29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3349 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

196. mál, söluskattur

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Frv. til l. um breytingu á lögum nr. 10/1960, um söluskatt, verður sennilega alla tíð sá blettur sem mun fylgja þeirri ríkisstjórn sem við völd situr og þá einkum og sér í lagi vegna hins fyrirhugaða matarskatts.

Hv. síðasti ræðumaður nuddaði sjálfstæðismönnum upp úr sinni stefnu. Ég get vel tekið undir hana alla og væri kannski rétt að minna þá á kjörorð þeirra í síðustu kosningabaráttu, að vera á réttri leið. Það má segja að það sé á réttri leið að hér heyrist ekki hósti né stuna frá sjálfstæðismönnum og hefur ekki heyrst í allt haust og kannski enn betra að þeir varla sjást heldur. Ég verð að taka undir að nú loksins hljóta þeir að vera komnir á rétta leið.

Sú skattpíning sem hér fer fram nánast daglega á allan almenning og láglaunafólk í landinu er gjörsamlega óþolandi. Matarskatturinn ríður þar hæst. Hann leggst þyngst á lágtekjufólk, barnmargar fjölskyldur, sjúklinga og aðra er minna mega sín. Eftir því sem laun eru lægri verður skattbyrðin þyngri. Þetta get ég ekki séð að samræmist jafnaðarstefnu á einn né annan hátt. Hér er talað á móti því að hægt sé að hafa fleiri en eitt prósentustig í söluskatti. Síðasti ræðumaður kom reyndar ágætlega inn á að það er, eins og gjarnan er sagt, tómt rugl. Það er ekkert einfaldara en að hafa fleira en eitt, fleira en tvö og jafnvel þrjú, fjögur stig eins og sýnir sig í öðrum löndum í kringum okkur. Þau rök eru því marklaus, enda koma þau reyndar beint úr herbúðum Félags ísl. iðnrekenda sem kom því inn í kollinn á hæstv. ríkisstjórn að verslunarmönnum í landinu væri ekki treystandi til að lækka prósentu sína úr 25 niður í 22% hvað þá að hafa tvö prósentustig.

Reyndar kemur forseti ASÍ inn á þetta mál mjög vel í ágætum pistli sem hann kallar að vera kaþólskari en páfinn. Ég efast um að hv. fjmrh. hafi lesið hann. Ég ætla að leyfa mér að lesa hann fyrir hann því þar koma fram fullgild rök fyrir því að fleiri en eitt stig gildi í virðisaukaskattskerfi. Með leyfi forseta hljóðar þetta svona:

„Virðisaukaskatturinn mun vera frönsk uppfynding og í dag búa öll ríki Efnahagsbandalagsins og ýmis fleiri lönd við það kerfi. Í umræðunum um virðisaukaskattinn hér á landi er því haldið fram að útilokað sé að hafa fleiri en eitt skattstig í slíku kerfi.

Matarskatturinn og samræming í eina skattprósentu sé því óhjákvæmileg aðgerð. Það merkilega er að ríki Efnahagsbandalagsins virðast ekkert vita um þessa nauðsyn á einni prósentu. Danir búa einir allra landa Efnahagsbandalagsins við eina prósentu. Allir aðrir eru með minnst tvö skattstig, flestir fleiri, og í þeim tillögum sem framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins lagði fram nú í haust um samræmdan virðisaukaskatt er aldeilis ekki miðað við eina skattprósentu. Þar er þvert á móti stefnt að tveimur skattprósentum. Virðisaukaskattur á nauðsynjum verði á bilinu 4–9% og virðisaukaskattur á öðrum vörum og þjónustu á bilinu 14–19% samkvæmt nánari ákvörðun viðkomandi lands.

Samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnar sem lögð var fram innan Efnahagsbandalagsins núna í haust eru skattprósentur eftirfarandi:"

Síðan kemur tafla yfir allnokkur lönd þar sem kemur fram að skattprósentunni er skipt í þrennt, í lágþrep, almenn þrep og háþrep. Innan flokksins lágþrep eru allt frá einu prósentustigi upp í fjögur prósentustig í Frakklandi, þ.e. 2,1%, 4%, 5,5% og 7%. Í almennu þrepi er víðast hvar eitt stig, frá 12% upp í 25%. Og í háþrepi frá 25% upp í 38%.

„Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að tvö lönd, Írland og Bretland, eru með stóra hluta nauðsynja alveg undanþegna virðisaukaskatti. Hin löndin öll nema Danmörk leggja hins vegar aðeins lágan skatt á nauðsynjar eins og taflan sýnir, almennt innan við helming af þeim skatti sem leggst á aðrar vörur og þjónustu. Efnahagsbandalagslöndin hafa þannig öll nema Danmörk valið að hafa mismunandi skattprósentu. Skattkerfinu er ætlað að taka mið af aðstöðu fólks þannig að lágtekjufólk sem notar stóran hluta tekna sinna í kaup á nauðsynjum borgi minna í skatt en hátekjufólk. Efnahagsbandalagið stefnir nú að samræmdu kerfi og lágum skattstiga, 4–9%, fyrir nauðsynjar og almennum skattstiga, 14–19%, fyrir aðrar vörur og þjónustu. Þær tillögur sem nú eru í meðferð í Efnahagsbandalaginu gera ráð fyrir því að eftirtaldir liðir verði með lægri skattprósentunni: matvörur, drykkjarvörur, þó ekki áfengir drykkir, orka til upphitunar og lýsingar, vatn. lyf, bækur, blöð og tímarit og farþegaflutningar.

Það er áætlað að lægri skattprósentan muni falla á 1/3 af heildarstofni virðisaukaskattsins og almenna skattprósentan komi á 2/3 skattstofnsins. Rétt er að benda á að framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins mælir eindregið með því að lægra skattþrepið verði frekar sett nær 4% en 9%.

Allmörg Efnahagsbandalagslöndin eru með sérstaka háa virðisaukaskattsprósentu á útvöldum vörum, lúxusvörum. Einnig þannig er virðisaukaskattskerfið notað til að jafna afkomu fólks. Háa skattstigið nær til innan við 10% skattstofnsins og er það rökstuðningur framkvæmdastjórnarinnar fyrir því að þær tillögur sem hún hefur lagt fram gera ekki ráð fyrir þremur þrepum, aðeins tveimur, lágþrepum og almennu þrepi.

Það er einföld staðreynd að samræming innan Efnahagsbandalagsins stefnir ekki að einni virðisaukaskattsprósentu. Danir mótmæla þeim áformum í dag, en e.t.v. ekki fyrst og fremst vegna þess að skattprósenturnar eiga að vera tvær heldur vegna þess að tillögurnar gera ráð fyrir því að 1/3 skattstofnsins skattleggist með 4–9% og 2/3 með 14–19%. Danir skattleggja allt í dag með 22% og sjá því ekki hvernig ríkissjóðurinn danski muni komast af ef af samræmingu verður því samræming mundi leiða til um þriðjungs lækkunar tekna danska ríkissjóðsins af virðisaukaskatti. Sá vandi yfirskyggir væntanlega andstöðu þeirra við tvö þrep í skattinum. Tvö þrep eru því nánast gefin niðurstaða í samræmingu Efnahagsbandalagsins. Á sama tíma ætlum við á Íslandi að halda því fram að virðisaukaskattur verði að vera í einu þrepi, ein prósenta á allt. Þeir sem reynslu hafa af virðisaukaskattinum vilja ekki fara þá leið nema e.t.v. Danir. Við sem erum að taka trúna skulum vera kaþólskari en páfinn.

