30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3413 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

197. mál, vörugjald

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Við höfum orðið hér áheyrendur að umræðu og upplýsingum um alveg nýja starfshætti á Alþingi og höfum við þó ýmsu vanist undanfarna daga og vikur í sambandi við vinnubrögð og gert okkar athugasemdir við þau. En mér sýnist að hér sé í rauninni verið að ganga með svo grófum hætti yfir ekki aðeins venjur í starfsháttum þingsins heldur raunverulega þingskapalög, þingsköp Alþingis, að það sé með öllu útilokað að slíku sé látið ómótmælt af þingdeildinni og þess krafist að forusta þingsins, allir forsetar þingsins, taki á þessu máli og fari yfir það nú þegar áður en haldið er áfram umræðum í þinginu um mál sem tekin hafa verið á dagskrá og það með afbrigðum sem eingöngu meiri hl. greiddi atkvæði um eins og fram kom áðan.

Það hefur komið fram að hv. 1. þm. Norðurl. v., sem eins og lýst hefur verið menn töldu að væri þingreyndur maður, er það a.m.k. að árum til, ætlar sér að hafa forustu um að ganga gegn þingsköpum Alþingis og fitja upp á alveg nýjum starfsháttum í þinginu, formaður þingflokks Framsfl. Ég verð að segja að ég átti ekki von á því, herra forseti, að þessi hv. þm. hefði forustu um vinnubrögð af þessu tagi og tæki sig út úr að þessu leyti. Það veldur mér vonbrigðum. En nú höfum við heyrt það og séð og hv. þm. segir að þetta séu vinnubrögð til sóma. Ja, hann munar ekki um að taka upp í sig, þann ágæta hv. þm., og segir svo jafnframt að það sé alveg knýjandi nauðsyn að þau skattalagafrv. sem hér liggja fyrir og mál þeim tengd fái afgreiðslu fyrir áramót með vinnubrögðum af því tagi sem hann stendur hér fyrir.

Ég var að störfum í morgun í sjútvn. þessarar hv. deildar undir forustu hv. 1. þm. Vestf. og ég verð að segja að það er ólíku saman að jafna í sambandi við þau vinnubrögð sem þar hafa verið viðhöfð eins og ég þekki þau og eins og því hefur verið lýst hvernig starfað hefur verið og haldið á málum af forustu í fjh.- og viðskn. hv. þingdeildar.

Í sjútvn. er verið að fjalla um stórt og viðamikið og flókið mál og það eru þau mál sem hér eru einnig á dagskrá, en þar er haldið á málum með eðlilegum hætti og ekki verið að láta trufla sig með því að það séu áramót fram undan, það sé gamlárskvöld og í framhaldi af því væntanlega nýársdagur og nýtt ár, vegna þess að það er mat forustunnar í sjútvn. deildarinnar að það séu ekkert hundrað í hættunni þó að þessi áramót líði án þess að búið sé að setja lög um þessi efni, þ.e. um stjórn fiskveiða, þar séu ákvæði sem grípa megi til þannig að eðlileg vinnubrögð geti fram farið. Og ætli það sé nú ekki eitthvað svipað uppi í sambandi við þau mál sem hv. 1. þm. Norðurl. v. er að halda fram að sé alveg knýjandi nauðsyn að ákveða um áramótin?

Ætli það væri a.m.k. ekki sæmra að reyna að standa þannig að þessum málum að það sé ekki verið að brjóta þingsköp og móta einhverja alveg splunkunýja starfshætti í þinginu sem talsmenn stjórnarandstöðunnar í þessum nefndum hafa lýst í þingskapaumræðu sem ofbeldislegum vinnubrögðum.

