30.12.1987
Neðri deild: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3500 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

198. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nái. á þskj. 446 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. sem fjallað hefur um þetta frv.

Á fund nefndarinnar kom Björn Hermannsson tollstjóri, Sigurgeir A. Jónsson og Lárus Ögmundsson úr fjmrn., Arni Reynisson frá Félagi ísl. stórkaupmanna, Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði, Guðmundur Karl Jónsson, forstjóri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, Kristján Thorlacius, formaður BSRB, Björn Arnórsson, hagfræðingur BSRB, Aðalsteinn Guðjohnsen frá Sambandi ísl. rafveitna, Hafberg Þórisson garðyrkjubóndi, Hannes Hafstein ráðuneytisstjóri, Jón Gíslason frá Manneldisfélagi Íslands og Þórður Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Undir þetta rita Geir H. Haarde, Matthías Bjarnason, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Páll Pétursson.

Brtt. þær sem við flytjum eru á þskj. 447. Eru þær í nokkrum liðum og mun ég útskýra þær í örstuttu máli.

A- og b- liður 1. tölul. þeirra fela í sér að 20% ytri tollur verður á innfluttum fiskafurðum frá öðrum ríkjum en þeim sem aðild eiga að EFTA. Af brtt. leiðir að tollar af vörum þessum verða óbreyttir frá því sem nú er. Vörur þessar falla ekki undir fríverslunarsamning okkar við Efnahagsbandalagið og meiri hl. nefndarinnar þykir óeðlilegt að afnema með öllu tolla af þeim ef þær kæmu frá markaðssvæði Efnahagsbandalagsins nema þá í tengslum við gagnkvæma samninga milli Íslands og Efnahagsbandalagsins um lækkun tolla af fiskafurðum.

Í c-lið 1. brtt. er lagt til að tollar af ýmsum tegundum af morgunmat úr korni verði lækkaður úr 30% í 20% til samræmis við aðrar vörur úr korni sem falla undir sama kafla.

Í d-, e- og f-lið 1. brtt. er lagt til að horfið verði að svo stöddu frá því að láta ákvæði fríverslunarsamnings við EFTA koma til framkvæmda vegna innflutnings á gúmmímottum, eggjabökkum og álstigum. Ástæðan hér að baki er einkum sú að framleiðsla hér á landi á þessum vörutegundum er nýhafin. Hún hefur því ekki fengið þá aðlögun sem eðlilegt verður að teljast í þessu sambandi. Að auki er markaðshlutdeild innlendu framleiðslunnar enn sem komið er ekki mikil af eðlilegum ástæðum. Vakin skal athygli á því að fjmrh. hefur skv. 1. tölul. 6. gr. tollalaga eftir sem áður heimild til að láta umrædd tollalækkunarákvæði fríverslunarsamninganna koma til framkvæmda án lagabreytinga þegar ljóst er að almenn skilyrði til slíks eru uppfyllt.

G-liður 1. brtt. felur í sér annars vegar að tollur af plötuspilurum og myndbandsupptöku- og myndbandsflutningstækjum er lækkaður úr 30 í 15%. Talið er að verulegur innflutningur með ólögmætum hætti eigi sér stað á vörum þessum og með þessum hætti er stefnt að því að draga nokkuð úr tilhneigingu í þá veru.

Hins vegar er lagt til að tollur af brettum, töflum, stjórnborðum, skápum o.fl. til rafstýringar eða dreifingar á rafmagni verði felldur niður. Með þessu er orðið við mjög eindregnum óskum raforkudreifingarfyrirtækja, auk þess sem bent hefur verið á að hæpið er samkvæmt skuldbindingum okkar gagnvart EFTA og Efnahagsbandalaginu að tolla vörur þessar í ljósi þess að veruleg framleiðsla á búnaði þessum er stunduð hér á landi. Það má vekja athygli á því að flytja má búnað þennan inn sundurtekinn til landsins og ber hann þá engan toll.

Loks er lagt til að ákvæði til bráðabirgða III verði breytt á þá lund að það feli aðeins í sér fyrirmæli um lækkun tolla í áföngum á nánar tilgreindum vörum sem ekki falla undir fríverslunarsamningana við EFTA og Efnahagsbandalagið. Óþarft er í ljósi heimildar fjmrh. til að láta umrædd ákvæði koma til framkvæmda að kveða sérstaklega á í lögunum um lækkun tolla í áföngum á tilteknum vörum sem falla undir fríverslunarsamninginn.

Það má vafalaust með nokkrum sanni segja að ýmislegt í þessum tollalögum gæti þurft endurbóta við. Ég held að það orki ekki tvímælis að sú breyting sem hér er verið að gera og hér er lagt til að gerð verði sé tímabær og mjög nauðsynleg og réttmæt.