkynnt var að hæstv. utanrrh. tæki sæti sitt á Alþingi, en það hefur ósköp lítið sést af hæstv. utanrrh. í þessu sæti síðan, a.m.k. varð ég ekki var við hann í gær. Og vegna þess að ég á vantalað við hann um efni þess máls sem hér er á dagskrá óska ég eftir að hann komi til fundar. (ÓÞÞ: Það væri nú annað hvort.) (PP: Hann er væntanlegur. Ég er búinn að gera ráðstafanir til þess að hann verði sóttur.) Það er aðeins verið að tyfta menn í þingflokki Framsfl. Formaður þingflokksins upplýsir að hann hafi gert ráðstafanir til þess að ráðherrann komi til fundar og er það vissulega gott að hér á að taka upp bætta siði. Það er einhver siðbót í vændum, enda gengur hæstv. utanrrh. í salinn, væntanlega vel útsofinn eins og hæstv. forsrh. eftir að hafa tekið sér nóttina til þess á meðan við ræddum hér um stjórn fiskveiða í þessari virðulegu þingdeild.

Í upphafi ræðu minnar 22. des. sl. ræddi ég dálítið við hv. 10. þm. Reykv. Guðmund G. Þórarinsson sem tók þátt í umræðu um þetta mál fyrr í umræðunni. Og vegna þess að ég á eftir að eiga við hann nokkurn orðastað frekar þætti mér vænt um ef hv. 10. þm. Reykv. yrði gert viðvart um að mig langaði að ávarpa hann hér. Það gildir hið sama um hann og þá sem hér voru nefndir, hæstv. ráðherrar, að við söknuðum hv. þm. á þingfundi hér alla síðustu nótt og reyndar frá upphafi þingfundar. Minnir mig þó að hann hafi látið sig eitthvað varða fiskveiðistjórnunarumræðuna á undanförnum vikum, sá hv. þm. A.m.k. varð ég var við hann í sjónvarpi þar sem hann átti orðastað við hæstv. sjútvrh. og fleiri í sambandi við stjórn fiskveiða. Ég vænti, virðulegur forseti, að þessi skilaboð mín komist áleiðis. (Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir jafnóðum til þess að hafa samband við þá hv. þm. sem ræðumaður hefur nefnt.) Ég þakka, virðulegur forseti, og treysti því að úr rætist.

Ég mun þá snúa mér að frv. sem er hér til umræðu og aðeins til þess að ná samhengi í mitt mál vil ég rifja það upp að fæðing þessa máls hefur verið mjög söguleg svo ekki sé nú sterkar að orði kveðið. Ég held að því hafi verið allt of lítill gaumur gefinn með hvaða hætti þetta frv. svo og önnur svokölluð tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar voru í heiminn borin. Það var sannarlega ekki þrautalaus fæðing eftir því sem upplýst er af viðtölum við ýmsa ráðherra um tilurð þessara mála sem við erum með hér í þinginu til meðferðar enn og komið nálægt áramótum.

Hæstv. fjmrh., sem mælti fyrir þessu máli, hefur lýst því við ýmis tækifæri hvílík tangafæðing það var að ná þessum málum út úr ríkisstjórn og koma þeim inn í þingið seint og um síðir, en flest voru málin lögð fram hér í þinginu þegar um það bil vika var liðin af jólaföstunni. Ég vil í því samhengi ítreka það sem ég nefndi í ræðu í gær í þingdeildinni að það gegnir satt að segja nokkurri furðu að hæstv. ráðherrar iðka þann leik nú í fjölmiðlum, m.a. í sjónvarpi svo sem sjá og heyra mátti af vörum hæstv. fjmrh. í gærkvöldi í Ríkisútvarpinu/sjónvarpi, að hann hafði uppi mörg orð um það hversu stjórnarandstaðan væri vond við sig og ríkisstjórnina þessa dagana og hjálpaði ekki með eðlilegum hætti til við að vippa þessum þingmálum ríkisstjórnarinnar í gegnum þingið og fá á það tilskilda stimpla innan þeirra dagsetninga sem hæstv. ráðherra ætlaði sér og lesa má um í gildistökuákvæði með t.d. frv. til l. um söluskatt.

