30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3407 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

197. mál, vörugjald

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vegna þess að hér er að koma á dagskrá og til umræðu fyrsta frv. af mörgum sem væntanleg eru eða hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta taka hér fyrir um skatta vil ég þegar í upphafi umræðunnar um þetta mál gera athugasemdir við vinnubrögð og niðurstöðu mála í hv. fjh.- og viðskn. Ég tel nauðsynlegt að það komi strax fram þó þær athugasemdir snúi meira að málum sem hér eru væntanleg til umræðu á eftir, þ.e. frv. til laga um breytingu á tollalögum, sem er á dagskrá þessa fundar, og frv. til laga um söluskatt.

Ég vil taka það fram að hvað varðar afgreiðslu þessa máls, vörugjalds, út úr fjh.- og viðskn. var um það samkomulag og ekki ágreiningur að það mál yrði afgreitt út af fundi nefndarinnar í gærkvöld. Síðan gerist það, þegar við mætum á fund í þessari sömu ágætu nefnd í morgun, að okkur er tilkynnt að meiri hl. nefndarinnar hafi fundað áfram í gærkvöld og gengið frá nál. og brtt. við frv. til laga um tollalög og þau séu komin inn í þingið, enda mættu þau hv. þm. á borðum þeirra þegar þeir settust að fundi kl. 11. En málið hafði vel að merkja ekki verið afgreitt út úr fjh.- og viðskn. og átti það að nafninu til að vera þar áfram til umfjöllunar. Þessi staða mætti okkur nefndarmönnum minni hl. þegar við mættum þar á fund í morgun. Og er nú ekki öll sagan sögð, herra forseti, því síðan var tekið til við að ræða söluskatt og þar komu menn til viðtals í nefndinni. Þegar nokkrar mínútur voru eftir af þeim fundartíma sem nefndin hafði, þ.e. fram að deildarfundi kl. 11, fóru síðustu gestir nefndarinnar út. Þá lagði formaður til að málið yrði afgreitt úr nefndinni þrátt fyrir að fjöldamörg álitamál væru órædd eða hefðu verið lítillega rædd og lögð til hliðar og í sömu andrá boðaði formaður meiri hl. áfram á fund kl. 1 í dag til að halda áfram að vinna við málið og ganga frá brtt. og niðurstöðu nefndarinnar. Þessu get ég ekki unað, herra forseti. Ég hef aldrei fyrr kynnst slíkum vinnubrögðum. Ég lét að sjálfsögðu bóka mótmæli mín við því að málið yrði afgreitt út úr nefndinni.

Þar sem þetta hangir allt saman tel ég nauðsynlegt að koma þessu á framfæri. Ég get ekki kallað þessi vinnubrögð annað en ofbeldi. Ég skil í raun og veru ekki til hvers er verið að hafa nefndir sem starfa sem slíkar, sem ein eining að málunum, ef svona er unnið aftur og aftur.

Ég vil koma þessum mótmælum á framfæri undir þingskapaathugasemd þó ég að sjálfsögðu muni gera nánari grein fyrir óánægju minni þegar hvert og eitt mál kemur til umræðu.