30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3373 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

54. mál, útflutningsleyfi

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er vissulega á ferðinni mál sem kannski má með réttu segja að flokkist ekki undir stórmál ef það er skoðað einangrað og ef menn slá því föstu að þetta mál hljóti að ganga fram og setja málin þannig upp að í rauninni hafi ríkisstjórnin eða ríkisstjórnarflokkarnir valdið, þingið skipti engu máli eða mjög litlu máli, það sé svona vesen að vísu, taki smátíma, stjórnarandstaðan sé heldur leiðinleg, en að öðru leyti skipti þingið ekki miklu máli og hinir háu herrar hinna hvítu húsa ákveði þessa hluti bara fyrir sig rétt si svona.

Þetta eru auðvitað algeng viðhorf manna sem hafa gaman af því að stjórna og sérstaklega flokka sem eru búnir að sitja lengi í ríkisstjórn eins og Framsfl. sem er búinn að vera þar í rúmlega hálfan annan áratug, 16–17 ár, þannig að það kemur svo sem ekki á óvart þó að menn þar líti þannig á að þetta sé nú bara smámál og af því það hafi þurft að smyrja einhverju á Framsfl. þegar formaður hans gaf eftir forsrn. og bæta við utanrrn. útflutningsversluninni, þá séu það í raun og veru nóg rök í málinu og efnisleg umræða hér í þinginu skipti ekki nokkru einasta máli. Þetta viðhorf heyrir maður talsvert í seinni tíð. Umræðan um þingið núna síðustu sólarhringana og þinghaldið ber þessa vitni þegar maður m.a. horfir á það að verið er að ganga frá nál. hér í Nd. án þess að nefndir fái aðstöðu til að fjalla um brtt. og álit meiri hl. nefnda þannig að það er bersýnilegt að menn gera lítið með þingræðið hér. Ég tel að sú staða sem stjórnarandstaðan er í núna á þessum síðustu sólarhringum eða klukkutímum áður en þinginu lýkur fyrir áramót snúist í raun og veru fyrst og fremst um það að stjórnarandstaðan reyni af mætti að verjast yfirgangi stjórnarflokkanna, stjórngleði ráðherra, ýmist hinna nýju sem eru óvanir því að taka mikið tillit til þingsins og hafa ekki sinnt ráðherrastörfum áður, eða þá hinna gömlu sem eru orðnir svo vanir því að ráða lögum og lofum í hinum hvítu húsum að þeir telja að það skipti í raun og veru hverfandi máli hvað þingið er að gera og segja.

Ég tel þess vegna að það sé nauðsynlegt í þessari stöðu að stjórnarandstaðan geri það sem hún getur til að verja þingræðið og lýðræðið fyrir þeim yfirgangi sem ég tel að sé beitt hér þessa dagana með algjörlega óvenjulegum hætti og ég vísa á bug öllum yfirlýsingum stjórnarliðsins um málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar. Um það hefur ekki verið að ræða. Þvert á móti hefur hún lagt sig fram um að greiða fyrir málum og gerir örugglega enn. Það kann kannski að þykja sérkennilegt einhvers staðar en þegar það gerist að það berast fyrirskipanir úr dagblöðum bæjarins frá einstökum ráðherrum til þingsins um það hvað eigi að afgreiða núna fyrir áramótin, þá er ekki að undra þó að menn hrökkvi við og spyrji: Hvaða virðing er þetta fyrir þinginu sem þarna birtist? Þarna er ég ekki síst að hugsa um viðtal við hæstv. utanrrh., sem birtist í dagblaðinu Tímanum í dag, sem er afar athyglisvert frá sjónarmiði þingræðisins og ég hvet hv. þm. til að kynna sér.

Ég ætla í þessari umræðu, herra forseti, í fyrsta lagi að fara nokkuð yfir aðdraganda þessa mals varðandi breytingu á lögum um útflutningsleyfi og reyna að svara þeirri spurningu: Er reglugerð sem gefin var út í sumar af hæstv. fráfarandi forsrh. í samræmi við lögin um Stjórnarráð Íslands og þann anda sem ríkti á Alþingi þegar þau lög voru til umræðu árin 1968 og 1969?

Eins og kunnugt er ákváðu stjórnarflokkarnir að flytja í sumar utanríkisviðskiptin yfir í utanrrn., núv. stjórnarflokkar, en reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands var breytt af fráfarandi forsrh. Hann treysti m.ö.o. ekki viðtakandi forsrh. til þess að ganga sómasamlega frá þessu máli og gaf út reglugerðarbreytingu eigin hendi sem forsrh. 8. júlí 1987, sem ég hygg að sé sami dagur og stjórnin sjálf var mynduð. Sem sagt að morgni þess dags gefur hann út reglugerð um breytingu á verkaskiptingu ráðherra í ráðuneyti sem hann fer ekki með heldur annar maður samkvæmt samningum sem hæstv. núv. utanrrh. hafði gert við Sjálfstfl. og Alþfl. Í lögunum um Stjórnarráð Íslands er aftur og aftur tekið fram að það sé forsrh. sem skuli t.d. skera úr varðandi verkaskiptingu ráðherra. Og það væri auðvitað eðlilegt við þær aðstæður, og það byggðist örugglega betur á hefðum en sú leið sem valin var í sumar, að viðtakandi forsrh. — ef menn á annað borð fóru þessa leið sem ég tel vafamál að standist stjórnarráðslögin út af fyrir sig — en það hefði verið eðlilegt að viðtakandi forsrh. hefði þá gefið reglugerðina út.