Það er talið að verði rúmlega 20% söluskattur lagður á alla matvöru eins og ríkisstjórnin áformar muni það hækka framfærsluvísitöluna um 3,5% að meðaltali og um 5% hjá lágtekjufólki. Gagnráðstafanir munu draga úr þessari hækkun, en enn liggur ekki fyrir hverjar þær yrðu. Ljóst er að matarskatturinn kæmi þyngst niður á lágtekjufólki og ólíklegt er að niðurgreiðslum yrði haldið áfram til lengdar. Aðrar gagnaðgerðir eru einnig ótryggar. Matarskatturinn kann að vera til einföldunar en hann er augljóslega óréttlátur. Eins og hér hefur verið dregið fram er það undantekning í Efnahagsbandalagslöndum að sama skattprósenta sé lögð á allt, enda flestir sammála um að söluskattssvindlið sé einkum á þjónustugreinum ýmsum en ekki í matvörunni.“ — Svo mörg voru þau orð.

Herra forseti. Á síðasta þingi, hinu 109., fóru fram umræður um virðisaukaskatt. Þar segir hæstv. núverandi fjmrh. ýmislegt sem stangast á við þá gullvægu setningu sem hann segir í fjárlagaræðu sinni þann 4. nóv. Þar segir hann, með leyfi forseta: „Menn verða að hafa pólitískt þrek til að vera sjálfum sér samkvæmir.“

Við lestur virðisaukaskattsumræðunnar á síðasta þingi stenst þessi setning engan veginn. En það er náttúrlega ekkert nýtt. Þetta höfum við séð í nánast hverju málinu á fætur öðru og nægir að minnast á íþróttamálin. En meira til skemmtunar en annað væri þess virði að glugga aðeins í nokkur af gullkornum hæstv. fjmrh. frá því í fyrra. Hann segir m.a. inni í miðri ræðu hér:

„Í því efni bendi ég sérstaklega á það að það eru augljós rök fyrir því að endurskoða saman lög um tekju- og eignarskatt og virðisaukaskatt vegna þess að það mun ráða allnokkru um það hversu langt við viljum ganga í að aflétta tekjuskatti af launum, hvort ríkisvaldið bætir sér upp tekjumissi sinn við það með því að halda í allt of háa söluskatts- eða virðisaukaprósentu eða ekki.“— Hver er hún í dag? Hver verður virðisaukaskatturinn næsta ár? Hann verður ekki undir 25%.

Seinna segir hæstv. ráðherra: „Ef ætlunin er að reyna að ná einhverju samkomulagi um upptöku virðisaukaskatts verður ein meginforsendan að vera sú, þegar menn taka upp virðisaukaskatt og eru þar með að útrýma undanþágum og víkka út skattskyldusviðið, að skattálagningarprósentan lækki mjög verulega.“ — Ég minni enn á hver hún er í dag.

„Þetta frv. gerir ráð fyrir því að þurfa að taka 20,9% í virðisaukaskatt þrátt fyrir víkkun skattsviðsins og afnám undanþága til þess að halda óbreyttum tekjum og því næst er gert ráð fyrir því að auka tekjur ríkissjóðs mjög verulega, á þriðja milljarð, með því að halda skattprósentunni uppi í 24% og þessum hálfa þriðja milljarði á síðan að verja til niðurgreiðslna og annarra tekjujafnandi aðgerða. Ef ekki er hægt að ná betri árangri en þetta við upptöku virðisaukaskatts spyr maður sjálfan sig: Þrátt fyrir þær fræðilegu röksemdir sem beita má virðisaukaskatti til stuðnings umfram núverandi söluskattskerfi duga þær ekki ef við vegum og metum saman annars vegar þær fræðilegu röksemdir um það að virðisaukaskattur á að vera hlutlaus gagnvart atvinnurekstri, virðisaukaskattur á að vera öruggari í innheimtu þrátt fyrir allt. Þær duga ekki út af fyrir sig til þess að vega upp á móti þeim alvarlegu göllum sem í því felast að skattprósentan er svo há. Það eitt að skattprósenta á neysluskatta er svona há hvetur nefnilega mjög eindregið til skattundandráttar.“ — Og enn minni ég á að skattprósentan í dag er 25%, í fyrra var hún hjá hæstv. fjmrh. allt of há þegar hún var ætluð 24%. Og þar tala menn sérstaklega um skattprósentu á neysluskatta.

