30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3386 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

54. mál, útflutningsleyfi

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Júlíus Sólnes):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. hv. Ed. sem kemur fram á þskj. 461. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að lesa nál.:

„Við myndun ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks var gert samkomulag milli stjórnarflokkanna þess efnis að málefni utanríkisviðskipta skyldu færast yfir til utanríkisráðuneytisins, en þau hafa fram til þessa verið undir stjórn viðskiptaráðuneytisins.

Þessi breyting hefur að hluta til þegar átt sér stað. Þáverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, breytti reglugerð um Stjórnarráð Íslands á síðasta starfsdegi fráfarandi ríkisstjórnar, 7. júlí sl., í þá veru að verkefni á sviði utanríkisviðskipta skyldu flytjast frá viðskiptaráðuneytinu yfir til utanríkisráðuneytisins. Einungis er eftir að breyta lögum um útflutningsleyfi og Útflutningsráð til þess að þessi nýja verkaskipting hafi náð fram að ganga.

Þessi ráðstöfun hefur þótt orka mjög tvímælis. Hefur einkum verið gagnrýnt að slíka breytingu á starfsemi Stjórnarráðs Íslands bæri að með þessum hætti. Eðlilegra væri að slík breyting ætti sér stað samfara heildarendurskoðun á Stjórnarráðinu og þá á grundvelli þingræðislegrar meðferðar á Alþingi, en ekki í tengslum við pólitísk hrossakaup. Þá hefur ekki verið bent á nein efnisleg rök fyrir því að þessi breyting væri skynsamleg, svo ekki sé talað um nauðsynleg.

Á fund nefndarinnar komu nokkrir fulltrúar útflutningsgreina og fulltrúi frá viðskiptaráðuneytinu. Af viðbrögðum og svörum þessara aðila má ráða að þeir ýmist sjá ekki ástæðu til þess að gera þessa breytingu eða telja að það megi reyna þetta í tilraunaskyni án þess að brýna nauðsyn beri til. Öllum aðilum ber saman um það að útflutningsmálin hafi verið í góðum höndum hjá viðskiptaráðuneytinu og að ekkert sé upp á starfsemi þess á þeim vettvangi að klaga.

Þá kom það m.a. fram að viðskiptaráðuneytið hefur um langan tíma haft beint samband við öll sendiráð Íslands erlendis og sendiráðin að sama skapi beint samband við viðskiptaráðuneytið. Því er þessi breyting ónauðsynleg hvað það varðar að betur þurfi að tengja saman starfsemi sendiráðanna og stjórn utanríkisviðskipta á Íslandi. Hins vegar kom það sjónarmið fram að verið gæti að með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, væri hætta á því að verslunarhagsmunir og pólitískir hagsmunir gætu stangast á þegar hvort tveggja verður undir stjórn utanríkisráðuneytisins. Enn fremur var bent á að innflutningsverslunin verður eftir sem áður undir stjórn viðskiptaráðuneytisins. Þar með er komin upp sú sérkennilega staða að fulltrúar viðskiptaráðuneytisins munu t.d. semja um olíukaup af Rússum en fulltrúar utanríkisráðuneytisins stjórna samningagerð varðandi sölu á útflutningsafurðum. Verður að telja að þetta fyrirkomulag sé óheppilegt. Eðlilegra væri að eitt og sama ráðuneytið sjái um útflutnings- og innflutningsverslunina.

Af framansögðu er ljóst að engin efnisleg rök mæla með þeirri breytingu á skipan mála sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. að færa utanríkisviðskiptin yfir til utanríkisráðuneytisins. Því er 2. minni hl. andvígur þessari breytingu.“

Nál. undirritar sá sem hér stendur.

Virðulegi forseti. Við 1. umr. um þetta frv. til laga um útflutningsleyfi o.fl. var töluvert fjallað um efnisatriði frv., þ.e. um útflutningsleyfin sem slík og fóru fram málefnalegar umræður um það hvort útflutningsverslunin skyldi vera frjáls eða hvort hún skyldi vera háð leyfum. Það kom skýrt fram við þá umræðu að ekki bæri að ræða þetta efnisatriði frv. þar sem fyrst og fremst væri verið að fjalla um að færa meðferð þessara mála yfir til utanrrn. frá viðskrn. Engu að síður notuðu virðulegir þm. í hv. deild tækifærið til þess að ræða og fjalla ítarlega um útflutningsleyfi og útflutningsverslun Íslendinga og sögulega þróun sem hefur orðið undanfarna áratugi varðandi utanríkisverslunina. Það er ekki þörf á að endurtaka þá umræðu hér en mig langar til að fara nokkrum orðum um ástæðuna fyrir því að nú er verið að flytja þessi verkefni frá viðskrn. yfir til utanrrn.

