22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

4. mál, frysting kjarnorkuvopna

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að till., sem er til umræðu, verður tekin fyrir á næsta fundi utanrmn. sem hugmyndin er að halda í næstu viku en hefur ekki reynst unnt að tímasetja nánar. Ég mun að sjálfsögðu sjá til þess að þessar tillögur verði þar til umræðu.

Að því er varðar áskorun um afgreiðslu till. það tímanlega að fyrir liggi hvernig við munum greiða atkvæði um þessar tillögur á þingi Sameinuðu þjóðanna er það út af fyrir sig óþarft þar sem hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir bæði hér og annars staðar að hann sé búinn að taka ákvörðun um að greiða atkvæði með einni tillögu af 70–80, að ég held, sem eru um þetta mál á þingi Sameinuðu þjóðanna, þ.e. að greiða atkvæði með tillögu Indónesíu, Mexíkó, Svíþjóðar og fleiri ríkja.

Svo vildi til að ég var á þingi Sameinuðu þjóðanna í nóvembermánuði og fram í desember á sl. ári og þar voru einmitt allar þessar tillögur til umræðu. Ég held ég fari rétt með að það eru 70–80 tillögur um afvopnunarmál, frystingu o.s.frv. Við Íslendingar vorum flutningsmenn að ýmsum af þessum tillögum, meðflutningsmenn, Svíþjóð og önnur Norðurlandanna að öðrum tillögum. Ég held að við höfum setið hjá við afgreiðslu þessarar Indónesíu-Mexíkó-Svíþjóðartillögu en greitt atkvæði með ýmsum öðrum. Það þarf ekki að ræða meira um það mál út af fyrir sig. Það er ákveðið af hálfu hæstv. utanrrh. að greiða atkvæði með tillögunni.

Ég verð hins vegar að geta þess, og það er kannski að sumu leyti ánægjulegt en að öðru leyti sorglegt, að þegar maður horfði á fréttir í bandaríska sjónvarpinu, t.d. morgunfréttirnar sem var gaman að fylgjast með og las bandarísku blöðin á þessu tímabili í fyrra var varla rætt um Sameinuðu þjóðirnar í fjölmiðlum þótt allar þessar tillögur væru þar og væru til umfjöllunar og afgreiðslu. Hins vegar sást húsið á Höfða nærri því á hverjum degi og allir töluðu um fundi leiðtoga stórveldanna. Það er einu sinni þannig að það er staðreynd að það eru þeir og þeirra mikla vald sem hefur úrslitaáhrif í þessum efnum en ekki það hverjar af þessum mörgu tillögum þarna úti eru samþykktar og hverjar daga uppi o.s.frv.

Ég hygg að til sanns vegar megi færa að þessi tillaga um frystingu hafi ekki sama gildi og hún kannski hefði haft áður vegna þess að menn eru ekki fyrst og fremst að tala um frystingu núna, þeir eru að tala um afvopnun, að fækka þessum vopnum, og það er auðvitað það sem gildir. Ég er ekkert að gagnrýna að tillagan sé endurflutt engu að síður en ef einhver hefur látið þau orð falla að hún sé úrelt má auðvitað færa að því rök. Við erum komnir miklu lengra í umræðunni, eða stórveldin, en að tala um frystingu. Sem betur fer hafa menn vitkast það að þeir eru að tala um miklu mikilvægari hluti en bara það að stoppa kjarnorkuvopnaframleiðslu. Við höfum núna vopn til þess að drepa alla heimsbyggðina fimmtíu sinnum eða tuttugu sinnum eða ég veit ekki hvað. Þess vegna er auðvitað það sem gildir afvopnun og hún í ríkum mæli en ég endurtek að auðvitað verður þessi tillaga tekin fyrir strax á næsta fundi nefndarinnar og fær þar efnislega meðferð og afgreiðslu.