04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Fyrst örstutt athugasemd vegna brtt. sem flutt er á þskj. 473 við þetta frv. til l. um söluskatt og snýst um 3. gr. 11. tölul. A-liðar. Í máli flm. kom fram að hann taldi að hér væri um að ræða mistök í söluskattslögunum, að að þeim óbreyttum hefði sú breyting orðið á að framvegis skyldi innheimta söluskatt á varahluti, vélar og tæki til skipa og reyndar flugvéla. Mér þykir rétt að nota tækifærið áður en lengra er haldið og fullvissa hv. flm. og þm. um að þessi till. er á misskilningi byggð. Það hefur engin breyting verið gerð frá gildandi söluskattslögum, alls engin, sem veldur slíkum breytingum. Eina breytingin sem snertir þetta mál varðar það að undanþáguheimildin sem var og er og verður snertir að vísu ekki flugvélar aðrar en þær sem eru í atvinnurekstri. Til að árétta þetta svolítið nánar vek ég athygli á því að fyrir utan þennan 11. lið er að sömu málum vikið í 9. lið sömu greinar, þ.e. um undanþágur vegna skipa og flugvéla. Þar kemur fram sú eina breyting að skilyrði er sett um að um tæki í rekstri sé að ræða. Það hefur verið í gildi undanþága að því er varðar innflutning skipa og flugvéla og þar með talið skv. sérstakri reglugerð allan búnað sem þessum skipum og vélum fylgir. Í 4. gr. er heimildin áréttuð um efni, vinnu, vélar og tæki í skip og báta. Reglugerðin sem í gildi hefur verið og í gildi er enn tengist þeirri grein og tryggir algerlega óbreytta stöðu að því er þetta varðar þannig að það er hafið yfir vafa að þessi tillgr. út af fyrir sig er ekki nauðsynleg.

Aðrar spurningar sem beint hefur verið til mín í þessari umræðu eru reyndar af því tagi að ég hef sjálfur heyrt þær flestar áður og reyndar svarað þeim flestum ef ekki öllum áður. Í flestum tilvikum hefur þeim þegar reyndar verið svarað strax í framsögu. Þá er ég að sjálfsögðu ekki að víkja að því að hv. þm. hafa að sjálfsögðu skiptar skoðanir á þeim málum sem hér eru til umræðu.

Svo að ég stikli á nokkrum atriðum kom það fram í máli hv. 10. þm. Reykn. að í umfjöllun í nefnd hefðu embættismenn látið uppi efasemdir um að við það fyrirheit yrði staðið að unnt yrði að greiða út barnabætur í janúar. Ég hef heyrt það eftir mönnum haft. Í umfjöllun í milliþinganefndinni sjálfri, sem fjallaði um staðgreiðslu tekjuskatts, var hins vegar kveðið nokkuð fast að orði um það mál og það hefur verið rætt sérstaklega í framhaldi af umfjöllun nefndarinnar við ríkisskattstjóra og gengið sérstaklega eftir því að allt verði gert sem unnt er til að standa við það. Hins vegar var ekki gengið eftir því að negla það niður á dagsetningu, en fyrir liggja fyrirheit um að við þetta verði staðið svo fremi sem það verði í mannlegu valdi.

Í ræðu hv. 6. þm. Suðurl. var beint til mín spurningu sem snerti reiknitölu fjárlaga að því er varðaði verðlagsbreytingar milli ára eða í talnagrundvelli fjárlaga, þ.e. 17–18%, og spurt hvort nýjar upplýsingar væru fram komnar með vísan til umræðu í hv. fjvn. fyrir upphaf 3. og lokaumræðu fjárlaga þar sem nefnd hefði verið talan um hækkun framfærsluvísitölu upp á 27%. Upplýst er að hér voru menn að leggja mat á endurskoðun á breytingum á framfærsluvísitölu frá árslokum 1986 til 1987. M.ö.o.: þetta varðar ekki spá manna um árið 1988.