Ég tel það algjörlega óeðlilegt, og það á sér engin fordæmi, að fráfarandi forsætisráðherra gefi út reglugerð um breytta verkaskiptingu ráðherra í stjórn sem er að taka við. Það eru engin dæmi til þess. Engin. Reglan var sú áður en þessi stjórnarráðslög voru sett sem nú eru í gildi að forsætisráðherrar gáfu út auglýsingu eða reglugerð um verkaskiptingu ráðherra þegar stjórn var mynduð, rétt eins og nú eru á grundvelli nýju stjórnarráðslaganna gefnar út reglugerðir eða auglýsingar um verkaskiptingu ráðherra skv. stjórnarráðslögunum. Og þær eru auðvitað gefnar út af viðtakandi forsætisráðherra en ekki fráfarandi forsætisráðherra. Eins og þessi breyting á reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands átti sér stað er það fráfarandi ráðherra sem breytir verkaskiptingu verðandi ríkisstjórnar. Þetta tel ég með öllu óeðlilegt.

Hvað er það sem þarna breytist? Það sem breytist er það að verkefni eru flutt frá viðskrn. yfir til utanrrn. með reglugerð. Ég dreg það í efa að þessi reglugerðarútgáfa sé í samræmi við lögin um Stjórnarráð Íslands eins og ég ætla að rökstyðja nánar hér á eftir, en bendi á að ef þessi reglugerðarútgáfa skapar fordæmi þá er hægt að flytja hvaða verkefni sem er hvert sem er í Stjórnarráði Íslands. Það eru í rauninni engar hömlur á því eftir að þessi reglugerð, nr. 64/1987, hefur verið gefin út. Það er hægt að flytja dómsmál yfir í menntmrn., menntamál yfir í dómsmrn. vegna þess að á bak við þessa reglugerðarútgáfu er ekkert prinsip annað en það að flokkarnir hafi komið sér saman um þessa verkaskiptingu. Ekkert annað. Og ef menn lesa lögin um Stjórnarráð Íslands, sjá hvernig einstök mál eru þar lögð til ráðuneyta og lesa reglugerðir sem gefnar eru út um þessi efni, þá er alveg ljóst að með þessu fordæmi hefur núv. ríkisstjórn sagt: Það má færa hvaða verkefni sem er í hvaða ráðuneyti sem er.

Ég get ekki sagt það að ég sé út af fyrir sig haldinn yfirleitt mikilli reglugerðartrú. Ég segi hins vegar alveg eins og er að ég tel að það séu ákveðin grundvallarlög og ákveðnar grundvallarreglur í íslenska lýðveldinu sem megi aldrei hrófla við nema með lögum og aldrei með brbl. Ég er þarna t.d. að hugsa um lögin um Stjórnarráð Íslands, ég er þarna að hugsa um lögin um Hæstarétt, ég er þarna að hugsa um þingsköp Alþingis, svo ég nefni dæmi, grundvallardæmi meginþáttanna í íslensku stjórnkerfi. Slíku má aldrei breyta með brbl. að mínu mati. Það má aldrei gerast.

En ég segi líka: Það er óeðlilegt og hættulegt fordæmi að breyta verkaskiptingu ráðherra með þeim hætti sem gert var í sumar vegna þess að það stangast á við grundvallaranda stjórnarráðslaganna eins og þau voru sett í upphafi. Og með þessu fordæmi er í raun og veru verið að lýsa því yfir að hægt sé að flytja hvaða mál sem er hvert sem er. Ég tel reyndar að í svona umræðum eins og þessari þyrfti það að vera þannig að einstakir þm. gengju til umræðna um mál óbundnir af flokknum sínum. Það er alveg óþolandi fyrir þingið að láta stilla sér upp við vegg varðandi svona grundvallaratriði eins og þetta, eins og nú er verið að gera með því að reyna að þræla þessu máli í gegnum þingið fyrir áramótin án þess að nein efnisleg eða pólitísk nauðsyn standi til þess að þetta mál verði endilega að afgreiða áður en árið 1988 gengur í garð. Það er engin nauðsyn. Engin. Breytir ekki nokkrum hlut þó að þetta mál sé látið liggja fram á þrettándann eða fram í miðjan janúar eða hvað það nú er.

Víkjum þá aðeins að stjórnarráðslögunum og undirbúningnum að þeim. Þau voru tekin fyrir hér til umræðu á Alþingi fyrst 17. okt. 1968 en frv. var útbýtt 14. okt. og fyrir frv. mælti þáv. hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson. Hann gerði glögga grein fyrir málinu, skýrði m.a. frá því að undirbúningur að þessum breytingum á Stjórnarráði Íslands tók 10 ár. Af hverju ætli það hafi nú verið að það tók 10 ár að koma þessu frv. saman og leggja það hérna fyrir þing? Af hverju ætli það hafi verið nema vegna þess að menn vildu vanda sig, en það er kannski fyrirbæri sem er alveg óþekkt undir núv. ríkisstjórn, a.m.k. þessa síðustu daga, að vanda sig, vita hvað menn eru að gera, vita hvaða áhrif hlutirnir hafa sem verið er að taka fyrir. Í ræðu sinni kom hæstv. forsrh. m.a. að því hvert væri aðalefni frv., grundvallarefni þess, snúningspunktur þessara breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands. Og hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að öðru leyti er aðalefni þessa frv. um það að kveða á með lögum og fastbinda í lögum hvaða málefni skuli heyra undir hvert ráðuneyti. Það er aðalefni þessa frv.“ Og hæstv. forsrh. tekur dæmi máli sínu til rökstuðnings. Hann segir, með leyfi forseta:

