04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

196. mál, söluskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég tók til máls í upphafi þessa fundar um þingsköp og það virtist vera á máli hæstv. forseta að það hefði einhver misskilningur orðið okkar á milli í sambandi við þær viðræður sem fóru fram 30. f.m. á milli stjórnarandstöðuþm. og hæstv. fjmrh. og hæstv. forseta. Ég hef borið mig saman við tvo af þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem þar voru á fundi og þeir skildu málið á sama veg og ég. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða það mál frekar.

Auðvitað vitum við sem erum á móti matarskattinum að hann verður samþykktur hér. Við vitum það. En við teljum nauðsynlegt þegar tímar líða að okkar sjónarmið og aðvörunarorð komi fram í þingtíðindum. Þess vegna ræðum við um þessi mál. Ég hefði viljað að hv. formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar væri hér viðstaddur vegna þess að ég ætla með nokkrum orðum að deila á vinnubrögð nefndanna. Ég kann því illa að gera það að honum fjarstöddum. (Forseti: Formaður fjh.- og viðskn. kom að máli við mig áðan og fékk að víkja burtu af persónulegum ástæðum sem ég taldi fullgildar og hann er ekki væntanlegur hér aftur næsta hálftímann a.m.k. En ég vil benda á að frsm. nefndarinnar í málinu er hér á fundi og spyrja hvort ræðumanni nægir að hann beri formanni fjh.- og viðskn. þau skilaboð sem hv. ræðumaður kann að hafa.)

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að ég ljúki ekki máli mínu fyrir matarhlé þannig að ég vona þá að hv. 1. þm. Norðurl. v. mæti eftir matarhlé.

Ég sagði það í sambandi við söluskattinn í ræðu sem ég flutti 30. f.m. að ég hefði tekið eftir því að formaður fjh.- og viðskn. deildarinnar vildi ekki eða kom sér hjá að mæla fyrir nál. meiri hl. um þetta málefni og hv. 10. þm. Reykv. tók það að sér. Ég er ekkert hissa á því að hv. formaður fjh.- og viðskn. kæmi sér hjá því að tala fyrir þessu máli. Þó ég væri stutt núna fyrir norðan þá heyrði ég í tveimur af hans mönnum úr hans kjördæmi og þeir töluðu um kjarkleysi þm. Framsfl. í sambandi við þetta mál. Ég mun ræða það betur eftir matarhlé.

Hv. 6. þm. Suðurl. Óli Þ. Guðbjartsson ræddi og las upp úr ræðu hæstv. fjmrh. Hann er nú víst ekki staddur hér hæstv. ráðherrann. Er hann hér í hliðarsölum, hæstv. forseti? (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til þess að aðvara fjmrh. um að hans sé óskað, en ég vil aðeins geta þess í sambandi við framhald þingstarfa hér í kvöld, að það er nú sýnt að þessari umræðu lýkur ekki fyrir venjulegan kvöldmatartíma, þannig að ég hafði hugsað mér að halda henni áfram til kl. 7 og gefa þá matarhlé og menn mega þá reikna með kvöldfundi í deildinni. En nú er fjmrh. genginn í salinn.)

Hæstv. forseti. Ég var að tala um að hv. 6. þm. Suðurl. hefði lesið upp úr ræðu núv. hæstv. fjmrh. sem hann flutti 10. des. 1986. Það var mjög merkilegur lestur. Það hlýtur að hvarfla að manni að það séu embættismennirnir í ráðuneytunum sem fyrst og fremst ráði því sem gert er hér á hv. Alþingi. Ef þm. eiga að taka mark a þessari ræðu sem var lesin hér upp af hv. 6 þm. Suðurl., þá er með ólíkindum sú stefnubreyting, það breytta viðhorf sem hefur orðið á þessu rúma ári hjá hæstv. fjmrh. Það er alveg með ólíkindum. Þegar ég hlusta á þessa ræðu nú og hún er rifjuð upp fyrir mér, þá hlýtur að koma í hugann: Hvernig getur staðið á þessu? Við höfum verið upplýst hér um að það hafi verið fimm manna nefnd sem gerði tillögur um þessa kerfisbreytingu, að mér skilst þrír menn úr ríkiskerfinu og svo tveir frá iðnaðinum. Ekki get ég eða vil ég a.m.k. segja það að hæstv. fjmrh. snúist bara eins og skopparakringla frá einum degi eða einum mánuði eða einu ári til annars eftir því hvort hann er í stjórnarandstöðu eða er þátttakandi í ríkisstjórn. En þetta er umhugsunarvert.

