22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

3. mál, bann við geimvopnum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þá till. sem hér liggur frammi til þál. Ég held að það hljóti að vera öllu mannkyni kvíðaefni ef þróun mála snýst á þann veg að vopn verða færð út í himingeiminn og enginn getur séð hvaða afleiðingar það kann að hafa í för með sér. Mér heyrist þeir sem hér tala allir vera lóð á vogarskálina til að koma í veg fyrir það hygg ég að það séu flestir sammála um það og það sé í rauninni sjálfsagt mál.

Ég vil hins vegar í fyrsta lagi draga mjög í efa og eiginlega taka undir með þeim sem telja að það sé vafasamt hvort þessi áætlun sé yfir höfuð framkvæmanleg eins og hún hefur verið kynnt, og þá á ég við bæði tæknilega og fjármálalega, því að tæknilegir erfiðleikar á framkvæmd þessa plans eru alveg geysilegir og margir kunnustu vísindamenn veraldarinnar draga í efa að nokkur leið sé að koma upp þeim örugga skildi sem forseti Bandaríkjanna hefur talað um. Hins vegar hygg ég og ljóst er af þeim skýrslum sem birtar hafa verið um þetta mál að fjárhagslegur kostnaður af framkvæmd slíkrar áætlunar sé svo ævintýralegur að ég dreg mjög í efa að unnt sé að hrinda slíku fram.

Ég kveð mér hér hljóðs sérstaklega vegna þess að fyrir nokkru var ég á ferð í Bandaríkjunum og átti þar viðræður við starfsmann utanríkismálanefndar fulltrúadeildarinnar. Mér var þar tjáð að í Bandaríkjunum væri mjög mikill ágreiningur um þessa áætlun að því leyti að þingmenn teldu nokkuð almennt að tilraunir með geimvarnaráætlun, eins og hún er kölluð gjarnan, brytu í bága við þann ABM-sáttmála sem hér hefur verið vitnað til. Þá áttu menn sérstaklega við að þessi stjörnustríðsáætlun eða geimvarnaráætlun, hvað sem menn vilja kalla þetta, sé algerlega óframkvæmanleg nema til komi sérstakar tilraunir til að þróa þær aðferðir sem um er að ræða.

Mér var tjáð að meiri hlutinn í utanríkismálanefnd þarna úti væri þeirrar skoðunar að tilraunir á þessu sviði brytu í bága við ABM-sáttmálann. Þar af leiðandi mundi fulltrúadeildin ekki samþykkja fjárveitingar til þessa plans þar sem álitið væri að brot væri á samningi sem Bandaríkin hefðu gert. Þeir sem ég ræddi við þar — og sel það ekki dýrara en ég keypti eins og oft er sagt — töldu þess vegna að þessi áætlun mundi hreinlega stranda heima fyrir í Bandaríkjunum af þessum sökum. Þar gegnir að sjálfsögðu öðru máli um Sovétríkin sem ekki hafa slíka umræðu eins og fer fram í Bandaríkjunum nú um þetta mál. Og ég hygg að það sé nokkuð til í því að Sovétmenn séu í auknum mæli að færast inn á þetta rannsóknasvið þannig að umræðan er sjálfsagt öll þörf.

Ég vil síðan aðeins fara örfáum orðum um það að margir hafa orðið til að halda því fram að heimsfriðurinn byggðist á svokallaðri fælingarstefnu, á þeirri stefnu að hvorugt kjarnorkuveldanna geti gert árás á hitt eða annað land af hættu við andsvar sem fæli í sér gjöreyðingu þess sem stríðið hæfi. Margir hafa orðið til þess að benda á að geimvarnaráætlunin með skildi, eins og forseti Bandaríkjanna hefur talað um, öruggum skildi í kringum Bandaríkin og e.t.v. bandamenn þeirra sem sjálfsagt er engan veginn framkvæmanlegt, mundi gera að verkum að „second strike“ eða gagnárás væri ómöguleg. Þar af leiðandi væri sjálf hugmyndin að baki fælingarstefnunni fallin sem flestir hernaðarsérfræðingar hafa rembst við að telja okkur trú um á undanförnum árum að væri grundvöllur heimsfriðarins. Allt er þetta umhugsunarefni og ég skal ekki leggja dóm á að hve miklu leyti hér er um að ræða fræðilega eða akademíska umræðu. En ég ítreka þá skoðun mína að lokum að það er mannkyninu öllu geigvænlegt og ógnvænlegt ef vopn færast út í geiminn og því tek ég undir að sjálfsagt er að Íslendingar, þó þeir ráði kannski ekki miklu í þróun þessara mála, leggi sitt lóð á vogarskálina og andmæli slíkum áætlunum.