Hæstv. fjmrh. vildi sakfella stjórnarandstöðuna á Alþingi fyrir það að það yrðu einhver óhöpp í kringum áramótin í sambandi við þessi mál, tollamál, skattheimtuna í ríkissjóð og annað. Þetta og hitt muni gerast ef þessi mál verða ekki komin hér í gegn fyrir áramótin. Það verði um að ræða usla í landinu, stjórnarandstaðan valdi miklum usla, svo notuð séu orð sem ég man úr munni hæstv. ráðherra í sjónvarpinu í gær, en ég mun brátt hafa handa á milli orðrétt ummæli hans eins og þau lágu þar fyrir. Það veitir ekkert af að minna hæstv. ráðherra á það að þeir gerðu nú kannski margt þarfara en vera með munninn glenntan í fjölmiðlum utan þingsala gagnvart stjórnarandstöðunni, sem er að gegna hér þingskyldum sínum, á sama tíma og þessir hæstv. ráðherrar og ríkisstjórnin og forusta hennar sjá ekki ástæðu til að sitja þingfundi, hvað þá meira.

Ég verð að segja að það er hægt að láta sér renna í skap yfir minni háttar atriðum en þeim sem hér eru til umræðu og það gegnir satt að segja furðu, svo að vægt sé til orða tekið, hvernig ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið kemur fram gagnvart þinginu þessa daga. Það er með slíkum fádæmum að ég held að það þurfi langt að leita til samjöfnuðar. Stjórnleysið í ríkisstjórnarherbúðunum er með þeim hætti að það þarf áreiðanlega bjartsýnar spákonur eða spámenn — skulum við segja og hafa það hlutlaust, karla eða konur, völvur — til þess að ætla þessari ríkisstjórn mikið lengra líf. Það má vel vera að hún hangi saman á illskunni áfram og það harðni þannig skrápurinn á hæstv. ráðherrum eftir að þeir hafa boxað hverjir aðra, eins og við höfum orðið áheyrendur að og lesum um í fjölmiðlunum þar sem aðalefnið í fjölmiðlum landsins eru hnútuköstin á milli aðilanna að ríkisstjórn, einstakra stjórnarflokka og einstakra hæstv. ráðherra. Um það hef ég nóg efni hér fyrir framan mig en ætla ekki að taka tíma til þess að rifja upp mikið af því nú.

En vegna samhengis í þessu og vegna þess að ég var að lýsa inn í erfiðar fæðingarhríðir þess frv. sem hér er til umræðu vil ég benda þeim sem áhuga hafa á þessum málum á mjög athyglisverða fréttaskýringu í Morgunblaðinu þann 10. des. sl., fréttaskýringu eftir fréttamennina Björn Vigni Sigurpálsson og Ólaf Björn Kárason undir fyrirsögninni „Erfið fæðing en efnilegt barn“. Ég tek undir fyrri hluta þessarar fyrirsagnar. Það er skjalfest hér í þessari grein að fæðingin var erfið en, virðulegur forseti, undir seinni hlutann get ég ekki tekið, að króginn sé sérstaklega efnilegur, sá sem við höfum hér til umræðu, sá sem við erum að berja augum hér og ræða um á þessum þingfundi. Hér er það rakið með skilmerkilegum hætti hvernig þessi frv. loks náðust út með töngum.

M.a. er greint frá því hverjar voru ljósmæðurnar, svo notað sé hefðbundið orðalag þó að um karla hafi verið að ræða, hverjar voru helstu ljósmæðurnar við þessa tangafæðingu, þessa erfiðu tangafæðingu þessara tekjuöflunarfrv. Jóns sterka, hæstv. fjmrh., sem verðskuldar það viðurnefni fyllilega því að hann segir okkur hér í hverri ræðunni eftir aðra að það sé nú ekkert mál að afgreiða þessa hluti hér. Hann hafi tekið svo mikið á uppi í fjmrn., vakað svo mikið og unnið svo mikið með örfáum mönnum, drifið málið hér inn á þing og þingið sé sko ekkert of gott að hjálpa til að koma þessum málum í gegn með álíka kraftalegum vinnubrögðum og hæstv. ráðherra hafi tamið sér og tíðkað uppi í fjmrn. En ég er ekki alveg viss um að allir taki undir það að skynsamlegt sé fyrir lýðræðislega afgreiðslu mála að nota fyrst og fremst kraftana eins og hæstv. fjmrh. er farinn að iðka og beitir ekki bara gagnvart stjórnarandstöðu heldur einnig gagnvart samstarfsaðilum sínum í ríkisstjórninni og fær reyndar endurgoldið eins og lesa má um.