Í sambandi við þennan matarskatt hef ég í máli mínu komið fram tvívegis með spurningu til hæstv. heilbr.- og trmrh. Spurningin var þessi: Hvernig er háttað eftirliti með innflutningi á matvælum til landsins? Ég hef ekkert svar fengið. Ég hygg að það séu fleiri en ég sem hafa hrokkið við þegar fyrsta Morgunblaðið er gefið út á þessu ári og þar er upplýst að annað mesta kjarnorkuslys sem talið er að hafi orðið í heiminum, miðað við þessi skrif, hafi orðið fyrir 30 árum og sé verið að upplýsa það nú. Fyrrv. orkumálaráðherra breska Verkamannaflokksins, Tony Benn, skýrir frá því að ef gefa ætti skýrslu um öll þau slys sem hafi orðið í kjarnorkuverum, hann tilgreinir ekki hvort það er á Brettandi eða hvort það er á allri jörðinni, þá skipti þau tugum á síðustu 30 árum. Og þetta slys gerðist fyrir 30 árum á Norðvestur-Englandi. Hvernig er þessum málum háttað hjá okkur?

Nú er verið að fjalla hér um mikla kerfisbreytingu. En ef menn taka mark á þeim ummælum hæstv. fjmrh. sem hann viðhafði 10. des. 1986 og í fjárlagaræðunni sem hann flutti 4. nóv. sl. þá er það a.m.k. ekki í stefnu Alþfl., og við vitum um frjálshyggjuliðið í Sjálfstfl., að greiða niður verð á landbúnaðarafurðum í framtíðinni. Til þess að koma á þessari kerfisbreytingu hefur það líklega verið til að friða suma landsbyggðarþm., ekki síst þm. Framsfl., að á fjárlögum eru nú ætlaðar 1250 millj. í auknar niðurgreiðslur til að mæta þessum 25% söluskatti.

Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji að þessar 1250 millj. nægi til að greiða niður þessar landbúnaðarafurðir út þetta ár. Mér er sagt af kunnugum að það þurfi miklu meira en 1250 millj. ef neyslan verður svipuð og hún var á síðasta ári, jafnvel 1800–1900 millj. Hvað er rétt í því? Það þarf að liggja fyrir og ég vonast til að hæstv. fjmrh. leysi þá gátu og upplýsi hvað það kosti á hverja vörutegund að borga niður söluskattinn á þessu ári. Eða er það meiningin að borga aðeins í 7–8 mánuði?

Það kom fram í ræðu hv. 2. þm. Austurl. að hæstv. ríkisstjórn væri búin að missa allt tímaskyn, ætlaði að halda upp a sjö mánaða starfsafmæli ríkisstjórnarinnar nú 8. janúar. En eru ekki allar líkur fyrir því einnig að hæstv. ríkisstjórn sé búin að missa allt áttaskyn? A.m.k. sýnist mér Alþfl. vera búinn að því og ég sé ekki betur en Framsfl. sé búinn að því líka og landsbyggðarmenn Sjálfstfl. a.m.k. Eða hvernig má það vera að það sé búið að söðla þannig um t.d. hjá þessum hv. þm. og hæstv. ráðherrum að nú sé ekkert mál að settur sé á 25% matarskattur, þó það liggi fyrir skjalfest, m.a.s. í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. að stefna hans og hans flokks sé að hætta niðurgreiðslum? Hafa hv. þm. Framsfl. og landsbyggðarþm. Sjálfstfl. hugleitt það í hvaða sporum þeir muni standa á næstu mánuðum, ekki síst þegar fram kemur að það verður erfitt að ná samstöðu um áframhaldandi niðurgreiðslur?

Það var hringt í mig m.a.s. á gamlárskvöld, mönnum var það mikið niðri fyrir að þeir hringdu á gamlárskvöld til mín og þessir viðmælendur mínir sögðu: Getur það verið, ég trúi því ekki, að t.d. þm. Framsfl. greiði þessu atkvæði? Við höfum ekki trú á því. Við getum ekki trúað því. Og hvað veldur þessu? Ja, það er von að menn spyrji. Það er ekkert undarlegt. Eru það ráðherrastólarnir sem ráða? Ég hygg nú að eins og horfurnar eru þá verði þeir nú ekki lengi í ráðherrastólunum, ef þróunin verður eins og manni sýnist á þessu nýbyrjaða ári.

