30.12.1987
Neðri deild: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3478 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

196. mál, söluskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að ég verði jafnskemmtilegur og síðasti ræðumaður hér í ræðustól, en ég mun reyna að sjá til þess að sumir ráðherrarnir og a.m.k. formaður þeirrar nefndar sem fjallaði um þessi mál verði hér inni ef ég á að ljúka ræðu minni.

Ég frestaði því fyrir beiðni fyrst og fremst þm. Alberts Guðmundssonar í gær að flytja mitt mál þá, en ætla mér að taka nú þann tíma sem ég tel mig þurfa til að ræða um þessi mál.

Ég heyrði það og sá í sjónvarpinu að hæstv. forsrh. vildi meina að hér væri uppi málþóf. Hins vegar minntist hann ekki á þau vinnubrögð sem eru á hinu háa Alþingi þessa dagana nema að því leyti að hann viðurkenndi að frv. sem við erum að fjalla um hefðu verið síðbúin. Það er ekkert undarlegt þó hv. þm. vilji fjalla um þessi mál sem hefur komið fram svo óyggjandi er að voru ekki athuguð í nefnd á þann veg sem venja er og skylt er. Til hvers er verið að skipta Alþingi í tvær deildir og láta nefndir beggja deilda fjalla um mál? Til hvers? Er það bara til málamynda? Það er auðvitað til að reyna að tryggja að mál séu skoðuð nokkurn veginn forsvaranlega. Og jafnvel þó að það sé gert er hægt að koma með mörg dæmi þess að slys hafi orðið. Ég minnist þess að það hafa komið t.d. mál í nefnd sem ég hef átt sæti í frá Ed. sem hafa verið gerðar 29 brtt. við í seinni deild.

Ég vil segja það við hæstv. utanrrh. að ég mun eiga erindi við hann síðar á fundinum.

Þetta verða hv. þm. að hafa í hyggju þegar við teljum okkur þurfa að ræða um þau mál sem eru til umfjöllunar. Ef þetta er ekki tilgangurinn, sem ég hef hér sagt, þýðir ekkert annað en að leggjá þessar nefndir niður ef þetta á að vera til málamynda, ef á ekkert að fjalla um málin. Og það er ekkert lítið sem hér er verið að gera. Það er verið að gjörbreyta því fyrirkomulagi sem hefur verið um tekjuöflun ríkissjóðs. Það er verið að breyta því, sem áður hefur verið, að hæstu skattarnir leggist á það sem við köllum lúxusvörur. Það er verið að snúa því við blátt áfram. Nú er mestu skattarnir í sjálfu sér settir á matinn til þess að seilast í vasa þeirra sem þurfa að kaupa mat.

Já, þó hæstv. iðnrh. hristi höfuðið er þetta allt staðreynd. Það eru mörg heimsmetin sem væri hægt að skrá í heimsmetabókina. Það eru ekki eingöngu þau frv. sem hér eru og þau vinnubrögð. Hvernig er það, hæstv. utanrrh., um vaxtastefnu núv. ríkisstjórnar? Var það það sem átti að gerast, miðað við það sem lofað var fyrir kosningar, að hækka vextina um að meðaltali 12% á mánuði frá því að þessi ríkisstjórn var mynduð á Alþingi eða samtals 60%? Var það þetta?

Nei, það er ekkert undarlegt þó a.m.k. þeir sem eru fulltrúar hinna verr settu í þjóðfélaginu vilji ræða þessi mál og gera tilraun til þess að matarskatturinn sé ekki lagður á eða a.m.k. breytt frá því sem hann er í frv.

Það kom fram í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. að hverju hann stefndi. Hann stefndi ekki að því að borga niður vöruverðið. Hann stefndi að því að gera það með öðrum hætti. Hann hefur nú gefið út þessa merkilegu ræðu sína í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og setið í bókaverslunum og ritað á nafn sitt. En hvað er ráðherrann að fara í þessari kerfisbreytingu? Það er alveg rétt að það er kannski auðveldara að ná sköttum með því móti sem hann er að gera það, þ.e. að leggja söluskatt á búvörur. Það er yfirlýst hans stefna, hans flokks og frjálshyggjumannanna í Sjálfstfl. að láta niðurgreiðslur hverfa. Það er alveg merkilegt að eins mætur maður og formaður fjh.viðskn. er, hv. 1. þm. Norðurl. v., skuli láta hafa sig í að fylgja þessum skatti. Ég tók að vísu eftir því að hann vildi ekki tala fyrir nál. um þennan skatt. Hann fékk annan til þess, mann sem er vanur því að geta talað þannig að svart virðist vera hvítt. En í ræðu hans í dag gerði hann það ekki. Það hefur kannski verið ætlun formanns fjh.- og viðskn. að fá slíkan mann til að tala fyrir nál. meiri hl., en það brást. Hann treysti sér ekki í það.

Það eru ýmsir sem hafa látið heyra í sér út af þessum söluskatti. Ég trúi því ekki að hv. þm. Páll Pétursson sé farinn að heyra svo illa eða lesa svo lítið að hans kjósendur hafi ekki náð til hans í sambandi við þessi mál. A.m.k. hef ég heyrt í þeim. Og ég hygg að það séu margir fleiri. (HG: Ætli þeir kjósi hann aftur?) Ég skal ekkert segja um það. Þeir verða að svara því. Hitt er alveg áreiðanlegt að óánægja í kjördæmi hv. þm. hefur aldrei verið eins mikil og á þessari stundu. Það er alveg klárt. Hvað þeir kjósa skal ég ekkert fullyrða um. Það verður að sýna sig. Það er alveg áreiðanlegt, miðað við það sem er að gerast nú, að hv. þm. fær tækifæri til að ræða bæði við mig og aðra í sínu kjördæmi út af því sem er að gerast nú þar sem búið er að koma því þannig fyrir að hvorki Tíminn eða Dagur fást til að birta það sem frá okkur kemur nema í undantekningartilvikum. Hverjir sem hafa svo haft áhrif á það. Það skal ég ekki hér og nú fullyrða.