Ég tel, herra forseti, að það sé fráleitt að halda áfram umræðum um þessi mál sem stjórnarliðar hafa lýst að séu öll saman samtengd, hangi öll saman og þurfi að fá samhliða afgreiðslu. Ég held ég hafi lesið það í stjórnarmálgagninu Tímanum í morgun að það væri sammæli um það meðal stjórnarliða að öll þessi tekjuöflunarfrv. ættu að ganga fram samtímis og ekkert eitt að skilja sig þar frá. Ætli sé þá ekki eðlilegt að það sé litið á þessi mál í samhengi hér í sambandi við umræðu og vinnubrögð í þinginu ef það er rétt sem lesa má í Tímanum um viðhorf stjórnarmeirihlutans?

Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til 11. gr. þingskapa Alþingis. Þar segir: „Forsetar stjórna umræðum og sjá um að allt fari fram með góðri reglu.“

Og seinna í sömu grein: „Forsetar hafa sameiginlega umsjón með starfi þingnefnda. Þeir skipa fyrir um fasta fundartíma nefndanna þannig að fundir rekist ekki á. Þeir halda skrá um þingmál sem til nefndanna hefur verið vísað og fylgjast með gangi mála svo sem nauðsynlegt kann að vera til þess að geta skipað málum niður á dagskrá þingfunda í hagkvæmri tímaröð. Forsetar fara sameiginlega með framkvæmdastjórn Alþingis.“

Þetta eru atriði úr 11. gr. þingskapa Alþingis sem okkur er ætlað að starfa eftir og ég vísa til þessara ákvæða og geri kröfu til þess áður en umræða er upp tekin um þau mál sem eru á dagskrá að forusta þingsins, forsetar allir, sem bera hér sameiginlega ábyrgð, fari yfir þá starfshætti sem upp hafa verið teknir í fjh.- og viðskn. þingsins og lýst hefur verið af talsmönnum minni hlutans og staðfest af formanni nefndarinnar, hv. 1. þm. Norðurl. v., að rétt sé með farið.

Hvað var það sem hv. þm. var að segja hér, hv. þm. Páll Pétursson? Hann var að segja að hann væri farinn að standa fyrir nefndarstarfi hluta fjh.- og viðskn. til að flýta fyrir málum og greiða fyrir málum. Hann hefur enga þörf fyrir að hafa minni hl. á fundi. Hann telur fullnægjandi að meiri hl. skjótist saman í skúmaskotum á óboðuðum fundum gagnvart minni hl. og reyni að leysa þar úr sínum ágreiningsefnum. Því hv. þm. greindi frá því að það hefðu einmitt verið ágreiningsefni sem hefðu staðið í vegi fyrir afgreiðslu mála í þingdeildinni, ekki ágreiningsefni við minni hl., við stjórnarandstöðuna heldur innan stjórnarmeirihlutans og hann hefði staðið fyrir því að reyna að greiða úr þeim ágreiningi. Hann hefði unnið að því að greiða úr þeim ágreiningi og leysa hann og hann hefði leystst og þegar hann var leystur skilaði hv. þm. inn þinggögnum, áliti frá meiri hl. og brtt. varðandi mál sem hér er á dagskrá, án þess að búið væri að taka málin út úr þingnefndinni.

Það er alveg nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, herra forseti, að þessi vinnubrögð séu nú þegar tekin til umræðu af forustu þingsins og rætt um hvort hér sé eðlilega að málum staðið, hvort þessi vinnubrögð standist gagnvart þingsköpum Alþingis og það verði upplýst af forseta áður en umræða er upp tekin um mál á dagskrá um mat forustu þingsins að þessu leyti.

Það hefur komið fram, herra forseti, að talsmenn ríkisstjórnarinnar telji æskilegt að fá hér afgreidd mál fyrir áramót, tekjuöflunarmálin sem hafa verið á reiki á milli stjórnarliða eins og hv. formaður fjh.og viðskn. lýsti því. Þau hafa verið fram á þennan morgun í óvissu innan stjórnarliðsins í nefndunum sem ætlar að reyna að koma sér saman á óformlegum nefndarfundum og leysa sinn ágreining og skila sínum viðhorfum inn í þingið.