Í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. voru látnar uppi efasemdir um hvort þær fjárhæðir sem áætlað hefur verið að verja til niðurgreiðslna mundu duga út árið að gefnum forsendum fyrir utan það að áður hefur verið spurt hvort ætlunin sé að verðtryggja þessar niðurgreiðslufjárhæðir. Ég vil rifja upp að í fjárlagafrv. eins og það var lagt fyrir þing strax í haust var gert ráð fyrir rúmlega 1300 millj . kr. til niðurgreiðslna eða 1500 millj. með framlagi til Lífeyrissjóðs bænda. Því næst hefur verið bætt við þetta mjög verulegum fjárhæðum, þ.e. 1285 millj. kr., sem ætlaðar eru til niðurgreiðslna almennt og hafa það að markmiði að halda óbreyttu vöruverði á þýðingarmestu afurðum hefðbundins landbúnaðar, en halda verðhækkunum að öðru leyti í skefjum við 10% markið. Þá hefur verið ákveðið að verja 160 millj. því til viðbótar til að greiða niður verðlag á neyslufiski sem kunnugt er þannig að hér er verið að tala um upphæð sem er hátt í 3 milljarðar kr. Þetta eru að sjálfsögðu mjög verulegar fjárhæðir fyrir utan það fé, um 600 millj. kr., sem varið er til tekjujöfnunarráðstafana af öðru tagi, þ.e. með hækkun barnabóta, barnabótaauka og hækkun á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga.

Um þetta er það að segja að þetta fé er áætlað til niðurgreiðslna til þess að endast út árið, ekki bara hluta þess, miðað við gefnar forsendur um verð pr. einingu að því er varðar þessar afurðir. En hitt er jafnrétt, eins og fram hefur komið, að þessar niðurgreiðslur eru ekki verðtryggðar. Að sjálfsögðu er það svo að ákvörðun um niðurgreiðslur, þegar við lítum til þar næsta árs, 1989, bíður afgreiðslu fjárlaga næsta árs þegar af þeirri ástæðu að sú söluskattsbreyting sem við nú erum að fjalla um gildir eitt ár. Það er yfirlýst af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja fram þegar á þessu þingi frv. til l. um virðisaukaskatt og það er áform ríkisstjórnarinnar að sá virðisaukaskattur leysi söluskattskerfið af hólmi á árinu 1989. Ákvarðanir um hliðarráðstafanir í tengslum við það verður að taka sérstaklega og er ekki hægt að taka að svo stöddu.

Sama gildir um athugasemd hv. 2. þm. Austurl. sem fann að því í sambandi við tekjustofnalög sveitarfélaga og hlut Jöfnunarsjóðs í söluskatti. Það liggur einfaldlega ljóst fyrir að hefðbundnir tekjustofnar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, annars vegar söluskattur og hins vegar tollar, sem verða teknir til endurskoðunar að loknu þessu ári, valda því að það þótti rétt að taka ákvörðun um það hversu miklu fé væri varið af ríkisins hálfu til Jöfnunarsjóðsins. Það var upphaflega 1485 millj. kr. í fjárlagafrv. og var síðan hækkað um 100 millj., en vegna ákvörðunar Alþingis um að fresta gildistöku á tilfærslu á rekstrarkostnaði tónlistarskóla til sveitarfélaga fram á þar næsta ár varð niðurstaðan talan, ef ég man rétt, 1535 millj. kr. eða 1533 sennilega. Á bak við þessar tölur felst að sú skerðing á tekjum Jöfnunarsjóðs sem gilti í tíð fyrrv. ríkisstjórnar var minnkuð um helming með þessum hætti fyrir utan að auknum fjárveitingum var varið til Jöfnunarsjóðsins að öðru leyti sem og reglum um úthlutun lána úr Jöfnunarsjóði breytt til hagsbóta fyrir minni sveitarfélög umfram þau stærri.

