04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3512 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

196. mál, söluskattur

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að vera mjög stuttorður og hafði áformað að varpa fram fsp. til hæstv. fjmrh. og þar fyrst og fremst varðandi undanþágur fyrir fiskiskip hér á landi.

Í frv. til l. sem nú liggur fyrir hér um breytingu á söluskatti er ekki gert ráð fyrir að söluskattur af varahlutum, vélum og tækjum í skip sé felldur niður. Þetta er stærsta hagsmunamál útgerðarinnar á Íslandi og ég tel að hér hafi greinilega orðið mistök á og menn hafi gleymt þessu. Við meðferð deilda hefur þetta ekki komið fram áður. Ég hafði hug á í þeirri frægu ræðu sem ég hélt hér eða öllu heldur hélt ekki um nóttina að spyrja fjmrh. um þetta atriði og hann einn getur vafalaust svarað því. Ég tel að hér hafi fallið í burtu undanþágur fyrir skip sem þýðir verulega útgjaldaaukningu fyrir fiskiskip. Við 3. gr., 11. tölul. frv. hef ég lagt fram brtt. þar sem ég bæti inn í þann lið varahlutum fyrir skip, þ.e. bæti inn orðunum „skip og“. Ég beini því til þm. hvort þeir geta ekki sameinast um að samþykkja þessa breytingu því það er alveg augljóst mál að hér hafa orðið veruleg mistök við flutning frv. og niðurfelld heimild til að fella niður söluskatt í fyrsta lagi á fjarskiptatækjum fyrir fiskiskip, þar með talið neyðarstöðvar og löggiltar stöðvar sem skip verða að hafa, og í þessu eru verulegar fjárhæðir bundnar. Í öðru lagi er um ratsjár að ræða, sem öll skip nú til dags nota, og miðunarstöðvar og áttavitar og svokallaða bergmálsdýptarmæla, sem núna eru ekki í sérstökum flokki að sjá, og fisksjár.

Allt eru þetta mjög mikilvægi tæki um borð í fiskiskipum og reyndar farskipum líka sum og fram hjá því er ekki hægt að horfa að ef ekki eru heimildir til undanþágu, til að fella niður söluskatt á þessum tækjum eins og verið hefur mun þessi verslun færast úr landinu, eins og var um árabil. Fiskiskip munu einfaldlega sigla til næstu hafna í Evrópu og láta setja þessi tæki um borð í skipin þar og jafnframt mun viðhald að nokkru leyti fara fram í þessum löndum.

Það er mjög mikilvægt að þessari grein sé haldið inni. Það er hvergi í núverandi frv. Því tel ég að það væri mjög mikilvægt að menn gætu sameinast um að bæta inn orðinu „skip og“ í 11. tölul. því þetta varðar þessa atvinnugrein verulega mikið.

Þá er rétt að benda á að sennilega mundi, ef þetta er ekki fyrir hendi, svokallaður frílager farskipafélaga ekki lengur vera fyrir hendi, en frílager fyrir farskip hefur tíðkast hér um nokkur ár þar sem farskip geta haft lager af varahlutum í vélar og tæki og fengið þá án tolla og söluskatts. Það þýðir að farskipin mundu einnig hætta að láta afgreiða sig hér með þessa hluti og verslunin mundi færast til útlanda á þessu. Ég vil sérstaklega beina þessu mikilvæga atriði til hæstv. fjmrh. og vonast til að hann geti stutt brtt. sem hér verður borin upp á eftir því að ég tel að það sé alveg ljóst að hafi þessi málaflokkur ekki þá skipan á sem núna er, að það sé hægt að fá undanþágu frá söluskatti fyrir tæki og búnað fyrir skip, muni verslunin færast úr landinu og þetta muni verða til stórkostlegs skaða fyrir okkur. Á undanförnum árum hafa byggst upp mjög góð fyrirtæki í þessum greinum, bæði hvað varðar fjarskiptatæki, fiskileitartæki og vélar, og væri til mikils óhagræðis ef þessi verslun flyttist úr landinu og menn mundu eingöngu reiða sig á erlenda umboðsmenn í þessu atriði. Brtt. er á þskj. 473 og ég vonast til að menn geti stutt hana þannig að þessi mál komist í höfn.

Ég ætla ekki að hafa orð mín öllu fleiri núna. Ég tel að þetta mál sé mjög mikilvægt og ætlaði reyndar að ræða það á þessum fræga næturfundi, en ég taldi að enginn nema fjmrh. gæti svarað þessu, sem er vafalaust rétt, og ég vonast til að hann muni svara þessu jákvætt og taka undir brtt. um að undanþágur fáist fyrir skip í þessum efnum.