29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3368 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

196. mál, söluskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég kom áðan fram með nokkrar spurningar þar sem ég bað um orðið um þingsköp og það var ekki einungis um hvernig fundir yrðu haldnir hér á morgun eða hvort þeir yrðu sem mér finnst vera langt gengið, að það skuli vera gerðar ráðstafanir til þess að landsbyggðarmenn komist ekki heim fyrir áramótin. Ég spurði enn fremur um hvenær þing yrði kallað saman eftir áramót og ég ætlaðist til þess að fá svör við því. Fyrst og fremst vegna þess að hv. 5. þm. Reykv. hefur farið þess á leit við mig að ég fari ekki að flytja mitt mál hér og nú mun ég verða við þeirri beiðni, en ég áskil mér allan rétt til að flytja það mál, sem ég ætlaði mér að flytja í dag við 1. umr., við 2. umr. málsins.

Ég vil endurtaka spurningu mína til forseta í sambandi við framhaldið: Verður fundur á morgun, á hvaða tíma, hvenær lýkur honum og hvenær byrjar þing eftir áramót? (Forseti: Ég mun ekki hafa verið í forsetastól þegar bornar voru fram þessar spurningar áðan og vil þá svara því til að hér má búast við að verði fundur fyrir hádegi á morgun. Um það höfðum við samráð. Hvenær honum lýkur get ég ekki sagt um á þessu stigi. Það fer eftir umræðuefninu að sjálfsögðu. En það má reikna með því að það verði kallað saman þing eftir áramótin því að ég sé ekki fram á að þeim verkefnum verði lokið á morgun sem fram undan eru. Ég vona að þetta nægi hv. þm. Þetta eru þau svör sem er hægt að gefa í þessu efni.) Já, herra forseti. Hv. þm. og aðrir sem hér eru hafa heyrt mál forseta og það leynir sér ekki að hæstv. ríkisstjórn veit ekki sitt rjúkandi ráð. Það eru sem sagt dauðamerki á fleiru en fíkjutrénu á Keflavíkurflugvelli og þykir engum mikið. En vegna beiðni fyrst og fremst hv. 5. þm. Reykv. mun ég geyma meiri orðræður þar til við 2. umr.