30.12.1987
Neðri deild: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3497 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

196. mál, söluskattur

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur nú verið til 2. umr. breyting á lögum um söluskatt. Það hefur verið erfitt að henda reiður á því í dag hvaða mál hafa verið á dagskrá. Hér hefur þetta gengið upp og niður. Það hefur stöðugt verið hlaupið á milli mála. Það er engu líkara en hv. stjórnarsinnar viti yfirleitt ekki neitt um hvað þeir vilja tala, enda hefur verið heldur lakleg viðvera hjá þeim hér í dag, enda ekki við öðru að búast. Þeir eru kannski að kaupa flugelda og rakettur, sem svo eru kallaðar, og eitthvað annað til áramótanna. En það er einn sem hefði verið gaman að sjá hér núna við þessa umræðu, það er hinn aðaltalsmann ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjmrh. sem hefur nú dvalið hér langdvölum utan sala og er sennilega búinn að fá sig fullsaddan af þessum umræðum svo að hann þarf sennilega ekki að éta svo mikið á næstunni að hann þurfi að hafa áhyggjur af matarskattinum.

En ég vil biðja hæstv. forseta að sjá til þess að hæstv. fjmrh. verði hér í salnum á meðan ég a.m.k. í byrjun ræðu minnar beini til hans spurningum og mun ég þá gjarnan bíða eftir komu hans hér á meðan. (Forseti: Forseti skal gera ráðstafanir til þess að láta fjmrh. af þessu vita.) Já, þá bíð ég bara hér á meðan. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er á fundi sem stendur og getur ekki gengið strax í sal hv. deildar.

Verð ég því að mælast til þess við hv. ræðumann að hann haldi máli sínu áfram, en ég mun ítreka það að þess sé vænst að hæstv. fjmrh. komi í salinn strax og þessum fundi er lokið.) Ég bíð bara hér rólegur. (ÓÞÞ: Forseti, nú verður þú að stilla hátalarakerfið, við höfum ekkert heyrt í ræðumanninum á síðustu fimm mínútum.) (Forseti: Ég vil biðja þm. að hafa hljóð í salnum. Hv. ræðumaður er í ræðustól.) (Forseti: Ég vildi spyrja hv. ræðumann hvort það væri einhver hluti í hans ræðu sem krefðist ekki nærveru fjmrh. þannig að hv. þm. gæti e.t.v. flutt þann hluta ræðu sinnar á meðan beðið er eftir ráðherranum.) Sá hluti sem ég ætlaði að ræða hér heyrir náttúrlega undir það að hæstv. fjmrh. þurfi að vera á staðnum, enda er þetta eitt stærsta mál ríkisstjórnarinnar og hann formælandi í því máli. (Forseti: Fyrst svo er þá heldur hv. þm. að sjálfsögðu áfram ræðu sinni.) Ég fagna komu fjmrh. Það er gleðilegt að sjá hann hér í þingsölum aftur.

Í Ríkisútvarpinu í gær sagði hæstv. fjmrh.: „Ég trúi því að sjálfsögðu ekki fyrr en ég tek á því að stjórnarandstaðan vilji með málþófi valda slíkum usla í þjóðfélaginu. Hún er auðvitað í minni hluta hér á þessu þingi.“ Nú hefur hæstv. fjmrh., sem er æðsti maður í þessum málefnum, tafið þingstörf um a.m.k. 20 mín. Ég ætlaði ekki að halda hér mjög langa ræðu en mun að sjálfsögðu ekki halda neina geysilega langa ræðu þrátt fyrir það en ég fagna komu fjmrh.

Þegar söluskatturinn var til umræðu á Alþingi árið 1960, þann 9. des., sem þótti þá nógu seint þó það væri ekki rétt fyrir áramótin, sagði hv. þm. Hannibal Valdimarsson í umræðunni, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Ein af þeim ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar til þess að hleypa dýrtíðinni sem allra lengst upp á við í viðbót við það sem leiddi af gengislækkuninni og fleiri stjórnarráðstöfunum á sl. ári var setning lagaákvæða um svimandi háan söluskatt. Það er einmitt þessi viðbótar bráðabirgðasöluskattur sem nú er hér til umræðu. Vissulega var það svo eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á hér í þessum umræðum að menn gerðu sér mjög vonir um það að það yrði eitt af því fyrsta sem hæstv. ríkisstjórn gerði að nokkrum mánuðum liðnum að fella niður þennan bráðabirgðasöluskatt. En svo virðist sem hæstv. ríkisstjórn sé nú í engu ákveðnari en því að halda fast við hann og framlengja hann, gera hann að föstum tekjustofni fyrir ríkissjóð. Í þessu sambandi dettur mér í hug vísa sem er eftir einn af hagyrðingum landsins og hún er svona:

Klónni slaka ég aldrei á

undan blaki og hrinu

þótt mig hrakið hafi frá

hæsta takmarkinu.

