04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3580 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

196. mál, söluskattur

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör þó ég sé nú ekki fyllilega sáttur við þau. Ég mundi kannski fá að renna í gegnum þau eins og þau komu frá honum sjálfum. Ég harma það að ekki kom til greina að verðtryggja niðurgreiðslur þar sem ljóst er að þær munu ekki fylgja verðlagi í landinu og munu ekki skila sér af þeim þunga sem hér er sagt að þær muni gera.

Svör hæstv. ráðherra um eftirlitið fannst mér frekar léttvæg. Hann svarar því í fjórum liðum. Í fyrsta lagi með fækkun undanþága, í öðru lagi með innsigluðum kössum, í þriðja lagi að fela tollþjónustunni þetta að einhverju leyti og í fjórða lagi að Verðlagsstofnun grípi þarna inn í. Ég verð að segja að það eina af þessu sem ég get flokkað undir virkilegt eftirlit eru sennilega innsigluðu kassarnir. Hitt þykir mér ákaflega léttvæg rök og ég vildi gjarnan fá skýringu á því hvernig t.d. tollþjónustan á að grípa þarna inn í. Með hvað hætti á það að vera? Á hún að vinna í nánu samráði við Verðlagsstofnun eða á að senda tollverði út af örkinni eða starfsfólk tollsins?

Hvernig er þetta hugsað? Varðandi Verðlagsstofnun er vitað að það er frjáls álagning í landinu og hvernig á hún að fylgjast með því hvort verðlækkanir skila sér eða ekki? Það er alfarið í höndum kaupmanna og ekkert sem ríkisvaldið getur gert í því nema þeir vilji þá fara að binda álagningu upp á nýtt.

Ég spurði ráðherrann um það hvernig ætti að taka launaskattinn af lögfræðingum og endurskoðendum og öðrum slíkum inni á stofnunum og fyrirtækjum sem eru þar á launaskrá. Ég verð að segja eins og er að það kom nákvæmlega ekki neitt svar við því. Nákvæmlega ekkert svar. Það eina sem kom var það að það væri búið að senda út bréf þess eðlis að það ætti ekki að sniðganga þessa aðila úti í þjóðfélaginu. Þetta, hæstv. ráðherra, er ekkert svar. Þannig að ég legg þessa spurningu aftur fram.

Ég spurði enn fremur: Af hverju 25%? Þá kom það fram sem alþjóð veit að það voru iðnrekendur sem sáu til þess að endanleg prósenta varð 25%. Þeir komu inn þeirri skoðun að verslunareigendum í landinu væri ekki treystandi og ríkisvaldið fór eftir því. Að hæstv. ráðherra vogi sér að segja að þetta spilli ekki kjarasamningum er alveg út í hött. Hefur hæstv. ráðherra ekki hlustað á raddir verkalýðsforingja undanfarið? Ég trúi því ekki að óreyndu að hann hafi ekki gert það. Og að það sé ekki hægt að hafa fleiri en eitt þrep? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór nánast í kringum hnöttinn með það hvernig þetta er víða um heim. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hér eins og víða annars staðar sé lægra þrep á nauðsynjavörum. Enda kom það fram að stefna jafnaðarmanna væri sú að deila og drottna og hér ætti bara að ríkja ölmusukerfi þar sem þeir mundu afhenda ölmusur svona nánast eftir hendinni.

Skattsvikaskýrslan þótti góð þegar hæstv. ráðherra var í stjórnarandstöðu. Nú er ekki lengur þorandi að taka mark á henni.

Ráðherra upplýsti það að ef afruglarar bæru full gjöld þá mundu þeir kosta sennilega 26–27 þús. kr. Ég vil benda ráðherra á að kíkja á það, af því að hann er í aðstöðu til þess, hvert innkaupsverð afruglara er. Þá skulum við sjá hver álagningin er. Ég held að það sé mjög athyglisvert. Hann heimilar sem sagt Stöð 2 að byggja upp dreifikerfi á kostnað Ríkisútvarpsins, þeir nota faktískt sama dreifikerfi, sem Ríkisútvarpið á, og það getur varla talist heilbrigt í þeirri samkeppni sem þar fer fram. Annars mætti líka spyrja hæstv. ráðherra, hver leigan er sem Stöð 2 greiðir af afnotum sínum af tækjum og dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Ég er ansi hræddur um að hún sé í engum takt við þau leigukjör sem almennt gilda á markaðnum. Nú, gamalt fólk og byggðastefnan. Að gamalt fólk eigi eftir að kaupa afruglara. Gamalt fólk þarf líka að kaupa mat og það er það sem við erum að tala um hér. Það er 25% söluskatturinn á mat, með hvaða þunga hann kemur. Það getur varla talist eðlilegt að Ríkisútvarpið taki andstæðingana upp á arma sína til þess eins að auðvelda þeim samkeppni við sjálfa sig á sama tíma og ríkið sker niður öll framlög til Ríkisútvarpsins.

Þá má benda á það að söluskattur af matvælum, eins og hæstv. heilbrrh. kom inn á hér áðan, hefur áður verið felldur niður og ég treysti því, af því ég sé að við munum ekki stöðva þetta frv., að það líði ekki allt of mörg ár þangað til þessi vitleysa verður tekin til baka aftur.