Hlutleysi ríkisfjölmiðlanna er einnig með þessum hætti að t.d. við mig hefur Sjónvarpið einu sinni rætt síðan þetta þing hófst. Og um hvað? Um bjórinn. Ekki um útlitið eins og það er, ekki um afstöðu okkar í Norðurlandi eystra margra. Ekki um útlitið nú. Um bjórinn. Þetta er það hlutleysi sem við verðum vör við, stjórnarandstæðingar flestir, en þó er það ekki á þann veg sem ég er að tala um í sambandi við mín samtök.

Af þessum ástæðum er óumflýjanlegt að ég hafi nokkur orð um það hér á eftir hvernig viðskipti mín við formann Framsfl. og formann þingflokks hans, hv. þm. Pál Pétursson, hafa verið vegna þess að því er haldið fram að það sé enginn munur á skoðunum okkar og Framsfl. Ég fékk það staðfest hjá þeim báðum á fundi norður á Akureyri að þeir litu svo á málin. Þeir voru í fjötrum að manni sýndist og mun ég koma að því betur síðar í minni ræðu.

Ég óskaði eftir því fyrr í þessum umræðum að heilbr.- og trmrh. upplýsti við umræðu um þetta mál hvernig eftirliti væri háttað á innflutningi á matvörum og sérstaklega grænmeti frá Evrópu. Það er nokkuð athyglisvert að við höfum verið að reyna að selja kartöflur til Norðurlanda og við höfum orðið vitni að því hvernig þeir bregðast við. Þeir hafa ekki einu sinni, þeir hafa beðið tvisvar sinnum um að fá sendar prufur til að athuga í hvaða ástandi þessi vara er. Það er búið að senda tvisvar sinnum til Finnlands, tvisvar sinnum til Noregs. Og það er ekki nóg með það. Nú vilja Norðmenn koma hingað til Íslands til að athuga ástand og geymslur og allt um þessa vöru þrátt fyrir að það sé búið að senda tvívegis prufur. En hvernig er það svo með okkur hér? Mér er t.d. tjáð að grænmeti hafi verið sent til Finnlands frá Hollandi og Finnar hafi skoðað það og ekki talið að það væri vara í því ástandi sem þeir gera kröfur til. Mér er sagt að þá hafi verið um tvennt að ræða, annaðhvort að senda þetta á öskuhaugana eða til Íslands, og sendingin hafi farið til Íslands.

Nú vil ég þess vegna fá upplýst í þessu sambandi: Er það rétt, sem sagt er og fullyrt, að það sé lítið eða ekkert eftirlit með svona innflutningi? Maður hefur heyrt að það sé verið að ferðast með geislavirk efni til Þýskalands og við vitum að skógarnir þar eru að deyja í stórum stíi. Það þarf enginn að halda að það geti ekki verið a.m.k. hætta á því að það sé ekki forsvaranleg söluvara sem er framleidd upp úr mold sem skógarnir þrífast ekki í. Þetta var ástæðan fyrir því að ég vildi að hæstv. heilbrmrh. upplýsti þetta og bað fyrir skilaboð þar sem hann var ekki í þingsalnum þegar ég ræddi um þessi mál.

Ég get ekki betur séð en við þær breytingar sem er verið að gera verði vaxandi þrýstingur á að flytja inn grænmeti. Það þarf auðvitað að vera eftirlit með innflutningi á þeim vörum hingað til lands eins og annars staðar mun vera að manni er tjáð. Í raun og veru er það sem ég sagði um Norðmenn og Finna glöggt dæmi um það eftirlit sem þeir hafa á slíkum innflutningi. Við munum nú þegar við fengum kartöflur forðum daga frá Finnlandi sem voru sýktar og hefur orðið af verulegt tjón. Þannig höfum við oft brennt okkur á slíkum málum.

Ég hefði viljað, hæstv. forseti, að þeir lokuðu þarna dyrunum, ef það þarf að vera svo hátt að ég heyri ekki í sjálfum mér, á hliðarsal. (Forseti: Ég bið hv. þm. að lækka róminn, sem eru í samtölum, svo hv. ræðumaður geti haldið áfram sinni ræðu ótruflaður.) Talað er um að sú kerfisbreyting sem er verið að gera hér muni leiða það af sér að það verði minna af undanskotum í sambandi við greiðslu á söluskatti og að því er varðar það sem fer í gegnum búðirnar mun þetta vera rétt, a.m.k. ef það verður farið eftir tillögum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að fá sérstaka peningakassa í verslanir, en það er eina leiðin til að fyrirbyggja svik. Þó er það kannski heldur ekki öruggt því það er víðar en í Noregi, það þekkist líka á Íslandi, að það sé látið borga þriðjung eða helming af því sem kemur sérstaklega í minni verslanir og söluturna. Ég sé ekki annað en það sé hægt þrátt fyrir þessa breytingu.

En hver er reynsla t.d. Svía í sambandi við skatt á matvæli? Það er í stórum stíl í Svíþjóð sem svínum og nautgripum er slátrað í alls konar skúrum, mjög vel útbúnum. Það er gert á þann veg að sá sem á þennan skúr, sem er oft líkur stórum bílskúr, sem er allur flísalagður og með rennandi vatni og allt þess háttar, tekur á móti mönnum sem koma með sína gripi, sem þeir segjast eiga, og fá einn vanan mann með sér og slátra þessum grip. Síðan fara þeir og skipta kjötinu á milli sín.