Ég minntist á ljósmæðurnar og ég held að það sé rétt að það sé upplýst hverjir það voru öðrum fremur samkvæmt þessari heimild, með leyfi virðulegs forseta, það er verið að ræða hér tiltekinn dag meðan á þessari erfiðu fæðingu stóð og segir:

„Síðdegis sama dag var þó ákveðið að reyna að leysa hnútinn.“ Sakna ég þess nú að hæstv. utanrrh. er horfinn á nýjan,leik og var viðvera hans stutt í þingsal. (Forseti: Ég geri ráðstafanir til að aðvara hann, en hann mun hafa gengið hér í hliðarherbergi.) Hann var einn af þeim sem var yfir sænginni þegar þessi fæðing átti sér stað. En ljósmæðurnar voru m.a. eins og segir hér í umræddri grein 10. des. í Morgunblaðinu:

„Síðdegis sama dag var þó ákveðið að reyna að leysa hnútinn. Víglundur Þorsteinsson og Björn Björnsson, sem hafa áður unnið mikið saman við gerð kjarasamninga, unnu að tillögugerð í samræmi við hugmyndir iðnrekenda. Björn útfærði þær síðan og Víglundur tók að sér að afla þeim fylgis innan Sjálfstfl. Á þingflokksfundi hjá Sjálfstfl. lagði Þorsteinn Pálsson fram tillögu um að söluskattur yrði 25% og lagður á allar neysluvörur. Niðurgreiðslur yrðu 1200 millj. kr. og vörugjald 13%.“

Þetta er aðeins glefsa úr þessari ítarlegu fréttaskýringu um fæðingarhríðirnar í sambandi við þetta frv. sem Morgunblaðið, eða þeir sem halda þar á penna, telur vera efnilegt barn. Ég vek athygli á því að ljósmæðurnar eru menn sem hafa komið við sögu í ýmsum málum, m.a. þegar verið var að reyna að berja saman ríkisstjórn í vor. Þá voru þessir menn ekki víðs fjarri, a.m.k. minnist ég þess að það var farið í sagnfræðilegar vangaveltur og skýringar á þeim tíma af þeim sem hér eru nafngreindir að hluta og dregin fram í dagsljósið alveg ný sannindi í þeim efnum, söguskýring þess efnis að það hafi alltaf verið ríkjandi grófur launamunur í samfélögum allt frá dögum Hammúrabís eða þar austur í Mesópótamíu fyrir 3000 árum.

Án þess að fara að ræða frekar um hlut einstakra manna sem ekki eiga sæti hér á Alþingi kemst ég þó ekki hjá að rifja það upp að annar þessara hjálparmanna á stjórnarheimilinu, formaður Félags ísl. iðnrekenda, hefur nýlega lagt það sérstaklega til að Ísland vippi sér inn í Efnahagsbandalag Evrópu. Þar sem greinilega er um mjög áhrifaríka aðila að ræða megum við trúlega vænta þess að þeir sannfæri ríkisstjórnina bráðlega um, eins og í sambandi við tekjuöflunarmálin, að næsta heilræðið sé að vippa sér inn í Efnahagsbandalag Evrópu eins og þessi varaþm. Sjálfstfl. hefur opinberlega lýst yfir sem þjóðráði og nauðsynjamáli. Að vísu er ekki alls staðar undir það tekið, sem betur fer, þannig að eitthvað kann það að dragast að hann fái undirtektir að því leyti.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegur forseti, til að fara yfir þetta sögulega yfirlit frekar. En ég hvet hv. þingdeild til þess að kynna sér þessa fréttaskýringu því að hún er sannarlega þess virði að henni sé á lofti haldið í tengslum við umræðu um þessi mál.

Eftir þessa erfiðu fæðingu, eftir þessa tangafæðingu komu ráðherrarnir, forustumenn stjórnaraðilanna, formenn flokkanna, þar á meðal hæstv. fjmrh., fram á blaðamannafundi brosandi og sælir og lýstu yfir harðri, eindreginni samstöðu í þessum málum sem hafði tekið tíma að berja saman og ekki allir alveg ósárir að þeim leik loknum eins og heyra hefur mátt síðan.