„Nú er það auðvitað svo að þrátt fyrir þessa meginskiptingu er verulegur vandi á höndum að kveða á um hvernig della eigi einstökum málum á hvert ráðuneyti. Og eins og ég sagði var það aðalefni nefndarfrv. gamla að þar var tekið upp og talið rækilega hvað undir hvert ráðuneyti heyrði. Ég hafði það til athugunar eins í sumar hvort þessi háttur væri æskilegur, en að athuguðu máli sýndist mér að það væri eðlilegra að forsætisráðherra skipti málum niður á milli ráðuneyta, en þó með þeim fyrirvara, sem er berum orðum fram tekinn til þess að örugglega sé frá öllu gengið, að mál verður að heyra undir það ráðuneyti sem eðli málsins samkvæmt á með það að fara. Við skulum segja," heldur Bjarni Benediktsson áfram, „svo að við tökum einfalt dæmi, þá er það svo að samgöngumál greinast í nokkra þætti. En úr því að sérstakt samgönguráðuneyti á að vera til er eðlilegt, að bæði samgöngur á sjó, landi og í lofti og þá einnig Póstur og sími heyri undir það ráðuneyti, þannig að það væri óheimilt eftir þessari löggjöf með stjórnarúrskurði að ákveða að samgöngur á landi heyrðu t.d. undir landbúnaðarráðherra, á sjó undir sjávarútvegsmálaráðherra og Póstur og sími undir iðnaðarráðherra Að greina þannig á milli mundi ekki standast eftir þeirri leiðbeiningu sem hér er gefin og eru þannig veruleg takmörk á valdi forsætisráðherra til þess að skipta þessu.“

Ég leyfi mér að spyrja í framhaldi af þessu: Hver er sá lögspekingur í Stjórnarráði Íslands sem leyfir sér að ráðleggja ráðherrum í núv. ríkisstjórn að breyta reglugerðum á grundvelli laganna um Stjórnarráðið? Hver er sá lögspekingur sem telur sig þess umkominn að vísa á bug því sem Bjarni Benediktsson, bæði sem lögfræðingur og sem forsrh., hefur að segja þegar hann leggur málið fram og kynnir vilja löggjafans? Hvert er það lagatröll, liggur mér við að segja í fullri alvöru, sem er þess umkomið að segja: Túlkun Bjarna Benediktssonar, framsöguræða fyrir þessu máli á sínum tíma, skiptir okkur engu máli. Ég vil einnig segja: Getur það verið að þm. stjórnarliðsins, og þá alveg sérstaklega Sjálfstfl., séu tilbúnir til að láta þetta sem vind um eyru þjóta? Ég get út af fyrir sig skilið bað að í þeim sviptingum sem stjórnarmyndunarviðræður eru, þá lendi menn auðvitað í því að fallast á eitt og annað, lendi í því að ganga frá einu og öðru. En er ekki hugsanlegt að menn við betri athugun og skoðun mála vildu haga þessum hlutum öðruvísi og segja þá sem svo: Ef þið, þingið á annað borð vill breyta þessu, þá á að gera það með lögum. Þá á að afnema reglugerð nr. 74 frá 1987, leggja fram frv. um breyt. á lögum um Stjórnarráð Íslands og þannig að flytja verkefnin á milli.

Í ræðu hæstv. forsrh. á þessum tíma, Bjarna Benediktssonar, segir enn fremur um þessi mál: „Samkvæmt frv. er svo ætlast til þess að fyrirmælin í stjórnarskránni, þar sem segir að forseti skipti störfum á milli ráðherra, verði skilin með þeim fyrirvara eða með þeim takmörkunum, sem að mínu viti tvímælalaust fær staðist, að það megi ekki skipta einstökum ráðuneytum upp á milli ráðherra eins og nú er gert. Það hefur lengi tíðkast og í vaxandi mæli má segja, en er þó gamall háttur, að við stjórnarmyndanir, og ekki síst þegar um samsteypustjórn er að ræða eins og langoftast hefur verið, er einstökum ráðuneytum skipt upp á milli ólíkra ráðherra þannig að tínd eru til tiltekin málefni úr einstökum ráðuneytum og þau látin í hendur ólíkra ráðherra, bæði eftir því sem hugur þeirra stendur til og eftir því sem þykir nauðsynlegt til að skapa jafnræði eða jafnvægi á milli þeirra ólíku flokka sem taka þátt í stjórnarmyndun. Þetta er að mínu mati ákaflega óheppilegt. Og það er þetta sem lögin um Stjórnarráð Íslands áttu fyrst og fremst að breyta.“

Ég vil einnig, herra forseti, vitna í þessu sambandi í lokaorð hæstv. forsrh. Bjarna Benediktssonar í umræðum um þessi mál. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég tek það fram að hér er ekki um neitt flokkspólitískt mál að ræða og ég óska eftir sem bestri samvinnu við hv. stjórnarandstæðinga um athugun á málinu vegna þess að hér er um að gera að skapa þá skipan sem allir geti sæmilega við unað.“

Er þetta nú í rauninni í samræmi við það sem gerðist hér sl. sumar? Auðvitað er það ekki. Það er náttúrlega ekki haft samráð eða samvinna við stjórnarandstöðuna að neinu lagi í þessu efni. Náttúrlega ekki. En það er ekki tekið tillit til þess heldur að lögin um Stjórnarráð Íslands eru til endurskoðunar og hafa verið um árabil. Og það er viðurkennt hér af þáv. formanni Sjálfstfl. að þegar verið er að setja lög um Stjórnarráð Íslands þá eigi að stuðla að sem bestri samvinnu allra flokka í þinginu. Af hverju? Af því að þeir sem eru í stjórnarandstöðu í dag kunna auðvitað að verða í stjórn á morgun o.s.frv. Þess vegna er það eðlilegur hlutur. Hv. þáv. þm. Eysteinn Jónsson tók sérstaklega undir þessi atriði úr ræðu hæstv. forsrh. Bjarna Benediktssonar á sínum tíma. Hv. þáv. þm, Eysteinn Jónsson sagði í umræðunni um þetta atriði sérstaklega varðandi verkaskiptinguna:

„Fljótt á litið sýnist mér að þetta, muni líka vera til bóta því að það hefur valdið verulegum vandkvæðum að niðurstaðan hefur orðið sú í þessum samningum um samsteypustjórnir að tæta ráðuneyti í sundur.“ Þetta segir Eysteinn Jónsson, með leyfi forseta. Að tæta ráðuneyti í sundur, því þurfi að linna, þess vegna séu lögin sett. Og hvað eru menn að gera núna? Menn eru að tæta ráðuneyti í sundur.