Og enn segir hann: „Við leggjum þess vegna megináherslu á það að virðisaukaskattprósentan, sem hér er lagt til að tekin verði upp, er allt of há.“ — Enn einu sinni.

Síðar í ræðunni segir hæstv. fjmrh.: „Ég trúi því ósköp einfaldlega ekki að þessar aðgerðir, útvíkkun söluskattssviðsins, afnám undanþága, bætt innheimta og hert eftirlit, leiði ekki til meiri tekjuauka fyrir ríkissjóð í virðisaukaskattskerfi en hér er gert ráð fyrir. Af hverju segi ég þetta? Með vísan til þeirra upplýsinga sem fjmrn. hefur áður lagt fram sem svar við fyrirspurnum mínum um tekjuauka ríkissjóðs við afnám á undanþágum í óbreyttu kerfi eru þær rök fyrir því að unnt sé að lækka álagningarprósentuna í virðisaukaskattkerfi til mikilla muna meira en hér er gert ráð fyrir. Og það er mjög þýðingarmikið atriði. Það er beinlínis lykilatriði. Það nær ekki nokkurri átt, ef við ætlum að gera samtímis breytingar á tekjuskattskerfinu og neysluskattakerfinu, að ganga út frá því til frambúðar að við búum við neysluskattastig á bilinu 20–30%. Við erum hér að tala um hæsta virðisaukaskattshlutfall í heimi.“ Takk fyrir.

Við erum ekki til viðræðu um að taka upp virðisaukaskatt sem er svona hrikalega hár, hæstv. ráðherra. Við erum ekki til viðræðu um að taka upp virðisaukaskatt sem er svo hrikalega hár. Hvað hefur breyst?

Það er ýmislegt fleira hægt að tína út úr þessari ágætu ræðu, sem ég hef merkt hérna sérstaklega við, en ég held ég hlífi hæstv. ráðherra við því, enda held ég að nóg sé komið.

Ráðherra talaði mikið um skilvirkt kerfi og undanþágulaust kerfi. Hann hefur gjarnan verið spurður að því hvers vegna í ósköpunum sé undanþága á afruglurum fyrir Stöð 2. Er það vegna fjölskyldutengsla? Er það vegna flokkstengsla? Það er ekkert svar að þetta sé byggðastefna. Það svar kom fram hjá hæstv. ráðherra í Ed. að undanþága söluskatts á afruglara væri liður í byggðastefnu Alþfl. Það er margt skrýtið þar. Það er alveg ljóst. (Gripið fram í.) Nei, það er alveg rétt. Það er þá margt annað sem má færa sömu rök fyrir, hv. þm.

Ég lofa guð fyrir það að hér í gær voru samþykkt fjárlög þar sem þau höfðu hækkað um 1,5 milljarða á mánuði fram að því og var það því sennilega happ fyrir þjóðina að drifið var í að samþykkja þau áður en þau hækkuðu enn meira. Það má spyrja hvort matarskatturinn hjálpi til við að draga úr því mikla söluskattssvindli sem hæstv. fjmrh. hefur margoft talað um. Ég álít að hér sé ekki ráðist á rétta aðila. Það er ekki í stórmörkuðunum eða í versluninni almennt sem söluskattssvik hafa farið fram. Það er í þjónustugreinum, í bílskúrum og kringum alls konar iðnað. Hitt er svo annað mál að það ná hallalausum fjárlögum á einu ári á kostnað almennings og láglaunafólks í landinu er hróplegt óréttlætismál. Má kannski minna á tilboð þegar ríkisstjórnin bauð stjórnarandstöðunni til samninga fyrir síðustu helgi, hygg ég að það hafi verið. Þar var siglt undir fölsku flaggi eins og mjög gjarnan hefur verið gert hér. Þar var verið að bjóða upp á samninga um atriði sem ríkisstjórnin hafði þegar ákveðið. Það var ekki boðið upp á neitt í raun og veru. Og ef má aflétta söluskatti af fiski, af hverju má þá ekki stíga skrefið til fulls?

