30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3445 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

Tilhögun þingfundar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa mikilli undrun yfir því sem hér hefur komið fram frá virðulegum forseta í sambandi við þinghaldið, að það sé áformað að halda áfram að ræða þau stóru og viðamiklu mál sem hér eru til 2. umr. um ótiltekinn tíma fram að áramótum, ef ég skil virðulegan forseta rétt, því að hann nefndi engan lokatíma varðandi þá umræðu sem fram undan væri um þessi efni. Ég spyr virðulegan forseta að því hvort það sé hugmynd hans með þessu að koma í veg fyrir að þm. geti haldið til síns heima yfir áramót og dvalið heima hjá sér í byrjun nýs árs og hvort hann gerir ráð fyrir því, virðulegur forseti, og forusta þingsins að það skipti einhverju máli í reynd varðandi afgreiðslu mála á næstu dægrum, þau eru kannski ekki í fleirtölu mörg enn þá til umræðu á þessu ári, varðandi afgreiðslu mála sem eru flókin og eftir er að gera grein fyrir eftir að þau koma frá nefnd, að það getið raðið einhverjum úrslitum hvort hér sé kvöldfundur og næturfundur á komandi nóttu. Ég tel að það sé mikil glámskyggni af virðulegum forseta ef hann og aðrir í forustu þingsins ímynda sér að slíkir starfshættir séu líklegir til að skila árangri í sambandi við þessi mál út frá sjónarhóli hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar hér. Ég get ekki annað en látið koma fram af minni hálfu andúð á þessum ákvörðunum meiri hluta á þingi og forustu þingsins.

Ég vil jafnframt spyrja hvað verður um þann fund í Sþ. sem var á dagskrá, sem lá fyrir í morgun að halda átti, 39. fund Sþ., jafnvel umræður utan dagskrár sem óskað hafði verið eftir á slíkum fundi. Hvar er þessum fundi ætlað rúm á þessum degi?

Að lokum vil ég spyrja virðulegan forseta um hvort forusta þingsins hafi fjallað um þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í fjh.- og viðskn. í gærkvöld og morgun í sambandi við frv. til tollalaga og fleiri efni og voru til umræðu vegna þingskapa í morgun, hvort um það hafi verið fjallað. Ég er út af fyrir sig ekki að óska eftir uppgjöri í því máli fyrr en að því kæmi að það ætti að koma á dagskrá, en mér fyndist þó ekki óeðlilegt að upplýsa hvort um það hafi verið fjallað og hvort það liggur fyrir niðurstaða af hálfu forustu þingsins varðandi þessi vinnubrögð í nefndum og þá að hæstv. forseti mundi greina okkur frá niðurstöðu að því leyti.