30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3446 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

Tilhögun þingfundar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta þinghald á milli hátíða er með slíkum endemum að ég er alveg viss um að það má leita um mörg þjóðlönd að annað eins finnist. Það er ekki nóg með að formaður fjh.- og viðskn. talar fyrir frv. og síðan hverfur hann. Hann lætur ekki sjá sig. Það má fresta umræðu um mál vegna hans fjarveru. Ég er t.d. með upplýsingar, sem ég ætla ekki að fara að ræða um, í sambandi við það sérstaka gjald sem er ætlað heildsölum og hvernig það verkar. Ég geri það ekki undir þessum lið. En það breytir öllu málinu, þær upplýsingar. Það breytir öllu málinu. Eins og kom fram hjá formanni fjh.- og viðskn., 1. þm. Norðurl. v., hafði hann ekki hugmynd um hvernig þetta verkaði. Honum fannst þetta aðeins of hátt kannski. Búið! En hvernig þetta verkaði hafði hann ekki hugmynd um. Þetta er eina málið sem hefur verið upplýst hér í þinginu að hafi fengið hér um bil eðlileg vinnubrögð. Hvað um annað?

Ég spurðist fyrir um það í gær, virðulegur forseti, hvernig þinghaldið yrði. Ég heyri að það er ætlast til þess að við verðum hérna a.m.k. á gamlárskvöld og líklega fram á hið nýja ár. En eitt vil ég aðvara forseta um og það er að ráðherrar og formenn, a.m.k. þeirra nefnda eða frsm. þeirra frv. sem verða á dagskrá, séu hér inni. Annars t.d. mun ég standa í ræðustól þangað til þeir koma ef þeir verða ekki viðstaddir í umræðum. Ég hef gert það áður. Ég læt ekki bjóða mér slík vinnubrögð sem hér fara fram öðruvísi en þetta mun ég gera. En ég vil vegna forseta aðvara hann um þetta.