Hér tala menn um að viðhalda kaupmætti næsta ár. Hvernig í ósköpunum er hægt að viðhalda kaupmætti þegar allt rýkur upp, skattar snarhækkaðir, komnir í nýtt Íslandsmet og sennilega fellur metið aftur á næsta ári? Matvæli hækka, allur almennur kostnaður hækkar, lyf hækka, vorum við að frétta í dag. En hvað mega launin hækka? Þau mega hækka um 7% samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar á tímum 30% verðbólgu sem sjálfsagt á eftir að fara upp líka.

Borgaraflokksmenn í hv. Ed. hafa flutt brtt. við frv. Það munum við einnig gera í Nd. á seinni stigum þessa máls.

Talandi um ríkisstjórnina er athyglisvert að kíkja á leiðara sem birtist í málgagni hæstv. fjmrh. rétt fyrir jólin. Þar segir m.a., með leyfi forseta: „Stjórnleysi ríkisstjórnarinnar og innri átök hafa leitt til þess að stjfrv. hrannast nú upp á síðustu dögum fyrir venjulegt jólaleyfi Alþingis.“

Og seinna: „Forustuleysi og seinagangur ríkisstjórnarinnar hafa valdið því að stjórnarandstaðan, sem að öllu jöfnu er bæði veik, ósamstæð og duglaus, hefur náð undirtökum á Alþingi.“ — Það er ekkert annað.

Og enn síðar í málgagni hæstv. fjmrh. og þeirra krata: „En í sjálfu sér getur ríkisstjórnin sjálfri sér um kennt að hafa ekki haft dug eða framsýni til að leggja fram stjfrv. með viðráðanlegum fyrirvara. Þessa geldur ríkisstjórnin nú, blýföst í skrúfstykki stjórnarandstöðunnar.“ — Svona talaði málgagn hæstv. fjmrh.

Fjölmörg mótmæli hafa borist víða að af landinu út af matarskattinum og er skemmst að minnast útifundar sem haldinn var á Lækjartorgi fyrir nokkrum dögum þar sem matarskattinum var mótmælt af ýmsum félögum launþegasamtakanna. Þar taka þeir dæmi um hækkanir eins og t.d., sem reyndar er nú úr gildi fallið sennilega, að ýsuflök hefðu átt að kosta 240 kr. kg en í janúar hefðu þau farið upp í 300 kr. Að vísu er búið að kippa í spottann þarna. Epli og appelsínur kosta nú 69 kr. kg, í janúar 87 kr. Brauð sem kostaði 80 kr. hækkar í 104 kr.

Síðan segir í þessu ágæta plaggi: „Samkvæmt útreikningum ASI verður kjaraskerðingin vegna aukinnar skattbyrði 30% eftir áramót“ — 30% kjaraskerðing. — „Þá er ekki reiknað með hugsanlegri gengisfellingu.

Í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 7% launahækkun á árinu á móti 30% kjaraskerðingu. Það sér hver heilvita maður að kjaraskerðingin verður minnst 23% á þann kaupmátt sem þegar hefur skerst síðan í október. Og síðan tala menn um að viðhalda kaupmætti.“

Herra forseti. Þá er fróðlegt að glugga í viðtal sem birtist í málgagninu Alþýðublaðinu, hinu víðlesna blaði. Þar er viðtal við Þráin Hallgrímsson, ritara verkalýðsmálanefndar Alþfl., þar sem hann segir, með leyfi forseta, í fyrirsögn: „Við borðum ekki varalit“ — sem eru engin ný tíðindi.