Í máli hv. 5. þm. Vesturl. komu fram nokkrar spurningar sem rétt er að víkja að fáeinum orðum. Í fyrsta lagi var spurt hvað gert yrði til þess að auka eftirlit með innheimtu söluskatts. Mig minnir að ég hafi þegar svarað þessu þrisvar að gefnu tilefni og rétt að rifja upp. Stærsta breytingin, sem tryggir bætt skil á söluskatti, er fólgin í þeirri kerfisbreytingu sem hv. þm. eru nú að taka afstöðu til. M.ö.o.: sú breyting ein í löggjöfinni að fækka undanþágum og koma á samræmdum söluskatti í allri almennri vöruverslun er besta tryggingin sem við höfum fyrir bættum skattskilum. Ástæðan fyrir því er sú að þar með verða lagðar af allar áætlanir og reiknireglur sem voru mjög flóknar og ollu því að raunverulega var ekki viðlit að beita neinu eftirliti, enda var það í stórum stíl ekki reynt.

Í annan stað er mjög til athugunar og til alvarlegrar athugunar að fara eftir niðurstöðum nefndar sem mælti með því árið 1981 að taka upp lögbindingu á sérstökum innsigluðum verslunarkössum í almennum verslunum sem eru söluskattsskyldar. Það er aðgerð sem ein út af fyrir sig er líkleg til að bæta mjög skil.

Í þriðja lagi er í sérstakri athugun að fela tollþjónustunni að annast eftirlit með álagningu og innheimtu á söluskatti og síðar virðisaukaskatti vegna þess að sú gífurlega einföldum og lækkun tolla breytir verksviði tollþjónustunnar mjög, fækkar þar verkefnum og ætti að þýða að þar væri unnt að leita til mannafla sem hefði nokkra þjálfun og starfsreynslu til að taka þetta verkefni að sér.

Fjórða atriðið er það sem felst í yfirlýsingu hæstv. viðskrh. sem þegar hefur falið Verðlagsstofnun að gera sérstaka könnun á verðlagi fyrir og eftir breytingu og fylgja því sérstaklega eftir með stóraukinni kynningu að þær stórfelldu verðlækkanir, sem verða munu á ýmsum vöruflokkum í kjölfar þessara breytinga, komist til skila.

Fleiri slíkar aðgerðir til aukins eftirlits eru í skoðun, þar á meðal samkvæmt ábendingum ýmissa stjórnarandstæðinga, um að gera, ef ekki með reglubundnum hætti en þó föstum millibilum, sérstakar athuganir á tilteknum þáttum almennrar verslunar til að auka öryggi og aðhald.

Önnur spurning var hvað gert yrði til að tryggja innheimtu á sérstökum söluskatti að því er varðaði þjónustugreinar og þegar ekki er um að ræða sjálfstæða þjónustuaðila. Hv. þm. nefndi lögfræðinga og endurskoðendur og fleiri slíka mætti nefna sem starfa t.d. í opinberum geira. Því er til að svara að þegar hefur öllum ríkisstofnunum verið sent erindi þess efnis að þeim hefur verið uppálagt að sniðganga ekki sjálfstæða þjónustuaðila, þótt þessar stofnanir telji sér hugsanlega hag í því, og að forðast þar með að breyta þjónustuháttum á þann veg að ráða slíka aðila í sína þjónustu á þessu eina ári meðan þessi breyting stendur yfir. Því næst breytast viðhorfin mjög á þar næsta ári ef áform ríkisstjórnarinnar um að koma á virðisaukaskatti standast.

Þriðja spurning var hvort niðurgreiðslur yrðu verðtryggðar og ég hef þegar svarað því að þær eru það ekki, enda ekki rök fyrir því úr því að þessar breytingar standa aðeins eitt ár.