Ég gæti lesið upp úr ræðu fjmrh. til að sýna fram á hvernig hans ræða var, t.d. í sambandi við niðurgreiðslurnar. Hann segir hér á bls. 47 í sinni ræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Samhliða því að söluskattur verður lagður á fleiri vöruflokka en nú verður ráðist í allumfangsmiklar hliðarráðstafanir til þess að bæta þeim tekjulægstu áhrif söluskattsins á matvöruverð. I þessu skyni er m.a. ráðgerð sérstök hækkun á bótum lífeyristrygginga, en ríkisstjórnin væntir þess að öðru leyti að gott samstarf megi takast við aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd þessara ráðstafana. Í þessu sambandi kemur auðvitað sérstaklega til athugunar lækkun skatta í staðgreiðslukerfi, hækkun barnabóta, barnabótaauka og persónuafsláttar.“

Og hann segir hér að það verði reynt að bæta upp hið hækkandi verð á matvöru með þessum ráðstöfunum en ekki með niðurgreiðslu, sbr. einnig ræðu hæstv. fjmrh. sem flutt var fyrir rúmu ári.

Ef þetta fer sem horfir þá er verið að knýja fram mikla neyslubreytingu í þjóðfélaginu þar sem verð á innfluttri matvöru lækkar á sama tíma og verð á innlendri matvælaframleiðslu hækkar. Og með tilliti til þess sem ég vitnaði í í Morgunblaðinu 3. þ.m. um að það hefðu verið tugir kjarnorkuslysa spyr ég: Hvaða ráðstafanir ætlar hæstv. heilbr.- og trmrh. að gera til þess að ekki verði flutt inn matvara sem er menguð jafnvel af geislavirkum efnum? Í frétt hjá Ríkisútvarpinu kom það fram að geislavirkni hefði verið tíu sinnum meiri en talið var hættulaust, tíu sinnum meiri. Það kom fram að mikið væri um hvítblæði og aðra tegund af krabbameini á svæði umhverfis slysstaðinn. Er það kannski ekki þess vegna sem t.d. Svíar og Finnar eru svona vel á verði í sambandi við innflutning á matvöru til sín, jafnvel frá Íslandi þar sem ekkert kjarnorkuver er, að það dugar ekki að senda tvær prufur heldur vilja þeir koma til þess að skoða vöruna með eigin augum? Hvernig er þetta hjá okkur, hæstv. heilbr.- og trmrh.? Er það rétt sem fullyrt er að það sé ekkert nema málamyndaeftirlit með þessum innflutningi? Og ætlar hæstv. ríkisstjórn að knýja fram neyslubreytingu, sem liggur á borðinu að auðvitað verður ef ekkert verður að gert, og eiga það á hættu að matvara, t.d. grænmeti og e.t.v. ávextir, ég þekki það ekki nægilega vel, verði flutt hingað frá óheilnæmum svæðum? Því vil ég spyrja og ég veit að þessar spurningar eru mörgum ofarlega í huga eftir þær upplýsingar að tugir kjarnorkuslysa hafi orðið á 30 ára tímabili: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn sér að gera í sambandi við þessi mál?

Ég sé að hv. 1. þm. Norðurl. v. er genginn í salinn. Ég hætti við það áðan, þegar upplýst var að hann væri ekki viðlátinn, að minnast á nokkur atriði í sambandi við þau vinnubrögð sem hafa verið hér í Alþingi í sambandi við þessa kerfisbreytingu. En vildi helst ekki gera það öðruvísi en að hann væri viðlátinn. Er hv. þm. kannski genginn úr salnum? Ég vil ekki ræða þau vinnubrögð öðruvísi en að hv. þm. sé viðlátinn. (PP: Ég er viðlátinn.)

Ég hef kannað það að frv. sem tilheyra þessari kerfisbreytingu voru lögð fram 9. og 10. desember sl. 14. desember var 2. umr. um fjárlög. 15. desember er atkvgr. eftir 2. umr. Það liggur alveg á borðinu að það hafa verið viðhöfð allt önnur vinnubrögð varðandi þessi mál en hafa tíðkast á Alþingi fram að þessu. Nefndir beggja deilda hafa ekki haft möguleika á að skoða þessi frumvörp eins og skylt er og nauðsynlegt og framkvæmdastjóri Þjóðhagsstofnunar hefur skýrt frá því á opinberum vettvangi að það væri alls ekki hægt að segja fyrir um það hvernig þetta verkaði fyrr en einhvern tímann eftir áramót. Sem sagt, það liggur á borðinu að enginn veit hvernig þessi frumvörp munu verka og ég efa að nokkur viti um ýmis atriði sem eru í þessum lagabálkum. Það er mikil ábyrgð sem nefndirnar hafa tekið. Það er ekki einungis hæstv. ríkisstjórn heldur ekkert síður nefndirnar, að láta bjóða sér að standa þannig að verki.

