30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3422 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

197. mál, vörugjald

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 448 er nál. frá minni hl. fjh.- og viðskn. sem ég leyfi mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Minni hl. leggur til að ríkisstjórninni verði falið að vinna þetta frv. betur. Fari svo að meiri hl. Nd. haldi fast við að afgreiða málið, án frekari umfjöllunar, áskilur minni hl. sér rétt til þess að flytja brtt. við einstakar greinar frv.

Nd. hefur haft allt of skamman tíma til þess að fjalla um þetta frv., svo og nátengt frv. um tollamál, og inni í þeim tíma eru hátíðisdagar jólanna. Fráleitt er að ætla svo nauman tíma, annasaman og sundurslitinn, til þess að fjalla um svo stór mál af vandvirkni.

Það sýnir best hve mál þessi eru illa undirbúin að ný álitamál koma upp á hverjum einasta fundi í nefndinni, enda þótt meiri hl. Ed. hafi þegar breytt frv. í fjölmörgum atriðum.

Þá er ljóst að ríkisstjórnin hefur gert sig seka um stórfellda mismunun gagnvart aðilum utan þings við undirbúning þessara mála. Félag íslenskra stórkaupmanna, Kaupmannasamtökin, Verslunarráð Íslands og Félag íslenskra iðnrekenda virðast hafa haft málin til meðferðar í þrjár vikur áður en Alþingi fékk að sjá þau. Aðrir augljósir hagsmunaaðilar eins og Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsamband bænda og Samband íslenskra samvinnufélaga fengu ekki tækifæri til þess að fylgjast með gangi mála fyrr en stjórnarandstaðan krafðist þess að fulltrúar þeirra kæmu á fund fjh.og viðskn. Ed. Neytendasamtökin komu hvergi nærri þessum málum fyrr en stjórnarandstaðan lét boða fulltrúa þeirra á fund í nefnd Nd. Heilsufarsog manneldissjónarmið hafa algjörlega verið fyrir borð borin við undirbúning málanna þrátt fyrir gefin fyrirheit í stjórnarsáttmála um forvarnarstarf. Fulltrúi Manneldisfélags Íslands var ekki kallaður til samráðs fyrr en að kröfu stjórnarandstöðunnar á Alþingi.

Meðal þess sem átti að lækka í verði við tollabreytingar voru ilmvötn og snyrtivörur af ýmsu tagi.“ — Herra forseti. Mér þætti vænt um ef hæstv. fjmrh. og viðskrh. einnig vildu gera hlé á sínum fundi því að hér kem ég að mjög mikilvægum kafla í nál. minni hl. sem ég tel þeim hollt að hlýða á.

„Við umfjöllun í nefndinni kom hins vegar fram sú skoðun að erlendir ilmvatns- og snyrtivöruframleiðendur mundu sjá leið til þess að hagnast meira á þessum breytingum en íslenskir neytendur. Varð því að ráði að leggja vörugjald á þessar vörur og nýta þær tekjur. . . "

Herra forseti. Er þm. deildarinnar ætlað að fjalla um þetta mái án þess að hæstv. fjmrh. hafi tíma til að hlýða á mál okkar þó ég sé nýbúin að orða það að mér þykir mikils vert að hann hlusti? (Forseti: Hæstv. fjmrh. mun hafa gengið í hliðarherbergi.) Ég get alveg beðið. (Forseti: Ég mun biðja hann að koma inn í þingdeild þannig að ræðumaður geti haldið áfram.) Ég get líka beðið á meðan fundi lýkur í hliðarherbergi.

„Varð því að ráði að leggja vörugjald á þessar vörur og nýta þær tekjur, sem væntanlega munu nema um 130–140 millj. kr., til þess að greiða niður hluta af neyslufiski til almennings. Þetta dæmi sýnir glöggt að þær leynast víða matarholurnar. Minni hl. lýsir sig reiðubúinn til þess að vinna með meiri hl. að því að finna þessar matarholur í frv. um tollamál og vörugjald og afla þannig tekna sem komið geta í staðinn fyrir þær tekjur sem ríkisstjórnin vill afla með söluskatti á matvæli. Matarskattinn mun stjórnarandstaðan hins vegar aldrei samþykkja.

