22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

4. mál, frysting kjarnorkuvopna

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa tillögu. Ég vil lýsa stuðningi við till. sem hefur komið fram og er nú til umræðu.

Ég held að öllum sé ljóst að kjarnorkuvopn, sem þegar eru til staðar í heiminum, nægja til að útrýma öllum jarðarbúum, ekki bara einu sinni heldur mörgum sinnum. Það ætti þess vegna ekki að vera stórveldunum neitt áhyggjuefni þó að stoppað væri og látið við sitja þar sem framleiðsla er komin nú. Í skjölum, sem kannski eru orðin úrelt núna, man ég eftir að hafa lesið að sprengiafl kjarnorkusprengja sem til eru samsvari um þremur kílóum af dynamíti fyrir hvert einasta mannsbarn sem nú lifir á jörðinni.

Vissulega hafa að undanförnu orðið þáttaskil í afvopnunarviðræðum, þáttaskil sem við bindum miklar vonir við. Eftir 35 ára tilraunir til afvopnunar, eftir 35 ára viðræður um afvopnun, var niðurstaðan sú í reynd að afl gjöreyðingarvopna hafði aldrei og hefur aldrei verið meira í veröldinni en það er núna og hættan e.t.v. aldrei meiri en hún er einmitt núna, hættan jafnvel á mistökum eða misskilningi eins og fjölmargir sérfræðingar hafa gert að umræðuefni í ýmsum greinum á nánast öllum tímum.

Það verða auðvitað margir til þess að segja að Íslendingar geti kannski ekki mikið gert í þessum málum. Þeir hafi hvorki afl eða kraft eða styrk til þess að knýja fram neinar ákvarðanir um þessi mál. Ég hef hins vegar ítrekað látið þá skoðun mína í ljós að Íslendingar hafi rétt og réttinum mega menn aldrei rugla saman við aflið eða styrkinn. Við eigum rétt vegna þess að það mál sem um er að ræða er ekki bara mál stórveldanna heldur mál alls mannkynsins. Það er í rauninni málstaður lífsins sem um er að ræða.

Ég skal ekkert segja um það hvaða stefnu afvopnunarmál taka á næstu vikum, mánuðum eða missirum. En eigi að síður hygg ég að þetta mál sé í þeirri stöðu að eðlilegt sé að taka það hér til umræðu og leggja fram slíka till. og þessa till. mun ég styðja.