Við stjórnarmyndunina í sumar sem leið var mjög áberandi hvað það var ofarlega á dagskrá hjá núverandi stjórnarflokkum að ráðstafa ýmsum embættum og völdum. Hinum almenna áhorfanda kom það svo fyrir sjónir að það væri aðalatriði stjórnarmyndunarviðræðnanna hverjir yrðu ráðherrar, hverjir yrðu væntanlegir bankastjórar, hverjir yrðu formenn áhrifamestu nefndanna og reyndar ýmissa annarra stjórna og ráða á vegum ríkisvaldsins. Það var mjög greinilegt að þetta virtist vera aðalatriðið í stjórnarmyndunarviðræðunum, enda kom á daginn að það reyndist nauðsynlegt að fjölga ráðherrum frá tíu upp í ellefu og þótti nú ýmsum nóg fyrir og hefur áður verið vikið að þessu í umræðum hér í hv. deild, þessari öfugþróun að þetta litla land sem aðeins telur um 250 þús. íbúa skuli þurfa að burðast með ríkisstjórn með ellefu ráðherrum. Minna má nú gagn gera og hefur oft verið minnt á að kannski ein affarasælasta ríkisstjórn sem hér hefur verið við völd, þ.e. viðreisnarstjórnin allan 7. áratuginn, lét sér nægja að hafa sjö ráðherra og þótti ýmsum það þó of mikið. Það hafa margir bent á að því fleiri sem ráðherrarnir eru, þeim mun erfiðar gengur að stjórna landinu og það er víst engin vitleysa því að það hefur mjög berlega komið í ljós síðustu vikurnar hvað gengur erfiðlega að stjórna landinu.

Á bifreið eins hæstv. ráðherrans sem var lagt í Austurstræti fyrir framan einn bankann í morgun var búið að líma miða á afturrúðuna og þar gat að líta svohljóðandi orðsendingu: „Við brosum við stýrið, það gerir ríkisstjórnin einnig.“

Já, ég get séð það fyrir mér að ríkisstjórnin brosi við stýrið. Svo björguleg eru málin í höndum núv. ríkisstjórnar að það er ástæða til að brosa. Það er allt í uppnámi á hv. Alþingi. Málin komast ekki í gegn vegna þess hvað þau eru illa undirbúin og klaufalega fram sett og allt of seint komin til kasta hér á hv. Alþingi og annað er eftir þessu þannig að það er full ástæða fyrir hæstv. ráðherrana að brosa við stýrið.

Þessi breyting sem lögð er til, að færa utanríkisverslunina yfir til utanrrn., hlýtur vægast sagt að orka mjög tvímælis. Það er raunar mjög athyglisvert að það hafa engin rök verið færð fyrir því að þetta sé nauðsynlegt, enda var mjög fróðlegt að hlusta á álit þeirra fulltrúa útflutningsgreina og eins ráðuneytisstjórans í viðskrn. á þessari ráðstöfun. Það var augljóst að sumir hverjir sem komu til fundar hjá hv. fjh.- og viðskn. voru stjórnarsinnar og þeir áttu því erfitt með að lýsa því eindregið yfir að þeir væru mótfallnir þessari breytingu. Þeir gátu þó ekki samvisku sinnar vegna lýst því yfir að þeir væru hlynntir þessari breytingu eða teldu hana nauðsynlega. Það kom fram hjá þessum ágætu fulltrúum útflutningsgreinanna sem við ræddum við að þeir gætu út af fyrir sig samþykkt að þessi tilraun yrði gerð án þess þó að þeir sæju beinlínis ástæðu til þess. Þeir settu sig hins vegar ekki gegn því að slík tilraun væri gerð. Annað fékkst ekki raunverulega togað upp úr þessum ágætu mönnum þó að þeir segðu okkur ýmislegt annað fróðlegt sem kom fram í þeim viðræðum sem við áttum við þá. (Forseti: Ég vil biðja hv. ræðumann að gera hlé á máli sínu. Það hefur verið gert hálftíma hlé á fundi Nd. vegna þingflokksfunda og þess er farið á leit að það sama gerist í þessari hv. deild. Það verður gert hálftíma hlé á fundi deildarinnar.) — [Fundarhlé.]

