30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3420 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

197. mál, vörugjald

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég treysti því fyllilega að hæstv. forseti taki tillit til gagnrýni okkar og þeirra ábendinga sem hér hafa komið fram og kem ekki hér upp til að lengja umræður um þingsköp. Það kunna að gefast fleiri tilefni í dag.

En það var fyrst og fremst innlegg hv. 6. þm. Norðurl. e. sem hvatti mig til að taka aftur til máls um þingsköp og segja örfá orð. Það vill svo til að einmitt fulltrúar minni hl. í hv. fjh.- og viðskn. hafa reynslu af samstarfi við þann hv. þm. í nefnd og undir hans forustu og það kom raunar til umtals við 1. umr. einhvers af þeim þremur málum sem við höfum haft til umfjöllunar í nefndinni að undanförnu. Þá var hv. þm. fjarverandi vegna veikinda og heyrði ekki þau orð sem þá féllu. En þá minntust ýmsir þess hvernig hann hefur staðið að umfjöllun mála í nefnd. Ég get borið um það hér að undir hans stjórn var ekki gefið eftir með að fara yfir hvert einasta atriði í þeim frv. sem til umfjöllunar voru og aldrei látið undan þrýstingi ríkisstjórnar með að afgreiða mál án skoðunar í nefnd. Þessi störf höfum við tekið sem dæmi um fyrirmyndar nefndarformennsku og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það komi hér aftur fram.

Mér dettur í hug, vegna þess það er mikil trú á endurhæfingu og námskeiðahaldi og menntun, símenntun, í þjóðfélaginu, að það væri mjög til athugunar fyrir stjórn þingsins að efna til námskeiðahalds fyrir hv. þm. og þá allra helst formenn þingnefndanna um hvernig nefndastörf geta sem best farið fram. Ég sé ekki að við værum svikin af því ef til hv. 6. þm. Norðurl. e., sem er elsti þm. og einn af þeim þingreyndustu, væri leitað um slíkt námskeiðshald.