Það var margt gott sagt í þessari umræðu 17. okt. 1968. Ég læt vera að vitna hér í mjög skýra og greinargóða ræðu eins og von er eftir Gísla Guðmundsson og ég læt vera að vitna hér í ræðu eftir Benedikt Gröndal. Ég gríp hér niður í ræðu eftir Hannibal Valdimarsson, þáv. hv. þm. Hann segir m.a. um verkaskiptinguna, með leyfi forseta:

„Málefnaskiptingin undir ráðuneytum hefur verið mjög losaraleg og á reiki og ég fullyrði á margan hátt óeðlileg. Vafalaust yrði með ráðuneytaskiptingu eins og hér er lagt til starfsskiptingin færð í horf sem miklu meira væri í samræmi við nútímaaðstæður. Ég tel því af þessum ástæðum að í meginatriðum mundi ég vera fylgismaður þessa frv. um Stjórnarráð Íslands.“

Þetta frv. fór síðan samhljóða í gegnum Nd. Alþingis. Það kom fyrir Ed. seint á þinginu og frsm. allshn. hér í hv. Ed. var Jón Þorsteinsson, þáv. þm. Alþfl. Og hann sagði þá, með leyfi hæstv. forseta, þegar hann telur upp aðalatriði þessa máls, að ráðuneytum er fjölgað úr 10 í 13 o.s.frv.:

„Annað aðalatriði þessa frv. er það að ráðuneyti má eigi setja á stofn samkvæmt frv. né leggja af nema með lögum. Er í alla staði eðlilegt að taka upp þá reglu að röskun á skipan ráðuneyta verði ekki gerð án atbeina Alþingis.“

Nú segi ég það að ekki hef ég ævinlega verið sammála Jóni Þorsteinssyni lögfræðingi. En mér finnst að hv. þm. Alþfl., aðilar að þessari stjórn, hefðu mátt eins og renna augum yfir Alþingistíðindi og umræður um þetta mál á sínum tíma. Það er ekki nema hálftíma til klukkutíma verk að gera það og það er engum manni ofraun að komast í gegnum það.

Jón Þorsteinsson flutti nokkrar brtt. við frv. í Ed. og það er athyglisvert sérstaklega að hann flytur brtt. við 16. gr. frv. og segir þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 16. gr. geri ég brtt. Það er 8. brtt. á þskj. 690, en í þessari 16. gr. frv. segir svo: „Með reglugerð forseta Íslands má skv. tillögu forsætisráðherra setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um starfsmenn ráðuneyta, starfsháttu og meðferð mála í ráðuneytum og svo um skipulag og stjórn einstakra ríkisstofnana og starfsgreina sem lög fjalla eigi um sérstaklega.“

Hjá mér er þessi grein miklu styttri og hljóðar þannig:

„Með úrskurði forseta Íslands má skv. tillögu forsætisráðherra setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. ""

Hvað er það sem hv. þm. Jón Þorsteinsson leggur til að verði tekið út? Hvað er það? Hann lætur nægja að það megi setja reglugerð um framkvæmd laga þessara, en hann sleppir hverju? Þessu: „Þar á meðal um starfsmenn ráðuneytanna, starfsháttu og meðferð mála í ráðuneytum og svo um skipulag og stjórn einstakra ríkisstofnana og starfsgreina.“

M.ö.o. leggur hann til, þingmaðurinn, að gildisrammi laganna verði þrengdur mjög verulega að því er reglugerðarheimildir til forsætisráðherra varðar. Mjög verulega. Og hv. þm. Jón Þorsteinsson segir þessu til rökstuðnings:

„Kemur hér til í fyrsta lagi sú breyting í samræmi við það sem áður var komið að setja úrskurð forseta í staðinn fyrir reglugerð og niðurlagi 16. gr. er alveg sleppt í minni brtt., en þar sagði: „Þar á meðal um starfsmenn ráðuneyta, starfsháttu og meðferð mála í ráðuneytum og svo um skipulag og stjórn einstakra ríkisstofnana og starfsgreina sem lög fjalla eigi um sérstaklega.“ Þarna væri forsætisráðherra og forseta fengið mjög mikið vald og í raun og veru er með niðurlagi þessarar greinar að mínum dómi verið að fara út fyrir efni þessa frv. og sérstaklega ef í framkvæmd yrði lagður í það víðtækur skilningur og ég tel þess vegna rétt að þetta verði fellt niður. Mig minnir nú að einhver nefndarmaður hafi þegar þetta var til umræðu komist svo að orði um niðurlag þessarar greinar að út á þessa setningu mætti raunverulega stjórna öllu landinu ef þetta væri lögfest.“ Þetta segir hv. þm. Jón Þorsteinsson.

M.ö.o. opnar tillagan fyrir mjög víðtækar reglugerðarheimildir handa forsrh. Ed. fær málið til meðferðar, formaður allshn. leggur til að þessar víðtæku reglugerðarheimildir verði felldar út úr frv. Og nú kunna menn að segja: Hér er bara á ferðinni einn þm. sem leggur þetta til. Hvað skyldi deildin hafa gert við þessa tillögu Jóns Þorsteinssonar? Hún var samþykkt með 8 atkvæðum gegn 7. Hún var samþykkt með 8 atkvæðum gegn 7 vegna þess að þingið taldi að sú reglugerðarheimild sem ráðherranum var þarna lögð til væri of víð og hæpin og stangaðist á við ákvæði laganna að öðru leyti. Ég vek athygli á því, herra forseti, að þingið samþykkir þarna brtt. sem nokkrir stjórnarliðar og nokkrir stjórnarandstæðingar styðja. Hvað segir það? Það segir okkur það að menn gengu óbundnir til þess að fjalla um þetta grundvallaratriði, stjórnarráðslögin, gengu óbundnir og ekki handjárnaðir til atkvæða um það eins og nú er og samþykktu í seinni deild verulega breytingu til að undirstrika að það er þingið en ekki einstakur ráðherra sem á að geta breytt grundvallaratriðum varðandi skipan Stjórnarráðs Íslands.