Fjórða spurning var sú hvort það væri óhagganleg ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar að álagningarprósenta í virðisaukaskatti skuli vera 22%. Svarið við því er að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að það frv. sem nú er í smíðum miðar við það. Það yrði þá ekki nema ef fram kæmi í seinni umfjöllun, annaðhvort sérfræðinga eða á þingi, að það væri eitthvert sérstakt tilefni til að endurskoða það. En eins og sú ákvörðun stendur nú og miðað við þær forsendur sem þar eru lagðar til grundvallar er það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar.

Þá spurði hv. þm. hvernig á því stæði að ekki væri unnt að lækka söluskattsálagninguna nú þegar hún legðist á breiðari stofn. Ástæðurnar fyrir því eru margar. Ein er sú að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að breikka álagningarstofn í söluskatti án þess að ganga um leið á hagsmuni og samkeppnisaðstöðu innlendra fyrirtækja. Undanþágur frá söluskatti nú eru velflestar einkum af því tagi að þær varða hráefni, vélar, tæki, aðföng íslensks samkeppnisiðnaðar. Þetta er nokkuð breitt svið og á það verður ekki lagður óbeinn skattur nema upp verði tekinn virðisaukaskattur þannig að það eru takmörk fyrir því hvað hægt var að breikka stofninn og þá sérstaklega að þessu leyti. Þetta er ein skýringin. M.ö.o.: breikkun yfir í undanþágulausan eða undanþágulítinn óbeinan skatt verður ekki framkvæmd nema með virðisaukaskattssniði.

Hin aðferðin væri þá sú að taka upp flókið endurgreiðslukerfi í söluskatti sem væri svo flókið og erfitt í framkvæmd, sérstaklega í svo smáu þjóðfélagi þar sem fjöldi fyrirtækja er smár, að það mundi ekki standast neina raunsæja skoðun.

Önnur meginástæðan er sú að svo verulega miklum fjármunum er varið til niðurgreiðslu og hliðarráðstafana í tengslum við þessa kerfisbreytingu að til þess þurfti að afla fjár allt að 3 milljörðum kr., tæplega það að vísu. Þetta er miklu meira fé en áætlað var að verja til hliðarráðstafana í tengslum við virðisaukaskattsfrv. sem lagt var hér fram á síðasta þingi og þetta er það verð sem menn hafa kosið að greiða fyrir kerfisbreytinguna.

Í þriðja lagi hefur það komið fram að jafnvel þótt þess hefði verið kostur að hafa söluskattsprósentuna að þessu sinni út þetta ár einu eða tveimur prósentustigum lægri óttuðust menn mjög samkvæmt ábendingum hinna kunnugustu manna að sú breyting kynni að skila sér illa til almennings og væri þess vegna ekki þeirrar messu virði.

Þá var þeirri spurningu beint til mín hvort ég hefði trú á því að kaupmáttur launa héldist. Það er stór spurning og vissulega nokkurri óvissu undirorpið. Það fer mjög eftir því hver verður niðurstaðan hjá aðilum vinnumarkaðarins um kjarasamninga. Ég er hins vegar sannfærður um að sú kerfisbreyting sem hér er verið að framkvæma í heild sinni mun ekki spilla fyrir kj arasamningum og hún út af fyrir sig leiðir ekki til hækkunar á framfærslukostnaði. Hún hefur jafnframt þann kost að hún hefur ótvírætt í för með sér lækkun á vísitölu byggingarkostnaðar og lánskjaravísitölu og er þess vegna ekki neitt sérstakt verðbólgutilefni.

