30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3417 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

197. mál, vörugjald

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessum umræðum um þingsköp hefði ekki formaður fjh.- og viðskn., hv. 1. þm. Norðurl. v., verið með afskaplega einkennilega túlkun á því hvernig nefndum bæri að starfa og sérstaklega vegna þess að margir hv. þm. eru hér inni sem eru að sitja sitt fyrsta þing. Ég fullyrði að öll vinnubrögð á þessu þingi séu alveg með sérstökum hætti. Ég er búinn að vera rúm 20 ár hér og nefndarformaður í á annan áratug í mörgum mismunandi nefndum. Hér er t.d. inni a.m.k. einn hv. þm. sem hefur verið með mér í nefndum. Ég hef alltaf skilið það þannig að nefndir eigi að ræða málin og athuga allar hliðar á hverju einasta atriði. A.m.k. hjá mér hefur það oft komið fyrir að stjórnarandstæðingur hefur bent á ýmis atriði sem betur mættu fara og við höfum stundum náð saman vegna þess að við höfum haldið marga fundi, kallað marga til. Þetta eru alveg ný vinnubrögð. Hv. 1. þm. Norðurl. v. er að gefa ranga ímynd af Alþingi, algjörlega ranga. Ég er alveg undrandi á þessum vinnubrögðum og hans þjónustulund við fjmrh., enda sá ég að hæstv. fjmrh. var að klappa honum öllum utan sem er ekkert undarlegt því að hún er alveg með eindæmum þessi þjónustulund. Ég hefði nú talið líklegra að einhverjir aðrir mundu gegna því hlutverki en hv. þm. Páll Pétursson.

Nefndir eiga að starfa þannig að athuga mál í sameiningu og þegar það er búið, ef ekki næst saman, á að skipta nefndinni og þá er eðlilegt að hver hluti ræði málin. Þetta eru hinar hefðbundnu reglur sem þingið hefur unnið eftir í tugi ára, líklega allt frá upphafi. En nú eru komnir nýir herrar, nýir hættir, ný vinnubrögð sem eru þannig að það er með eindæmum. Og eins og ég sagði í gær: Hæstv. ríkisstjórn virðist ekki vita sitt rjúkandi ráð. Það var orðið samkomulag að ég hélt, herra forseti, að það yrði bara á fimmtudögum sem yrði byrjað fyrir hádegi á fundum og að nefndir hefðu tóm til að ræða málin fyrir hádegi. Ekki einu sinni í þessum mikilvægu málum fá nefndir eðlilegan tíma. Hverjum dettur í hug að tollafrv., 340 bls., hafi verið rætt af neinu viti? Mér dettur það ekki í hug. Ég mun koma með ýmsar spurningar til nefndarformanns á eftir. Við skulum sjá hvað hann getur leyst úr þeim. Þessir nefndarmenn, m.a.s. nefndarformaður, hafa ekki hugmynd um hvað felst í raun og veru í þessum frv. Þannig standa málin 30. des. 1987 og ríkisstjórnin er svo glámskyggn að hún heldur að það sé hægt að klára þessi mál fyrir kl. 12 á gamlársdag. Ætli umræður endist ekki fram að þeim tíma ef á að haga vinnubrögðum á þennan hátt.

Ég er ekki að kenna hæstv. forseta um þessi vinnubrögð. Hins vegar er það hans að neita þessum vinnubrögðum þegar svona er að staðið. Hann á að neita. Hann á ekki að láta ríkisstjórn sem er í raun og veru örvita kúga sig til að breyta öllum hefðum þingsins eins og mér virðist að nú sé gert.