Það er eins og þessi vísa sé orðin kjörorð hæstv. ríkisstjórnar og er það þó sannarlega auðsætt mál að hana hefur hrakið frá því hæsta takmarki sínu að tryggja þjóðinni betri lífskjör, en það var það sem hún sagði að fyrir sér vekti með öllum sínum efnahagsmálaaðgerðum.“

Hæstv. fjmrh., ég held að þetta gæti allt verið eins sagt í dag þegar hér er verið að leggja á hæstu skatta sem um getur í sögu þjóðarinnar og þó hærri en nokkru sinni áður.

Ég beindi til fjmrh. með síðustu ræðu minni nokkrum spurningum sem hann hefur í raun aldrei svarað, enda sé ég að hann hefur ekki tíma til að hlusta hér á umræður fyrir öðrum fundum. — En ég get beðið. — (EG: Þetta er góð ræða hjá hv. þm.)

Þar sem hafinn er nýr dagur hér og fjmrh. hefur ekki sést hér síðan í gær þegar hann hljóp út af fundi vil ég spyrja hæstv. forseta hvort honum þyki ekki rétt að fresta fundi þangað til hæstv. fjmrh. hefur tíma til að sinna þingstörfum. (Forseti: Enn eru nokkrir á mælendaskrá og mér finnst rétt að halda áfram fundi að svo stöddu a.m.k., en ítreka óskir mínar til hv. ræðumanns um að hann taki til við einhvern þann hluta í sinni ræðu sem ekki krefst nærveru ráðherra.) Hv. ræðumaður ætlaði að vera mjög stutt hér uppi og ætlaði að beina örfáum spurningum til hæstv. fjmrh. Nú hefur hæstv. fjmrh. tafið þingstörf dálítið lengi og ég get vel beðið þangað til hann kemur. Ég ætlaði að vera hérna mjög stutt uppi, en nú hefur hæstv. fjmrh. tafið þingstörf mjög. Ég ætla að bíða eftir honum. Ég ætlaði ekki að hafa langa ræðu. (Forseti: Gæti hv. ræðumaður fallist á að fresta þá ræðu sinni og hleypa öðrum hv. þm. að svo við gætum nýtt þennan tíma?) Ég tel rétt að fá að heyra hverjar ástæður þess eru að hæstv. fjmrh. getur ekki setið fundi. (Forseti: Hv. þm. gæti gengið úr skugga um það sjálfur í viðræðum við ráðherrann ef hann féllist á að fresta ræðu sinni og hleypa öðrum hv. þm. í ræðustól. Forseti getur ekki vikið úr forsetastól til að kanna slíka hluti.) Þá bíðum við hér og vitum hvort við fáum ekki svör við því. — [Fundarhlé.]

Hæstv. forseti. Þá get ég hafið mál mitt aftur. (Forseti: Ég vil biðja ræðumann að hefja ekki mál sitt fyrr en forseti er búinn að lýsa yfir að fundi sé fram haldið. Þá er fundi fram haldið í Nd. Alþingis. Áður en við höldum áfram vil ég skýra frá því að ég hef átt fundi ásamt fjmrh., sem ber ábyrgð á þeim málum sem hér eru til umræðu, með talsmönnum stjórnarandstöðunnar og með okkur hefur tekist samkomulag um lyktir mála á þessari nóttu sem ég vil greina frá. Það samkomulag felst í því að klára söluskattsmálið, sem hér er á dagskrá, til 3. umr. og taka fyrir tollalög og vörugjald og klára 2. og 3. umr. málsins í þessari hv. deild og senda það til Ed., sem heldur fund á eftir, og það verði gert þar að lögum. Það hefur tekist samkomulag um að stytta umræður í þessum málum mjög þannig að þessu geti lokið á mjög skömmum tíma. Vil ég beina því til ræðumanns áður en hann heldur áfram máli sínu að þetta samkomulag hefur tekist og biðja hann að hafa það í huga. )

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því samkomulagi sem hér hefur verið gert og vona að þessi merkilegi fundur sem hér hefur staðið muni verða skammur. Ég mun nú draga þær spurningar og þær ræður sem ég hugðist hafa hér til baka til 3. umr., væntanlega á næsta ári, og segi hér með máli mínu lokið.