Hv. þm. spurði, eins og spurt hefur verið ad nauseam í þessari umræðu hvers vegna væri ekki hægt að hafa fleiri þrep í söluskatti. Það er ekkert sem bannar mönnum það. Það er hægt. Við höfum haft af því reynslu. Við höfum haft ónýtt söluskattskerfi með miklum skattundandrætti og lélegum skattskilum í þremur þrepum. Umræðan um Efnahagsbandalagið hefur staðið hér nógu lengi. Það sem um það mál er að segja er ósköp einfaldlega þetta: Framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins hefur lýst því yfir að æskilegt væri að koma á þótt ekki væri nema tveggja þrepa virðisaukaskatti í efnahagsbandalagslöndum og lítur á það sem verulega framför frá því ástandi sem nú er þar sem í sumum aðildarlöndunum er um að ræða sex þrepa skatt. Þeir eru frá einu þrepi upp í sex þrep og á bilinu frá 4 upp í 38%. Það er viðurkennt af öllum sem til þekkja að það er algert ófremdarástand innan Efnahagsbandalagsins að þessu leyti. Framkvæmdastjórnin hefur lýst yfir sem stefnumarki að það væri æskilegt að stíga þó ekki væri lengri skref í þá átt sem við erum að fara en treysta sér illa í fjölþjóðlegu bandalagi að ná stærri áfanga. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru aðeins tvö ríki innan Efnahagsbandalagsins sem hafa lýst stuðningi við tillöguna. Það eru Holland og Vestur-Þýskaland sem búa nú við virðisaukaskattskerfi sem einna helst líkist tillögum bandalagsins. Þetta yrði mikið spor aftur á bak fyrir Dani og reyndar óaðgengilegt með öllu því að þetta mundi þýða að ríkissjóður Dana tapaði um þriðjungi af ríkistekjum sínum ef þessi tillaga yrði framkvæmd. Þetta yrði náttúrlega til bóta fyrir lönd eins og Ítalíu sem er annálað fyrir ónýtt skattakerfi, sérstaklega söluskatt, sex þrepa, en hins vegar afar litlar líkur á að þessi tillaga verði framkvæmd fremur en nokkuð annað sem framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins er að samþykkja, einfaldlega vegna þess að hún hefur ekki framkvæmdavald til að fylgja því eftir. Það eru ekki taldar miklar líkur á því m.ö.o. að aðildarríkin treysti sér til að stíga þessi skref, en þau eru hins vegar í sömu átt.

Hitt er hins vegar athyglisverðara að á Norðurlöndunum öllum er um að ræða eins þreps virðisaukaskatt á bilinu 19–23% og það hefur ekki vafist fyrir jafnaðarmannastjórnunum þar að koma á slíkum skatti einmitt í nafni einföldunar og skilvirkni í skattakerfinu sem ríkisstjórnir þar í landi, þar á meðal undir forustu jafnaðarmanna, hafa lagt á mikla áherslu. Reyndar er þaðan runnin sú meginstefnubreyting í skattamálum, sem má segja að við séum hér að fylgja, sem er í því fólgin að einfalda tekjuskattskerfið og skattkerfi óbeinna skatta en beina tekjujöfnunarráðstöfunum í annan farveg fremur en ætla að taka mið af þörfum einstakra hópa með því að gera skattkerfið óframkvæmanlegt með endalausum undanþágum, að hafa skattkerfið nokkurn veginn framkvæmanlegt og í heilu lagi en verja hins vegar stórauknum fjármunum til útgreiðslu til þeirra hópa sem helst þurfa á stuðningi að halda. Þetta er kjarni þeirrar stefnubreytingar sem hér er til umræðu.

Hvers vegna er ekki í fjárlögum gert ráð fyrir því að skattundandráttur, svo sem hann var metinn t.d. í söluskatti af skattsvikanefndarmönnum á sínum tíma, skili sér í auknum mæli? Ástæðan fyrir því er sú að við vildum ekki búa til óraunsæ fjárlög. Við gerðum þar ráð fyrir því að bætt skattaskil, bætt innheimta í nýju kerfi mundi skila 600 millj. kr. auknum tekjum, en við erum hins vegar ráðnir í því að láta reynsluna skera úr um það. Það er ekki hygginna manna háttur að áætla fé fyrr en það er nokkurn veginn tryggt að þú hafir það í hendi þinni. Það hefur ekkert að gera með það hvort þú hefur trú á þessu kerfi eða ekki, ég hef á því tröllatrú, heldur og einfaldlega hitt að það þótti ekki ráðlegt að áætla á fyrsta ári kerfisbreytingarinnar fyrir auknum tekjum í meira mæli en ég hef þegar nefnt af þessum sökum.

