05.01.1988
Efri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3582 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Frsm. fjh.- og viðskn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Þau tvö dagskrármál sem núna eru á dagskrá deildarinnar voru rædd við 2. umr. fyrir nokkru. Þá kom fram ósk um að á milli 2. og 3. umr. yrði þessum málum aftur vísað til fjh.- og viðskn. Nefndin kom saman í morgun og ræddi þessi mál bæði saman og við höfum gengið frá framhaldsnefndaráliti, að vísu um síðara málið, þ.e. 2. dagskrármálið, um útflutningsleyfi, og ég ætla að leyfa mér að lesa það nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur komið saman eftir 2. umr. en hún snerist mjög um lög um Stjórnarráð Íslands. Af því tilefni fékk nefndin á sinn fund Gunnlaug Claessen ríkislögmann og lagði hann m.a. fram „minnisblað“, dags. 3. júlí 1987, sem birtist með þessu framhaldsnefndaráliti.

Nefndarmenn voru sammála um að túlka bæri þröngt ákvæði 4., 5. og 8. gr. laga um Stjórnarráð Íslands varðandi skipan verkefna milli ráðuneyta og ráðherra.

Upplýst hefur verið að lög um Stjórnarráð Íslands eru í endurskoðun og því mun umræða þessi halda áfram, enda telur nefndin mjög mikilsvert að Alþingi sé á hverjum tíma á verði um skil milli framkvæmdar- og löggjafarvalds.

Guðrún Agnarsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk nál. með fyrirvara.

Halldór Blöndal var fjarstaddur afgreiðslu málsins.“

Aðrir nefndarmenn skrifuðu undir þetta nál., en hv. þm. Svavar Gestsson og Júlíus Sólnes þó með fyrirvara.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að bæta mjög miklu við þetta. Umræðan við 2. umr. snerist um hvort unnt væri að færa verkefni á milli ráðuneyta með einfaldri reglugerðarbreytingu og menn drógu í efa lögmæti þess að slíkt væri gert. Eins og kemur fram í áliti ríkislögmanns, sem fylgir nál., telur hann heimilt að gera það og hefur það í raun og veru ekki verið dregið í efa þó svo að nokkrir nefndarmenn hafi talið ástæðu til að fá álit fleiri lögfræðinga um það.

Samþykkt um tilflutning þessara verkefna var gerð í sumar þegar ríkisstjórnin var mynduð og hefur þegar að flestu eða öllu leyti komið til framkvæmda, en þessi tvö atriði þurftu lagaheimildar með, þ.e. breytingar á lögum um útflutningsleyfi og um Útflutningsráð Íslands, og þess vegna eru þessi tvö frv. flutt og reyndar rædd bæði í einu og ég las hér nál. sem varðar síðara málið en er efnislega tilheyrandi báðum þessum málum.

Að öðru leyti vísa nefndarmenn til þeirra álita sem þeir létu frá sér fara við 2. umr. þessa máls. Það er alltaf álitamál hvað langt má ganga í slíkri kerfisbreytingu sem þarna fer fram, en við teljum, meiri hl. nefndarinnar, að þarna sé ekki verið að leggja niður ráðuneytið, það sé verið að færa verkefni á milli, verkefni sem í áratug eða lengur hefur verið rætt að ættu kannski betur heima í utanrrn. en í viðskrn. Eru menn sammála um að þessi tilraun verði gerð og hefur hún þegar komið til framkvæmda.

Ég reikna með því að minni hl. nefndarinnar muni gera grein fyrir viðhorfum sínum til sinna fyrirvara. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, herra forseti, en við leggjum til í okkar nál. að frv. verði bæði samþykkt.