Ég hef heyrt í mörgum Íslendingum, sem eru búsettir í Svíþjóð, sem hafa sagt mér hvernig menn fari að þessu. Og þegar lögreglan eða aðrir koma að ja, þá á ekki maðurinn sem á skúrinn svín eða nautgripi. Hann aðeins lánar mönnum sem eru sjálfir við að slátra þó þeir hafi einn mann og þeir segjast hafa átt og eiga þessa gripi. Og þeir sleppa með þetta. Það þarf enginn að halda að svipað gerist ekki hér eins og gerist í öðrum löndum. Ég veit til þess líka að slíkt gerist í Noregi þó ég hafi ekki orðið var við það í jafnríkum mæli og mér er sagt að það sé gert í Svíþjóð.

Og halda menn virkilega að menn fari að kaupa fiskinn sinn í fiskbúðum nema þá hér á höfuðborgarsvæðinu? Það hvarflar ekki að mér. Þó að ég búi hér mestan hluta ársins flyt ég minn fisk í bílnum mínum að norðan, sem ég kaupi beint af körlunum, og þannig mun vera með fleiri. Og það er enginn söluskattur á honum núna. Hvað haldið þið að verði eftir þessa breytingu? Menn verða að borga fiskinn, 25% álagið, þó þeir fái hann síðan greiddan. (ÓÞÞ: Það verður fróðlegt að sjá hvað verður eftir breytingu.) Það er nú annað mál. Það verður líka fróðlegt að vita um breytinguna í verslunum. Í gær kom í fréttum að þeir hjá verðlagseftirlitinu, Verðlagsstofnuninni, eru svartsýnir á að það verði breyting fyrsta kastið.

Ég sá á hæstv. utanrrh. að það kom eitthvað við kvikuna á honum þegar ég fór að tala um vextina. Mér heyrðist þá að hann væri að tala um að ég væri í bankaráði. Já, það er rétt. En ég hef barist á móti öllum vaxtahækkunum eins og ég hef getað. En hvað hefur gerst? Við höfum alltaf verið á eftir í Búnaðarbankanum. Ég skal sýna hæstv. utanrrh. það. En hverjir hafa verið á undan, hverjir hafa verið fyrstir? Það hefur komið í fréttum. Það veit hæstv. ráðherra jafnvel og ég. Það eru tveir aðilar sem ganga alltaf á undan og hafa nú um sinn a.m.k. gert. Það er ríkissjóður og grái markaðurinn. Í fréttum kom hér um daginn að Iðnaðarbankinn hefði gengið á undan af peningastofnunum og Útvegsbankinn upp á síðkastið, en ríkisbankarnir hafa yfirleitt verið á eftir og fyrst og fremst Búnaðarbankinn. Hér er inni bankaráðsmaður, hv. þm. Friðjón Þórðarson, sem getur borið einnig um þetta vitni. En ég sé að utanrrh. er ekki trúaður á mína frásögn, en svo vel ætti hann að þekkja mig frá því að hann var unglingur að vísvitandi segi ég ekki ósatt. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að bera mér á brýn að ég fylgist ekki með í Búnaðarbankanum.

Ég sá að hæstv. fjmrh. varð hálf órólegur þegar ég fór að tala. Það er ekkert undarlegt. Ég var hissa á því að hann skyldi tolla í stólnum á meðan hv. þm. Ólafur Þórðarson flutti sína ræðu því það er ekki þægilegt að sitja undir slíkum lestri. Það væri hægt að fara út í þá sálma mikið nánar en hv. þm. Ólafur Þórðarson gerði, en það ætla ég ekki að gera nú, kannski geri ég það einhvern tímann seinna vegna þess að það þarf endilega að rifja upp. Það þarf að komast í þingtíðindi eins og margt annað það sem hæstv. fjmrh. hefur sagt og gert á undanförnum þingum og svo hvert hann er nú að teyma þá samstarfsflokka sem eru með honum í ríkisstjórn. Ég verð að segja það: Ég er búinn að vera í þingflokki framsóknarmanna í 20 ár og það má segja að ég sé fæddur framsóknarmaður og hafi alist upp í Iðunnarskóm og Gefjunarfötum. En aldrei hefði ég trúað, ég gæti svarið fyrir það, að hv. þm. Páll á Höllustöðum mundi vera jafnþjónustuglaður við hæstv. fjmrh. og hann hefur reynst á þessum síðustu vikum. Ég er svo undrandi, miðað við það hljóð sem ég heyri í hans mönnum, að ég get varla um það talað.

Ég er með bunka af samþykktum frá öllum kjördæmum landsins, m.a.s. nokkrar samþykktir úr kjördæmi hv. þm. Guðna Ágústssonar. Nokkuð margar úr kjördæmi hv. þm. Páls Péturssonar. Ég gæti sjálfsagt lesið upp í svo sem eins og hálfa eða heila klukkustund ef á þarf að halda seinna í nótt til þess að það komist inn í bækur, inn í þingskjöl, hvernig þjóðin tók á móti því sem er að gerast. Það getur vel verið að ég geri það. Það er ekkert fráleitt því ég held að það sé verið að vinna slíkt verk með þessum matarskatti að það hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Ég er eins sannfærður um það og tvisvar tveir eru fjórir að ef þau öfl sem ráða nú hér á hv. Alþingi ráða margar vikur enn þá, ég tala nú ekki um ár, verða ekki þær niðurgreiðslur sem nú eru. Og hvernig standa þá fátæklingarnir í landinu og hvernig stendur landbúnaðurinn og hvernig stendur þjóðin?