En hann segir m.a.: „Það er verið að stórhækka þá vöru sem almenningur getur ekki verið án, en um leið eru lækkaðar ýmsar munaðarvörur. Kratar í ríkisstjórn ættu að fara að hugsa sinn gang, þeir séu farnir að vinna að málum sem þeir hefðu átt að berjast gegn. Leiðin er í átt til ölmusukerfis þar sem ríkið kemur til með að þurfa að aðstoða hinn almenna launþega við að lifa af laununum.“

Síðar segir hann að „sér sýnist þó að þetta stefni allt í öfuga átt miðað við það sem búast hefði mátt við af ríkisstjórn sem jafnaðarmenn eiga aðild að. Ég skil í raun og veru ekki hvað liggur að baki fjmrh. og hans fólki, hvað þeir eru eiginlega að hugsa. Þeir tala um að þeir vilji koma á einföldun kerfisins en er ekki nauðsynlegra að almenningur fái ódýran mat heldur en að við séum með einfaldara söluskatts- og tollakerfi?"

Og enn segir ritari verkalýðsmálanefndar Alþfl. í þessu viðtali að „þessi kerfisbreyting hafi alltaf verið varin með því að hægt yrði að lækka hina almennu söluskattsprósentu en nú væri ekkert talað um það lengur. Til hvers er þá verið að þessu? Sér þætti að með þessari breytingu, þ.e. að stórhækka nauðsynjavörur en lækka um leið vörur sem hægt væri að kalla munaðarvörur, sem almenningur gæti að þarflausu sleppt, væri verið að breyta yfir í eins konar ölmusukerfi þar sem ríkisvaldið getur eða þarf að fara að skammta fólki auknar bætur svo það geti lifað af launum sínum. Þetta væri ekki beint stefnumörkun sem jafnaðarmenn ættu að setja á oddinn í ríkisstjórn. Við erum að færast í þá átt að gera fólki á lágum og meðallaunum erfiðara að lifa af þessum launum, það þurfi að fá sérstaka fyrirgreiðslu ríkisvaldsins til að geta það.“

Og áfram heldur fulltrúi Alþfl.: „Þessar breytingar leiða til enn frekari ójafnaðar í þjóðfélaginu. Við borðum ekki varalit eða tannkrem. Við lifum ekki á sápum, sjampói eða rakspíra en við lifum á fiski og við lifum á mat. Mér finnst að Jón Baldvin og ráðgjafar hans ættu að setjast niður og athuga á hvaða leið þeir eru, hvort þeir eru á leið jafnaðarstefnunnar fyrir hinn almenna launþega eða hvort þeir eru að vinna fyrir einhverja aðra aðila.“ — Svo mörg voru þau orð.

Síðan fylgir þessu ágæta viðtali listi yfir vörur sem ýmist hækka eða lækka. Það er freistandi að kíkja á það. Þar kemur fram að alifugla- og svínakjöt hækkar um 5–10%, nautakjöt hækkar um 10–15%, nýtt grænmeti hækkar um 15–25%, kaffi um 2–3%, sykur um 13%, brauð, ostar og egg um 25%, nýir ávextir um 15–25%. Á móti þessu kemur svo hvað lækkar. Hvað skyldi það nú vera? Jú, sjónvörp og myndbandstæki. Þau lækka um 11%. Það gera sjálfsagt tengslin við Stöð 2 og afruglara. Hljómflutningstæki lækka, frystikistur lækka, íþrótta- og tómstundavörur lækka, bifreiðavarahlutir lækka, blöndunartæki lækka. Ekkert af þessu kemur til neinna nota í hinni hörðu baráttu sem láglaunafólkið á í í dag til að draga fram lífið og ekki á hún eftir að léttast þegar fram líða stundir nema þá að þessi ríkisstjórn fari að hvíla sig.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mikið meira. Ég ítreka að Borgarafl. mun leggja fram brtt. við frv. sem tekur sérstaklega á matarskattinum en einnig ýmsum öðrum liðum, en það mun bíða síns tíma.