04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

196. mál, söluskattur

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Svo lengi lærir sem lifir, segir gamalt máltæki. Ég hef lært margt síðan ég kom hingað inn á Alþingi. Flest af því sem ég hef lært að gagni um þessi frv. öll hef ég lært af stjórnarandstæðingum því að stjórnarsinnar taka ákaflega lítið til máls. Má þakka fyrir ef þeim dettur í hug að hlusta. Hér er yfirleitt fámennt af þeim.

Ég heyrði það t.d. að frú Margrét Thatcher, sem ég hef alltaf haldið að væri svona í fararbroddi frjálshyggjunnar, leggur ekki á matarskatt. Það gerir hæstv. fjmrh. sem er í fararbroddi jafnaðarmanna, eins og hann segir, hér á Íslandi. Þessu hefði ég ekki að óreyndu trúað.

Það er mín skoðun að þetta skattafrv. sé eitthvert það versta heimilisböl sem nokkurt Alþingi hefur leitt yfir þjóðina. Að vísu skal ég viðurkenna það að hvorki ég né þeir sem leggja það fram vita náttúrlega í raun og veru hvað þetta hefur að þýða. Þetta er svo óráðið að maður veit ekki hvað kemur út úr því þegar það fer virkilega að gilda. Íslendingar eru ekki stór þjóð, Íslendingar eru mjög smá þjóð. Það er sagt sem svo að það sé kraftaverk að við skulum geta haldið hérna uppi menningarþjóðfélagi og rengi ég það ekki. Það hefur líka verið sagt að við værum eins og ein stór fjölskylda, hér þekktu allir alla og hér fylgdust allir með öllum. Því miður held ég að þetta sé ekki rétt því að ég get ekki ímyndað mér að fólk greiddi atkvæði með þessum sköttum ef það vissi hvað það er að draga yfir þau heimili sem nú þegar hafa of lítið.

Ég get ekki setið á mér þó að menn séu hér á hljóðskrafi að segja ykkur eina sögu. Ég vona að það sé ykkur ekki ofviða að hlusta á hana. Ég, eðlilega, þekki kannski fyrst og fremst fólk sem er heldur í þeim kantinum sem hefur það erfiðara, efnahagslega.

Ég átti tal við eina vinkonu mína núna um áramótin. Ég hef þekkt hana síðan hún var barn og veit upp á hár um hennar lífskjör yfirleitt. Þessi kona varð ekkja rúmlega fertug, þá með hóp af börnum. Eignalaus braust hún áfram með börnin og eignaðist jafnframt íbúð, þá með góðum kjörum, í Breiðholtshverfinu, í verkamannabústöðunum. Hún hélt sig hafa tekið lán sem hún gæti líka ráðið við. En eins og ég sagði í upphafi lagði hún á sig mjög mikla vinnu og heilsan bilaði og nú er hún búin að vera öryrki í ein þrjú, fjögur ár og komin í hjólastól.

Hvað fær nú þessi kona til að lifa af í velferðarþjóðfélaginu? 28 þús. kr. á mánuði og er hún í hærri kantinum því að hún hefur tiltölulega góðan lífeyrissjóð.

Nú, eitt barnið er enn þá heima. Það er að ljúka við menntaskóla. Hún fær ekki heimilisuppbót af því að hún rekur það ekki á dyr. Það mega nefnilega ekki vera tveir í heimili til þess að fá heimilisuppbót. Tvisvar á ári, ég má segja í janúar og einhvern tímann að haustinu, þarf hún að borga af íbúðinni sinni. Það sem var mjög sæmilegt þegar hún keypti íbúðina er orðið yfirþyrmandi núna vegna lánskjaravísitölunnar. Hún á næsta lítið eftir til að hafa fyrir mat þegar hún hefur borgað af láninu. Og hvað segir maður þegar maður heyrir svona? Ja, þið hafið kannski, eins og ég, horft á Jólaævintýri eftir Dickens. Þið munið kannski eftir ágirndarpúkanum sem andi jólanna fór með um Lundúnaborg og sýndi þá geigvænlegu fátækt sem þá var þar en við höfum ekki séð a.m.k. langa, langa lengi. Og hvað sagði ágirndarpúkinn? Hann sagði: Til hvers borga ég skatta? Af hverju er þetta fólk ekki á stofnunum? Til hvers er ég að borga skatta ef það er ekki séð fyrir því?

Nú, ég sagði við þessa vinkonu mína: Þú sérð það að þú getur ekki borgað af húsnæðinu. Þú verður bara að láta hjálpa þér með þetta. Til þess borgum við skatta, sagði ég og meinti það. Hún getur vel talað fyrir sig sjálf, þessi kona, og hún sagði: Ég hef reynt það en ég fæ ekki hjálp vegna þess að ég er ofan við strikið. Það er eitthvert strik þarna sem fólk má ekki fara upp fyrir. Þá fær það ekki frekari hjálp.

Þetta er nú velferðarþjóðfélagið okkar í dag. Nú á að leggja á þessa konu og annað slíkt fólk 25% í matarskatt. Hvernig haldið þið að lífið hjá því verði þá? Og þetta gera menn alveg án þess að blikna eða blána og veifa í kringum sig og segja: Það fær barnabætur. Það er bara ekki allt þetta fólk með barnabætur. En það er margt fólk með barnabætur sem alls ekki þarf á þeim að halda. Bankastjórar, forstjórar og ráðherrar eru með barnabætur, en svona fólk er með engar bætur nema þessar ákveðnu bætur út úr almannatryggingum og út úr sínum lífeyrissjóðum. Ég tiltek dæmið um þessa konu vegna þess að hún er nógu greind og á enn þá, þó ótrúlegt sé, nógu mikið baráttuþrek til þess að ég veit að hún mun leyfa mér að gefa upp nafnið hennar ef einhver skyldi rengja mig og óska sérstaklega eftir því. Ég mun hins vegar ekki gera það án þess að biðja hana um leyfi.

Ég held að hv. þm., sem ég reikna með að sé yfirleitt gott fólk þó þeir séu í stjórnaraðstöðu, ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir gera þetta, samþykkja þennan matarskatt. Ég held að þeir ættu ekki að vera að reyna að sannfæra sjálfa sig um það að fólk fái eitthvað í staðinn sem það getur við unað og sem getur bætt því kjörin. Ég trúi því ekki, ef þeir vissu hvað þetta getur skapað fólki mikla erfiðleika, að þá mundu þeir gera þetta.

Ég geri ráð fyrir að það sé búið að njörva þetta svo saman að það verði samþykkt, en ég segi bara það: Ég öfunda ykkur ekki af því. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Þökk fyrir.