Virðulegur forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég var að lýsa þeim viðræðum sem við áttum við ýmsa fulltrúa útflutningsatvinnuveganna. Í þeim viðræðum kom margt mjög athyglisvert fram. Reyndar hefur hv. 7. þm Reykv. gert ágæta grein fyrir þeim vandamálum sem blasa við útflutningsatvinnugreinunum, en ég bæti kannski aðeins við.

Það var mjög fróðlegt að heyra álit þessara ágætu manna sérstaklega á hinum stóra markaði fiskafurða í Bandaríkjunum. Þeir óttast mjög um þennan markað og hafa áhyggjur af þeirri þróun mála sem verið hefur undanfarið. Eins og kom réttilega fram í máli hv. 7. þm. Reykv. hefur frystingin átt mjög erfitt uppdráttar seinni hluta ársins vegna þess að bandaríkjadalur hefur hríðlækkað í verði og er kominn niður fyrir 36 kr. samkvæmt nýjustu gengisskráningu, en verðbólga innan lands og allur tilkostnaður hefur aukist verulega. Það mun vera orðin rúmlega 30% breyting til hins verra fyrir frystinguna sem þar af leiðandi er nú rekin með miklu tapi.

Það sem mér þótti fróðlegast að heyra hjá þessum ágætu mönnum var hin mikla framsókn Kanadamanna á þessum mörkuðum. Kanadamenn eru nú mjög umsvifamiklir á Bandaríkjamarkaði með fiskafurðir og er stutt í land með að þeir nái svipuðum gæðum á sínum frystu fiskafurðum og Íslendingar hafa verið frægir fyrir um langa tíð, en íslenski fiskurinn á Bandaríkjamarkaði hefur verið talin mesta gæðavara sem völ hefur verið á varðandi frystar fiskafurðir. Þessir ágætu fulltrúar okkar sem við hittum í morgun telja að það sé stutt í land með að Kanadamenn nái okkur hvað þetta atriði varðar.

Þá hefur ríkisstjórnin í Kanada tekið mjög myndarlega á málum fiskútflytjenda, útgerðaraðila í Kanada, þannig að þeir hafa styrkst mjög. Risastór fyrirtæki eru komin til sögunnar í Kanada sem flytja frystar fiskafurðir á Bandaríkjamarkað. Var okkur sagt að um væri að ræða útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslufyrirtæki sem hefðu yfir að ráða tugum togara og væri í vændum gífurleg framsókn þessara aðila á Bandaríkjamarkað. Þess vegna fyndist mér og eflaust fleirum að meiri ástæða væri til að hafa áhyggjur af þessu en hvaða ráðuneyti fer með yfirstjórn þessara mála, að eyða heldur meiri tíma í það að ræða með hvaða hætti við gætum styrkt þessar útflutningsgreinar okkar, einkum og sér í lagi reynt að styrkja stöðu þeirra á Bandaríkjamarkaði, en eyða minni tíma og hafa ekki eins miklar áhyggjur af því hvaða ráðuneyti stjórnar þessum málum, sérstaklega þegar svör allra þeirra sem hlut eiga að máli eru á sama veg, að hvorki sé þessi breyting beinlínis nauðsynleg né brýnt að huga að henni þessa stundina.

Þá kom það fram, sem mér þótti afar fróðlegt, að viðskrn. hefur um langa tíð haft beint samband við öll sendiráð Íslands erlendis. Það hefur oft verið talað um að sendiráðin íslensku sinni afar illa verslunar- og viðskiptalegum hagsmunum Íslendinga á erlendri grund. Sú gagnrýni hefur heyrst að sendiráðin séu fyrst og fremst að vafstra í sambandi við pólitísk málefni og fulltrúar okkar á erlendri grund hafa verið sakaðir um það að sinna meira veisluhöldum en að leita uppi markaði fyrir afurðir okkar og sinna viðskiptalegum hagsmunum okkar. Ég hygg að þetta sé ósanngjarnt að mörgu leyti því að í utanríkisþjónustunni er margt hæfra manna sem hafa haft augun opin í gegnum árin fyrir bæði mörkuðum og viðskiptalegum hagsmunum. Einnig hefur oft verið talað um að þessir aðilar séu undir stjórn utanrrn. og utanrrh. og það geti verið of löng leið yfir í viðskrn. þar sem stjórn hinna viðskiptalegu hagsmuna fer fram.