Þetta eru vinnubrögð sem er ekki hægt að una, en ég vil nefna fleira í þessu sambandi, herra forseti. Ég óska eftir því að áður en hér verður haldið áfram umræðum upplýsi forseti um með hvaða hætti hann hyggst bregðast við óskum stjórnarliða, meiri hl. svokallaðs í nefndum, þó hann liggi ekki formlega fyrir nema á þskj. með ólögmætum hætti gagnvart þingsköpum, og forseti upplýsi okkur um hvernig hann hyggst bregðast við þeim kröfum sem hann fær frá stjórnarliðinu um afgreiðslu þessara mála fyrir áramót, hvernig hann hyggst haga störfum þingdeildarinnar ef hann ætlar að bregðast við þessum kröfum eftir að búið er að koma einhverri skikkan á störf þingnefnda þannig að viðunandi sé. Hæstv. forseti er að sjálfsögðu forseti okkar allra og hlýtur að haga störfum sínum í samræmi við það, enda efast ég ekkert um það. Ég óska eftir að hann greini okkur frá því hvernig hann ætli sér að haga störfum áfram á þessum degi.

Við höfum fengið útbýtt dagskrá 40. fundar í hv. þingdeild og síðan boðaður 39. fundur í Sþ. á þessum degi að loknum fundum í deildum og þar á að taka mál á dagskrá, í Sþ. Ég ber fram þá ósk við hæstv. forseta að hann greini okkur frá því hvenær hann muni ljúka fundum í deildinni í dag til að greiða fyrir þessum boðaða fundi í Sþ. samkvæmt útbýttri dagskrá þannig að menn átti sig á því hvernig forseti og forusta þingsins, því það er hæstv. forseti Sþ. sem stendur að þessari dagskrá að sjálfsögðu líka, hyggst haga störfum í dag. Ég læt mér ekki detta í hug að menn ætli Sþ. ekki sæmilegan tíma til að ræða það mál sem þar er á dagskrá og kannski mál utan dagskrár sem óskir hafa komið fram um að rædd verði þannig að við hljótum að stefna að því að ljúka fundum í hv. deild fyrir kvöldmat til að ljúka umræðum um þau mál sem á að ræða fyrir áramótin í hv. þingdeild. Og ég vil sem utanbæjarmaður, sem hyggst halda áramótin heima hjá mér, fá upplýsingar um það frá hæstv. forseta hvort því megi ekki treysta að þingfundum ljúki á skikkanlegum tíma í kvöld þannig að mönnum gefist ráðrúm til að halda til síns heima og halda þar áramót og fagna nýju ári með eðlilegum hætti. Það hefur borist okkur til eyrna og er haft eftir forustu þingsins, vitnað til hennar, að það sé stefnt að því að hefja fundahald að nýju 4. janúar nk., mánudaginn 4. janúar, og það er gert ráð fyrir störfum þingnefnda, a.m.k. hv. sjútvn., að morgni þess dags þannig að mönnum er ekki ætlaður mikill tími til að dvelja heima hjá sér yfir áramótin ef þeir eiga að geta sinnt þingskyldum og mætt til boðaðra funda í nefndum að morgni mánudags. Það hlýtur að vera krafa okkar eindregin að fundum ljúki með skikkanlegum hætti á yfirstandandi sólarhring, á þessum degi, eins og ég raunar vil lesa út úr þessari dagskrá, þannig að menn geti haft skikkanlegt ráðrúm til þess, ef veðurguðirnir leyfa, að komast leiðar sinnar til þess að kveðja gamalt ár og fagna nýju við eðlilegar aðstæður. Það stóð glöggt með jólin, veðurguðirnir hagstæðir. Það er ekki alveg eins gott fram undan í veðurspánum núna, virðulegur forseti. Þó að vald forseta sé mikið veit ég að hann ætlar sér ekki að stjórna veðri og vindum, en á hans valdi er að greiða fyrir því að eðlilegur tími sé til ferða fyrir þm. Ég ítreka þessa ósk um leið og ég geri um það kröfu að forusta þingsins ræði þá stöðu sem upp er komin vegna vinnubragða í hv. fjh.- og viðskn. undir forustu hv. 1. þm. Norðurl. v.