22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

4. mál, frysting kjarnorkuvopna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef á fyrri þingum, þegar þessi till. Kvennalistans hefur verið til umræðu, lýst eindregnum stuðningi við hana. Það má segja að þm. Alþb. og þm. Kvennalista hafi verið ötulir við það á undanförnum þingum að reyna að knýja íslensk stjórnvöld til að endurskoða afstöðu sína til stöðvunar kjarnorkuvopnavígbúnaðarins einnig að því er varðar tilraunir með kjarnavopn. Ég hlýt að rifja það upp að Ísland var orðið eins og nátttröll á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að því er varðaði afstöðu til þessa máls þar sem við vorum einir Norðurlanda um það að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um málið. Ég flutti þáltill., eftir að málið var rætt utan dagskrár þegar 1985, um að afstöðu Íslands yrði breytt og flutti aftur í fyrra þáltill. um það efni á þskj. 161. Þá var þáverandi ríkisstjórn ekki fáanleg til þess að breyta afstöðu sinni. Þá beit hæstv. utanrrh. Matthías Á. Mathiesen í skjaldarrendur, afstaðan skyldi standa, nátttröllið Ísland skyldi verða minnisvarðinn meðan hann hélt um taumana á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þá skyldi sú afstaða standa.

Sannarlega fagna ég því að komið er annað hljóð í strokkinn í þessu máli. Menn hafa væntanlega skilið sneiðina frá hæstv. utanrrh. áðan í sambandi við að ýmiss misskilnings gætti í umræðum um þetta mál, þ.e. frystingartillögu Svíþjóðar og Mexíkó. Hverjum ætli hafi verið ættuð sú sneið öðrum fremur? Þingmönnum og ráðherrum Sjálfstfl. að sjálfsögðu, þar á meðal hæstv. forsrh. sem situr hér við umræðuna en sagði við alþjóð í sjónvarpi um daginn: Ja, þetta mál, þetta er bara vitleysa, þetta er úrelt. Þetta er úrelt, sagði forsrh. Íslands. Stöðvun kjarnorkuvopnakapphlaupsins og þar á meðal stöðvun tilrauna með kjarnorkuvopn, þetta mál er ekki á dagskrá, það er allt annað sem er á dagskrá. Það var sannarlega tilefni til þess fyrir hæstv. utanrrh. að benda á að svo væri ekki enda gerði ráðherrann það. Hann gerði það, fór hógværum orðum þar um og kallaði þetta misskilning. En það er alvarlegt ef sá misskilningur leiðir til rangrar afstöðu Íslands á alþjóðavettvangi eins og gerðist hér á árum áður og þessi tillaga er í fullu gildi eftir sem áður.

Dropinn holar steininn. Barátta okkar þingmanna Kvennalista og Alþb. hér á Alþingi til þess að knýja ríkisstjórn Íslands til stefnubreytingar hefur borið árangur. Hæstv. utanrrh. Steingrímur Hermannsson var forsrh. í fyrrv. ríkisstjórn. Í desember 1986 tók formaður þingflokks Framsfl. undir með mér í umræðum utan dagskrár að væntanleg afstaða Íslendinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem lá fyrir við atkvæðagreiðslu úr nefnd, væri óeðlileg og hann væri þeirrar skoðunar að Ísland ætti að hafa aðra afstöðu. Þá sendi formaður Sjálfstfl. hæstv. þáv. forsrh. boð yfir ganginn og sagði — þetta var í desember 1986, hygg ég, frekar en 1985: Ef tillaga um þetta efni, að Ísland styðji tillögu Svíþjóðar og Mexíkó, verður samþykkt á Alþingi Íslendinga fyrir tilstuðlan þingmanna Framsfl. er stjórnarsamstarfinu slitið. Halda menn að þetta sé eitthvert smámál sem hér er til umræðu? Þetta er kvikan í afstöðu og fylgispekt Sjálfstfl. við afstöðu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi sem þarna kristallaðist í þessum skilaboðum formanns Sjálfstfl. til þáv. forsrh. Og hæstv. núv. utanrrh., þá forsrh., tók ekki skilmerkilegar til orða en fyrir liggur í þingskjölum 1985 þegar þetta mál var til umræðu í Sþ. Ég leyfi mér að vitna til orða hans í umræðu utan dagskrár um afstöðu Íslands til þessarar tillögu. Þar sagði hann, hæstv. utanrrh., þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson:

„Ég er þeirrar skoðunar að eftir að þessar viðræður eru hafnar," — það voru viðræður milli risaveldanna —- „þá eigum við Íslendingar að stuðla sem allra mest að því að þær geti farið fram á sem eðlilegastan máta. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum þá ekki að taka þátt í samþykktum sem kynnu á einhvern máta að valda einhverjum þrýstingi eða jafnvægisleysi í þessum viðræðum. Ég vil taka það fram í framhaldi af því sem hér var spurt um áðan að utanrrh. kynnti fyrir mér þá afstöðu sína að atkvæði Íslands yrði óbreytt frá því sem var á síðasta þingi Sameinuðu þjóðanna og ég var og er því samþykkur“, sagði ráðherrann í desember 1985.

Nú hefur hann góðu heilli breytt afstöðu sinni og segir samstarfsflokknum, Sjálfstfl., sem áður fór með utanríkismál: Ykkar viðhorf til málsins er misskilningur, en það er gott að misskilningurinn í höfði hæstv. núv. utanrrh. hefur leiðrést. Hann er breyttur frá því í desember 1985.