Það kom fram í viðræðum við ráðuneytisstjóra viðskrn. í morgun að um langan aldur hefur viðskrn. haft beint samband við sendiráð Íslands erlendis. Skapast hefur sú venja og sú hefð að bréfaskipti milli viðskrn. og sendiráðanna eru bein, en afrit af slíkum bréfaskiptum eru síðan ævinlega send utanrrn. til athugunar svo að því er svo sannarlega ekki haldið utan við slík bein tengsl. Því fer fjarri. Það er því ekki nauðsynlegt að flytja utanríkisverslunina yfir til utanrrn. vegna þess að viðskrn. hefur alla tíð haft þessi beinu samskipti við sendiráðin og sendiráðin sömuleiðis bein samskipti við viðskrn.

Annars er það kapítuli út af fyrir sig að velta fyrir sér með hvaða hætti við höfum byggt upp utanríkisþjónustuna og hvernig við höfum staðsett sendiráð okkar erlendis. Það hefur oft verið gagnrýnt að við höfum valið sendiráðum okkar stað lítt með hliðsjón af markaðssókn og viðskiptalegum hagsmunum en byggjum fremur á gömlum hefðum, jafnvel arfi frá þeim tíma þegar við vorum í ríkjasambandi við Danmörku. Þannig höfum við haft sendiráð á öllum Norðurlöndunum nema í Finnlandi. Við erum með sendiráð í þremur Evrópulöndum þar fyrir utan, í London, París og Bonn. Síðan höfum við að sjálfsögðu sendiráðið í Moskvu og svo sendiráðið í Bandaríkjunum.

Hinum stóra markaði í Austurlöndum fjær hefur verið sinnt algjörlega frá Íslandi. Við höfum að vísu sendiherra, sem er með búsetu á Íslandi en gegnir embætti sendiherra okkar í Austurlöndum fjær, en ég hef oft velt því fyrir mér hvort þetta sé nóg. Það hefur verið talað um að það sé of dýrt að reka sendiráð í Austurlöndum fjær. Þetta hefur vissulega verið kannað. Þegar ég dvaldist árlangt við nám í Tókýó fyrir rúmlega 20 árum kynntist ég töluvert þeim sendiráðsstarfsmönnum sem þar voru. Nánast hvert einasta ríki á jarðkúlunni var þar með sendiráð utan Ísland. Það sem mér þótti fyrst og fremst fróðlegt að sjá var að yfirleitt öll ríki, sama hve lítil þau voru,töldu brýna nauðsyn að vera með sendiráð í Tókýó. Svo mikilvægur var þá þegar markaðurinn í Austurlöndum fjær orðinn að mati yfirleitt allra ríkja nema þá Íslands.

Ég man að mér þótti það afar kyndugt að Vatíkanið og ýmis smáríki voru þarna með sendiráð og svo öll stóru ríkin að sjálfsögðu, en Íslendingar höfðu ekki einu sinni konsúl í Tókýó þegar ég dvaldist þar við nám. Hann kom að vísu ári síðar en hvort hann hefur gert mikið til þess að afla okkur markaða eða gæta viðskiptalegra hagsmuna Íslendinga í þessum heimshluta er mér ókunnugt um.

Hins vegar minnist ég þess að á ferðum mínum á þessum slóðum var ég oft spurður að því hvort ekki væri hægt að komast í verslunarsamband við Íslendinga. M.a. höfðu menn áhuga á því að kaupa af okkur lambakjöt. Og menn höfðu áhuga á því að kaupa af okkur ýmiss konar niðursuðuvörur. En það var alltaf sama sagan. Þeir vissu ekkert hvert þeir ættu að snúa sér því að það voru engir fulltrúar fyrir þetta fjarlæga land í nálægð við þá í þessum fjarlæga heimshluta frá okkar bæjardyrum séð og þar með var að sjálfsögðu ekki leitað frekar eftir slíkum viðskiptum.