Ég tek eftir því að í blöðum í dag segir hv. þm. Matthías Bjarnason að hann láti ekkert segja sér fyrir verkum. Hvað er hv. þm. að segja? Hann lætur ekki segja sér fyrir verkum. Var þeim sagt fyrir verkum, þingnefndum beggja hv. deilda um það hvernig þær ættu að standa að þessu, að þær yrðu bara að afgreiða þetta blindandi?

Ég tel það nauðsynlegt vegna umfjöllunar síðar um þessi mál að þetta komi alveg greinilega fram hér á hv. Alþingi því að hér er um alveg nýja starfshætti að ræða sem verið er að taka upp sem ég hef ekki þekkt áður. Menn verða að athuga það að hér er ekki um neitt lítið að ræða. Það eru ekki tvær, þrjár lagagreinar. Það eru frv. upp á um 500 blaðsíður. Þau eru um kerfisbreytingu, algjöra kerfisbreytingu í skattlagningu ríkisins. Á þessum 12 dögum sem voru til jóla áttu eftir að fara fram tvær umræður um fjárlög og atkvæðagreiðsla um þau fyrir utan öll önnur frv. sem lágu fyrir þinginu á þessum tíma. Ég er alveg undrandi á eins mætum manni og hv. 1. þm. Norðurl. v. að láta bjóða sér þessi vinnubrögð. Það er auðvitað vansæmd fyrir ríkisstjórnina og alla þá sem styðja hana að líða slík vinnubrögð, enda trúi ég ekki að þm. Framsfl. sem ég þekki vel sé það ljúft að standa að þessum matarskatti og að standa að og bera ábyrgð á þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð.

Ég gæti lokið máli mínu að öðru leyti en því, hæstv. forseti, að ég á svolítið vantalað við formann Framsfl., hæstv. utanrrh., og mælist til þess að geta hafið mál mitt aftur eftir matarhlé þar sem hann er ekki viðstaddur. Ég kann ekki við að tala til hans hér úr ræðustól öðruvísi en að gerðar séu ráðstafanir til að hann hafi möguleika á að hlýða á mál mitt. (Forseti: Eins og fundarmönnum mun kunnugt hafði forseti tilkynnt að hlé yrði gert á fundinum frá kl. 19 til kl. 21 og það mun vera vandalaust að sjá til þess að hæstv. utanrrh. verði hér við upphaf fundar kl. 21 og þá félli það vel saman að hlé yrði gert á ræðu hv. þm. sem og fundinum.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég ætlaði að beina nokkrum orðum til formanns Framsfl., hæstv. utanrrh. Nú hefur hæstv. forseti hins vegar tilkynnt mér að hann sé bundinn við önnur störf en hv. 1. þm. Norðurl. v. muni flytja honum skilaboð. En málið var það að ég ætlaði að leggja spurningar fyrir hæstv. utanrrh.

Ég las áramótagrein og hugleiðingar ráðherrans með athygli og þar undirstrikar hann alveg sérstaklega það sem fór á milli okkar eða minna samtaka á Akureyri og hv. þm. Páls Péturssonar, formanns þingflokks framsóknarmanna, á Akureyri, þá undirstrikar hann sína stefnu, þ.e. þá stefnu sem hann taldi á þessum fundi okkar að væri stefna Framsfl. en sagði að þeir yrðu bara að hverfa frá henni vegna þess að þeir væru í þessari ríkisstjórn. Það er ýmislegt athyglisvert sem kemur fram í þessum áramótahugleiðingum.

Áður hafði hæstv. utanrrh. sagt í Tímanum 19. desember: „Raunvaxtaokri verður að linna.“ — Ég sé að formaður þingflokksins er vikinn úr sal. Ég mun þó halda áfram ræðu minni því að ég er ekkert hissa á því þó að hv. þm. líði illa þegar þessi mál eru rædd.

Hinn 17. desember var í blaðinu Degi á Akureyri leiðari þar sem því er haldið fram að raunvextir muni vera um 2–3%. Í áramótagrein sinni segir aftur hæstv. utanrrh. að raunvextir í dag muni vera 20–30%. Ég hef ekki leyft mér að halda því fram að raunvextir í dag væru allt í 30%. Hitt má með sanni segja að ef tekið er mið af lánskjaravísitölu þetta ár frá ársbyrjun til ársloka sem er 22,2% og ef menn miða við raunvexti á ríkisvíxlunum sem eru 41,3% séu raunvextir nálægt 20% og sjálfsagt í sumum tilvikum eru raunvextir á gráa markaðinum enn hærri.