Ég greindi hv. 10. þm. Reykv., sem er því miður að víkja úr sal nú, virðulegur forseti, einmitt þegar ég ætlaði að beina til hans máli, ætli það verði hægt að bæta úr því? (Forseti: Hv. þm. mun hafa verið kallaður í símann, en hann kemur að vörmu spori.) Já, það er ansi erfitt að eiga orðastað hér við hv. stjórnarliða. Þeir eru ókyrrir í sætunum og það er kannski ósköp eðlilegt miðað við efni máls sem hér er til umræðu. En það var hetjusvipur á forustumönnum stjórnarflokkanna þegar þeir voru að kynna þennan króga á blaðamannafundi líklega þann 4. eða 5. des. sl. og þeir báru sig vel. Formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., sem enn er fjarri góðu gamni, lýsti því sérstaklega yfir samkvæmt heimildum í stjórnarmálgögnum að það gengi ekki hnífurinn á milli stjórnarliða í þessu máli. Það er m.a. þess vegna sem ég vil hafa hv. 10. þm. Reykv. hér nærri. — Ég hlýt að hinkra aðeins, virðulegur forseti, rétt á meðan.

Þetta er erfitt, virðulegur forseti. Það er ekki aðeins að næturstundirnar séu þungbærar fyrir hv. stjórnarliða gagnvart störfum hér á Alþingi, þeim veitist erfitt að sækja þingfundi, heldur um hádaginn. Um hádaginn er ekki einu sinni hægt að eiga hér orðastað við hv. stjórnarliða með eðlilegum hætti! Ráðherrarnir hlaupnir út fyrr en varir þegar beint er orðum til þeirra og stjórnarliðar sem tekið hafa þátt í umræðum um þetta mál hlaupa á dyr um það leyti sem vikið er á þá orði. Hvers konar þinghald er þetta?

Virðulegur forseti. Ég heyrði hér mál hæstv. utanrrh. úr hliðarherbergi, (Forseti: Ég vil benda á það að nú er hv. 10. þm. Reykv. genginn í salinn.) sem fullvissar að hann hlusti vel og nú er kominn hingað hv. 10. þm. Reykv. sem tók þátt í umræðunni hér áður. Þá gefst færi á eftir nokkurt hlé og bið að beina til hans orðum og þeirra virðulegra þm. Framsfl., hæstv. utanrrh. og hans.

Hv. 10. þm. Reykv. kom að því í ræðu sinni 22. des., fyrr í þessari umræðu, að það hefðu verið þungar áhyggjur í þingflokki Framsfl. í sambandi við þetta mál. Það hefðu verið þungar áhyggjur, sérstaklega í sambandi við fiskinn. Sérstaklega í sambandi við söluskatt á fisk. En áhyggjurnar voru nú ekki meiri en það að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., gaf um það yfirlýsingu á blaðamannafundi, með orðum Morgunblaðsins þann 5. des. sl., með leyfi virðulegs forseta:

„Steingrímur Hermannsson utanríkisráðherra sagðist vilja leggja á það verulega áherslu að full samstaða væri á milli stjórnarflokkanna um þessi mál, en enginn vafi léki á að hægt væri að finna að ýmsum atriðum þegar svona mikilvægar breytingar væru gerðar.“

Þetta eru orð hæstv, utanrrh. Þarna er hann svona að klappa á kollinn á samþm. sínum í Framsfl., mönnum sem leyfist að finna að ýmsum atriðum þegar svona mikilvægar breytingar eru gerðar, en tekur af skarið: „Það er full og óskoruð samstaða.“ En hv. þm. Framsfl. leyfist að koma hér upp í stólinn eftir á — eftir að hæstv. forsrh. hefur gefið út yfirlýsingar um að hann sé hlaupinn frá söluskatti á fisk — og lýsa því yfir svona eftir á: Jú, það voru þungar áhyggjur í þingflokki Framsfl. yfir þessu.