Í þessum umræðum í hv. Ed. komu fram margar brtt. frá hv. 4. þm. Reykn., Pétri Benediktssyni. Hann fagnaði því sérstaklega að það væru skýr ákvæði um það hvað ætti að heyra undir hvert ráðuneyti og varðandi það ef gamla ástandið héldi áfram, sagði þm., með leyfi forseta: „Það mundi því halda við því óþurftarástandi sem verið hefur núna um allmörg undanfarin ár að ráðuneyti hafa verið klofin oft í mjög marga hluta og sami ráðuneytisstjóri þurft að þjóna ekki aðeins tveimur herrum, sem þykir nógu erfitt, heldur þremur og jafnvel fjórum í sömu ríkisstjórninni.“

Nú geri ég ráð fyrir því að lagaspekingar núverandi ríkisstjórnar mundu segja sem svo: Hér er ekki verið að setja málið þannig upp að sami ráðuneytisstjórinn eigi að þjóna mörgum ráðherrum. En meginatriðið er það að það er í raun og veru verið að opna leið til að taka svo að segja öll verk undan ráðuneyti og ráðuneytisstjóra og flytja þau inn í eitthvert annað ráðuneyti ef pólitísk nauðsyn krefur, burtséð frá efni málsins.

Í þessum umræðum tók einnig til máls hv. þáverandi þm. Ólafur Jóhannesson og styður hann þessa grundvallarbreytingu sem gerð er á lögunum um Stjórnarráð Íslands með nákvæmlega sömu rökum og hæstv. þáverandi forsrh. Með nákvæmlega sömu rökum. Og ég get kannski endurtekið fyrri spurningu mína hér: Hvar eru þau lagatröll, hvar eru þeir lagasnillingar, lögspekingar, mér liggur við að segja nóbelsverðlaunahæfir, sem láta sig hafa það að henda í ruslakörfuna með einu handbragði áliti Bjarna Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar? Hvar skyldu þessir lagasnillingar vera? Svo mikið er víst að ég hef ekki orðið var við þá hér á hv. Alþingi í seinni tíð.

Í þessum umræðum var það rætt hvort setja ætti utanríkisviðskiptin undir utanrrn. Það var rætt. Og hæstv. þáv. forsrh., Bjarni Benediktsson, sagði um það mál sérstaklega, með leyfi forseta: „Ég vil þó taka fram að ég er honum [þ.e. Ólafi Jóhannessyni] ósammála í því efni er hann taldi að utanríkisráðuneytið og viðskiptamálaráðuneytið ætti að vera eitt og hið sama. Ég tel að slíkt sé ekki framkvæmanlegt. Hvort sem menn vilji hafa ráðuneytin mörg eða fá þá hljóti viðskiptamálaráðuneytið ætíð að fjalla um ýmis mál sem ekki með nokkru móti verða talin eðli sínu samkvæmt heyra undir utanríkisráðuneytið.“

Þetta var enn tilvitnun í Bjarna Benediktsson. Þá kem ég að afgreiðslu mála og endurtek það sem ég sagði áðan: Brtt. Jóns Þorsteinssonar var samþykkt með 8 atkvæðum gegn 7 hér í þessari deild, fer síðan aftur til Nd. og er samþykkt þar samhljóða. Eins og oft vill verða hér í þessari virðulegu deild voru þessar umræður um Stjórnarráð Íslands ekki aðeins þurrar „júrídískar“ umræður heldur líka skemmtilegar umræður og einkum og sér í lagi er gaman og fróðlegt að fylgjast með orðaskiptum þeirra bræðra, hv. 4. þm. Reykn. Péturs Benediktssonar og hæstv. forsrh. Bjarna Benediktssonar. Ég ætla aðeins að leyfa mér í þessari yfirferð að vitna í hv. þm. Pétur Benediktsson en hann flutti margar brtt. sem hæstv. forsrh. sagði að fjölluðu mest um smekksatriði. Og hæstv. forsrh. og formaður Framsfl. Ólafur Jóhannesson lögðust alveg sérstaklega gegn þessum tillögum af því að þær fjölluðu um smekksatriði. Hv. þm. Pétur Benediktsson sagði m.a.:

„Bæði hæstv. forsrh. og hv. formaður Framfl. höfðu í sínum ágætu og mjög svo samdóma ræðum í málinu við 2. umr. sérstakan ímugust á öllum smekksatriðum við afgreiðslu þessa máls og skal þó hætta á það að fara ofurlitið lengra í því efni.“ — Síðan segir hann að hann ætli að leggja til nokkrar breytingar á þessu frv. um Stjórnarráðið, smekksatriði, og m.a. ætli hann að leggja til að orðinu „mála“ verði bætt inn í heiti menntaráðuneytisins og það verði látið heita menntamálaráðuneyti, eins og það heitir í dag, en bætir við, með leyfi forseta: „Ég ætla t.d. ekki að leggja til að fjármálaráðuneytið verði kallað fjárráðuneytið enda er ég hræddur um að viss ráðherra mundi þá heimta stjórnina yfir því og það yrði deild undir landbúnaðarráðuneytinu.“

Þeir sem muna þessa tíma átta sig á því að hverju þarna er verið að víkja. Þetta nefni ég til marks um það að það er engin nýlunda að menn geri sér gaman að málum stundum hér í þessari virðulegu deild.

Hvernig væri að fá eitthvað af þessum ráðherrum hér í salinn, forseti? Þeir eru kannski að kaupa rakettur eða efna í brennu eða undirbúa sig fyrir áramótaskaupið? (HBl: Er ekki þm. fullsæmdur af þeim stjórnarliðum sem hér eru mættir í deildinni?) Vissulega og mér þykir leitt ef ég hef sært hv. 2. þm. Norðurl. e. en menn þurfa auðvitað að sinna mörgum skyldustörfum á þessum örlagaríku tímum eins og eðlilegt er, sérstaklega þegar verið er að ákveða fiskveiðistefnuna í Tímanum eins og hún leggur sig.