En hvernig er það með formann Framsfl. og hv. þm. Pál Pétursson? Bera þeir ekki ábyrgð og Framsfl. á þessari vaxtastefnu? Þýðir nokkuð fyrir þá að koma fram í blöðum eða annars staðar og segja: Þetta er ekki okkar stefna, við berum ekki ábyrgð á þessu?

Utanrrh. segir meira í þessari grein. Hann segir efnislega:

Þegar frjálsræði í vöxtum var ákveðið gerðum við ýmsar ráðstafanir sem við töldum að mundu hindra að þessi stefna hefði jafnillt í för með sér og nú er komið í ljós.

Hæstv. utanrrh. beinir því líka til bankaráðanna að þau komi með tillögur um það hvernig eigi að lækka vexti. Tryggvi Pálsson, fjármalastjóri Landsbankans, er í raun og veru búinn að svara því hvernig á því stendur að vaxtamunur er svo mikill. Hann segir að viðskipti bankanna við Seðlabankann leiði það af sér að vaxtamismunur af þeim ástæðum einum þurfi að vera a.m.k. 2% hærri en annars væri. Er það ekki hæstv. ríkisstjórn sem stjórnar því eða getur haft afgerandi áhrif á það hvernig Seðlabankinn hagar sér í viðskiptum við ríkisbankana?

Ég gat um það fyrr í ræðu minni að bindiskylda í bönkunum væri 13%, og að ekki væru greiddir neinir vextir af því fé. T.d. verður Búnaðarbankann að binda 1,7 milljarða, en ef þetta fé væri lánað út á 9,5% vöxtum sem eru hinir algengustu hjá bönkunum og þeir eru meira að segja hærri ef menn geta ekki staðið í skilum og verða að fá ný lán, 2% hærri, en miðað við lægri vaxtatöluna eru þetta rúmar 160 millj. kr. sem eru hafðar af Búnaðarbankanum á þennan hátt. Vextir af því fjármagni sem Seðlabankinn gerir bönkunum skylt að hafa á bundnum reikningi eru 26% frá því í ágúst. Þeir hafa ekkert breyst. Síðan verða bankarnir, ef þeir hafa ekki inni það sem er bundið, þ.e. 10% til viðbótar í ríkisvíxlum eða í fjármagni í Seðlabankanum, að borga 41% eða um 48 eða 49% raunvexti á ári. Bankarnir neyðast því til þess að hækka vextina vegna þess að annars geta þeir ekki haldið sínum rekstri réttum megin við strikið.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan. Ríkisstjórnin í heild og stuðningsmenn hennar bera ábyrgð á þessari vaxtastefnu og það er ekki stórmannlegt að segja: Ja, við erum á móti þessu eða hinu. Ef þeir styðja ríkisstjórnina á annað borð bera þeir auðvitað ábyrgð.

Það er líka athyglisvert þegar maður er að lesa umsagnir hinna ýmsu manna í sambandi við árið sem er nýliðið að t.d. formaður Vinnuveitendasambandsins segir: Þetta var gjöfult ár, en tækifærin glötuðust. Og forseti Alþýðusambandsins segir: Þetta var ár glataðra tækifæra. Þetta eru umsagnir forustumanna vinnumarkaðarins um þá ríkisstjórn sem situr. (Fjmrh.: Fyrrverandi.) Ja, vextirnir hafa fyrst og fremst hækkað, hæstv. fjmrh., í ykkar tíð, 60% ef við miðum við ríkisvíxlana þegar ríkisstjórnin settist að völdum fyrir sex mánuðum en ekki sjö. Fram til 1. desember hækkuðu þeir frá 26% upp í rúm 41% eða um 60%.

Ég vil að þetta komi skýrt fram vegna þeirrar umræðu sem nú er í þjóðfélaginu. Ég veit það t.d. að hv. þm. Páll Pétursson er ekki sæll að vera í þessari flatsæng sem hann hefur látið setja sig í. Hann er það ekki, ég veit það. En það er ekki stórmannlegt að láta kúga sig til þeirra verka sem er verið að framkvæma hér og nú. Þar á ég við söluskattinn, þar á ég við vaxtamálin og fleiri hluti sem ég ætla ekki að telja upp.

Ég harma að formaður Framsfl. er ekki hér. Ég hefði beint til hans nokkrum spurningum þó að hæstv. ráðherrar svari yfirleitt ekki. Þeir telja sig víst vera yfir það hafna að svara stjórnarandstöðunni en það getur vel verið að það komi þeim í koll þótt síðar verði.

Ég ætla að láta máli mínu lokið, en ef formaður Framsfl. birtist í kvöld og ekki verður búið að ljúka umræðunni mun ég kannski leggja fyrir hann nokkrar spurningar.