Við hæstv. utanrrh. vil ég segja að það kom fram í máli hv. 10. þm. Reykv., þá var hæstv. utanrrh. utan þings, að hann hefði einnig áhyggjur vegna brauðsins. Hann hefði ekki bara áhyggjur af fiskinum, heldur líka af brauðinu. Og nú vonaði hann að svo væri hægt að stilla málum að brauðið fylgdi á eftir og það yrði náð fram breytingum á frv. í þá átt að söluskattur yrði endurgreiddur eða felldur niður af brauði. Nú spyr ég hæstv. fjmrh. Hvar er hann? Hvar er hæstv. fjmrh.? (Gripið fram í: Hann er staddur í símanum.) Já, það er eins og fyrr að það væri best að hafa síma hér uppi í ræðustólnum til að komast í samband. Hvað segir hæstv. fjmrh. um áhyggjur Framsfl. út af brauðinu, söluskatti af brauði og hógværum óskum frá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni um að tekið verði upp hliðstætt fyrirkomulag varðandi endurgreiðslu á söluskatti á brauði eins og tekið hefur verið upp að frumkvæði forsrh. að ég hygg varðandi fiskinn og kannski vegna þess að ýmsir hafa viðrað áhyggjur út af söluskatti á nauðþurftum fólks? Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að bregðast við í sambandi við brauðið og hvað ætlar hv. 10. þm. Reykv. að gera ef ekki verður orðið við óskum hans og fleiri sem hafa áhyggjur í þingflokki Framsfl. út af þessum matarsköttum? Ætlar hv. 10. þm. Reykv. þá að bregðast við með viðlíka hætti eins og Guðrún Jónsdóttir í sögunni af brauðinu dýra? Ég spyr. Hv. 10. þm. Reykv. er vel að sér í bókum að ég hygg og kannast við söguna af brauðinu dýra og man eftir henni Guðrúnu Jónsdóttur sem gekk um Mosfellsheiðina í eina þrjá sólarhringa í villu með brauð frá Mosfelli án þess að snerta við því þó að hungrið syrfi að. Hún var spurð að því, svo að ég leyfi mér nú aðeins að staðfæra þessi ummæli, virðulegur forseti: „Getur maður aldrei orðið of húsbóndahollur?" Konan spyr á móti: „Getur nokkur nokkurntíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér? Varstu samt ekki fegin að vera til þegar þú sást sólina aftur, Guðrún mín? Konan sagði að víst þakkaði maður fyrir að fá að halda tórunni; en maður þakkaði líka fyrir að fá að losna við hana. Langömmu minni gekk feikn illa að deyja, sagði hún. Á endanum varð að hvolfa yfir hana potti.“ (Gripið fram í.)

Hvernig skyldu lyktirnar verða í þingflokki Framsfl. ef hæstv. fjmrh. verður ekki við hógværum óskum þeirra um að lækka verðið á brauði, endurgreiða söluskattinn á brauði með viðlíka hætti og í sambandi við fiskinn? Ætlar hv. 10. þm. Reykv. bara að una því að hæstv. fjmrh. hvolfi yfir hann potti og sagan búin með því? Ég spyr. Það verður fróðlegt að sjá hverjar verða lyktir þessa máls á stjórnarheimilinu. En virðulegur forseti. Svo að vikið sé frá þessum aðstæðum á ríkisstjórnarheimilinu og hjá stjórnarliðum í sambandi við meðferð þessa máls hlýt ég að vekja athygli á því að það eru ekki aðeins þær skattaálögur sem ríkisstjórnin er nú að hlaða á landsmenn í formi matarskatta sem valda okkur áhyggjum þegar við erum að ræða um tekjuöflun í ríkissjóð hér á Alþingi og breytingar á tekjuöflunarkerfinu eins og það er kallað. Við hljótum að hafa áhyggjur af þeim fréttum sem við heyrum og lesum annan hvern dag um hækkanir á opinberri þjónustu sem ríkisstjórnin stendur fyrir, hækkanir á opinberri þjónustu sem leggjast á landslýðinn af ekki meira réttlæti en matarskattarnir eins og þeir koma niður á þeim sem þurfa að brauðfæða marga í fjölskyldu.

Hvað ætli sé t.d. að gerast í sambandi við verðlagningu á orku í landinu? Nokkuð hefur verið rætt hér á Alþingi, í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, um þær álögur sem þar dynja á landsfólkinu, hækkanir sem skipta tugum prósenta þar sem landsmönnum er mismunað með grófum hætti og á landsbyggðina sérstaklega lagður aukinn þungi í gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu eins og orku sem ég gat um í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og færði fram dæmi um það hvernig þau mál hafa þróast að undanförnu.

