30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3467 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

197. mál, vörugjald

Ingi Björn Albertsson (frh.):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. formaður fjh.og viðskn. skuli vera viðstaddur, en ég hafði í nokkrum orðum farið yfir frv. og var byrjaður að fara yfir brtt. þær sem Borgarafl. leggur fram og taldi nauðsynlegt í ljósi þess að í nefndinni er ekki farið yfir þær umræður sem eiga sér stað inni á þingi, til þess að það kæmist til skila til hv. formanns, að hann væri hér viðlátinn. Hann er það nú svo að ég mun þá fara aftur yfir þetta.

Þær brtt. sem Borgarafl. leggur fram eru í og með framhald á þeirri yfirlýstu stefnu ríkisstjórnarinnar að taka tillit sérstaklega til heimilanna. Það skref hefur ekki verið stigið til fulls og með brtt. sem við leggjum fram er það sjálfsagt ekki enn, en það er þó stigið aðeins lengra en komið er.

Við leggjum fram till. um að vörugjald verði fellt niður af tollskrárnúmerum 3922.1000, 2000, 9001, 9009 sem eru í 39. kafla. Það er kafli, eins og ég hef áður sagt, upp á allmargar síður. Eini liðurinn í þeim kafla sem ber vörugjald eru hlutar til heimilisnota eins og baðker, sturtubaðker, handlaugar o.fl. Við leggjum til að vörugjald verði fellt niður og eins og ég hef áður sagt, þar sem þess þarf þá með í framhaldi af niðurfellingu vörugjalds, verði 0-eftun felld niður einnig.

Við erum einnig með brtt. við 69. kafla sem má segja það sama um. Þar er um sömu vöru nánast að ræða nema úr öðrum efnum. Sama má segja um kaflann. Hann er allur vörugjaldslaus nema þessi heimilistæki.

Við erum með tillögur um breytingar á tollskrárnr. 7324.1000, 2100, 2900 og 9000. Þarna er um að ræða enn það sama, vaska, handlaugar og annað slíkt. Í kafla 7418.2000, hreinlætisvörur, eina númerið í öllum kaflanum þar sem vörugjald er. 7615.2000, aftur hreinlætisvörur. Eina númerið í kaflanum með vörugjald. 8450.9000 er mjög athyglisvert að skuli bera vörugjald. Þar er um að ræða varahluti í þvottavélar sem eru í 15% tolli og eiga að bera vörugjald, en varahlutir í uppþvottavélar og þurrkara bera hins vegar engin vörugjöld. Þarna er mikið ósamræmi á og vægast sagt hlýtur að skapa mikil vandamál fyrir tollverði hvernig þeir eiga að grípa á slíkum varahlutum og má benda á að það er afskaplega einfalt fyrir innflytjendur hreinlega að láta merkja vörurnar sem varahluti í uppþvottavélar og sleppa þar með við vörugjaldið. Þarna er um samræmingaratriði að ræða og ég vænti að það verði tekið tillit til þess.

8509.9000. Það er það sama. Þar eru varahlutir í annars konar tæki. Það eru hlutir í ryksugur og hrærivélar. Það á að taka vörugjald af þeim en ekki öðrum heimilistækjum. Það má nefna straujárn, rakvélar, hárþurrkur og slíkt. Tollnr. 8516.4009. Þar á að taka vörugjald af straujárnum sem ómótmælanlega eru mikið notuð á heimilunum, en hins vegar ekki af kaffivélum, brauðristum eða öðrum álíka tækjum. 8518.3000. Það eru heyrnartól. Þar er ráðgert að taka vörugjald. Hins vegar á fyrir 8518.1000 ekki að taka vörugjald. Þarna er um má segja sömu hlutina að ræða. Þetta eru hljóðnemar. Má kannski benda á að hljóðnemi eins og þessi hér ber ekkert vörugjald. Hljóðnemi sem aftur fréttamaður mundi nota við útsendingar mundi bera vörugjald. Þarna er mikið ósamræmi á ferðinni.

8518.9000, sem eru hlutir í þetta, varahlutir eða aðrir smáhlutir, eiga að bera bæði tolla og vörugjald og verður það til þess að það er ódýrara að flytja inn hellu stykkin en taka inn varahluti og er þá nær að panta inn heilu stykkin og rífa þau í sundur og nota sem varahluti og henda þá því sem ónothæft er. Má þá spyrja um gjaldeyrisnotkun Íslendinga, hvort hún er þarna í skynsamlegum farvegi.

8519.2100 eru hinir marg- og títtrættu laser-spilarar sem nefndin tók á og lækkaði tollinn á. Hér er farið fram á og lagt til að skrefið sé stigið til fulls og tekið af þeim vörugjaldið einnig. Þarna er um viðurkenndan smyglvarning að ræða. Þau rök voru m.a. notuð í nefndinni við það að lækka tollinn á þeim.

Þetta eru þau númer sem Borgarafl. leggur til að vörugjald verði fellt niður af. Ég vildi gjarnan, úr því að hv. formaður fjh.- og viðskn. sýndi mér þann heiður að hlýða á þetta, að hann segði sitt álit á þessum hlutum. Ég skal lána honum þessar tillögur vandlega merktar ef þetta hefur eitthvað skolast til.

En áfram um vörugjaldið. Ég var að vísu búinn að fara yfir flest það sem ég vildi segja í þessari umferð, en ég vil spyrja hæstv. viðskrh., úr því að hann er hér, um þetta 25% heildsöluálag sem hér er verið að leggja á og ég taldi mig hafa spurt hann að því þegar þetta var til 1. umr. hvort mætti túlka þetta sem svo að hér væri ríkisstjórnin að varða veginn fyrir heildsala í landinu og segja okkur þar með, sem höfum að innflutningi staðið, að 25% sé línan sem við skulum fylgja. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ríkisstjórn fari mjög varlega í sakirnar þegar hún áætlar heildsöluálag og varla fara heildsalar mikið niður fyrir það. (Dómsmrh.: Það er frjáls álagning.) Það er frjáls álagning. Það er alveg rétt. En það er gott að hafa eitthvert lágmark og ef þetta er það er mikils virði að vita af því.

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta að segja að svo stöddu. En ég varpaði fjölmörgum spurningum til viðskrh. sérstaklega í fjarveru fjmrh. þá stundina. Ég vænti þess að fá svör við því. Ég vænti þess einnig að hv. formaður nefndarinnar tjái sig hér. Ég að vísu, svo að hann viti af því, tók undir þá gagnrýni sem hér kom fram á störf nefndarinnar og taldi að það væri ekki boðlegt að starfa að slíkum lagabálki sem þetta er án þess að hafa heildarmyndina fyrir framan sig sem þýðir að hafa öll þau gögn sem í gildi eru í dag og þau gögn sem í gildi eiga að vera á morgun. Öðruvísi er ekki hægt að gera sér grein fyrir því hvað er á ferðinni.