Þessi mál varðandi Stjórnarráðið voru tekin til meðferðar hér í þinginu eins og ég gat um, annars vegar í október og hins vegar í maí og ég ætla að nefna hér eina brtt. frá hv. þm. Pétri Benediktssyni sem var felld. Það var 2. brtt. hans á þskj. 718 við 6. gr. frv. þeirri brtt. lauk með þessum orðum: „Að öðru leyti kveður ráðherra á um skiptingu ráðuneyta í deildir.“ Þessi brtt. á þessum stað var felld við atkvæðagreiðslu með 11 atkvæðum gegn 5. Eftir stendur í lögunum þessi grein: „Ráðherra kveður á um skiptingu ráðuneytis í starfsdeildir eftir verkefnum.“ Hvað þýðir þetta? Það þýðir að viðkomandi fagráðherra getur ákveðið hvernig hann skiptir verkefnum í sínu ráðuneyti. Þegar ég fór með félmrn. gerðist það t.d. að sett var reglugerð um vinnumáladeild félmrn. og deild félmrn. um málefni fatlaðra. Hér er m.ö.o. ekki lagaheimild til þess að forsrh. skipti verkum öðruvísi innan hvers ráðuneytis fyrir sig.

Í 8. gr. stjórnarráðslaganna segir aftur á móti: „Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum reglugerðar er forseti Íslands setur samkvæmt tillögum forsætisráðherra, enda sé þess jafnan gætt að ráðuneyti lúti málefni sem eðli sínu samkvæmt eiga þar heima, sbr. 4. gr."

M.ö.o. er reglugerðarvald ráðherra með þessari gr. og umræðum um málið, nál. og grg. stórkostlega takmarkað og þingið samþykkir að fella niður málsgreinar úr 6. gr. frv. með 8 atkvæðum gegn 7 sem í raun og veru opna það svið fyrir ráðherra sem nú var notað, án þess að lögin í raun opnuðu þann möguleika eftir að Alþingi hafði tekið sína ákvörðun vorið 1969.

Ég vil, herra forseti, ljúka þessari yfirferð yfir þessi grundvallaratriði með því að minna á ný á þá ræðu sem hæstv. þáverandi forsrh. hélt og ég vitnaði í hér áðan þar sem það er afdráttarlaust tekið fram að reglugerðarvald ráðherra er mjög takmarkað eftir anda þessara laga. Mjög takmarkað. Almennt séð er það mjög takmarkað, en svo hitt, sem gerist að auki, að fráfarandi forsrh. breytir verkaskiptingu ráðherra í næstu ríkisstjórn á eftir, það er fordæmalaust. Það er algjörlega fordæmalaust. Ef þessi vinnubrögð verða áfram við lýði þá er hægt samkvæmt lagatúlkun núverandi ríkisstjórnar að flytja hvaða mál sem er hvert sem er í Stjórnarráðinu. Eða vill einhver rökstyðja eftir þessa reglugerð hvaða takmarkanir eru á því, hvað er það sem forsrh. getur í raun og veru ekki flutt eftir að þessi reglugerð var gefin út?

Ég held, herra forseti, að það sé alveg óhjákvæmilegt að bæði ráðherrar og þingmenn temji sér vissa lágmarksvirðingu fyrir ákveðnum grundvallarlögum lýðveldisins. Ég held að þegar kemur að setningu reglugerða um lög um Stjórnarráð Íslands, reglugerða á grundvelli laga um Hæstarétt eða breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, þá eigi menn að segja sem svo: Hér vöndum við okkur. Hér leggjum við okkur fram. Hér förum við í saumana á hlutunum. Hér kynnum við okkur viðhorf löggjafans og ef eitthvað, þó lítið sé, orkar tvímælis en ríkisstjórn vill engu að síður koma því fram, þá flytur hún um það frv. og lætur reyna á það hvort þingmeirihlutinn breytir lögunum en menn reyna ekki á þanþol laganna með reglugerðarútgáfu eins og þessari sem er mikið vafamál að standist lög og er örugglega ekki í samræmi við anda stjórnarráðslaganna og vilja löggjafans þegar stjórnarráðslögin voru sett.

Hér erum við, herra forseti, að ræða um stjfrv. um útflutningsleyfi o.fl. og sem 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. hef ég gefið út nál. á þskj. 456 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hl. leggur til að frumvarpi þessu verði hafnað. Til að undirstrika þá afstöðu leggur 1. minni hl. til að frumvarpinu verði breytt á þann veg að reglugerð um breytta verkaskiptingu ráðherra frá 8. júlí sl. verði afnumin og að í frumvarpinu verði kveðið á um að viðskiptaráðuneyti fari með útflutningsmálin, svo sem verið hefur, í staðinn fyrir utanríkisráðuneyti.

Fyrsti minni hl. mun gera nánari grein fyrir afstöðu sinni í framsöguræðu, en meginrök hans eru þessi:

1. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að meðferð útflutningsmála verði einfaldari í meðferð utanríkisráðuneytis en í meðferð viðskiptaráðuneytis.

2. Bent hefur verið á að frumvarpið og reglugerð forsætisráðherra frá 8. júlí sl. brjóti í bága við anda stjórnarráðslaganna í grundvallaratriðum.

3. Bent hefur verið á að flutningur utanríkisviðskipta í utanríkisráðuneytið hafi það í för með sér að útflutningsverslun og innflutningsverslun verði ekki lengur í sama ráðuneyti, en í lögunum um Stjórnarráð Íslands er byggt á þeirri meginforsendu að skyldum málum sé skipað saman í Stjórnarráðinu.

4. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að útflutningsverslun verði skilvirkari undir utanríkisráðuneytinu en viðskiptaráðuneytinu.

Í rauninni liggja engin rök fyrir breytingunni önnur en pólitísk „rök“, þau að nauðsynlegt hafi verið fyrir stjórnarflokkana að láta Steingrím Hermannsson hafa utanríkisverslunina til þess að hann sætti sig við að vera ekki forsrh. áfram. Þau „rök“ telur 1. minni hl. svo léttvæg að hann telur enga ástæðu til að fallast á frv.“

Nál. er undirritað af þeim sem hér stendur.