Við erum að lesa um það í dag og fréttum af því í gær að hæstv. heilbrrh. hefði nýlega komið frá sér reglugerð um breytingar á reglugerðum um greiðslu sjúkratrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þessa reglugerð gefur hæstv. heilbrrh. út 9. des. 1987 og hún felur í sér auknar álögur á almenning, þá sem leita þurfa til læknis eða fá aðhlynningu, ekki svo skiptir prósentum í einni tölu, heldur tugum prósenta, lyfjakostnaður, greiðslur til lækna, hækkanir um 40%, og kostnaður á lyfjum mjög aukinn, kostnaður vegna sjúkraflutninga um 25%, svo að gripin séu niður dæmi sem afleiðingar af þessari reglugerðarbreytingu hæstv. heilbr.- og trmrh., og ferðakostnaður sjúklinga innan lands hækkar um 27% vegna breytinga á reglum samkvæmt ákvörðun hæstv. heilbrrh. Þeir taka nefnilega þátt í því alveg hringinn í kringum borðið, ríkisstjórnarborðið, þessir hæstv. ráðherrar, að þyngja álögurnar. Það er ekki bara hæstv. fjmrh. sem er þar á ferðinni, heldur fulltrúar allra stjórnaraðila þó að mest fari þar fyrir fjmrh. í þeim efnum.

Ég hefði ástæðu til þess að ræða við hæstv. iðnrh. um hækkunina á orkunni betur en tækifæri var til hér við afgreiðslu fjárlaga í gær og þar sem hæstv. iðnrh. reiddi fram tölur, sem er ástæða til að taka upp við hann nánar, og vildi telja fólki trú um að eina breytingin á húshitunarkostnaðinum með rafmagni væri sem næmi 4,8% þegar hann er að lækka niðurgreiðsluhlutfallið í sambandi við orkuna svo nemur háum upphæðum. Ég held að rétt sé þó að hæstv. iðnrh. sé ekki hér viðstaddur — hann var þó hér hluta úr morgni sá hæstv. ráðherra, það verður að geta þess sem vel er gert á stjórnarheimilinu, hann var einn af fáum vökumönnum hér í þinghúsinu í nótt. (Forseti: Það skal upplýst að hann er hér í húsinu.) Hann er hér í húsinu, já. Þá sakaði auðvitað ekki að hæstv. ráðherra væri hér viðstaddur.

Mig langar til að nefna í sambandi við hækkanirnar á raforkunni að samkvæmt áætlun Rafmagnsveitna ríkisins telur sú stofnun að vegna samdráttar í niðurgreiðslum til þessa þáttar þurfi að hækka orkukostnað á kwst. úr 1,34 kr. í 1,87 kr. eða sem nemur 40%. Svo kemur hæstv. ráðherra hér við afgreiðslu fjárlaga og segir: Þetta er bara rugl, þetta eru bara 4,8%. Þetta er stofnun undir hans veldissprota, Rafmagnsveitur ríkisins, sem leggur þetta hér fyrir og tölulega sé ég ekki að hrakinn verði nokkur skapaður hlutur úr þeim upplýsingum sem þar komu fram svo að það er sannarlega kynlegt, yfirklórið hjá hæstv. ráðherrum í sambandi við þessi efni.

Herra forseti. Í sambandi við frv. um söluskatt eru þar sannarlega mörg atriði sem er þörf á að ræða, en ég ætla ekki, vegna þess að við ætlum að reyna að hafa hér skaplegan þingfund í dag eftir því sem hæstv. forseti hefur upplýst og samkomulag varð um hér undir morgun, við rismál, að fara út í öll þau mörgu atriði sem ég þyrfti að gera athugasemdir við varðandi frv. Þar nefni ég aðeins fátt á þessu stigi, en kostur gefst á að ræða þessi mál ítarlega við 2. umr. málsins eftir að nefnd hefur um það fjallað.