Hv. þm. spurði loks um hverju það sætti að gert er ráð fyrir að fjmrh. hafi enn heimild til að undanþiggja dreifibúnað Stöðvar 2 söluskatti. Af því tilefni er rétt að árétta að hér er um heimildargrein að ræða. Sjálfur hef ég lýst því yfir að sú heimild verði því aðeins nýtt að einokunarverslun með þennan búnað verði hætt, þ.e. sá aðili sem flytur þetta inn og hefur umboð fyrir þessum búnaði synji ekki venjulegum verslunum með sambærilegan búnað um það að versla með hann. Að öðru leyti eru rökin ákaflega einföld. Það er rétt að áskrifendur að Stöð 2, 30 þúsund talsins að mér er tjáð, greiða áskriftarverð fyrir að sjá stöðina en því aðeins kemur það að notum að þeir hafi keypt þennan búnað sem kostar um 15–16 þús. kr. Ef á hann hefði lagst tollur, vörugjald og söluskattur hefði verðið á honum hækkað upp í 26–27 þús. kr. að því er ætlað var og lagst þá fyrst og fremst á þá íbúa landsins, sem enn hafa ekki haft aðstöðu til að njóta útsendingar frá Stöð 2, sem eru íbúar landsbyggðarinnar og eldri borgarar í þjóðfélaginu. Saman fer að ef þessi undanþáguheimild er nýtt er verið að gera það til að mismuna ekki fólki eftir búsetu í landinu, annars vegar eftir aldri, efnahag og í þriðja lagi er verið að líta á anda þeirra laga, sem Alþingi hefur samþykkt, sem var í því fólgið að afnema einokunarrétt Ríkisútvarpsins, en jafnframt verður að skilja það svo að það sé vilji löggjafans að aðrir aðilar hafi sambærileg starfsskilyrði til að keppa við Ríkisútvarpið. Því verður ekki haldið fram að svo sé ef það kostar hverja fjölskyldu þau útgjöld sem ég nefndi áðan til þess að njóta útsendinga frá Stöð 2, sem nú er að byggja dreifikerfi sitt um landið, á sama tíma og það kostar áskrifendur Ríkisútvarpsins einungis áskriftargjaldið, sem reyndar er lægra, en meðan verið var að byggja upp það dreifikerfi var það sjálfsögðu undanþegið öllum aðflutningsgjöldum og söluskatti. Þetta mál er verið að reyna að afflytja og reyndar tæplega smekklegt af hv. þm. en hann spurði hvort hér væri um að ræða fjölskyldumálefni sem mér skildist helst á honum. Hér er verið að spyrja hv. þm. einfaldrar spurningar: Eru menn reiðubúnir til þess í verki að kippa fótunum undan samkeppnisaðstöðu annarra fjölmiðlafyrirtækja en Ríkisútvarpsins? Spurningin er m.ö.o. um hvað menn meina með frelsi í fjölmiðlun.