Þar sem ekki fékkst frekari umfjöllun um þetta mál í nefndinni leggur minni hl. til að því verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og henni falið að vinna það betur í samhengi við breytingar á vörugjöldum og söluskatti.

Ingi Björn Albertsson hefur tekið þátt í störfum nefndarinnar og stendur að þessu áliti minni hl.“ Undir þetta rita Kristín Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Herra forseti. Þetta nál. og till. okkar fulltrúa minni hl. í fjh.- og viðskn. segir í rauninni í afar stuttu máli flest það sem segja þarf. Þetta álit og sú till. sem þar kemur fram um að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar er borin fram í fyllstu einlægni og raunar í algjörri nauðvörn því vitaskuld hefðum við helst viljað fjalla áfram um þetta mál í nefndinni við eðlilegar kringumstæður, undir viðunandi vinnuálagi og án þeirrar óeðlilegu pressu sem hér er í öllum málum. Það er með miklum trega og eftirsjá sem þessu áliti er fylgt úr hlaði því mér finnst þetta mál verðskulda svo miklu meiri umfjöllun og mér rann hreinlega til rifja þegar ég fór að draga saman orð í þetta nál. hver staða okkar er varðandi þetta mál því það kom hver spurningin af annarri upp í huga mér sem hefur ekki gefist ráðrúm til að leita svara við og jafnvel þótt svara hafi verið leitað hefur ekkert ráðrúm gefist til að skrifa þau niður og vinna úr hlutunum sem vert væri. Slíkur er asinn nú á öllu og pressan frá stjórnarliðinu að hespa nú af málum á kostnað vandaðra vinnubragða.

Það undrar mig raunar að svo virðist sem meirihlutamenn á Alþingi skilji ekki hvað þeir gera sjálfum sér illt með þessu, að ekki sé nú minnst á almenning sem auðvitað er þolandinn hvað svo sem við aðhöfumst á þessum vinnustað.

Í þessu nál., herra forseti, sem ég var að lesa, kemur fram tilboð sem ég sé ástæðu til að ítreka og undirstrika og vekja rækilega athygli hv. þm. á og þá sérstaklega hæstv. ráðherra. Að mínu áliti er þetta tilboð sem ekki er hægt að hafna. Væri nú hæstv. fjmrh. sæmra að draga ofurlítið niður í rosta sínum og leggja algjörlega niður áreitnar og ósanngjarnar athugasemdir og sendingar til stjórnarandstöðunnar í fjölmiðlum og þiggja heldur framboðna aðstoð stjórnarandstöðunnar við að koma fram málum á Alþingi og leysa vandamál bæði ríkissjóðs og almennings með þeim hætti sem unað yrði við.

Við bjóðum fram aðstoð okkar, og setjum það tilboð fram í þessu nál., við að finna þá liði í þessum frv. um tollamál og vörugjald sem þola þær álögur sem gefið geta ríkissjóði tekjur og um leið mundum við forða hæstv. ríkisstjórn frá því voðaverki að leggja skatt á matvæli. Við höfum hér fordæmið sem kom upp í hendur okkar nánast fyrir tilviljun. Það hefur kannski alls ekki komið nægilega vel fram hvernig það vildi til. Það gafst vitanlega ekki tími til að skoða þessi frv., þessa samvöxnu tvíbura, tollafrv. og vörugjaldsfrv., lið fyrir lið eins og við hefðum þurft að gera og fulltrúar minni hl. vissulega fóru fram á. Ég tek það fram að við fórum fram á í nefndinni að það yrði farið yfir þessi frv. lið fyrir lið svo að nefndarmenn mættu kynna sér á eðlilegan hátt hvað í þessum frv. felst. Ég get endurtekið það sem ég sagði áðan um þau vinnubrögð sem æskileg eru í nefndum, að ég er sannfærð um að ef hv. 6. þm. Norðurl. e. hefði stjórnað þessari nefnd hefðum við fengið að viðhafa þau vinnubrögð. En það má vel vera að einhverjir nefndarmanna telji sig hafa farið sæmilega yfir þau og telji sig þess umkomna að afgreiða þau.

