30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3429 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

197. mál, vörugjald

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Að gefnu tilefni og vegna fsp. frá hv. 6. þm. Norðurl. e. vil ég að það komi fram að í gildandi lögum um vörugjald var lagt 80% gjald á stofn innlendrar framleiðslu. Til þess að losna við þessa áætlunarupphæð var fundin upp þessi regla. Ég vil leyfa mér að lesa úr skýringum við 5. gr. frv, Í þeirri grein er fjallað um gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum:

„Skv. 7. gr. frv ber að innheimta gjaldið við tollafgreiðslu af innfluttum vörum með sama hætti og tíðkast hefur skv. gildandi lögum um vörugjöld. Gjaldstofn innfluttrar vöru er skv. greininni tollverð að viðbættum tollum, sé um þá að ræða, auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar. Hér er um að ræða breytingu frá ákvæðum gildandi laga um vörugjöld. Breytingin felst í því að áætluð heildsöluálagning er tekin inn í gjaldstofninn við tollafgreiðslu vörunnar áður en vörugjaldið er reiknað. Í gildandi lögum um vörugjald er gjaldstofn innfluttrar vöru hins vegar tollverð hennar að viðbættum tolli. Með þessum hætti er tryggt að gjaldstofn innfluttrar vöru verði sambærilegur vörugjaldsstofni innlendrar framleiðslu, sbr. 2. og 3. málsgr. 6. gr., þ.e. heildsöluverð vörunnar en ekki verksmiðjuverð hennar án álagningar fyrir sölu- og dreifingarkostnaði eins og gildandi lög kveða á um.“

Ég held að þetta sé ekki óskynsamleg leið og ég held að þetta sé ekki lakara fyrirkomulag en það sem við höfum búið við heldur betra. Hitt er svo annað mál hvort þessi 25% eru nákvæmlega rétt prósentutala. Ég get fallist á það með hv. 6. þm. Norðurl. e. að það kann að vera að hún sé óþarflega há.