22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

4. mál, frysting kjarnorkuvopna

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í grg. með till. þeirri sem er nú til umræðu er hún í raun efnislega samhljóða þeirri tillögu sem flutt hefur verið nokkrum sinnum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þetta kom fram í ræðu hv. flm.

Ég hef lýst því opinberlega og mér er ljúft að staðfesta það að við munum greiða atkvæði með þessari till. ef hún kemur fram aftur. Ég tel að þannig séum við að framkvæma það sem lagt er til í till., sýna okkar vilja í verki. Við gerum það best með því að greiða þannig atkvæði.

Till. sem hér um ræðir nær í raun, eins og þeir munu sjá sem lesa hana vandlega, til fleira en aðeins að stöðva framleiðslu kjarnorkuvopna. Hún nær einnig til að stöðva tilraunir með kjarnorkuvopn. Það er að mínu mati jafnframt mjög mikilvægt skref í þeirri fækkun og þeirri stefnubreytingu sem nú á sér stað gagnvart kjarnorkuvopnum. Þótt nú náist samkomulag um að fækka meðaldrægum eldflaugum er staðreynd að þær eru ekki nema 3–4% af kjarnorkuvopnabúri heimsins. Þótt ég geri síður en svo lítið úr þessu skrefi, ég álít það mikilvægasta skrefið í þessum málum frá upphafi þessa kjarnorkukapphlaups, spyrja menn hins vegar hvort það gæti orðið til þess að fjölga eldflaugum t.d. í kafbátum þannig að í raun geti orðið aukning á kjarnorkuforða heimsins þrátt fyrir þetta skref.

Ég tel ástæðu til að nefna þetta því að mér finnst hafa komið fram nokkur misskilningur í sambandi við þessa till. í umræðum manna. Því tel ég vera fulla ástæðu til að leggja áherslu á þá skoðun okkar að hér eigi að verða um raunverulega fækkun, alls ekki fjölgun, kjarnorkuvopna að ræða.

Ég vil einnig lýsa þeirri skoðun minni, sem ég gerði reyndar áðan í umræðum um till. þá, að á þessu sviði er orðin svo mikil breyting að ýmsar þær efasemdir, sem ég get vel tekið undir að hafi verið réttlætanlegar fyrir jafnvel einu ári, eru ekki til staðar lengur. Það er orðið allt annað andrúmsloft og vilji til að þoka þessum málum í rétta átt. Þegar ég upplýsi að ég hef gefið fyrirmæli um að greiða atkvæði eins og ég lýsti er tillagan kemur fram er ég ekki að dæma á neinn máta fyrri afstöðu í þessum málum.