En það nánast vildi til á einum þessara örfáu funda sem við ræddum þessi mál að hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon fór að spyrja út í tilgang þess að lækka svo mjög álögur á ilmvötn og snyrtivörur. Það var eins og við manninn mælt að hver studdi annan í því að þetta ráðslag mundi engum koma vel nema snyrtivörukóngum úti í heimi sem mundu ekki líða að fína varan þeirra lækkaði í verði hér á Fróni og þeir mundu því bara hækka verð vörunnar frá sér til innkaupsaðila. Það var því ekki um neina fyrirstöðu að ræða í þessu máli, bara skellt á vörugjaldi, einn, tveir og þrír og ekkert mál. Við vitum öll hvað meiningin er að gera við þá aura sem þarna fást, eitthvað töluvert á annað hundrað milljóna kr. Það er rétt að það komi fram hér að mér er reyndar ósárt um þótt ilmvötn og eitthvað meira af slíku dóti fái á sig vörugjald, jafnvel þótt hér sé um að ræða að langmestu leyti vörur sem konur nota. En mér þótti að vísu heldur verra að hárþvottaefni þyrfti endilega að fylgja þar með. Það varð samt niðurstaðan og ég verð að játa að ég man ekki svo glöggt hvers vegna ekki mátti undanskilja það og væri ástæða til að fá það upplýst hér. Ef hv. 1. þm. Norðurl. v., sem mun hafa stjórnað fundum nefndarinnar og veit sjálfsagt allt um þessi frv. og hver áhrif sú lagasetning hefur, væri viðstaddur gæti hann vafalaust skýrt það fyrir okkur á eftir. Ég er búin að gleyma því því að það var eitt af því sem fór nokkuð hratt fram í nefndinni. En ég verð þó að segja að ef það er spurning um sjampó eða fisk hlýt ég að velja fiskinn.

En þannig gerðist þetta, eins og ég segi, eins og fyrir tilviljun en ekki við einhverja nákvæma skoðun málsins. Það var síður en svo. Og við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni, bæði við tvö sem eigum fullgilda aðild að nefndinni svo og fulltrúi Borgarafl. sem hefur þar áheyrnaraðild, erum þess fullviss að við markvissa leit og með ákveðin markmið að leiðarljósi má finna fleiri slíkar matarholur. En það þarf að vinna slíkt verk af nákvæmni og alúð. Það dugir ekkert handahóf. Við þurfum svolítinn tíma, hæstv. ráðherra, og vinnufrið, en það er allt hægt ef viljinn er nægur og ef menn eru sammála um markmiðin.

En ef svo illa fer að þetta mál verði keyrt í gegn í dag eða næstu daga höfum við kvennalistakonur lagt fram brtt. við frv. sem hér er til umræðu, frv. um vörugjald, og það er á þskj. 449. Ég vil skýra það aðeins fyrir hv. þm. að þessi till. okkar felur í sér að vörugjald verði lagt á ýmiss konar sykur og sykurvörur. Þessi till. er í fyllsta samræmi við þau heilsufars- og manneldissjónarmið sem við höfum lagt mjög ríka áherslu á og talað fyrir í umræðum um öll þau mál sem hér hafa verið til umfjöllunar.

Ég vil að vísu taka það strax fram að einn hv. þm. benti mér á villu sem væntanlega er hérna í brtt. og hefur þá einnig verið í till. eins og henni var dreift í Ed. Ég á eftir að kanna það. Ég hef ekki mátt vera að því. En ég held að það hljóti að vera villa hérna. Það er nr. 1703.1001 eins og stendur í brtt. Það er næst síðasta talan í aftasta dálki. Það hlýtur að eiga að vera nr. 1702.1001. En þessi tollskrárnr. er að finna á bls. 40 og 41 í tollafrv. Ég vil hvetja hv. þm. til að kynna sér hvað þessi till. felur í sér og vitaskuld vonast ég til þess að þeir muni styðja þessa till. við afgreiðslu málsins hvenær sem hún verður og get fullvissað þm. um að þetta er gert í samráði við sérfræðinga í þessum málum.