30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3408 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

197. mál, vörugjald

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er rétt að taka fram að það var ágætt samkomulag eins og jafnan í fjh.- og viðskn. Við áttum ágætan fund í gærkvöld. Við áttum reyndar fund um þessi mál, mjög langan fund, þann 19. desember og höfum haft þessi mál til athugunar yfir hátíðarnar. Að vísu kom formlega ekki til okkar söluskattsfrv. fyrr en í gær þannig að við gátum ekki tekið það formlega fyrir, en ræddum þessar kerfisbreytingar auðvitað allar í einingu því öll þessi þrjú frv. eru nátengd. Við vorum búin að gefa okkur allnokkurn tíma til að fjalla um þessi málefni.

Við höfum, eins og sést á þskj., rætt við mikinn hóp manna. Við kvöddum til allmarga aðila til að ræða við okkur og var ágætt samkomulag um það. Þeir voru kvaddir til ekkert síður sem fulltrúar minni hl. vildu ræða við og við áttum sem sagt tvo gagnlega fundi um þessi mál.

Varðandi vörugjaldið var ágætt samkomulag um að ljúka því í gærkvöld. Það er alveg rétt hjá síðasta ræðumanni að tollalagafrv. var ekki formlega afgreitt í nefndinni fyrr en í morgun. Hins vegar lá það fyrir í gærkvöld að nefndinni auðnaðist ekki að hafa samstöðu um það mál. Við tókum þann kost, stjórnarliðar, að ganga frá okkar þskj. og koma því í prentun, m.a. til að létta róðurinn fyrir starfsfólk þingsins. Það er sjálfsagt að bíða eftir þskj. minni hl., að þau komi sínum þskj. í vinnslu í þinginu. Ég sé ekki að það hafi verið neitt afbrot þó að við skiluðum inn okkar þskj. í gærkvöld. Það var bara til að flýta fyrir. Það lá fyrir að minni hl. mundi ekki vilja standa að nál. með okkur.

Varðandi söluskattinn höfum við skamman tíma til að fjalla um málið í nefndinni. Það lá fyrir að var djúpstæður ágreiningur um það mál og bæði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir lýstu því yfir að þau gætu ekki staðið að brtt. eða nál. með meiri hl. og munu skila sérnál. eins og reyndar hefur legið fyrir allan tímann. Ég sé ekkert óeðlilegt við það þó að við, úr því að nefndin var klofin, afgreiddum málið og þó að meiri hl. eigi eftir að ræða hugmyndir að brtt. sem eru á kreiki á meðal okkar tel ég að við getum sem hægast gert það þó að fulltrúar minni hl. séu ekki viðstaddir.