Ég er búinn að fá þrjú símtöl í kvöld, tvö frá mönnum sem ætluðu að fara út í að stofna fyrirtæki upp úr áramótum og sem ég hef verið að reyna að finna grundvöll fyrir með þeim. Þeir segja: Málin hafa þróast þannig að það er alveg gersamlega vonlaust fyrir okkar framtíð. Og ég fer að spyrja: Eru það ástæður ykkar sjálfra í sjálfu sér? Nei, við höfum dálítið eigið fé, en við þurfum á fjármagni að halda til viðbótar og vaxtakjörin eru þannig að það er alveg gjörsamlega útilokað. Þeir eru hættir við. Þetta er það sem gerist, hæstv. viðskrh., að ef þessi vaxtastefna heldur áfram er ekki einungis að menn hætti við jafnvel að fara út í fyrirtæki til að flytja út, eins og þessir báðir aðilar ætluðu sér, heldur fara menn í stórum stíl að verða gjaldþrota.

Einn af stærri bændum landsins var að hringja í mig. Hann skuldar töluvert, en hann hefur líka stórt bú. Hann sagði: Sannleikurinn er sá að á sl. ári og fyrri partinn á þessu ári var þetta allt að lagast. Við vorum farnir að geta staðið í skilum. Við gátum borgað jafnvel af. En hvernig er það núna? Ég sé ekki annað en það sé algerlega þýðingarlaust að reyna þetta áfram. Þessi maður skuldar í kaupfélagi nokkuð háa upphæð og hann sjálfsagt skuldar á fleiri stöðum, en hefur líka gríðarlega stórt bú, með stærstu búum landsins.

Annar, sem er með sæmilegt fyrirtæki, sagði: Ja, ég hef verið að endurvinna gúmmí, endurvinna dekk og búa til mottur, gúmmímottur, bæði fyrir sjávarútveginn og fyrir bændur. Ég er búinn að leggja í mikinn kostnað undanfarin fjögur ár að þróa þetta. Miðað við þær breytingar, sem er verið að gera nú, er a.m.k. tvísýnt hvort ég stend þetta lengi. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. Arni Gunnarsson þekki þetta mál og ég trúi ekki öðru en þessi maður hafi einnig talað við hann. Mér kæmi á óvart ef það væri ekki. Ég gæti haldið áfram svona lengi.

Hvað eru menn að hugsa hér? Hvað eru hv. þm. og ráðherrar að hugsa? Hæstv. viðskrh., er þetta jafnaðarstefnan í raun? Er ekkert að marka það sem þið setjið í ykkar stefnuskrá? Er það jafnaðarstefnan í raun að gera þá ríku ríkari en allan almenning í þessu landi fátæka, öreiga? Er það stefnan? Þannig blasir hún við þjóðinni í dag, hæstv. viðskrh. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra geri þetta með opnum augum. Ég held að hann sé blindaður. Ég veit ekki hvort það getur verið af frjálshyggju. Ég trúi því ekki þó að ég viti það hins vegar og hef orðið vitni að því að hæstv. fjmrh. sé blindaður af frjálshyggju. Það hefur komið fram í þessum þingsal. Ég gæti fundið það í umræðum á Alþingi og lesið það upp síðar í kvöld ef menn vilja, ef menn trúa því ekki. Iðnrh. er nú horfinn héðan, en hann varð líka vitni að þessu og kannski fleiri hv. þm.

Já, það eru daprir dagar hjá mörgum þessar vikur og ef það verður, sem ég hef ekki trú á því að hv. þm. væru þá búnir að missa dáð, að takist að samþykkja þennan söluskatt fyrir áramót væri það sama og að við værum að liðka til fyrir ég bið afsökunar — þeirri svívirðu sem er verið að gera í þessu efni.

Formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., var að ganga í salinn. Ég er með Tímann síðan 19. des. og þar segir hæstv. ráðherra við Tímann: „Raunvaxtaokri verður að linna.“ Við áttum oft tal um vaxtastefnu meðan ég var í Framsfl. og hæstv. utanrrh. talaði alltaf um það í mín eyru að vextir ættu ekki að vera háir, raunvextir ættu ekki að vera nema 2 eða 3%. Fer ég ekki rétt með, hæstv. ráðherra? Síðan er hann þátttakandi í ríkisstjórn og hverjir eru raunvextir í dag, hverjir eru þeir? Að vísu var það einhver sem kom þeim til að trúa því á Degi að þeir væru bara ekki nema 2–3%. Það kom í leiðara. En hvað eru þeir? Ætli þeir séu ekki 11–12% eða jafnvel meira? Og hvað er með „gráa markaðinn“ sem er víst heilagur miðað við þau viðhorf sem a.m.k. hæstv. forsrh. hefur um það mál? — Hann er nú genginn úr salnum.

Ég minntist á það undir vitni fyrir hálfu öðru ári að það yrði að taka á gráa markaðnum og sýndi fram á til hvers það leiddi ef slíkt mundi verða látið afskiptalaust. Það er ekkert gert. M.a.s. hafa sumir af þessum mönnum viðtöl í blöðum og hælast um yfir því að þeir hafi náð tangarhaldi á eignum, eins og t.d. á Ragnarsbakaríi í Keflavík, eins og t.d. Flónni í Reykjavík. Og þeir ætla að halda áfram: Það er okkar stefna að ná eignum. Ekki borga þessir markaðir bindiskyldu eins og bankarnir verða að gera. Búnaðarbankinn er látinn vera með 1,7 milljarða inni í Seðlabankanum. Hann fær enga vexti af því fé, en verðtryggingu.