Ég bendi alveg sérstaklega á, fyrir utan matarskattinn sem er auðvitað stóra málið í þessu samhengi, ýmis atriði sem snerta breikkun á þessum gjaldstofni og vil taka undir með þeim sem hafa áður í umræðunni vakið t.d. athygli á því hvernig bókaútgáfa í landinu kemur út í sambandi við þær kerfisbreytingar sem eru í gangi. Ég tel að það hafi komið mjög vel fram í máli hv. 10. þm. Reykn., Kristínar Halldórsdóttur hvernig farið er með bókaútgáfu í landinu í sambandi við þessar breytingar og undir það var tekið af hv. þm. Ragnari Arnalds, í máli hans fyrr við umræðuna. Ég tel að fyrir utan matarskattana séu þættir, sem snúa að menningu í landinu og sem snúa að heilbrigði í landinu, heilsurækt og slíkum þáttum, atriði sem ekki er viðunandi að séu knúin hér í gegn í sambandi við þessa kerfisbreytingu. Þar er staðið að málum með svo fráleitum hætti að við hljótum ekki aðeins að vekja athygli á því heldur að gera kröfur til þeirra sem eru að reyna að koma þessum málum hér í gegnum þingið að það verði tekið tillit til rökstuddra ábendinga og tillagna um breytingar af hálfu stjórnarandstöðunnar sem fá stuðning hjá svona einum og einum úr stjórnarliðinu sem kemur hér upp í ræðustól í sambandi við umræðu um þessi mál.

Hv. 10. þm. Reykn. vitnaði í gagnmerka grein sem Ólafur Ragnarsson skrifaði í Morgunblaðið einmitt um söluskatt á bækur og það ósamræmi sem gætir í því að bókaútgáfa er ekki undanþegin með sama hætti og gegnir um innlend dagblöð og hliðstæð blöð og tímarit skv. 21. tölul. 3. gr., en þar eru þessi atriði með öðru undanþegin söluskatti en á bækurnar skal hann leggjast. Þetta er auðvitað hin mesta óhæfa og í rauninni stangast það algerlega á við þau ummæli sem stundum má heyra frá valdamönnum hér í ræðustól í sambandi við menningarstarfsemi í landinu. Sama gildir um heilsuræktina og það sem snýr að slíku. Ósamræmið í þeim efnum blasir við og það var vel á því máli tekið af hv. þm. Ragnari Arnalds í ræðu hans hér og get ég vísað til hans ábendinga þar að lútandi, svo og í sambandi við innlendar kvikmyndasýningar og fleira sem snýr að menningarmálunum.

Mig langar hins vegar, herra forseti, til að vekja á því sérstaka athygli að þegar hæstv. fjmrh. mælir fyrir þessum málum, hann sér ekki alltaf ástæðu til að koma inn í umræður, ekki mikið, en hann hefur ekkert farið dult með það að hér sé aðeins um áfanga í hans stóra kraftaverki að ræða. Næsti áfangi, þ.e. þriðji áfangi ef ég man röðina rétt — fyrsti áfangi var í sumar þegar settur var á 10% söluskatturinn og við erum hér stödd líklega í öðrum áfanga þessa kraftaverks hæstv. fjmrh. — á svo að vera upptaka virðisaukaskatts að ári liðnu. Og það er sko ekkert farið dult með það af hæstv. ráðherra að með þeirri fullkomnun sköpunarverksins sem hann telur að felist í upptöku virðisaukaskatts verði nú hægt að láta af þessum bannsettu undanþágum sem enn er þó að finna í sambandi við söluskattinn, jafnvel í sambandi við matvæli og niðurgreiðslur og annað þess háttar. Þá verði hægt að draga í land varðandi þessa dellu sem samráðherrar hans sumpart, svo að ekki sé nú talað um stjórnarandstöðuna, hafa knúið hann til að taka inn í undanþáguheimildir í sambandi við söluskattinn. Hæstv. fjmrh. fer ekkert dult með þetta. Hann fer ekki heldur dult með, hæstv. ráðherra, fyrirætlanir sínar í sambandi við endurgreiðslur á landbúnaðarafurðum, í sambandi við niðurgreiðslurnar sem svo eru kallaðar, sem eru auðvitað ekkert annað en endurgreiðslur á hluta af þessum söluskatti sem verið er að leggja á matvælin, að þetta muni ekki vara mjög lengi, það muni renna upp betri tíð eftir formúlum Alþfl. í þeim efnum að auðvitað eigi þetta jafnt yfir allt að ganga í sambandi við álögurnar, í sambandi við skattlagninguna, jafnaðarmennskan eins og hún er túlkuð á því heimili fái að blómstra með upptöku virðisaukaskatts. Ég nefni það hér, vegna þess að menn eru að reyna að skreyta sig með 1250 millj. kr. í svokallaðar niðurgreiðslur, að það liggja nú ekki fyrir miklar tryggingar um það að þessari endurgreiðslu á álögðum söluskatti verði haldið þannig að því megi treysta, enda sé ég að hæstv. landbrh. klórar sér bak við eyrað hér í hliðarherbergjum þegar hann heyrir á þessi mál minnst. Ég hygg að hann hafi nú áhyggjur eins og fleiri í sambandi við fullkomnun sköpunarverksins sem fram undan er hjá hæstv. fjmrh. í sambandi við upptöku virðisaukaskatts og telji það ekki gulltryggt að það verði bætt í niðurgreiðslurnar þegar næstu hækkanir koma á afurðaverði og framleiðendur landbúnaðarafurða þurfa að taka sitt í þeirri miklu verðbólgu sem er í gangi í landinu.