Herra forseti. Að lokum var boðuð brtt. frá hv. þm. Kvennalistans sem fól í sér, ef ég man rétt, afnám söluskatts á fjárfestingarvörur vegna grænmetisframleiðslu. Af því tilefni er sérstök ástæða til að taka fram að fjárfestingarvörur vegna gróðurhúsareksturs margar hverjar lækka mjög verulega í verði vegna þess að tollar eru afnumdir eða lækkaðir úr 35% í 0 og vörugjald, sem var áður 24%, er fellt niður. Jafnframt hefur því verið yfirlýst og það er svo að þessi innlenda grænmetisframleiðsla muni áfram njóta tollverndar í 30% tolli á innflutt grænmeti. Hins vegar hafa menn lýst þeirri skoðun sinni að þeir vildu gjarnan losna frá því kerfi með því að taka upp í staðinn sérstakt innflutningsgjald á innflutt grænmeti sem kæmi í staðinn fyrir tollverndina en yrði stillt þannig að það væri tiltölulega hátt þegar innlend grænmetisframleiðsla er föl á markaðinum en væri hins vegar hægt að færa niður í mjög lágt verðgildi þegar svo er ekki, þannig að neytendur geti þá á þeim árstímum notið þess að fá innflutt grænmeti við sem allra lægstu verði.

Herra forseti. Nokkrir hv. ræðumenn hafa farið viðurkenningarorðum um ræðu þess sem hér stendur sem flutt var í tilefni af virðisaukaskattsfrv. sem hæstv. fyrrv. ríkisstjórn flutti á seinasta þingi. Er ég að sönnu þakklátur fyrir að mönnum hefur þótt þetta vera hin athyglisverðasta ræða. Í þessari ræðu voru færð að því rök að Alþfl. væri að sönnu fylgjandi því að upp væri tekinn virðisaukaskattur af grundvallarástæðum vegna þess að það er það eina form óbeinnar neysluskattlagningar sem tekur að fullu tillit til samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, sniðgengur uppsöfnunaráhrif núverandi söluskattskerfis, en er jafnframt þannig búið að það er tiltölulega öruggt til innheimtu, þótt ekkert kerfi sé alfullkomið, og hefur af þeim sökum ótvíræða kosti umfram það söluskattskerfi sem við nú þekkjum þegar um er að ræða svo háa söluskattsprósentu sem við nú stöndum frammi fyrir. Virðisaukaskatturinn hefur enn fremur þann kost m.ö.o. að hann getur lagst á miklu breiðari stofn, er hlutlaus gagnvart framleiðslu og vörutegundum og neysluvali sem er líka verulegur kostur.

Engu að síður var það okkar niðurstaða að við gætum ekki stutt það frv. sem þá lá fyrir af tveimur ástæðum. Okkur þótti álagningarprósetan, 24,9% of há og við vorum ekki ásáttir við þær tekjutilfærslur sem fylgdu því frv. Í samræmi við þessi sjónarmið hefur verið lögð í það veruleg vinna að breyta frv. í þá átt sem við héldum fram, m.a. í umræddri ræðu, þ.e. að finna leið til að breikka stofninn enn fremur og lækka söluskattsprósentuna úr tæplega 25% í 22% og í annan stað að beina hliðarráðstöfununum, tekjujöfnunarráðstöfunum, í auknum mæli í það form sem við nú sjáum, þ.e. með beinum útgreiðslum til þeirra hópa sem sérstaklega þurfa á stuðningi að halda. Öfugt við það sem margir hv. ræðumenn vildu álykta af þessari ræðu er það svo að til gagnrýninnar, hvort sem menn voru sammála henni þá eða ekki, hefur verið tekið tillit og það virðisaukaskattsfrv. sem nú er í smíðum og lagt verður fyrir Alþingi ber einmitt svipmót af því.

Þá held ég, herra forseti, að ég hafi farið yfir flest þau atriði sem hv. stjórnarandstæðingar hafa komið á framfæri í þessari umræðu. Það breytir að sjálfsögðu ekki því að þeir hafa kosið að sniðganga meginatriði málsins. Það er eðlilegt í þeirra málflutningi út af fyrir sig. Kjarni málsins er sá að þessi róttæka og viðamikla kerfisbreyting í heild sinni mun ekki hafa nein áhrif til hækkunar á framfærsluvísitölu. Hún mun ekki auka útgjöld meðalfjölskyldunnar í landinu og að því er varðar þær fjölskyldur sérstaklega sem hafa mörg börn á framfæri, hvort sem er hjá einstæðum foreldrum eða ekki, og að því er varðar bótaþega almannatrygginga eru gerðar sérstakar ráðstafanir til að bæta þeim verðhækkanirnar enn frekar.