Hæstv. ríkisstjórn gerði bönkunum að skyldu að eiga í Seðlabankanum eða ríkisvíxla um 10–11%. Seðlabankinn borgar frá því í ágúst 26% vexti á það sem stendur þar inni. En hvernig er farið með bankana ef þeir eiga ekki þetta fé, annaðhvort í ríkisvíxlum eða á bundnum reikningi í bankanum? Þá verða þeir að borga dráttarvexti, 41% á mánuði, fyrir það fé. Við skulum bara segja að Búnaðarbankinn þurfi að eiga 1100 millj. á reikningum eða í ríkisvíxlum. Ef hann á ekki nema 900 verður hann að borga dráttarvexti af 200 millj. Þetta verkar þannig að bankarnir verða að hækka vextina til þess að ekki sé tekið út fé þegar ríkissjóður býður, eins og hann gerir nú, í féð 43,1% miðað við 90 daga víxla. Þannig er staðið að málum.

Nú hef ég orðið var við það, a.m.k. stend ég í þeirri trú, að Áburðarverksmiðjan hefur í rekstrarfé erlent fjármagn. Þegar ég var stéttarsambandsfulltrúi, sem ég var í mörg ár, þurfti Áburðarverksmiðjan að borga fyrir það fjármagn eins og það kostaði á hverjum tíma, bæði við gengisfellingar og annað sem gerðist. Nú er búið að breyta þessu. Þó þeir hafi erlenda féð njóta bændur þess ekki heldur eru þeir látnir borga miðað við aðra lánavexti af þessu fjármagni. Nú er það þannig að í sambandi við grundvöllinn sem byggt er á við landbúnað er ekki ætluð nein vaxtagreiðsla af rekstrarfé, aðeins af fjármagni sem stendur í búinu sjálfu, en ekki vexti af öðru. Það kemur sér því mjög illa fyrir marga bændur að svona skuli vera haldið á málum og er sennilega skýringin á því að Áburðarverksmiðjan er rekin nú með hagnaði þannig að áburðarverðið hækkar ekki eins og það ætti að gera miðað við að 100 millj. minna kemur frá ríkinu til að borga niður áburðarverðið, þ.e. nú er það 20 millj. í staðinn fyrir 120. En skýringin eftir mínum skilningi liggur í þessu. Og þetta er mjög óhagstætt fyrir bændastéttina.

Nú hef ég verið að ræða hvers vegna landbúnaðurinn geti ekki fengið að taka sín afurðalán í erlendum gjaldeyri. Það má ekki. Það er hægt að fá SDR með innan við 9% vöxtum. Það er hægt að fá þýsk mörk með um 6% vöxtum. Jafnvel þó að það yrði 10–12% gengisfelling, eins og verið er að tala um, eins og almenningur er að tala um í dag, væri samt hagstætt fyrir landbúnaðinn að fá að taka þessi erlendu lán miðað við þau vaxtakjör sem eru í landinu. Þannig er staðið að málum á allan hátt.

Ég sé, hæstv. forseti, að formaður fjh.- og viðskn. er genginn úr salnum og raunar hæstv. utanrrh. einnig, en nú er ég kominn að þeim hluta ræðu minnar þar sem ég á við þá erindi. (Forseti: Þeir munu báðir vera í húsinu og skal ég gera ráðstafanir til að þeir verði aðvaraðir.)

Herra forseti. Ég var búinn að segja það áður í minni ræðu að ég mundi ræða við hæstv. utanrrh., formann Framsfl., og hv. 1. þm. Norðurl. v. í sambandi við þær umræður sem hafa farið fram á milli okkar samtaka við þá. Ástæðan fyrir því að ég geri það hér og nú er sú að það var fyrst og fremst ákvörðunin um söluskattinn sem varð þess valdandi að við treystum okkur ekki til m.a.s. að kjósa með Framsfl. í nefndir á hv. Alþingi. Við fengum bréf frá formanni Framsfl., hæstv. utanrrh., í júní þar sem mér var boðið að ganga inn í þingflokkinn. Ég tók mér tíma til að athuga þann stjórnarsáttmála sem gerður var. Við gerðum ýmsar athugasemdir við þennan stjórnarsáttmála og þegar því var lokið skrifaði ég fyrir hönd okkar samtaka til hæstv. utanrrh. og sagði að við værum reiðubúin að hitta hann og aðra sem hann vildi í kjördæmi þegar hentugleikar væru. Þessi fundur dróst mjög og var ekki haldinn fyrr en 1. okt.

Það að ég rifja þetta hér upp eru þær ástæður, sem ég gat um að vísu áðan, að þetta var sent öllum blöðum, þar með Degi og Tímanum. Af einhverjum ástæðum vildu þessi blöð ekki að þessi bréf kæmu fyrir almennings sjónir. Morgunblaðið birti þetta ekki heldur, en birti síðar samþykktir sem voru samþykktar á ráðstefnu norður á Akureyri og ég kem að síðar.

Ég tel rétt að rifja þetta upp vegna þess að því hefur verið haldið fram að við lítum á málin alveg eins og Framsfl. og það kom fram á þessum fundi, en með mér mættu á þessum fundi frú Auður Eiríksdóttir, oddviti í Saurbæjarhreppi, Bjarni Guðleifsson, tilraunastjóri á Möðruvöllum, Björn Benediktsson, oddviti, Öxarfjarðarhreppi, Gunnar Hilmarsson, sveitarstjóri, Raufarhöfn, Jóhann A. Jónsson, framkvæmdastjóri og oddviti á Þórshöfn, Karólina Stefánsdóttir, félagsráðgjafi, Akureyri, séra Pétur Þórarinsson, Möðruvöllum, Skúli Friðriksson, fiskmatsmaður á Þórshöfn, og Tryggvi Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri, Akureyri.

Við fórum yfir þennan stjórnarsáttmála lið fyrir lið og það vil ég segja þeim til hróss að þeir fóru einnig, sérstaklega formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., yfir það. Niðurstaða hans var í flestöllum tilvikum sú að hann væri okkur alveg sammála, en vera hans flokks í ríkisstjórn kæmi í veg fyrir að hann gæti staðið að málum eins og stefna Framsfl. væri, sem sagt í böndum.

