22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

3. mál, bann við geimvopnum

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. tillöguflytjandi óskaði eftir afstöðu minni sem utanrrh. til þessa máls. Mér er ljúft að skýra frá henni. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að hugmyndir um geimvarnir megi ekki verða til þess að standa í vegi fyrir fækkun kjarnorkuvopna eins og nú er að hefjast og ég er eindregið andsnúinn því að geimurinn verði gerður að vígvelli. Ég held að þetta lýsi minni afstöðu og ég þurfi ekki að hafa um það fleiri orð.

Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að um vitfirringslegar hugmyndir sé að ræða. Ef stórveldin hefðu komið sér saman um að þróa slíkar varnir sameiginlega t.d. kann að vera að þetta hefði verið vitrænt. Hins vegar og án þess að ég sé nokkur sérfræðingur í þessum málum eins og allir vita og kannski enginn okkar hér inni þykir mér rétt að greina lauslega frá viðræðum sem ég hef nýlega átt við menn sem eru fróðir um þessi mál og reyndar hlustað á slíka menn ræða um málin. Ég hygg að menn séu allir að verða sammála um að þessar hugmyndir séu óframkvæmanlegar. Það sé ekki unnt að ná þeirri vörn, sem til hefur verið ætlast, að þetta geti eingöngu dugað gegn ákveðnum hluta af langdrægum flugskeytum en ekki t.d. skammdrægum eða flugskeytum sem send eru frá kafbátum o.s.frv.

Ég vek einnig athygli á því að Sovétríkin hafa mjög dregið úr sinni opinberu andstöðu gegn þessu máli og mér er tjáð að það muni vera vegna þess að þeim sé ljóst að þetta sé óframkvæmanlegt. Ég hef það fyrir satt frá fleiri en þeim manni sem rætt var við í sjónvarpi í gær um þessi mál, frá fleiri Bandaríkjamönnum sem vel þekkja til, að þessi hugmynd sé raunar dauð hjá Bandaríkjamönnum því að þeim sé fyllilega ljóst að þetta sé óframkvæmanlegt. E.t.v. er því ekki ástæða til að hafa af þessu eins miklar áhyggjur og komu fram hjá hv. flm. þótt ég taki hins vegar undir með honum að ef slíkar áætlanir leiddu til þess, sem margir hafa óttast, að herða kjarnorkukapphlaupið, fjölga þessum drápsvopnum, er vissulega ástæða til þess að hafa af því áhyggjur. Mér er jafnframt tjáð að erfitt muni vera að greina á milli rannsókna sem beinlínis er ætlað að stuðla að þessu og rannsókna sem er ætlað að stuðla að almennum geimferðum o.s.frv. Ég hef það m.a. frá einum mjög merkum Rússa að erfitt væri að greina þar á milli. En ég nefni þetta af því að það er 1. liður í till. hv. flm.

Ég ætla ekki að ræða þetta efnislega. Ég hef skoðað þær skýrslur sem fram hafa komið og þær eru fróðlegar. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram og leyfi mér að endurtaka að ég er algerlega andsnúinn því og mun beita mér fyrir því eins og ég get að geimurinn verði ekki gerður að vígvelli né að þessar hugmyndir standi í vegi fyrir þeirri fækkun kjarnorkuvopna sem allur heimurinn bíður eftir.