30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

197. mál, vörugjald

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér sýndust engar líkur til að komið væri að lokum þessarar umræðu, jafnvel þó enginn væri á mælendaskrá, og reiknaði með að fá fleiri fsp. og ætlaði að geyma mér að svara og vildi helst svara sem flestum í einu. En út af fyrir sig er skyldugt að svara skynsamlegum og kurteislega fram bornum fsp. jafnvel þó umræða sé kannski að verða óþarflega ítarleg.

Ég verð að biðja afsökunar á því að ég hef ekki getað fylgst með allri þessari umræðu og sumt af þessum fsp. heyrði ég ekki sjálfur og kann að vera að eitthvað verði út undan sem menn hafa beint til mín, en menn hafa verið að bera til mín spurningar sem þeir hafa verið að hripa niður hér, stjórnarsinnar, og einkum er það viðskrh. sem hefur verið mér innan handar með að bera það til mín sem til mín hefur verið beint og sumt hef ég heyrt sjálfur.

Ég var búinn að svara Stefáni Valgeirssyni, hv. 6. þm. Norðurl. e., um 25% álagið. En Óli Þ. Guðbjartsson spyr: Af hverju 25% álag á innflutning?

Það er í fyrsta lagi til þess að gjaldstofn innlendrar framleiðsluvöru og innfluttrar sé sá sami. Þetta er óbreytt frá því sem nú er nema hvað í stað þess að reikna vörugjaldið á 80% af innlendri framleiðslu er þetta gert á innflutningshlið, þ.e. með 25% álagi.

Í öðru lagi: Á bak við þessa prósentu liggur sú hugmynd að heildsöluálagning sé á bilinu 20–30%. Til að einfalda málið er miðað við eina prósentu, 25%. Það er mjög gott og eftirbreytni vert ef heildsöluálagning er til muna lægri en þetta og þá hljóta þeir heildsalar sem svo vel versla að dafna og verða langlífir í landinu og koma þá lögmál samkeppninnar væntanlega þeim til góða.

Í þriðja lagi má nefna að samkvæmt fríverslunarsamningum okkar við EFTA og EBE má ekki mismuna innlendum og erlendum vörum með mismunandi vörugjaldi. Þess vegna þarf að beita 25% reglunni, annaðhvort á innlendu vöruna eða þá innfluttu. Til þess að vera vissir um að álag á erlenda vöru verði ekki minna en á hina innlendu er þessi regla upp tekin.

Hv. 6. þm. Suðurl. Óli Þ. Guðbjartsson spurði líka um hvað tollverð væri. Tollverð er fob-verð + fragt + trygging. Það verður cif-verð. Mismunur á fob og cif er ca 10%.

Í þriðja lagi spurði hann: Af hverju ekki fobverð? Spurning um tekjur, þ.e. að þá þyrfti að bæta tekjutapið með öðrum hætti. Með þeim tollalækkunum sem frv. felur í sér veldur þetta miklu minni mun í söluverði en áður, þ.e. fob eða cif. Munurinn skiptir minna máli eftir en áður.

Hv. 2. þm. Austurl. spurði hvort 11. gr. vörugjaldsfrv. væri óbreytt frá fyrri tíð. Svar er já.

Hv. 6. þm. Vesturl. spurði hverju 25% álagið skilaði og ég hef aflað mér gagna um það. Það er áætlað að það skili um 25 millj. kr.

Í öðru lagi spurði hann um vörugjald á sykur sem ég verð að viðurkenna að er sérstakt áhugamál mitt. Þetta telja þeir í fjmrn. að gæti skilað 15–20 millj. kr. nettó. Þá er reiknað væntanlega með því eftir að hefði verið endurgreitt iðnaðinum. Ég er ekki sannfærður um að þetta séu réttir útreikningar, en þessu halda þeir starfsmenn fjmrh. fram. Ég held að þarna sé vannýttur tekjustofn sem við getum vel litið til í framtíðinni og vitna til reynslu Norðmanna sem skattleggja sykur. M.a. af hollustuástæðum er ágætt að hafa þessa vöru dýra. Ég bendi á að sykur hér á landi er óeðlilega ódýr og eðlilegt að hann væri í hærra verði.

Ég vona að ég hafi komið frá mér svörum við þeim meginspurningum sem til mín hefur verið beint. Vera kann að eitthvað hafi fallið niður af því sem ég hef verið spurður að, en ég mun þá reyna að bæta úr því síðar í umræðunni.