30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3407 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

197. mál, vörugjald

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 444 frá meiri hl. fjh.- og viðskn.

Á fund fjh.- og viðskn. komu Lárus Ögmundsson úr fjmrn., Árni Reynisson frá Félagi ísl. stórkaupmanna, Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði, Guðmundur Karl Jónsson, forstjóri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ, Kristján Thorlacius, formaður BSRB, Björn Arnórsson, hagfræðingur BSRB, Aðalsteinn Guðjohnsen frá Sambandi ísl. rafveitna, Albert Þórisson garðyrkjubóndi og Jón Gíslason frá Manneldisfélagi Íslands.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Undir þetta skrifa fulltrúar í nefndinni frá meirihlutaflokkunum, þ.e. auk mín Geir H. Haarde, Matthías Bjarnason, Guðmundur G. Þórarinsson og Kjartan Jóhannsson.

Við flytjum brtt. á þskj. 445. Hún er um að í 3. gr. bætist tollskrárnúmer sem þar eru upp talin. Hér er um að ræða að halda í tolli snyrtivörum, enda var upplýst á fundi fjh.- og viðskn. að verðlækkun sem hlytist af tollinum kæmi ekki neytendum til góða að líkum því að framleiðendur þessarar merkjavöru, snyrtivara, vildu halda ákveðnum „standard“ á sínum vörum, ákveðnum verð-„standard“.

Þetta er þáttur í tekjuöflun ríkissjóðs og fyrirhugað að nota þá fjármuni sem þarna aflast í tolltekjum til að greiða niður fisk og teljum við það vel ráðið.

Við leggjum sem sagt til að frv. til laga um vörugjald verði samþykkt eins og Ed. gekk frá því að viðbættri þeirri breytingu sem lögð er til á þskj. 445.