22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

4. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um frystingu kjarnorkuvopna sem er 4. mál þessa þings. Flm. auk mín eru Danfríður Skarphéðinsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir, þingkonur Kvennalista. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Sovétríkin og Bandaríkin lýsi yfir tafarlausri frystingu kjarnorkuvopna, annaðhvort með samtíma einhliða yfirlýsingum eða með sameiginlegri yfirlýsingu. Slík yfirlýsing yrði fyrsta skref í átt að yfirgripsmikilli afvopnunaráætlun sem felur í sér:

1. Allsherjarbann við tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna og skotbúnaðar þeirra. Enn fremur algjöra stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna til vopnanotkunar.

2. Frystingu sem er háð öllum þeim aðferðum til sönnunar og eftirlits sem þegar hafa verið samþykktar af málsaðilum í SALT I og SALT II samningunum, auk þeirra aðferða sem þeir hafa samþykkt í grundvallaratriðum í þríhliða undirbúningsviðræðum í Genf um algjört bann við kjarnorkuvopnatilraunum.

3. Frystingu sem gildir í fimm ár til að byrja með en gæti orðið lengri ef önnur kjarnorkuveldi slást í hópinn eins og vonir standa til.“

Till. þessi var flutt af þingkonum Kvennalistans fjórum sinnum á síðasta kjörtímabili og er nú endurflutt. Ég hef áður í ítarlegu máli gert grein fyrir þeim helstu röksemdum sem styðja þetta mikilvæga mál og mun því gera grein fyrir þessari till. nú í mjög stuttu máli.

Till. er efnislega samhljóða till. sem flutt hefur verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á undanförnum árum. Á síðasta fundi var hún flutt af Indónesíu, Mexíkó, Pakistan, Svíþjóð, Uruguay og Perú, en hefur gjarnan verið kennd við Mexíkó og Svíþjóð og kölluð Mexíkó og Svíþjóðar tillagan. Hún snýst fyrst og fremst um bann við frekari tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna.

Augu æ fleiri stjórnmálamanna eru að opnast fyrir þeirri staðreynd að kjarnorkuvopn eru ekki nothæf til að ná skynsamlegum pólitískum markmiðum né heldur er hægt að nota þau til að öðlast hernaðarlega yfirburði vegna þess að það er ekki hægt að nýta þau til hernaðarsigurs. Eyðileggingarmáttur þeirra vopnabirgða sem Bandaríkin og Sovétríkin eiga nú er langtum meiri en mögulegur fjöldi skotmarka beggja aðila. Því er það blekking að fleiri kjarnorkuvopn af hvaða gerð sem er gefi nokkra hernaðarlega eða pólitíska yfirburði. Í þessu efni eru hagsmunir og velferð Íslands og alls heimsins sameiginleg, þ.e. að kjarnorkuvopnum verði aldrei beitt. Jafnframt er það skylda Íslands eins og allra annarra þjóða að leggja sitt af mörkum til að draga úr vígbúnaði og tryggja lausn þessa ógnarlega vanda.

Á sl. hausti varð Reykjavík vettvangur fyrir mikilvægan fund leiðtoga stórveldanna eins og hér kom fram aðan. Sá fundur markaði ákveðin spor í átt til afvopnunar. Síðan hefur þróun í afvopnunarmálum verið jákvæð og vakið vonir manna víðs vegar um heiminn, vonir um heim án kjarnavopna. Íslensk stjórnvöld hafa því miður ekki séð ástæðu til að styðja þessa till. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hingað til en jafnan setið hjá við atkvæðagreiðslu. Slíkt er óviðunandi og í ósamræmi við anda þeirrar þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem samþykkt var á Alþingi í maí 1985.

Á síðasta hausti sáu allar Norðurlandaþjóðirnar aðrar en Íslendingar sér fært að styðja áðurnefnda tillögu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. utanrrh. hefur með ummælum sínum utan þings gefið góð fyrirheit um að nú verði breyting gerð í þessum efnum og fagna því margir. Ég vil því biðja hæstv. ráðherra um að staðfesta þessi ummæli hér og lýsa fyrirætlunum sínum í þessum efnum.

Till. þessi miðar að því að hindra frekari kjarnorkuvopnasöfnun. Mikilvægt er að Alþingi fjalli um þessa þáltill. áður en efnislega samhljóða till. verður borin upp til atkvæða á því þingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir. Með samþykki þessarar þáltill. mundi Alþingi gefa íslenskum stjórnvöldum það verðuga verkefni að beita sér fyrir allsherjarbanni við tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna.

Ég vil leggja til að þessari till. verði að lokinni umræðu vísað til hv. utanrmn. og ég vil enn fremur leggja áherslu á við hv. formann nefndarinnar, sem hér situr fund, að þessi till. verði afgreidd eins fljótt og nokkur kostur er til þess að hægt verði að taka afstöðu til hennar hér á þinginu áður en tillagan verður borin undir atkvæði á þingi Sameinuðu þjóðanna.