Það var þó eitt atriði eða svo sem voru hálfloðin svör við hjá hæstv. ráðherra. Það var í sambandi við stóriðjuna. En formaður þingflokksins aftur á móti tók sérstaklega fram að þar væri hann okkur alveg sammála. En ég tel nauðsynlegt að þetta verði einhvers staðar skráð, þessi bréf, og komi alveg greinilega fram hvernig á því stendur að ég stend utan Framsfl., ekki síst vegna þess að þegar farið verður að skrifa stjórnmálasögu þessarar aldar liggi það greinilega fyrir hvað hefur valdið því að svo fór sem fór. Ég læt formála fyrir þessu lokið.

Fyrra bréfið er dags. á Akureyri 6. okt. sl. og er til Páls Péturssonar, formanns þingflokks Framsfl. Hefst nú lesturinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vísa til fundar þíns og formanns Framsfl. með fulltrúum Samtaka jafnréttis og félagshyggju, sem haldinn var á Akureyri 1. þ.m., þar sem rætt var um boð Framsfl. að bjóða Stefáni Valgeirssyni að ganga í þingflokkinn með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir, eins og stendur í boðsbréfi.

Á þessum fundi lögðum við fram athugasemdir við starfsáætlun ríkisstjórnarinnar með beinum tilvitnunum í hana þar sem fram kemur að í mörgum veigamiklum málum getum við ekki átt samleið með þeim flokkum sem telja sig bundna af slíkri starfsáætlun. Í niðurlagi athugasemda okkar segir:

„Hingað til hefur hlutverk stjórnvalda fyrst og fremst falist í að skapa starfsskilyrði fyrir atvinnuvegina. Samtök jafnréttis og félagshyggju leggja ekki síður áherslu á að skapa skilyrði í þjóðfélaginu til aukins þroska, heilbrigðis og ábyrgðar hvers og eins, m.a. með miklum breytingum á öllu skólastarfi þar sem mannrækt og sönn menning er sett í öndvegi í stað hefðbundinnar fræðslu (ítroðslu) og með því að beita hvarvetna samræmdum aðgerðum í jafnréttisátt.

Þessi umfjöllun og athugasemdir okkar við starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar leiðir í ljós að okkar mati að það einstaklingsfrelsi, sem ríkisstjórnin stefnir að í grundvallarmarkmiðum sínum sé í raun frelsi þeim til handa sem sitja að fjármagni og völdum og leiði ekki til aukins jafnréttis heldur þvert á móti. Þessi skilningur á einstaklingsfrelsi gengur þvert á þá skilgreiningu samtakanna að raunverulegt frelsi einstaklinganna felist í því að geta tekið ábyrgð á eigin lífi og samfélaginu. Okkur sýnist að það gangi eins og rauður þráður í gegnum hvert atriði af öðru í starfsáætluninni að þeim sem ráða fjármagninu sé ætlað að deila og drottna í okkar þjóðfélagi í næstu framtíð ef eftir þessum stjórnarsáttmála verður farið.

Verði ríkisbankarnir gerðir að hlutafélagsbönkum, lánasjóðir atvinnuveganna sameinaðir eða þeim gert skylt að lána eftir sömu reglum, fólksflóttinn til höfuðborgarsvæðisins látinn halda áfram og aðstöðumunurinn vegna búsetu ekki minnkaður, þá hefur einstaklingsfrelsið brugðið sér í líki frjálshyggjunnar, ýtt enn frekar undir misréttið og það geta Samtök jafnréttis og félagshyggju ekki stutt.

Telji forustusveit Framsfl. að við misskiljum þá grundvallarstefnu sem felst í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar og ef í ljós kemur að athuguðu máli að sjónarmið okkar og markmið fara að verulegu leyti saman fögnum við því og erum reiðubúin að starfa með öllum þeim sem vilja vinna að framgangi raunverulegs jafnréttis og koma á jafnrétti í byggð landsins.“

Eftir að þið vikuð af fundi sátum við eftir, fulltrúar Samtaka jafnréttis og félagshyggju, til að meta það sem frá ykkur kom á fundinum og íhuga svar við boði þingflokks framsóknarmanna. Að okkar mati kom eftirfarandi fram af ykkar hálfu á fundinum:

1. Að þingmaður Samtaka jafnréttis og félagshyggju getur því aðeins gengið í þingflokk Framsfl. að hann geri það sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.

2. Forustumenn Framsfl. lýstu því hins vegar yfir að þeir styðji okkar stefnumál, en vera þeirra í núv. ríkisstjórn og þar með stjórnarsáttmálinn komi í veg fyrir að hægt sé að beita sér í þeim málum sem við berum fyrst og fremst fyrir brjósti.

Þegar við lögðum áherslu á eitthvert baráttumál okkar, þá var langoftast ykkar svar: Hvar á að taka peningana? Eða: Það er bara ekki samstaða um þessi mál. Fáar eða engar leiðir virtust færar í þeim málum að ykkar dómi.

Það kom fram í okkar máli að margar byggðir riða nú til falls, sérstaklega þar sem sauðfjárrækt er aðalbúgreinin. Einnig verður að bæta og tryggja hag þeirra mörgu byggðakjarna um allt land sem eru undirstaða okkar sjávarútvegs. Hlutdeild þeirra í aflafé verður að auka þannig að atvinnugreinin geti boðið starfsfólki sínu bætt kjör og atvinnuöryggi. Jafnréttislögin eru þverbrotin, sbr. ráðningu í stöðu kvensjúkdómalæknis við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sbr. 9. gr. jafnréttislaga og fjögurra ára áætlun ríkisstjórnarinnar um jafnréttismál. Launamunur hefur aukist, sbr. 7,23% launahækkun 1. þ.m. á öll laun, og aðstöðumunur eykst þar sem 10% söluskattur er nú lagður á allar matvörur nema mjólkurvörur og kjöt, m.a.s. á mötuneyti heimavistarskóla.

