30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3393 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

54. mál, útflutningsleyfi

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. um útflutningsleyfi. Eins og fram hefur komið hjá þeim þm. sem hafa talað á undan mér varð það samkomulag milli stjórnarflokkanna við stofnun þessarar stjórnar að utanríkisviðskipti skyldu vera í utanrrn. og eins og réttilega kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv. var gefin út reglugerð þar sem þáv. forsrh., núv. utanrrh., ákvað að utanríkisverslun skyldi vera í utanrrn. Ég fagna því sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykv. er hann ræðir um grunnreglur stjórnskipunar Íslands og þá sérstaklega hvort heimilt hafi verið af forsrh. að gefa út þessa reglugerð og þá bæði fyrir myndum stjórnarinnar og eftir myndun stjórnarinnar.

Ég leyfi mér að fullyrða hér og færi rök að því aðeins síðar að þetta hafi ekki verið heimilt. Byggi ég það í fyrsta lagi á því að þegar lög um Stjórnarráð Íslands voru samþykkt á þinginu 1969 var á því byggt að öll viðskipti, bæði innflutnings- og utanríkisviðskipti, skyldu vera í höndum viðskrn. Breyting á þessu kallar á lagabreytingu en ekki reglugerðarbreytingu. Það verður að athuga mjög vel þegar reglugerðir eru settar hvaða heimildir ráðherrar hafa til slíks. Ef þarna hefði verið um að ræða tilfærslur á ákveðnum litlum stofnunum sem enginn eða lítill ágreiningur er um og ekki veigamiklum stofnunum, undir hvaða ráðuneyti ættu að fara, væri þetta heimilt, en þegar um stórkostlega breytingu er að ræða, eins og að færa utanríkisviðskipti úr viðskrn. yfir í utanrrn., kallar það á breytingu á lögum um Stjórnarráðið. A.m.k. þyrfti að bera sérstaklega undir þingið hvort þetta er heimilt.

Það er mjög bagalegt að sjá stundum sett lög, og á þeim tíma sem ég hef starfað hér, í þrjá mánuði, hefur það gerst, þar sem ráðherrum er heimilt að breyta nokkurn veginn flestu því sem lögin segja til um. Í lagasetningu hin síðari ár hefur verið opnað ótæpilega fyrir ráðherra til að setja reglugerðir. Mætti nefna nýlegt dæmi um það úr þessari deild, þ.e. um stjórn fiskveiða. Þar er nánast tekið fram í lögunum á 22 eða 23 stöðum að ráðherra sé heimilt að ákveða nánar í reglugerð um framkvæmd laganna og einnig að setja svokallaðar efnisreglur um ákveðin atriði. Skilningur lögfræðinnar er yfirleitt að lögin marki rammann og síðan er það ráðherra að setja verklagsreglur. En sú löggjöf, sem á síðustu árum hefur verið komið á, er öðruvísi. Hún hrúgar þessu öllu saman og það er enginn greinarmunur gerður á efnisreglum og verklagsreglum.

Þegar lögin um Stjórnarráð Íslands voru sett var þetta mjög skýrt. Þá áttu lögin að marka rammann, en síðan átti með stjórnskipunarlegri reglugerð að ákveða í eitt skipti fyrir öll hvernig þessum málum yrði háttað til framtíðar. Eins og ég sagði áðan: ef það ætti að breyta þessu að verulegu leyti þyrfti Alþingi að fjalla um þá hluti.

Efnislega er hér verið að tala um hvar útflutningsleyfi eigi að vera. Eiga þau að vera í viðskrn. eða eiga þau að vera í utanrrn. eins og frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir? Við þm. Borgarafl. erum á því að þetta eigi að vera áfram í viðskrn. og teljum ekki nein rök fyrir því að færa þetta yfir í utanrrn., enda eru allir þeir sem um þessi mál hafa fjallað sammála því að viðskrn. hafi unnið gott starf á meðan leyfisveitingin var þar. Það er slæmt til þess að vita að einu rökin fyrir því að breyta þessu skuli vera tilkomin vegna eins manns sem gerir kröfur til þessa.

Svo ég víki aftur að Stjórnarráðinu og hvernig lagaheimildir um þetta atriði mælast fyrir hjá Ólafi Jóhannessyni í Stjórnskipun Íslands, þá segir í nýútgefinni bók, endurútgefinni af Gunnari G. Schram:

„Auk laganna um Stjórnarráð Íslands er önnur meginréttarheimildin á því sviði reglugerðin um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969. Segir þar í 1. gr. að stjórnarmálefni beri undir ráðuneyti eftir ákvæðum reglugerðarinnar. Er síðan frá því greint hver slík málefni heyra undir hvert ráðuneytanna. Málefni, sem eigi er getið í þeirri upptalningu (2.–14. gr.), skulu lögð til ráðuneytis þar sem þau eðli sínu samkvæmt eiga heima (15. gr.). Ef vafi leikur á því hvaða ráðuneyti skuli fara með mál, sker forsætisráðherra þar úr. Þegar tiltekin verkefni eru í lögum falin ákveðnu ráðuneyti, þá verður þeirri skipan eigi breytt með forsetaúrskurði eða annarri stjórnarráðstöfun, heldur aðeins með nýrri löggjöf.“

Þarna tekur höfundur þessarar bókar, Ólafur Jóhannesson, sem talinn hefur verið okkar fremsti lögfræðingur á sviði stjórnskipunar, skýrt af um það að ef á að breyta er ekki nægilegt að breyta reglugerðinni heldur þarf að breyta löggjöfinni. Ég verð að taka undir með hv. 7. þm. Reykv. að ég skil ekki hvaða lögfræðingar hafa verið til ráðuneytis þegar þetta var ákveðið. Mér finnst í svona tilvikum, þegar um beint brot er að ræða að ég tel, ástæða til að fara nánar ofan í þessa hluti og jafnframt að velta því fyrir sér hvort á fleiri sviðum sé brotið gegn þessum grundvallarreglum hinnar íslenskrar stjórnskipunar. Þá á ég t.d. við það sem ég nefndi áðan um fiskveiðilögsöguna þegar allt er tekið saman, hvort svo víðtækar framsalsheimildir sem þar er um að ræða standist allar ýtrustu kröfur sem gera verður til lagasetningar.

Vonast ég eftir að við, alla vega í stjórnarandstöðunni, getum verið sammála um að athuga þetta nánar. Þó ég efist ekki um að þetta hafi af stjórnarliða hálfu verið að einhverju leyti kannað veit ég að vegna pólitísks þrýstings vítt og breitt sé sá hrærigrautur til kominn að m.a.s. stangast oft á í sömu lögum mismunandi greinar. Rakti ég það um daginn þegar ég talaði um fiskveiðistefnuna að 1. gr. stangaðist á við þá 4. Það er ekki nema eðlilegt að margar lagaþrætur séu uppi þegar um slíkt er að ræða.

En að öðru leyti en því sem ég hef hér rakið vil ég vísa til þess sem fulltrúi Borgarafl., Júlíus Sólnes, sagði um frv. sem hér hefur verið lagt fram. Að sjálfsögðu tek ég undir allt sem hann sagði um afstöðu okkar borgaraflokksmanna. En það væri gaman að spyrja hæstv. utanrrh. hvaða augum hann líti á þá reglugerð sem þarna var gefin út og hvort hann hafi borið þetta sérstaklega undir einhverja lögfróða menn. Þá hef ég ekki meira um þetta að segja að sinni.