Af máli stjórnarandstæðinga mætti ætla að álagning matarskatts þýddi 25% hækkun á matvöruverði, en það er alger útúrsnúningur, fyrir neðan allar hellur. Annars vegar eru niðurgreiðslurnar til þess ætlaðar að verð á þýðingarmestu afurðum íslensks landbúnaðar breytist ekkert. Í öðrum tilvikum hækkar það um um það bil 10%, en á móti kemur að verð á mjög útbreiddum og almennum innfluttum neysluvörum lækkar mjög verulega. Hækkun matvöruverðs að meðaltali er áætluð um 7%. Hún er bætt barnafjölskyldum og rúmlega það. Hún breytir ekki útgjöldum meðalfjölskyldunnar til hækkunar. Allt talið um matarskatt sem á að sliga efnahag heimilanna er ósköp einfaldlega út í hött.

Það vill svo til að einn sæmilega hreinskiptinn verkalýðsleiðtogi í þessu landi hefur haft um þetta ákaflega einföld og auðskilin orð, en hann sagði í viðtali við dagblað fyrir skömmu, með leyfi forseta.

Ég tala hér um Pétur Sigurðsson, forseta Alþýðusambands Vestfjarða:

„Mér finnst þetta brölt í forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar og pólitíkusum út af matarskattinum alveg fáránlegt. Mótmæli við samræmingu á söluskatti, þessum matarskatti svonefnda, eru á misskilningi byggð ef ekki hreinni hræsni. Þarna keppist hver hálaunamaðurinn á fætur öðrum við að mótmæla eðlilegri lagfæringu á neysluskatti undir því yfirskini að láglaunafólk þoli ekki að greiða þennan skatt til samfélagsins. Við vitum að mismunandi söluskattur kallar á meiri undanskot þeirra sem innheimta í verslun, þjónustu og alls konar braski. Eðlilegra væri fyrir verkalýðshreyfinguna að heimta leiðréttingu á lágum launum heldur en krefjast undanþágu í nafni láglaunafólks.“

Mér þykir leitt að hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir hefur vikið sér úr salnum. Það kemur stundum fyrir stjórnarandstæðinga líka.

Ég endurtek, ,herra forseti: „Eðlilegra væri fyrir verkalýðshreyfinguna að heimta leiðréttingu á lágum launum heldur en krefjast undanþágu í nafni láglaunafólks. Með þessu er verið að fá það til þess að sætta sig við skarðan hlut, en það gleymist um leið að hálaunafólk nýtur einnig undanþágunnar. Þarna finnst mér sem verið sé að stinga dúsu upp í láglaunafólkið og fá það til þess að sætta sig betur við aum kjör. Aftur á móti er ég orðinn langeygður eftir einhverjum sjáanlegum árangri hjá Jóni Baldvin við að ná inn þeim milljörðum sem menn telja að ekki sé skilað í söluskattinum.“ Það get ég skilið. Við skulum sjá hvernig það tekst. „Ef það tækist, þá gætum við lækkað söluskattsprósentuna og það kæmi að sjálfsögðu öllum til góða nema þeim sem stunda undandráttinn.“

Svo mörg voru þau orð.

Þegar áróðursmoldviðrinu slotar hef ég að vísu ekki þungar áhyggjur af því að menn muni ekki átta sig á því að hér er verið að framkvæma breytingar sem munu lengi standa, sem munu vera traustur grundvöllur fyrir tekjuöflun ríkisins á komandi árum. Seinni tíma ríkisstjórnir munu njóta þess og þar með erum við að leggja grundvöll að því velferðarríki sem hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir ákallaði hér áðan að gerði betur við það fólk sem þarf á að halda.