Okkur nægir ekki að sagt sé að ríkisstjórnin stefni í réttlætisátt ef framkvæmdin er öfug. Þegar við bentum á að það gæti tæpast farið fram hjá neinum hvar fjármunirnir eru þar sem milljarðahallir eru byggðar nú á höfuðborgarsvæðinu var svar ykkar: Það er engin samstaða um að færa þá fjármuni til.

Okkur virðist sem sé ekkert vera hægt að gera til að sporna við þeirri þróun að fjármunir og völd færist sífellt á færri hendur á kostnað landsbyggðar og á kostnað þeirra fjölmörgu sem hafa lökustu samkeppnisaðstöðuna. Við bentum ykkur á að þetta er ekki lögmál heldur leikreglur, kerfi sem verður að breyta ef við ætlum að halda uppi byggð í landinu og vinna að raunverulegu jafnrétti. Samtök jafnréttis og félagshyggju eru breytingarafl, hópur fólks sem sér að við verðum að fara nýjar leiðir til að ná raunhæfum árangri. Við sættum okkur ekki við að málefnin séu látin víkja fyrir annarlegum sjónarmiðum.

Við sjáum að í núv. ríkisstjórn er auðgildið sett ofar manngildinu. Jafnrétti, lagfæring á aðstöðumun, landsbyggðarstefna og fleira verður að bíða betri tíma þar sem ekki eru finnanlegir fjármunir til slíkra hluta og það í mesta góðæri sem þjóðinni hefur hlotnast í langan tíma. Hvenær verða þá peningar finnanlegir til þess að jafna launin og minnka aðstöðumuninn í okkar þjóðfélagi? Eða vantar raunverulegan vilja til að halda uppi virkri byggðastefnu og setja í framkvæmd þjóðhagslegar aðgerðir til að vinna gegn vaxandi misrétti? Forustumenn Framsfl. virðast hafa gleymt hinum fleygu orðum og gildi þeirra: Vilji er allt sem þarf.

Samtök jafnréttis og félagshyggju geta með engu móti stutt ríkisstjórn sem setur auðgildið ofar manngildinu, en þar sem á fundi okkar kom greinilega fram að við sögðumst vilja vinna að framgangi þeirra mála sem við leggjum þyngsta áhersluna á og þó Framsfl. telji sig ekki geta beitt sér fyrir þeim málum á meðan hann er aðili að þessari ríkisstjórn, þá erum við fús til þess að kjósa með ykkur í þingnefndir án annarra skuldbindinga ef um það semst. Það skal tekið fram að með þessu erum við að bjóðast til að vinna með Framsfl. en alls ekki með núv. ríkisstjórn. Ef aðstæður breytast svo þið getið farið að vinna samkvæmt sannfæringu ykkar að þeim stefnumálum sem þið lýstuð á fundi okkar, þá gæti komið að því að nánara samstarf við Framsfl. reyndist mögulegt. Tíminn leiðir það í ljós.“

Undir þetta fyrir hönd hópsins skrifar Stefán Valgeirsson.

Svo gerist það að eftir að þing er sett laugardaginn 10. október hittumst við í Þórshamri, formaður þingflokksins og ég, en kvöldinu áður var sagt frá því í fréttum að til stæði að setja söluskatt á allar matvörur. Ég mun nú lesa síðara bréfið sem dags. er 12. okt. og er til hv. þm. Páls Péturssonar, formanns þingflokks Framsfl. Bréfið hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Ég vísa til bréfs sem ég sendi þér 6. okt. 1987. Bréf þetta var sent í framhaldi af fundi sem fulltrúar Samtaka jafnréttis og félagshyggju áttu með þér og formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni, á Akureyri 1. okt. sl. Í upphafi bréfsins er gaumgæft hvernig ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hyggist vinna að framgangi jafnréttis í þjóðfélaginu.“

Síðan er hafður uppi kafli úr fyrra bréfi og að því búnu segir:

„Eftir að þetta bréf var sent hefur ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar gripið til mikilla efnahags ráðstafana í framhaldi af endurskoðaðri þjóðhagsspá að sagt er. Er hér gripið til aðgerða sem enn auka misréttið í þjóðfélaginu og hallar enn á landsbyggðina með þeim aðgerðum. Má nefna að fjárveitingar til framkvæmda vegna hafna, vega, skóla og heilsugæslu verða skornar niður og söluskattur lagður á öll matvæli. Allt eru þetta málaflokkar sem við lögðum áherslu á á fyrrnefndum fundi með ykkur Steingrími og teljum við að hér sé enn vegið að landsbyggðinni og þeim sem minna mega sín og álítum að órökrétt sé að draga úr þenslunni á höfuðborgarsvæðinu með því að skera niður framkvæmdir sem eru lífsnauðsynlegar fyrir landsbyggðina.

Ég átti góðan fund með þér í Þórshamri 11. okt. þar sem við ræddum hugsanlega samvinnu Framsfl. og Samtaka jafnréttis og félagshyggju varðandi nefndakjörið. Vegna þessara breyttu aðstæðna taldi ég mig þurfa að ræða við fulltrúa samtaka í kjördæmi mínu áður en afráðið yrði um samvinnu. Ég hef nú haft samband við þá sem voru á fundinum með ykkur Steingrími og allmarga aðra sem hafa staðið framarlega í samtökum okkar. Niðurstaðan varð sú að öll töldu þau að við gætum á engan hátt unnið með þeim sem þannig standa að málum og vinna gegn baráttumálum okkar, jafnvel þó þeir hafi hag landsbyggðarinnar á stefnuskrá sinni. Við verðum að meta menn og flokka eftir gerðum þeirra en ekki orðum. Samtök jafnréttis og félagshyggju geta því ekki unnið með Framsfl. að umræddu nefndakjöri.