Ég minnist þess að hafa dvalist á Filippseyjum, í Manilla um skeið og þar voru aðilar sem höfðu mikinn áhuga á því að kaupa niðursoðnar sardínur og spurðust mikið fyrir um það hvernig þeir gætu komist í tengsl við íslenska aðila og keypt af þeim sardínur. Einn mikill verslunarmaður, sem ég kynntist þar, hafði orðið svo frægur að millilenda á Keflavíkurflugvelli einhvern tíma á ferð sinni milli Evrópu og Bandaríkjanna svo að hann vissi nokkuð hvað var að gerast á Íslandi. Honum var m.a. kunnugt um það að við hefðum töluvert sterkan niðursuðuiðnað. Hann sagði mér að það væri flutt gífurlegt magn af niðursuðuvörum til Filippseyja m.a. frá Noregi og hinum Norðurlöndunum og taldi vel athugandi hvort ekki mætti kaupa slíkar vörur af Íslendingum. En því miður vissu þessir menn ekkert hvert ætti að leita. Þeir þekktu ekkert til á Íslandi. Þeir þekktu enga aðila þar og þar af leiðandi var erfitt að koma slíkum viðskiptum á þar sem engir fulltrúar Íslendinga væru í þessum heimshluta sem hægt væri að tala við.

Ég held að nær hefði verið að velta þessum hlutum betur fyrir sér, hvernig við getum verið með framverði alls staðar þar sem von er á markaði fyrir okkar útflutningsatvinnugreinar og reynt að skipuleggja átak í þeim efnum. (HBl: Heyrði ekki útflutningur niðursuðuvara undir iðnrn. á þessum tíma?) Jú, það má vel vera að hann hafi gert það, en engu að síður væri hugsanlega hægt að koma á tengslum með verslunarfulltrúum á vegum Íslendinga. Það þarf ekki endilega að vera um það að ræða að við rekum sendiráð með sendiherra í Tókýó t.d. Við gætum einfaldlega verið þar með verslunarsendinefnd og reynt að láta verslunarfulltrúa okkar þar leita uppi slíka markaði. Og bara það að hafa þar fastan fulltrúa sem gerir ekkert annað en að taka við fyrirspurnum þegar einhverjir aðilar erlendis leita eftir viðskiptum við Íslendinga er mikils virði, að þeir geti þó a.m.k. snúið sér til hans, því að það liggur alveg ljóst fyrir að menn í fjarlægum heimshlutum, sem ekkert þekkja til á Íslandi, eiga ekki frumkvæði að, því að koma neinum verslunarviðskiptum á við Íslendinga eins og málin standa núna.

Hin Norðurlöndin hafa verið miklu opnari fyrir þessu. Þau hafa sinnt því mjög vel að vera með sendiráð og verslunarfulltrúa víða erlendis. Sérstaklega er athyglisvert framtak Svía sem hafa undanfarin ár verið að ráða svokallaða tæknilega sendifulltrúa við öll sín sendiráð. Þeim er ætlað að fylgjast með tækniþróun í viðkomandi löndum og tryggja að upplýsingar um allar tækninýjungar berist hratt og vel til heimalandsins. Þannig hefur tæknilegur sendifulltrúi Svía starfað í Tókýó líklega ein 15 ár. Hann fylgist með öllu því sem er að gerast hjá Japönum á sviði iðnþróunar og ýmiss konar rannsókna í atvinnulífinu og sér um að koma slíkum upplýsingum jafnharðan til heimalandsins þar sem unnið er úr upplýsingunum og athugað með hvaða hætti þær megi verða til þess að efla innlenda iðnþróun og tryggja að sænskir atvinnurekendur fylgist með því sem er að gerast erlendis. Þarna er gat í okkar utanríkisþjónustu sem mætti reyna að stoppa upp í. Ég ítreka það að það hlýtur að vera hægt að gera miklu betur þarna en við höfum gert hingað til. Ég hef grun um að utanríkisþjónustan sé kannski í besta falli gamaldags. Eins og ég gat um áðan veit ég að fulltrúar okkar í utanríkisþjónustunni gera allir það sem þeir geta og þeir hafa allir verið opnir fyrir því að reyna að finna markaði fyrir okkar afurðir, en það er oft að þeir eru ekki á réttu stöðunum. Svo einfalt er málið.

