04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3511 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

Fundahald í neðri deild

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það var leitað eftir samkomulagi við stjórnarandstöðuna í sambandi við þetta þinghald. Í sambandi við það óskaði ég eftir því við forseta að það yrði ekki haldinn fundur fyrr en á þriðjudag, þ.e. þriðjudaginn 5. jan. Til vara var óskað eftir því af þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem ræddu við forseta að ekki yrði haldinn fundur fyrr en kl. fjögur eða fimm í dag til þess að þeir sem þyrftu að fara um langan veg ættu þess kost að komast hingað í tæka tíð. Mér skildist á hæstv. þingforseta að það væri ekkert mál, hann gæti stjórnað því án þess að ræða um það við aðra hvenær á deginum fundur hæfist. Hins vegar yrði hann að ræða um það við forseta og jafnvel ríkisstjórn ef það ætti að fresta fundi til þriðjudags. Hafi ég skilið þetta rétt vil ég fá að vita það hér og nú hvernig á því stóð að við þetta var ekki staðið. Hverjir komu í veg fyrir það ef ekki er hér um misskilning að ræða, en nokkrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar urðu vitni að þessum orðaskiptum.

Ég harma að slíkt standist ekki og gæti haft þau áhrif að það yrði ekki auðveldara að semja við stjórnarandstöðuna um þinghald þegar þannig er haldið á málum.