Hefur hæstv. landbrh. — ég spyr hann að því af því að ég hygg að hann heyri mál mitt — tryggingu fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að niðurgreiðsluhlutfallið varðandi innlendu matvöruna haldist þannig að ekki verði úr því hlutfalli dregið? Hefur hann loforð hæstv. fjmrh. fyrir því að við það verði staðið? Ég spyr hæstv. landbrh. og vona að orð mín nái eyrum hans eða þeim verði komið áleiðis af starfsbræðrum hans í ríkisstjórninni sem einhverjir eru hér í hliðarsölum, en hér sitja aðeins tveir virðulegir og hæstv. ráðherrar Alþfl. sem ekki eru beinir aðilar að þessu frv. inni í sínum sætum.

Ég held að um þennan þátt sem ég nefndi um verðið á matvælunum verði spurt: Hver verður þróunin áfram að því leyti? Kemur breyting eins og hv. 10. þm. Reykv. var að boða í sambandi við brauðið dýra? Kemur slík breyting af hálfu hæstv. forsrh. eða fyrir milligöngu hans á milli fagráðherra í ríkisstjórninni? Kannski hæstv. forsrh. taki sig til eins og með söluskattinn á fiski og gangi á milli í þessum efnum og tryggi að létt verði áhyggjum af þm. í þingflokki Framsfl. varðandi brauðið dýra. Ég spyr hæstv. forsrh. að því. Megum við vænta þess að núna fyrir áramótin gleðji hann ekki aðeins hv. 10. þm. Reykv. heldur landslýð allan með yfirlýsingu um það að tekin verði upp endurgreiðsla á álögðum og væntanlegum söluskatti fjmrh. á brauð? Það eru þungar áhyggjur hjá nokkrum mönnum í stjórnarliðinu í sambandi við brauðið dýra. Og við bíðum eftir svari frá hæstv. forsrh. eða ætlar hann bara að hvolfa potti yfir höfuð hv. 10. þm. Reykv. og annarra sem leyfa sér að æmta í ræðustól í stjórnarliðinu?

Já, virðulegur forseti. Þetta mál er ekki útrætt og ég hef aðeins minnst á örfáa þætti sem varða framlagningu þessa máls og efnisþætti þessa máls og beint fsp. hér til þeirra ráðherra sem hlut eiga að þessum málum. Auðvitað snertir þetta ríkisstjórnina í heild sinni og ekki síst hæstv. forsrh. sem hefur einstöku sinnum látið til sín heyra í þessum efnum en við höfum saknað eins og fleiri hæstv. ráðherra í sambandi við umræður að undanförnu um þau stórmál sem ríkisstjórnin er að reyna að knýja hér fram í tímaleysi milli hátíða.

Ég vil gefa hæstv. ráðherrum hér við lok máls míns að þessu sinni það heilræði að ég teldi skynsamlegt að þeir reyndu að rækja þingskyldur sínar betur en að undanförnu, þeir sæju sóma sinn í því að taka þátt í umræðum um þessi stóru mal í staðinn fyrir að verma ból sín eins og gerðist sl. nótt og þeir ættu aðeins að draga í land í yfirlýsingum í fjölmiðlum og árásum utan þingsala á stjórnarandstöðuna sem er við mjög óvenjulegar aðstæður að reyna að greiða fyrir gangi þingmála og að mál þokist fram með eðlilegum hætti og fái lágmarksskoðun og þinglega meðferð. Þeir ættu að sjá sóma sinn í því og víti til varnaðar eru þar m.a. ummæli hæstv. fjmrh. í Ríkisútvarpinu/sjónvarpi í gærkvöldi.