29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

196. mál, söluskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér finnst ekki óeðlilegt þó að þingheimur gefi sér tíma til að ræða það mál sem hér er á dagskrá. Ég hafði og ætlað mér að taka mér í það góða stund í dag að ræða það. Nú hefur það aftur á móti gerst að svefndrukknir menn gerðu samkomulag, samkomulag fyrir hönd manna sem þeir höfðu ekki umboð fyrir, og hendir það stundum því ég veit ekki til þess að það sé heimilt að semja um það fyrir hönd eins eða neins þm. að hann falli frá því að ræða hér mál. Hins vegar þykir mér rétt, miðað við stöðu mála, að fresta því að flytja þá ræðu sem ég ætlaði að flytja hér og flytja hana við 2. umr. málsins þó óneitanlega geti það orðið til þess að ég verði ögn langorðari.