Þá þótti mér athyglisvert það sem kom fram í viðræðum okkar í nefndinni í morgun, en það er sá klofningur sem verður á innflutningsversluninni og utanríkisversluninni. Það kom fram að innflutningsverslunin verður áfram í viðskrn. og undir stjórn þess. Þannig kemur upp kyndug staða. Við skulum hugsa okkur að það sé verið að semja t.d. um olíukaup af Rússum. Þá er það fulltrúi viðskrn. sem annast slíka samninga. Síðan koma fulltrúar utanríkisþjónustunnar til þess e.t.v. að semja um sölu á afurðum eða gera einhverja viðskiptasamninga við Rússa strax í kjölfar fulltrúa viðskrn. sem hafa verið þar á ferð til að semja um kaup á rússneskum afurðum. Þetta virkar mjög ankannalegt og ég leyfi mér að fullyrða að fæst ríki hafi þennan háttinn á. Ég held að víðast hvar sé í sama ráðuneytinu stjórn á innflutningsversluninni og stjórn á útflutningsversluninni, enda hljóta þessi mál að vera svo nátengd að það er mjög óeðlilegt að þau heyri undir mismunandi ráðuneyti.

Ég ætla að stytta mál mitt. Ég held að ég hafi rakið hér í nokkru og flutt rök fyrir því að sú breyting sem hér er verið að leggja til er aldeilis óþörf og óskynsamleg. Það hefði verið mun betra að leggja vinnu í að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna og vinna að því að reyna að kanna nýjar leiðir, með hvaða hætti við getum sótt fram á öllum mörkuðum með okkar afurðir og með hvaða hætti við getum tryggt að okkur berist upplýsingar hvaðanæva að úr heiminum um allt það sem er að gerast þannig að við getum fylgst með og við höfum alltaf til reiðu upplýsingar um hvar er von á mörkuðum fyrir afurðir okkar og við höfum menn stöðugt á ferðalagi til að kanna og rannsaka hvort það sé ekki hægt að koma útflutningsafurðum okkar í gott verð. Þó ég vilji ekki lasta þá hefðbundnu markaði sem við höfum unnið okkur á undanförnum áratugum er hins að gæta að það er ekkert eins breytilegt og einmitt utanríkisverslunin. Hún er mjög viðkvæm og hún tekur sífelldum breytingum þannig að öll þjóðfélög sem hafa náð góðum árangri með utanríkisverslun hafa einmitt unnið á þeim grundvelli að hafa allan heiminn sem markaðssvæði og eru síðan sífellt að kanna nýja og nýja möguleika, ný og ný hagsmunasvæði og leita uppi nýja og nýja kaupendur.

Tökum dæmi um markað sem hefur kannski keypt einhverja afurð lengi. Skyndilega hrynur hann. Almenningur kemst upp á lag með eitthvað annað. Það er ekki lengur þörf fyrir þessa ákveðnu afurð sem hugsanlega hefur verið þarna til sölu áratugum saman. Þannig getur útflutningsmarkaður hrunið í einu vetfangi. Þetta þekkja a.m.k. nágrannalönd okkar mjög vel og eru því undir þetta búin. Þar er alltaf verið að leita að nýjum og nýjum mörkuðum. Það er þá annaðhvort hægt að snúa sér að öðrum markaðssvæðum ef það verður hrun á markaði einhvers staðar og/eða fara yfir í nýjar vörutegundir, breyta hugsanlega umbúðum eða reyna að koma á þeirri vöruþróun að varan sé breytileg, það sé ekki alltaf verið að bjóða upp á það sama. Þannig mætti lengi telja.

Það eru slík atriði sem við þurfum að huga miklu betur að. Og í ljósi þess þá virkar það óendanlega lítilfjörlegt að vera að eyða tíma Alþingis í að færa stjórn utanríkisviðskipta yfir til utanrrn. frá því ráðuneyti sem hefur sinnt þessum málum mjög vel í langan tíma og fulltrúar atvinnuveganna og útflytjenda eru sammála um að þeir hafi bókstaflega ekkert upp á þá þjónustu að klaga sem viðskrn. hefur veitt íslenskum útflytjendum.

Með þessum rökum legg ég til og við þm. Borgarafl. í hv. Ed. að þetta frv. verði fellt.