30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3469 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

197. mál, vörugjald

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég spurði frsm. fjh.- og viðskn. um 25% áætlaða heildsöluálagningu. 5. gr. frv. sem hér er til umræðu, frv. til l. um vörugjald, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum er tollverð þeirra eins og það er ákveðið samkvæmt 8.10. gr. tollalaga að viðbættum tollum eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt þeim lögum auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar.“

Ég hef haft samband við nokkra aðila sem þekkja inn á þessi mál og þeir tjá mér að heildsöluálagning sé yfirleitt frá 2 upp í 10%, í einstaka tilvikum 25% og það hafi fundist fyrir ári 30%. Fram kom í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. að hann hefði ekki athugað þetta mál, en taldi að þetta væri kannski nokkuð hátt. Það er búið að margspyrja hæstv. viðskrh. að þessu og hann varpaði því fram úr sæti sínu að það væri frjáls álagning og þar af leiddi að þetta væri í lagi að mér skildist. En við skulum láta álagninguna út af fyrir sig eiga sig, þ.e. að það sé ekki alveg víst að heildsöluálagningin breytist mjög mikið, og við skulum gera ráð fyrir því að það sé meðaltalsálagning, þ.e. 10% eins og þeir aðilar allir hafa tjáð mér sem ég hef haft samband við.

Þarna er verið að hækka viðmiðunina úr 10% upp í 25%. Síðan kemur söluskattur og svo álagning smásalans og mér er tjáð að hún sé að meðaltali um 30%. Bara þessi aðgerð, hvað annað sem um er að ræða, mundi hækka verðið að mér er tjáð eitthvað yfir 20%, sennilega 26–27% eftir því hvernig álagningin er.

Í fréttum í gærkvöld kom fram að það væri álit verðlagsstjóra eða þeirrar stofnunar að sú lækkun sem reiknað væri með mundi ekki koma fram, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Þá var ekki tekið tillit til þessara 25% sem koma ofan á tollverð. Það er talan sem er ágiskunartala. Það skyldi ekki vera að þetta hafi þau áhrif þrátt fyrir tollalækkunina og þegar hún kemur fram að þetta breytti ekki miklu á vöruverði þegar upp er staðið? Það er alveg sama hvað hæstv. viðskrh. segir, hvort það er úr sæti sínu eða úr ræðustól, þessi viðmiðun, þessi 25%, hefur veruleg áhrif á vöruverðið. Ég skora á hv. frsm. fjh.- og viðskn. að skoða þetta mál nánar áður en lengra er haldið. Það gæti komið honum og öðrum í koll síðar ef það er rétt sem mér er tjáð, m.a.s. af hagfræðingi. Ég hef lagt þetta fyrir hagfræðing sem er vanur maður í viðskiptum.

Ég ætla að láta lokið máli mínu um þetta atriði, en ég ætla að koma áður en ég lýk máli mínu inn á það atriði sem hefur verið nokkuð rætt hér og ég hef heyrt að utan þessa salar vekur mikla athygli, þ.e. vinnubrögðin hjá þingnefndum og Alþingi yfirleitt.

Ég las upp rökstudda dagskrá um daginn frá núverandi hæstv. fjmrh. í sambandi við umfjöllun þáverandi landbn. á búvörulögunum og ég ætta að minna aftur á eina grein til að sýna fram á hvernig hugur hans var þá í sambandi við störf nefnda, en það munu hafa verið tólf formlegir fundir í þeirri nefnd þó að hann mætti ekki nema á tvo. Hann segir í till. til rökstuddrar dagskrár m.a., með leyfi forseta: „Hefur ekki fengið þinglega meðferð. Er m.a. órætt í landbn. og fékkst ekki send til umsagnaraðila sem geta beðið alvarlegt fjárhagslegt tjón af lögfestingu þess.“ Þetta sagði hæstv. fjmrh, þá. Þá var hann ekki fjmrh. Ég efast um að nokkurt frv. á þessu ári hafi fengið eins mikla umfjöllun og búvörulögin á þeim tíma. Ég efast um það og a.m.k. er óhætt að fullyrða að þau frv. sem hér er verið að fjalla um hafi enga umfjöllun fengið miðað við þá umfjöllun. En þannig ganga hlutirnir fyrir sig.

Ég minni hæstv. forseta á að ég kom með fsp. til heilbrmrh. og félmrh. m.a. í sambandi við söluskattinn. (Forseti: Hann gengur nú í salinn, heilbrmrh.) Sem hefur ekki verið. Hann var þá ekki hér viðstaddur og ég bað fyrir skilaboð til hans. En ég vil minna á að forseti komi skilaboðum til hans svo hann verði viðstaddur þegar ég ræði þau mál hér í þingsalnum.