Virðingarfyllst.

F.h. Samtaka um jafnrétti og félagshyggju.

Stefán Valgeirsson.“

Ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram.

Nú sé ég að hæstv. utanrrh. er farinn úr salnum og mér þykir það miður þar sem ég vil fara að stytta mál mitt, en á enn þá við hann erindi.

Við boðuðum til ráðstefnu á Akureyri, sem var 5. des. sl., og þar var saman komið þegar flest var um 120 manns. Til að byrja með var það ekki nema milli 60 og 70. Það var gerð þar ályktun og þó að ég ætli ekki að lesa hana hér upp, þó það væri raunar nauðsynlegt en ég vil ekki tefja tímann með því, mun ég þó aðeins minnast á nokkra liði. Í byrjun ályktunarinnar eða þegar formlegheitunum er lokið segir, með leyfi forseta:

„Greinilegt er að stefna, aðgerðir og fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar eru í engu samræmi við kosningaloforð stjórnarflokkanna og má í því sambandi benda á.“

Hér bendum við á söluskattinn, við bendum á breytingu á tollunum, sem við þekkjum, við minnumst á að fjmrh. hefur sagt í fjárlagaræðu sinni og fleiri frjálshyggjupostular að það sé stefnan síðar að hætta öllum niðurgreiðslum. Við segjum að raunvextir á Íslandi nálgist nú heimsmet. Og við segjum frá því, sem hefur komið fram hjá mér áður, að það hafi orðið 60% hækkun á vöxtum á fimm mánaða valdaferli ríkisstjórnarinnar. Í sambandi við frv. um stjórn fiskveiða mótmælum við núverandi 10. gr. í sambandi við smábátana. Og 10. liðurinn er um að launamunur hefur stóraukist og misréttið vaxið á flestum sviðum. Þarna var statt fólk frá Kvennalista, fólk frá Þjóðarflokknum, fólk sem hefur fram að þessu fylgt Alþb. Það voru fulltrúar frá þessu fólki í nefnd sem fjallaði um þetta mál og niðurlagið er eins og hér segir. — Nú er formaður þingflokks Framsfl. horfinn úr fundarsal. (PP: Nei, nei, hann er hér.) Hann er þarna, já. Það er bara það. Niðurlagið ætla ég að lesa., (ÞÞ: Það eru þrjár konur í salnum að hlusta á.) Ég veit það. Yfirleitt þola a.m.k. stjórnarþm. ekki svona lestur. Það er ekki von eins og ástandið er. Og ég tel hv. 1. þm. Norðurl. v. Pál Pétursson karlmenni þó hann þekki þetta allt af eigin raun. En ég vildi ekki lesa þetta upp öðruvísi en þeir heyrðu það og hefðu möguleika til andsvara ef eitthvað væri missagt. En niðurlag á þessari ráðstefnu er eins og ég mun lesa, með leyfi forseta:

„Ráðstefnan vill minna landsmenn á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því heitið að auka jafnrétti, lækka vexti og stefna að hóflegum raunvöxtum. Þar er einnig talað um að markmiðið sé að tryggja starfsskilyrði í landbúnaði, bæta hag bænda, bæta lífskjör og draga úr verðbólgu. Greinilegt er að stefnan er eitt og framkvæmdin annað.

Eins og að framan greinir sést að atvinnuvegirnir til lands og sjávar eru í hættu og níðst er á láglaunafólkinu og framleiðsíustéttunum í landinu. Gjaldþrot blasir við fyrirtækjum og einstaklingum vegna vaxtaokurs. Frjálshyggjan elur á misrétti og veitir þeim sem hafa fjármagn og aðstöðu aukin völd á kostnað hinna.

Nú verður hver og einn að gera það upp við sig hvort hann vill styðja stefnu ríkisstjórnarinnar, sem lýst er hér að framan, með beinum stuðningi eða afskiptaleysi eða taka á með þeim sem vilja vinna að jafnrétti. Minnumst þess að sameinuð erum við sterk en sundruð veik.“

Ég hef lýst liðunum tíu lauslega, en þessi ályktun var samþykkt einróma á þessari ráðstefnu. Ég vona að þessi lestur minn taki af allan vafa um að það eru málefnin sem ráða okkar afstöðu og það er ekki nóg fyrir forustumenn Framsfl. að segja: Samtökin sem buðu fram í Norðurlandi eystra eru með alveg sömu stefnuskrá og við. Það er ekki nóg að setja eitthvað á blað fyrir kosningar ef svo er ekkert farið eftir því.

Það er að verða fámennt í salnum. Ég gæti náttúrlega staðið hér og talað lengur og það er full ástæða til þess, herra forseti, en ég ætla að taka mér málhvíld þannig að aðrir komist að. En hér er um málefni að ræða sem eru engin hégómamál. Það er þess vegna sem við viljum ræða þessi mái.

Það er verið að takast á um hvort tekjukerfi ríkisins eigi að breyta á þann veg að seilast niður í vasa alþýðufólksins í landinu og hlífa þeim sem betur mega sín.

Ég ætlaði að hafa yfir eina vísu í lokin ef hæstv. fjmrh. væri einhvers staðar. Ég get alveg geymt mér hana þangað til í seinni ræðu því að ég mun þá standa hér nokkra klukkutíma ef menn verða ekki í salnum meðan ég tala, þ.e. ráðherrarnir a.m:k.

Herra forseti. Ég ætla að taka mér málhvíld í bili, hef lokið máli mínu.