Það væri gott ef hæstv. sjútvrh. skilaði sér bráðum í deildina sína, hæstv. forseti, því að ég vildi ræða aðeins við hann um útflutningsatvinnuvegina.

Í samræmi, herra forseti, við það nál. sem ég hef kynnt flyt ég þrjár brtt., í fyrsta lagi að reglugerð forsrh. nr. 64/1987, um breyting á reglugerð nr. 96 31. des. 1969, um Stjórnarráð Íslands, verði numin úr gildi og í öðru lagi að í stað orðsins „utanríkisráðuneyti“, sem er í frv. um útflutningsleyfi, komi orðið viðskiptaráðuneyti.

Nú er það vissulega svo að á þessum tímum sem við erum stödd á eru blikur á lofti að því er varðar stöðu útflutningsins í landinu, einkum og sér í lagi sjávarútvegsins en einnig margra iðnfyrirtækja í landinu. Ég hef undir höndum nýjar upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sambandi ísl. samvinnufélaga um stöðu útflutningsatvinnuveganna núna í lok ársins 1987. Og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, þar sem menn hafa ákveðið að taka þetta mál til umræðu, að staða útflutningsatvinnuveganna verði nokkuð rædd. — Ætli sjútvrh. sé í húsinu? (Forseti: Ég á von á því að svo sé.)

Í gærmorgun komu á fund fjh.- og viðskn. þessarar virðulegu deildar fulltrúar frá Sambandi ísi. samvinnufélaga, sjávarafurðadeild, og frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Þegar þeir gengu af fundi bað ég þá um upplýsingar um stöðu útflutningsgreinanna núna við áramótin og í dag barst mér bréf frá Benedikt Sveinssyni, starfsmanni sjávarafurðadeildar Sambands ísl. samvinnufélaga, þar sem koma fram satt að segja ógnvekjandi og fróðlegar upplýsingar um stöðu útflutningsgreinanna núna um áramótin.

Í þessum upplýsingum kemur fram að menn bera saman annars vegar hækkun erlendra gjaldmiðla, þ.e. gengisvog, og hins vegar kostnaðarhækkanir innan lands, lánskjaravísitölu, á tímabilinu frá 1980 til september 1987. Ef tekin er þróunin í gengi annars vegar og lánskjaravísitölu hins vegar á árabilinu frá miðju ári 1980 til miðs árs 1985 er hlutfall hækkana, gengis annars vegar og lánskjaravísitölu hins vegar, 1 á móti 1,3. Sjávarafurðadeildin segir um þetta: Hér er þetta hóflegt, einn skammtur af gengisaðlögun á móti 1,3 skammti af verðbólgu.

Síðan er tekinn samanburður frá miðju ári 1985 fram á mitt ár 1986. Þar er hlutfallið framleiðsluatvinnuvegunum í óhag orðið 1 á móti 1,6. Síðan er tekið tímabilið desember 1985 til desember 1986. Þá er hlutfallið útflutningsatvinnuvegunum í óhag orðið 1 á móti 2,4. Svo er tekið hlutfallið 1986 í september til 1987 í september. Þá er hlutfallið orðið 1 á móti 7,3. M.ö.o. meðan gengisbreytingin er 2,7, gengisvogin breytist um 2,7, hækkar lánskjaravísitalan um 19,7 eða 7,3 sinnum meira en gengisbreytingunni nemur á sama tíma og hér segja þeir sambandsmenn í þessu plaggi sem ég hef undir höndum: Hér keyrir um þverbak. Einn skammtur af gengisaðlögun á móti rúmlega sjö skömmtum af verðbólgu.

Hérna er verið að lýsa þróun útflutningsatvinnuveganna, eða frystingarinnar sérstaklega, í einu mesta góðæri sem yfir þjóðina hefur gengið. Hér er verið að lýsa ástandinu eins og það í raun og veru var þrátt fyrir glansmyndir stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar. Fyrir síðustu kosningar lýstu stjórnarflokkarnir því yfir að verðbólgan yrði með sama áframhaldi komin niður í eins stafs tölu í lok þessa árs. Hagfræðingar Háskólans, eins og Þráinn Eggertsson og Þorvaldur Gylfason, nefndu miklu hærri tölur, töluðu um 30–40% verðbólgu í lok ársins 1987 og þegar við stjórnarandstæðingar nefndum þessar tölur á síðasta þingi eftir Þorvaldi Gylfasyni og Þráni Eggertssyni var það auðvitað talið bara til marks um enn eitt svartagallsrausið og ruglið í stjórnarandstöðunni og ekkert á því að byggja. Ég man eftir að hæstv. núv. utanrrh. sagði einhvern tímann: Ja, svona gæti þetta kannski orðið ef landið væri alveg stjórnlaust. Alveg stjórnlaust. Hann hélt ekki að það væri þannig, aldeilis ekki.

Niðurstaðan er sú að verðbólgan í lok þessa árs er margfalt meiri en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi ársins og ef verðbólgan væri nú reiknuð upp eins og verðbólgan í júní 1983 þegar fyrrv. ríkisstjórn tók við og menn sögðu 130 eða 160% eða guð veit hvað þegar þeir náðu sér sem best á strik í að reikna út tölurnar, tóku júnímánuð 1983 og margfölduðu hann upp tólf sinnum. Ef verðbólgan í dag væri reiknuð upp með svipuðum hætti erum við hér komin með verðbólgu sem er á bilinu 40–50% þrátt fyrir miklu lægra kaup á tímann. Kaupmáttur kauptaxta er miklu lægri en hann var þá.

Mér hefur einnig borist frá sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga yfirlit yfir verðbólgu og gengisþróun í samkeppnislöndum okkar erlendis, þ.e. í Kanada, Frakklandi, Vestur-Þýskalandi, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum. Þar kemur fram verðbólgan á tólf mánaða bili, þ.e. frá desember 1986 til desember 1987 hjá okkur en október 1986 til október 1987 hjá öðrum. Tölurnar eru þessar:

Kanada: verðbólga 4,3%. Lækkun bandaríkjadollars á sama tíma um 5,1% gagnvart kanadískri mynt.

Frakkland: verðbólga 3,1%. Lækkun bandaríkjadollars á sama tíma 13,2%.

Vestur-Þýskáland: verðbólga 1%. Lækkun bandaríkjadollars á sama tíma 16,2%.

Svíþjóð: verðbólga 5,1%. Lækkun bandaríkjadollars á sama tíma 13,2%.

Bretland: verðbólga 4,5%. Lækkun bandaríkjadollars á sama tíma um 21,4%.

Ísland: verðbólga 22,3% á þessum tíma, þ.e. frá desember til desember. Lækkun bandaríkjadollars um 10,7%.

M.ö.o.: Það er sagt við útflutningsgreinarnar: Meðan kostnaðaraukningin innan lands er 22,3% og dollarinn lækkar um 10,7% skuluð þið vesgú bara standa í lappirnar og hafa það huggulegt. Auðvitað gengur þetta ekki. Auðvitað gengur þetta ekki upp. Og þó að menn sýni einhverjar tölur um hagstæðan ríkissjóð er það eins og byggt á sandi og ekkert annað.

Sigurður Markússon framkvæmdastjóri sjávarafurðadeildar Sambandsins setti þetta dæmi aðeins öðruvísi upp fyrir mig og afhenti mér tölur um það sem hann kallar misvísun verðbólgu og gengis í þessum löndum.

Í Kanada er þessi misvísun verðbólgu og gengis, sem ég var að tala um áðan, 9,4%, í Frakklandi 16,3%, í Vestur-Þýskalandi 17,2%, í Svíþjóð 18,3%, í Bretlandi 25,9% á Íslandi 33%. Misvísun kostnaðarbreytinga og gengisbreytinga á þessum tíma er 33% meðan hún er 9,4% í Kanada sem er aðalsamkeppnisland okkar á Bandaríkjamarkaði. Misgengið hjá okkur er 3,5 sinnum meira en hjá Kanadamönnum, hörðustu samkeppnisaðilum okkar á fiskmarkaði í Bandaríkjunum um þessar mundir.

Mig langar að spyrja hæstv. sjútvrh. spurninga, ef hann má heyra mál mitt, þegar staðan er þessi: Hvaða hugmyndir hefur ríkisstjórnin um það að bæta úr þessum vanda og koma til móts við þennan vanda útflutningsatvinnuveganna? Hverjar eru þær tillögur sem hin stefnufasta ríkisstjórn og sjútvrh. hennar hafa um það að taka á þessum vanda útflutningsatvinnuveganna? Hvað verður það sem á að gera?

Ég tek mikið mark á Sambandi ísl. samvinnufélaga eins og komið hefur fram í máli mínu. Það veit ég að hæstv. ráðherra gerir líka. Hins vegar kunna að vera til menn í hv. deild sem eru ekki eins trúaðir á Sambandið eins og við, ég og hæstv. ráðherra. Þess vegna aflaði ég mér líka gagna frá Þjóðhagsstofnun sem ég veit að er alveg sérstaklega vinsæl í þessari deild, einkum og sér í lagi hjá hv. 8. þm. Reykv. Hvað segir Þjóðhagsstofnun um þessa afkomu útflutningsatvinnuveganna? Hún segir að hallinn á frystingunni núna sé talinn vera 7,3–8,7%, virðulegi forseti, miðað við gengisskráninguna 37,20 í dollar. Hver er hún núna? 35,70 ef ég man rétt, eitthvað þar í kring. Þýðir m.ö.o. að á forsendum Þjóðhagsstofnunar er hallinn á frystingunni orðinn 10–12%. Ég hygg að Sölumiðstöðin mundi nefna töluna 12, ég hygg að Þjóðhagsstofnun mundi nefna töluna 10. Einhvers staðar á því bili er hallinn á frystingunni núna. Ég ítreka þess vegna þá spurningu sem ég bar fram fyrir hæstv. sjútvrh.: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að koma til móts við þennan mikla vanda, hrikalega vanda sem útflutningsatvinnuvegirnir eiga við að glíma?

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að tefja fundi þessarar deildar með löngum ræðuhöldum. Ég vildi hins vegar koma á framfæri eftirfarandi grundvallaratriðum:

1. Ég tel að reglugerðin sem gefin var út í sumar um breytingar á reglum um Stjórnarráð Íslands sé hæpin, standist tæplega eða ekki anda stjórnarráðslaganna með tilliti til vilja löggjafans á þeim tíma.

2. Ég tel að frv. sem hér eru til meðferðar séu óþörf, ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að það séu nein efnisleg rök með málinu önnur en þau að það hafi þurft að leysa pólitískan hnút í stjórnarmyndunarviðræðunum í sumar.

3. Ég tel að óhjákvæmilegt sé að hér komi fram hvað það er sem hin stefnufasta ríkisstjórn og sjútvrh. hennar ætla að gera varðandi þann hrikalega vanda sem nú er uppi hjá útflutningsatvinnuvegunum og ég hef lýst upp úr gögnum frá Þjóðhagsstofnun og tölum sem ég fékk í dag frá Sigurði Markússyni hjá sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga.

Ég legg því til, virðulegi forseti, að í þessari umræðu fáum við svör við fram komnum spurningum, að frv. verði síðan fellt, það er óþarft, bæði málin felld vegna þess að ég held að þau séu best geymd í viðskrn. um sinn. Það er auðvitað hugsanlegt að flytja þessi mál einhvern tímann á milli sem hluta af heildarendurskoðun á lögunum um Stjórnarráð Íslands en það á ekki að gera svona mál, grundvallarmál, að skiptimynt í stjórnarmyndunarviðræðum flokka sem eru að reyna að koma sér saman í þröngri stöðu.